No Woman, No Cry – Skráargat gullna hliðsins

Bob Marley – No Woman, No Cry

Samruni tónlistar og trúar, akursins og borgarinnar, gamla tímans og nýja. Skurðpunkturinn, meitluð sneiðmyndin, hin ljóslifandi rispa á landslagi hugans, auga ljónsins grafið djúpt í gamla Adidas merkið. Í mesta myrkinu, moðreyknum er að finna göngin að ljósinu. Þangað verður gullvagninn sendur og upp í hann stígur riddari í buxum útvíðum, sverði slíðraður og fíraður. Í gegnum hvítan reykinn og móðuna sem stígur upp af ylvolgum maís-soðning greinir hjartað muninn á röngu og réttu og hugurinn fylgir í humátt á eftir, með lokuð augu rennir þú á lyktina og svífur á mottunni inn í hægt sökkvandi tónfall hins stirnandi, klökka djúps og fílar upp í bambussófa í panelklæddum stéttarfélagsbústað eða í sjálfspyntandi hönnunarstól úr áli í hjartalausu glerhýsi. Þú fílar því þú treystir ljóninu sem öskrar og veitir þér líkn aftur og aftur og aftur. Gráttu ekki, man, því stakur drumbur mun seigbrenna í gegnum nóttina löngu og lýsa upp dimman dalinn þar til þú færð leiðingu að vötnum þar sem næðis mátt njóta.

Fílalag
Fílalag
No Woman, No Cry - Skráargat gullna hliðsins
/

All I Wanna Do – Tilhlýðilegt hangs

Sheryl Crow – All I Wanna Do

Þetta er ekki mega djamm. Þetta er ekkert sunnudags sófaspjall heldur. Þetta er miðlungs sötr. Menn að fá sér. Skaðræði í litlum skömmtum. Tilhlýðilegt hangs.

Sheryl Crow flaug inn um glugga Ameríku sem bakraddafagmaður. Hún kunni allar ritningar sunnudagsskólans og söngleikjadeildarinnar. Hún kunni og hún framkvæmdi. Og hún er enn að, við góða tannheilsu.

Fílalag
Fílalag
All I Wanna Do - Tilhlýðilegt hangs
/

Eitt lag enn – Sprittkerti á Stórhöfða

Brimkló – Eitt lag enn

Það er myrkur. Það er kalt. En hérna inni er heitt. Funheitt og huggulegt. Það er stórhríð úti. Úlfurinn blæs og fnæsir á kofann en grísinn er teppalagður fyrir innan. Það er stormsveipur á ferð, sjó rignir og allt hangir á bláþræði. En hér inni er huggulegt. Allavega í smástund enn. Það má lifa á lyginni í smástund enn. Bara oggulitla smástund enn. Bara eitt lag enn.

Fílalag
Fílalag
Eitt lag enn - Sprittkerti á Stórhöfða
/

Our House – Hlý baunastappa og maukgírun

Madness – Our House

Takið rytjótt gólfteppi, nýsteikta ástarpunga, nokkur vel notuð garðáhöld, ilmvatn unglingsstúlku og gatslitinn Umbro fótbolta og skellið þessu í hakkavélina og myrjið þessu yfir ballskóna og pússið ofan í leðrið þar til þið sjáið glettið andlit ykkar birtast sem spegilmynd. Sparkið svo upp hurðinni og hoppið upp í aftursætið á Austin Mini og látið keyra ykkur á teppalagðan pöbb og spinnið ykkur í hring eftir hring eftir hring þar til æskuminningar af áhyggjuleysi og kærleika sverfa ykkur inn að beini.

Fílalag
Fílalag
Our House - Hlý baunastappa og maukgírun
/

Exit Music (For a Film) – Hjarta hjartans

Radiohead – Exit Music (For a Film)

Himininn yfir París. Þrútið var loft og þungur sjór. Tæring þess tærasta.

Annó erótíka. Þú ert steindautt lík við vegarkantinn. Blóði litað blóm.

Júlía leggur hníf að hjarta sínu. Lokuð augu Rómeós. Farðu burt, burtu frá mér. Ég er eitur.

Manga-teiknimynda aflitun. Rúmdýna fyrir ofan Salatbar Eika. Close-mækuð endurköstun af arinstæði vofunnar á Herragarðinum.

Andrúmsloftið er 78% köfnunarefni. Á bílskúrssölu í Bristol er lokið upp kistu með hjarta hjartans. Poncho-kúreki ríður inn í appelsínugult sólsetrið.

Fílalag
Fílalag
Exit Music (For a Film) - Hjarta hjartans
/

Superstition – Hátt enni, heitt efni

Stevie Wonder – Superstition

Klístrugt tyggjó undir kirkjubekk í Tannhjólaborg U.S.A. Kælt kampavín á fjallatígrisfeldi. Brynvarðir leðurjakkar og Jésúskegg. Hugsuðurinn í hillunni.

Fjallabaksleið úr landi Stefáns. Ævintýri enn gerast. Sól rís, músík heyrist, hiti stígur upp. Hið hversdagslega kraftaverk sem bindur herbergið saman.

Undur og stórmerki. Undur, undur og yndi.

Bjórinn Stella Artois var einu sinni auglýstur með slagorðinu “Cherish That Which is Great”. Kannski soldið barnalega einfalt. Njóttu þess sem er frábært.

Afríkufléttur, eggjaspælinga-synthar, sólgleraugu og gjafir gylltu fimmunnar.

Njóttu þess sem er frábært.

Fílalag
Fílalag
Superstition - Hátt enni, heitt efni
/

Free Bird – Fenið og flugið

Lynyrd Skynyrd – Free Bird

Það er morgun. Beikonlitaður mótorhjólamaður kjammsar á djúpsteiktri krókódílatá. Hitamælirinn sýnir 40, rakamælirinn er sprunginn. Úr útvarpinu heyrast skruðningar þar til það brestur á með Free Bird.

Krómsleginn álsívalningur flýgur um loftin blá. Sólglampandi fiðrildi fleygir sér inn í opinn og bjartan faðm maís-akranna. Við erum kannski ekki snákar, limlausar lengjur eftir refsingu Herrans, en við erum heldur ekki vængjaðir sem fuglar. Við bara erum það ekki.

Þótt stokkið frá hæsta háhýsi þá tekur yfirleitt bara nokkrar sekúndur að falla til jarðar. Þótt stokkið sé úr flugfél eru þetta í besta falli nokkrar mínútur.

En hér eru 9 mínútur og 10 sekúndur af frjálsu falli. Er á meðan er.

Fílalag
Fílalag
Free Bird - Fenið og flugið
/

Boombastic – Bóman rís

Shaggy – Boombastic

Svalur andvari. Honda Civic keyrir eftir Grensásvegi. Lítil sólgleraugu, hátt orkustig. Shaggy heyrist í útvarpinu. Allir fíla. Sumir halda að þetta sé grín, en verða brátt undir öldunni.

Sóli Hólm kom í heimsókn og fílaði lagið um sprengikraftinn, frá uppáhalds eyjunni okkar allra, Jamaica. Allir að vera róóóóó-legir, en það er urrandi góð fílun framundan.

Fílalag
Fílalag
Boombastic - Bóman rís
/

Lady (Hear Me Tonight) – Frelsi, jafnrétti, sólarlag

Modjo – Lady (Hear Me Tonight)

Freknuklasi á andliti fyrirsætu. Endalaus hlátur, endalaus harmur. Fingur móta blautan leir. Ilmur blóma. Hringtorg, fjallaþorp. Himininn er heiðblár.

íþróttagallar. Smáglæpir. Citroen. Lokuð augu, þróunin og þykknið.

Þú ert ástfanginn í fyrsta sinn. Bláar nótur. Blá veröld, eilífrar æsku og eilífs önuglyndis

Fílalag
Fílalag
Lady (Hear Me Tonight) - Frelsi, jafnrétti, sólarlag
/

Álfareiðin – Hátindurinn

Álfareiðin – Björgvin Halldórsson, Gunni Þórðar, Sjonne og Hænir

Sveif snúið. Stimplar hamrast niður í þéttum takti. Allir mælar rjúka upp, vísar þeirra titra við mörk hins hvíta og rauða. Þessi vél keyrir á fullri ákefð og hana fær ekkert stöðvað. Það er tjú-tjú-trylla að sporleggjast yfir holt og hæðir, gegnum skóga og dimma dali, hún fnæsir eins og hvalur út um loftop sitt. Þú horfir á. Taugakerfið lifnar við, það tindrar. Allar tilfinningar í einu. Allar tilfinningar skalans skella á þér í einu.

Þeir eru spenntir fyrir vagninum með bjarmalogandi hreindýrahorn, Björgvin Halldórsson, Gunni Þórðar, Tommi Tomm og aftast ríða þeir saman lungnabólgu-Jónas og blýeitrunar-Hænir. Fremst ríður drottningin. Die Kön’gin! Ekki er gott að verða á hennar leið kvað Thomsen. Mikið gúmmelaði er að sjá hana kveður Sjonne og brosir mildu brosi, leiðtoginn ljúfi.

Vertu unglingur, vertu eilífur unglingur og trúðu á álfa, ekki bara á áramótum og þrettánda, heldur alla daga. Við erum öll einmana, við erum meira einmana en á 19. öld, oft var þörf en nú er nauðsyn, að leiftra upp einmanaleikann. Kveiktu í dimma skóginum, með tungsljósi, með söng, með lúðrum, með bjöllum, með töfrum! Með töfrum mannsbarn!

Fílalag
Fílalag
Álfareiðin - Hátindurinn
/

Jerusalema – Húlú og Zúlú


Master KG ásamt Nomcebo – Jerusalema

Vírusinn herjar. Ekki bara þessi kórónajakkafataklæddi heldur líka annar og skæðari. Dansfár sækir að heimsbyggðinni. Við erum ekki að tala um Macarena eða Gangnamanna-stílinn heldur dans og söng sem sóttur er dýpra, úr sjálfri frumorkunni, frá Afríku.

Það má segja margt leiðinlegt um covid og heimsfaraldur, zoom-fundi og fjarlægðartakmarkanir. En einhver menning spratt samt úr því. Frá þessum tíma eigum við lag, sem sameinaði heimsbyggðina, eins langt og það nær. Og sé rýnt í það þá inniheldur það sjálft frumöskrið, kröfuna um björgun, skilyrðislausa kröfu um að fá pláss í ríki hinna réttlátu, í musterinu.

Það getur enginn svarað hvað manninum var ætlað. Kannski áttum við að vera kyrr í aldingarðinum. Kannski áttu forfeður okkar ekki einu sinni að vafra upp á land. Kannski áttum við bara að vera skynlausar amöbur í hafinu. En við fórum í þessa ferð, örlög okkar er að vera ævinlega týnd, með frumöskrið í kviðnum, hrædd og einmana, en ávallt til í að dilla rassinum í átt að borginni helgu þegar heróp heyrist.

Fílalag
Fílalag
Jerusalema - Húlú og Zúlú
/

Windmills of Your Mind – Hola hugmyndanna

Dusty Springfield – Windmills of Your Mind

Langa-langa-langamma spinnur garn á spólu, hring eftir hring, ull sem hefur krullast og ullast í víraðan spíral af kind sem hefur staðið og jórtrað öld eftir öld, með kjálka sem snúast hring eftir hring, endalaust, að eilífu inn í rafrásir heilans sem gnísta boðum sársauka og gleði um líkamann, í jöfnu hlutfalli, hring eftir hring, ár eftir ár, öld eftir öld í löngu-löngu-lönguvitleysu allra alda spilagaldurs.

Gefið ykkur á vald fagmanna. Hlýðið á Dusty Springfield kúst- og fægja ykkur á vit eyrnaormsins frá 1968. Vindmyllur hugans. Gjörið svo vel.

Fílalag
Fílalag
Windmills of Your Mind - Hola hugmyndanna
/

Seven Nation Army – Sýrustig sálarinnar 

White Stripes – Seven Nation Army

Ýlfrandi hundar. Paranoja. Sándtékk. Teppalagning. Apaheili. Converse All Star sólar klístrast við malbik bílastæðis. International House of Pancakes. Altarisdrengir lemja hvern annan með skiptilykli í skottinu á belgvíðum Plymouth með risastórri afturrúðu. Fílabein kramið í morteli, sáldrað í línur yfir gervigras í bakgarði einstæðrar móður sem hlaut ekki lottóvinning kvöldsins. Sýróp. Blóð. Talkúm. Bólstrun.

Fílalag
Fílalag
Seven Nation Army - Sýrustig sálarinnar 
/

Way Down We Go – Djöfullinn á hringtorginu

Kaleo – Way Down We Go

Kjúklingabringurnar eru lentar á eldhúsbekknum, kaldar og blautar í frauðplastbökkum. Þær smokra sér úr plastinu eins og geimverur í Ridley Scott mynd. Þær smokra sér úr plastinu og klæða sig í ullarsjöl og setja á sig hatta. Kjúklingabringurnar steikja sér egg á pönnu. Þær horfa á eggið spælast á feitri pönnunni, þær fá fitumettaða móðuna í andlitið, þær finna hitann og rakann.

Hvað gerðist á árunum upp úr 2012. Já, þessum árum þegar kaupmáttur fór aftur á stað eftir hrunið og fólk fór að kaupa sér fellihýsi og ríkir bandarískir art-dicks í dúnúlpum fóru að þefa af mosanum? Það er loksins kominn tími til að greina það. Stutta svarið er: það gerðist soldið rosalegt. Það varð keðjuverkun.

Speglarnir í jiu-jitsu salnum. Rokið. Joðskorturinn. Mosinn, mæðan, myrkrið. Vesturlandsvegur, varúlfur ekur á RAM, með fituskert hjarta, tattú sem segir Nökkvi Freyr 2013, á leiðinni með English Setter hund í snyrtingu og svo í kaldan, heitan, kaldan, heitan, kaldan þar til slagæðarnar ýlfra af mæðu.

Fílalag
Fílalag
Way Down We Go - Djöfullinn á hringtorginu
/

Crazy – Klikkun

Crazy – Patsy Cline

Kötturinn svífur um eldhúsið. Hárþurrkan syngur sópran inn á baði. Rafmagnslínurnar svigna milli stauranna úti á götu og spila hægan kontrabassagang. Það er klikkun í gangi. Kona lætur renna í krómbað og leggst í kaf sjálfsvorkunnar og efasemda. Þetta er bilun og brjálæði, fegurð og funhiti.

Fílalag
Fílalag
Crazy - Klikkun
/

Sex on Fire – Logandi kynlíf ljónanna

Kings of Leon – Sex on Fire

Hafið þið séð ljónshvolpa í dýragarði, leika við hvern annan, bíta í hálsa og veltast um í gamnislag, lúra svo þess á milli ofan á hver öðrum eins og tuskur. Ef það væri hægt að taka þessa orku, þetta ljónshvolpamódjó og setja á flöskur, þá væri maður með dýrmætustu vöru í heimi.

Og það tókst. Því ljónabræðurnir í Kings of Leon eru nákvæmlega þetta urrandi ómótstæðilega sjónarspil, og þeir hafa verið til sýnis í stærsta leikhúsi veraldar: leikhúsi rokksins.

Kings of Leon eru dauðateygjurnar, síðasti sopinn, dreggjarnar, síðasta sígararettan sem reykt er í innan í bílum áður en það er hætt að framleiða þá með öskubakka.

Kings of Leon eru Simbi orðinn unglingur, í eftirpartíi, með bauga, föðurlaus, dyggðugur en villtur. Disney-fantasía á sterum.

Þær eru kallaðar lyfturæður, stuttu “pitchin” þar sem saga þess sem verið er að selja er útskýrð á sem stystum tíma. Þær eru kallaðar lyfturæður því allir fá einnar mínútu séns með forstjóranum til að útskýra hugmyndina sína. En Kings of Leon þurftu ekki mínútu. Þeirra hugmynd var einföld. Við erum ljón og varan okkar er “logandi kynlíf”.

Fílalag
Fílalag
Sex on Fire - Logandi kynlíf ljónanna
/

Dag sem dimma nátt – Strenging húmsins

Í Svörtum fötum – Dag sem dimma nátt

Oft hefur Ísland nötrað. Undan hrolli jöklanna, undan jarðhræringum, undan hafísnum, landsins forna fjanda. Oft hefur hrollurinn læst sér í taugakerfi þeirra sem hér búa, refa, minka og manna. Og hrollurinn framkallar herping, þúfur á handarbaki, húð kennda við gæsir og fygl. Það eru milljón ástæður til að fá gæsahúð á þessu landi.

En aldrei strekkist skinn Íslendings jafn mikið og í húminu. Já, þessu sjaldséða fyrirbæri sem felur í sér rökkur og kyrrð. Ekkert er jafn sjaldgæft og lognið og mildin. En þegar það brestur á, þá hrærist allt kosmós í kringum okkur, þá raða stjörnurnar sér upp og hleypa orkunni óhrindrað til okkar.

Hirðskáld húmsins, hvernig svo sem því er lýst, eru nokkur. Allt frá Fjölnismönnum til módernisa. En líklega var húmið aldrei neglt betur en í kveðskap Stefáns Hilmarssonar yfir inniskóarneglu Magnúsar Þórs Sigmundssonar sem Í svörtum fötum gerði frægt fyrir rúmum tuttugu árum.

Dag sem dimma nátt er meira en negla, það er meira en standard. Það er monster.

Það ætti ekki að vera hægt að taka húmið og strengja það upp á flaggstöng eins og Essó-fána. Húmið er viðkvæmt, eins og glóandi grámosinn og sjálfstraust ungrar þjóðar. En einstaka sinnum má strengja það upp.

Fílalag
Fílalag
Dag sem dimma nátt - Strenging húmsins
/

Will You Love Me Tomorrow – Paradísarmissir, missir, missir, missir (bergmál)

The Shirelles / Carole King – Will You Love Me Tomorrow

Hvað er þetta annað en paradísarmissir? Allt saman! Allar sögur! Nakið fólk að borða ávexti í vellystingum og búmm skömmustulegt fólk með fýkjublöð um klofið, grátbiðjandi um miskunn. Tveggja ára barn á bleyju, öskrandi og krotandi á veggi. Búmm. Sex ára barn í skóla, hrætt við að biðja um leyfi til að fara á klósettið, vansvefta af áhyggjum yfir því að hugsanir þess hafi tortímt stjörnu á himninum. Þetta er allt saman einn stór paradísarmissir og aftur missir og aftur missir sem gárast eins þegar steinvala lendir í tjörn, óendanlega víðfeðmur, sjálfknýjandi miklihvellur missis.

Og hér höfum við sönnunargagn A og sönnunargagn B. Will You Love Me Tomorrow, tekið með klínískum keisara í flúorlýstu sakleysi ársins 1960 og sama lag frá hassbrúnu árinu 1971. Gárur elta gárur. Sama lag, sami paradísararmissirinn, missirinn, misssirinn.

Fílalag
Fílalag
Will You Love Me Tomorrow - Paradísarmissir, missir, missir, missir (bergmál)
/

Quit Playing Games (With my Heart) – Tárin, árin, sárin

Backstreet Boys – Quit Playing Games (With my Heart)

Höfrungasýning í skemmtigarði. Aflitaðir endar. Rigning inni í vöruhúsi. Uppásnúnir gallajakkar. Pýramídasvindlara-umboðsmaður. Vinir að eilífu. Plakötin yfir rúmstokknum. Tárin, árin, sárin.

Skipt í miðju, uppfært andlit, skemmtiferðasigling um veröld sem var, horfnar ástir, skot í myrkri, ölvunarakstur, MTV í Þýskalandi.

Það var hlegið að þeim. Að þessir sleikjó-gaurar skuli kenna sig við skuggasund. Þeir eru ekki alvöru rokk og ról, ekki í alvöru neyslu, ekki í alvöru hasar. Lyfjuð lýtaaðgerðaandlit hlæja best þó síðast hlæi því Backstreet myrkrið er raunverulegt þó allt hafi þetta hafist með höfrungasýningu og kristilegu karisma.

Sandra Barilli kom, sá og fílaði í þessum æðisgengna, þrykkjótta og hlykkjótta þætti um Backstreet Boys.

Fílalag
Fílalag
Quit Playing Games (With my Heart) - Tárin, árin, sárin
/

Gvendur á Eyrinni – Harmurinn, tyggjóið, eyrin og eilífðin

Dátar – Gvendur á Eyrinni

Esjan er klædd flaueli. Handan hennar springur bomban. Sveppaskýið rís til himins. Faxaflóinn verður appelsínugulur. Við ströndina standa eyjaskeggjar með hnausþykk bítnikka-sólgleraugu og horfa á hamfarirnar en heyra ekkert hljóð. Svo fara allir heim til sín og sjóða ýsu og hlusta á aflafréttir í útvarpinu. Ekkert gerðist. Það er allt með felldu hér.

Hljómsveitin Dátar er ein sú leyndardómsfyllsta og svalasta í poppsögu okkar. Þeir komu, sáu og sigruðu. Þeir voru í flottum fötum, þeir voru með svört sólgleraugu, þeir hljómuðu vel, sungu og spiluðu frumsamin lög, stelpurnar vildu vera með þeim, strákarnir vildu vera eins og þeir. Já, þetta gerðist, hér í norpinu á hjara veraldar, starfaði útpæld mod-hljómsveit sem ærði. En svo fóru allir heim til sín og suðu ýsu og stilltu á aflafréttir. Það er svo margt ósagt: skömmin og harmurinn. Þegar tilveran er ein stór skekkja, þegar ekki fer saman hljóð og mynd.

En við eigum upptökur. Tvær fjögurra laga EP-plötur. Þetta gerðist í alvöru. Faxaflóinn var appelsínugulur. Það eru til sannanir. Fílum þær.

Fílalag
Fílalag
Gvendur á Eyrinni - Harmurinn, tyggjóið, eyrin og eilífðin
/

Perfect Day – Fullkominn dagur (Live frá Kex Hostel)

Lou Reed – Perfect Day

Í tilefni tíu ára afmælis Fílalag var ákveðið að hóa saman fólki og henda í snar basic live-fílun á Kex Hostel. Það þýddi ekkert annað en að fullkomna daginn með því að fíla Perfect Day. Er hægt að hugsa sér fílanlegra lag? Rammpirraður Lou Reed í lautarferð. Þetta gerist ekki betra. Að fíla Perfect Day er samt ekkert endilega svo fyrirsjáanlegt. Við sögu kemur Jóhann Svarfdælingur og aðilar úr ýmsum öðrum áttum. Njótið vel!

Fílalag
Fílalag
Perfect Day - Fullkominn dagur (Live frá Kex Hostel)
/

Heaven on their Minds – Stóru samskeytin

Carl Anderson og Jesus Christ Superstar leikhópurinn – Heaven on their Minds

Sólbruni. Tímasprengja. Páskar. Heilaga landið. Gallabuxur. Aktivismi. Oflæti. Broadway. Hamas. Bringuhár. Langferðabílar. Vinátta. Stereo. Neysla. Biskupsstofa. Flugskeyti. Fótanudd. Mattheusarguðspjall. Leðurjakki. Vandarhögg. Þórscafé. Handsprengja. Klútar. Kynlíf. Carlsberg. Konseptplötur. Eyðimörk. Sviti. PLO. Koss. F16. Rómarveldi. Hellisheiði. Reipi. Brauð. Golgata. Banjó. Kross. Hass. Skegg. Kristur. Súperstjarna. Jésús Kristur Súpernóva, bruni himinsins, mátturinn, dýrðin, fyrirgefning syndanna, upprisan. Maðurinn. Maðurinn. Maðurinn. Maðurinn. Maðurinn. Maðurinn. Kærleikurinn. Maðurinn.

Fílalag
Fílalag
Heaven on their Minds - Stóru samskeytin
/

Can’t Get You Out Of My Head – Búmmerangið í sefinu

Kylie Minogue – Can’t Get You Out Of My Head

Orðið “popp” til að lýsa ákveðinni tegund tónlistar er einstaklega mikil svikamylla því það er viðeigandi fyrir það sem það lýsir á þrjá mismunandi vegu.

Í fyrsta lagi þá lýsir orðið ákveðnu hljóði sem einkennir einmitt góða popptónlist. Góð popptónlist smellur í hlustunum, hún lætur eitthvað poppa í heilanum og brýtur sér þannig leið inn að miðjum taugastöðvanna. Popp-hljóð er skilvirkt, það krefst ekki mikillar orku, en knýr samt fram viðbrögð. Vegna þess að það krefst ekki mikillar orku er hægt að endurtaka það, aftur og aftur, og bora sig þannig lengra og dýpra en hægt er með mörgum ákafari aðferðum.

Önnur merking orðsins popp vísar til lengri útgáfunnar: popular music. Poppmúsík er vinsæl músík. Hún höfðar ekki til þröngra hópa heldur til sjálfs massans. Popular vísar þarna til mannfjöldans og lýðhyllinnar. Á góðum degi er poppmúsík því lýðræðisleg enda er það falleg hugsjón að vilja ekki útiloka neinn, en á vondum degi er hún gerræðisleg því hún getur líka beygt fjöldann undir sama smekkinn. Já. Popptónlist er viðamikið umfjöllunarefni og það er vissulega hægt að fara á dýptina þegar um hana er rætt.

En svo er það þriðja merkingin, sem er kannski langsóttust þeirra, en samt svo augljós á sama tíma. Poppið vísar ekki bara til áheyrandans, að hún sé músík fyrir fjöldann, nei poppið getur alveg eins vísað til sjálfrar músíkurinnar eða til þeirra sem flytja hana. Poppið gengur nefnilega ekki síður út á að populísera eða fjölfalda. Að taka manneskju og poppa hana, láta hana vera alls staðar, setja hana á plaköt og plötuumslög og í sjónvarp og bíómyndir og í playlista og TikTok video, að spreyja manneskju út um allar trissur, að milljónfalda hana.

Og rétt eins og orðið popp er svo einstaklega lýsandi fyrir allt sem er hér er framangreint, þá er lagið sem fílað er í dag: Can’t Get You Out of My Head, svo einstaklega gott dæmi um popp. Það hefur allt. Það smellur í hlustunum, það er gert fyrir fjöldann og það er fjölfaldað í öllum skilningi þess orðs, sama lúppan aftur og aftur og aftur. Það fjallar um þráhyggjuna, sem er undirstaða poppsins, vald endurtekningarinnar og þess að ná fram viðbrögðum með minnstu mögulegu ákefð.

Nú heyrist “ding”. Rífið upp Redenbacherinn. Kylie bankar á hlustirnar. Fílið, sefjist.

Fílalag
Fílalag
Can't Get You Out Of My Head - Búmmerangið í sefinu
/

House of The Rising Sun – Húsið vinnur

The Animals – House of the Rising Sun

Eins og við vitum öll þá hófst Bítlaæðið í Bandaríkjunum þegar ungmennni þess lands fengu að líta óklippt goðin augum í beinni sjónvarpsútsendingu frá CBS myndveri Ed Sullivans. Það var 9. febrúar 1964 og veröldin varð ekki söm aftur. Bítlarnir komu vel fyrir, dilluðu sér upp og niður, hristu hárið og brostu framan í veröldina. Síðar þetta ár átti þó ekki síðri sprengja eftir að dynja á ungmennum Ameríku þegar önnur óklippt rokkhljómsveit mætti í þetta sama myndver í beina útsendingu. Það voru sjálfar Skepnurnar, the Animals frá Newcastle, og það má segja að frá og með þeim degi, sem var 18. október 1964, hafi veröldin misst ákveðið sakleysi. Skepnurnar fluttu smellinn sinn, House of the Rising Sun, og það sem einkennir flutninginn meira en nokkuð annað er að forsöngvarinn, sem leit út eins og fimmtán ára óknyttadrengur, braut allar reglur skemmtanabransans fram að þessu. Hann brosti ekki einu sinni! En túlkunin var svo djúp og áköf að loksins hafði stóra íshellan verið brotin: blúsinn, þessi tregafulla tilfinning iðnvæðingarinnar, var kominn í sjónvarpið, raf- og unglingavædd. Skyndilega hafði allt dýpkað.

Þessi saga er sú mikilvægasta sem hægt er að segja. Saga bresku innrásarinnar, saga gatnamótanna, rokkhlekkjanna, fýsnarinnar og skaðræðisins. Og þessi saga er öll í þessu lagi sem var tekið í einni töku á vordegi í London 1964. Það er margt óöruggt í veröldinni, lofthjúpur jarðar þykknar, sjórinn súrnar, fé og frændur deyja en á hverjum morgni myndast roði í austri og á hverjum degi fellur einhver í pytt freistinga, um það eru öll þjóðlög veraldar, allur blúsinn og allt heila klabbið. Það skiptir engu máli hversu frjáls við teljum okkur vera Að endingu þurfum við öll að snúa aftur í Húsið og greiða skuldir okkar.

Fílalag
Fílalag
House of The Rising Sun - Húsið vinnur
/

(Everything I Do) I Do It for You – Ör beint í hjartað

Bryan Adams – (Everything I Do) I Do It for You

Þér er boðið í ferðalag. Hoppaðu upp á hestvagninn. Litli-Jón slær keyri í gamla bikkju og þú þýtur af stað í gegnum Skírið með fríðu föruneyti. Þetta er þeysireið, framhjá miðaldamörkuðum þar sem menn skjóta örvum og konur í þreföldum pilsum dansa. Við rjúkum gegnum engi þar sem sést í gömlu mylluna, yfir hæstu fjöll og gegnum fjalla- og frekjuskörð og niður í bjórgarðinn, undir lindartrén, þar sem viðstaddir gæða sér á söltum brauðsnúðum sem steiktir eru á glóðuðum rasskinnum heitasta fola kvikmyndanna. Íííhaa. Hneggj. Bronkóinn reykspólar á auðri Miðnesheiðinni í appelsínugulri ljósmyndavænni birtunni. Þunglyndir hermenn horfa á og vita að þeir munu lifa einn dag enn. “Það er bara eitt skot í byssunni,” segir máltækið. En það er mikil mjólk í beljunni og listin snýst um að vefja gallaefni utan á gallaefni sem er ofið utan á gallaefni.

Fílalag
Fílalag
(Everything I Do) I Do It for You - Ör beint í hjartað
/

Going Home: Theme from Local Hero – Allt er fyrirgefið

Mark Knopfler – Going Home (Theme from Local Hero)

Andinn. Stemningin. Newcastle upon Tyne. Þú þarft ekki að vera bestur, þú þarft ekki að vinna titla, þú þarft bara að vera góður við mömmu þína og gera við vaska. Þú ert hetja heimaslóðanna og við fyrirgefum þér mistök þín.

Fílalag vaknar til lífsins á afmælisári sínu með fílun á hinu stórkostlega Going Home (Theme from Local Hero) með Mark Knopfler, sem hlustendur þekkja betur sem skjáauglýsingalag eða stuðningsmannalag Newcastle United.

Fílalag hóf göngu sína 2014 og heldur því upp á tíu ára afmæli sínu á þessu ári. Haldið verður upp á afmælið með því að fíla eingöngu sérlega fílanleg lög, svokallaðar fílakaramellur. Going Home (Theme from Local Hero) er vottuð fílakaramella samkvæmt gæðavottunarstaðli Fílalags.

Fílalag
Fílalag
Going Home: Theme from Local Hero - Allt er fyrirgefið
/

Teenage Dirtbag – Í aldingarði incelsins

Wheatus – Teenage Dirtbag

Girtu kakíbuxurnar upp að handakrikum þannig að pínulítið hjartað skýlist undir beltissylgju úr látúni. Fáðu þér oreo og mjólk eftir skóla. Það er keila í kvöld. Farðu út í K-Mart til að kaupa kanil því ef veröld þín lyktar ekki af kanil þá er hún ekki lengur númer eitt.

Hálfsjálfvirkir bílar, hálfsjálfvirkar hugsanir, hálfsjálfvirkir árásarrifflar. Krumpaðir tennissokkar, lambakrullur og ljós lokadansleiksins. Þetta er kvöldið þitt lúðinn þinn. Nýttu það vel því á morgun er máttur galdursins á þrotum.

Fílalag
Fílalag
Teenage Dirtbag - Í aldingarði incelsins
/

My Heart Will Go On  – Stirðnandi klökka hjartalausa djúp

My Heart Will Go On (Love Theme from Titanic) – Celine Dion

Blómabúðalykt. Orð sem voru hvísluð svo lágt að þau aldrei heyrðust. Unglingaherbergið sem stendur óhreyft.

Þú heyrir panflautuleik á torgi í útlöndum. Ódýran, ómerkilegan panflautuleik spilaðan af kasettu. En þú færð kökk í hálsinn. Því þú ert lille og heimurinn er stór.

Að dýrka fugla er eldra en sjálf heiðnin. Keltar dýrkuðu fugla. Þeir eru fagrir. Þeir eru dularfullir. Þeir eru óttalausir. Allt sem okkur skortir.

Það hefur fundist opnun niður í ríki Hadesar. Þú ferð þangað í gegnum tjaldið í Háskólabíó. Djúpt ofan í de profundis. Svo djúpt að þér hættir að verða kalt. Þér hættir að verða allt.

Spörfugl á grein. Sperrt söngbrjóst. Titrandi himnur. Stakur spörfugl á grein syngur fyrir heiminn, ekki hræddur við neitt.

Aprílsvali á kinn. Gallajakki og bros vorsins. Það sitja tveir kerúbínar upp á Hörpu. Á sitthvoru horninu. Alvöru búttaðir voðungar og blása í horn sín. Þetta er alvöru og þetta er eilíft.

Það eru engin ský. Bara stjörnubjört eilífðin. Ekkert stöðvar för orðanna. Allt sem var hvíslað heyrist.

Blómabúðalykt. Orð sem voru hvísluð svo lágt að þau aldrei heyrðust. Unglingaherbergið sem stendur óhreyft.

Þú heyrir panflautuleik á torgi í útlöndum. Ódýran, ómerkilegan panflautuleik spilaðan af kassettu. En þú færð kökk í hálsinn. Því þú ert lille og heimurinn er stór.

Fílalag
Fílalag
My Heart Will Go On  - Stirðnandi klökka hjartalausa djúp
/

Got My Mind Set On You – Fjórfaldur skeinipappír í kók

George Harrison – Got My Mind Set on You

Hawai-skyrtuklædd Samsonite taska með bavíana-rass situr á Kastrup og drekkur 40 millítra af colgate tannkremi. Last call for boarding.

Útitekinn maður opnar Fosters dós í verkfæraskúr. Hann leggur garðklippurnar á hilluna, gengur út og sest upp á leggjalangan flamingóa og tekst á loft.

Á húsþaki í New York brennur kerti til agna frá báðum endum.

Á níunda skýi sitja úfnir menn í eilífum fordrykk. Þar hvílist ekki skugginn.

Fílalag
Fílalag
Got My Mind Set On You - Fjórfaldur skeinipappír í kók
/

Sing – Hjakk og spaghettí

Fjórir fölir náungar í pólóbolum. Ljótur brúnn öskubakki á borði, búinn til í leirmótun á Waldorf-skóla. Hafrakex með sultu í kvöldmat í gær. Draumkennt blik í augum, sviti á efri vörum. Sami straumur og sló raflosta sínum yfir augu Syd Barrets lýstur inn í herbergi rafsurgs og tómra tebolla. Úr pottinum óma galdrar Tin-eyjunnar, óður til barnsins í hjartanu og sköpunarkraftsins. Móðan upp rís.

Blur varð til í hrærigraut London undir lok áttunnar. Grauturinn var þykkur og upp úr honum rauk. Sing er eitt þeirra elsta lag, en jafnframt það allra seigasta. Setjið á ykkur fílunarólar og herðið þær vel. Hlýðið á sönginn. Horfið til himins og syngið og lifið áfram.

Fílalag
Fílalag
Sing - Hjakk og spaghettí
/

Skriðþunginn í skálinni – Bítlarnir – Dizzy Miss Lizzy, lifandi í Hollywood Bowl 1965

Bítlarnir eru að mörgu leyti þægilegt viðfangsefni. Þeir voru fjórir og þeir voru þvengmjóir. Þrátt fyrir alla sköpunargáfuna og dýptina þá eru Bítlarnir konsept sem er nokkuð þægilegt að setja í einn harðan pakka. Framkvæmdatímabil Bítlana afmarkast af sléttum tölum. Þeir störfuðu á árunum 1960-1970. Þetta var orkupakki sex, og hann situr naglfastur undir jólatré 20. aldarinnar sem ein fegursta gjöf sem mannkynið hefur fengið.

Ýmsir fræðingar hafa svo verið duglegir við að búta sögu Bítlana niður í ýmis tímabil. Það var leðurtímabilið. Það var LSD-tímabilið. Það var Indlands-tímabilið og svo má endalaust deila um hvenær einu tímabili lauk og annað tók við. En það sem er óþarfi að deila um er að þessi tíu ára pakki var hálfnaður árið 1965. Þá áttu þeir jafn mikið að baki eins og þeir áttu framundan. Og nú skulum við fara að tala hreina eðlisfræði:

Skriðþungi er mælikvarði á tregðu hlutar á hreyfingu við breytingar á hraða. Árið 1965 eru Bítlarnir á það mikilli hreyfingu sem afl í heiminum að þeirra innri skriðþungi ýtir frá hvers konar tregðu. Ef maður hugsar til þess þá er 65-70 tímabil Bítlanna í raun uppfullt af áföllum og tregðu: dauði Epsteins, Jésú-hneykslið, handtökur, rifrildi, eiturlyfjanotkun og að lokum málaferli og gríðarlegt mótlæti. En skriðþunginn er einfaldlega það mikill að áföllin breytast í epíska list. En við hvert áfall dregur samt örlítið úr skriðþunganum sbr. þá augljósu staðreynd að Bítla-sleðinn nam loks staðar árið 1970.

Af þessari eðlisfræði má draga þá ályktun að burtséð hvað fólki kann að þykja um gæði, þá er skriðþungi Bítlanna mestur um mitt ár 1965. Og það var einmitt í ágúst mánuði það ár sem skálaklipptu lifrarpylsurnar frá Mersey-ánni stigu á svið í sjálfri Skálinni, Hollywood-Bowl, og fluttu prógram sitt fyrir sautján þúsund skálaklippt amerísk ungmenni. Og þar gerðist það undir Hollywood-himninum, í miðjum flutningi á laginu Dizzy Miss Lizzy, sem var einhverstaðar í miðju prógraminu, að Bítlarnir öðluðust sinn peak-skriðþunga. Það gerðist nánar tiltekið í miðju laginu þegar John Lennon öskrar línuna: “Come on, give me fever!” Og peak-skriðþungi Bítlanna felur í sér margt og meira en það. Peak-skriðþungi Bítlanna er líka peak-skriðþungi rokks og róls, peak-skriðþungi bjartsýni, ungæðis, fryggðar og dyggðar.

Skriðþungi er einnig þekktur undir öðru nafni á íslensku og það er hreyfimagn og það er mjög viðeigandi hugtak þegar hlustað er á Bítlana í lifandi flutningi frá þessum tíma. Í Bítlunum er orka sem hefur bæði möguleikann á að hreyfa og möguleikann á að hreyfa miklu magni. Að fíla ekki Dizzy Miss Lizzy í flutningi Bítlana árið 1965 er því nánast eðlisfræðilega óhugsandi. Þessi fílun sem fram fer í dag er því ekki bara skyldufílun heldur eðlisfræðileg niðurstaða.

Fílalag
Fílalag
Skriðþunginn í skálinni - Bítlarnir - Dizzy Miss Lizzy, lifandi í Hollywood Bowl 1965
/

Strönd og stuð! – Good Vibrations

Rafbylgjur smjúga í gegnum þunna gifsveggi. Brunabíll keyrir í útkall. Í höfuðkúpu er haldin veisla. Húlahringir orbita áreynslulaust.

Pabbi skammar. Stanislav nágranni er sendur í raflostameðferð. Sólin hamrar geislum sínum á stillt hafið. Segulband flækist. Ljósálfur liggur á blakbolta. Stendur svo upp og stígur dans, á ströndinni, í takt við rafbylgjur.

Þessi fílun fór fram live í Borgarleikhúsinu 23. apríl 2022.

Fílalag
Fílalag
Strönd og stuð! - Good Vibrations
/

Goodbye Yellow Brick Road – Hinn sinnepsguli vegur (Live í Borgó)

Elton John – Goodbye Yellow Brick Road

Árið er 1973. Kynóðir Jesúsar safna krökkum upp í Volkswagen rúgbrauð og keyra til fjalla. Djúpgul skotveiðisólgleraugu seljast eins og heitar lummur. Bólufreðnir síðhippar gæða sér á Tex Mex meðan hár vex. Veröldin varð vitstola 1969 en þarna fjórum árum síðar hefur skollið á með heiðgulu rofi. Og inn í það syngur Kelti með örþunna filmu yfir sálinni og músíkina í bjarnarhrömmunum. Inn í þetta ástand syngur Kelti dýrasta sálm sjöunnar: Goodbye Yellow Brick Road.

Fílun dagsins var tekin upp “live” í Borgarleikhúsinu og er því einstaklega löng og lífleg. Rætt var um ýmis myndbönd í fíluninni og eru hlekkir á þau hér. Áratugamyndir af Tona gamla má svo einnig finna hér fyrir neðan. Góða skemmtun.

Toni í strandafíling 16. ágúst 2021. Heilsteiktir fiskar og DJ-æring.

Toni svo aðframkomin af firringu að hann nær að láta Imagine hljóma ósympatískt.

Toni going “full Donald”

Toni Live á Dodgers Stadium 75. Bernie Taupin að sötra coors úr 70s dós á hlýrabol.

Upptökur á Yellow Brick Road í Frakklandi ’73. Deep sjöu kúl.

Toni og Goggi að mæta í jarðaförina hjá Díönu. Westminster Abbey. Full on Denna Dæmalausa lúkkið. Rautt hairpiece og frekjuskarð.

Fílalag
Fílalag
Goodbye Yellow Brick Road - Hinn sinnepsguli vegur (Live í Borgó)
/

Wannabe – Kryds-ild

Fyrsta plata Spice Girls hét Spice og hún var nákvæmlega það: krydd. Og ekkert venjulegt krydd heldur napalm-karrí-lyftiduft. Kryddpíurnar sprengdu upp veröldina, og eins og allar alvöru sprengjur, þá gerðust hlutirnir hratt og átökin voru mikil. En það sem stóð eftir voru þó falleg skilaboð um mátt tónlistar, gildi vináttu og mátt stúlkna og kvenna – og hafa þessi grunn skilaboð bara skerpts og eflst með tímanum.

Kryddpíurnar voru sannarlega í eldlínu níunnar, þar sem tókust á hugmyndir um hver er “wannabe”, hversu margar dúkkur af þér máttu selja áður en þú verður feik og sellát og hversu langt má ganga í að setja breska samveldisfánann á alla skapaða hluti án þess að það verði beinlínis þjóðernisrembinur? Kryddpíurnar voru í miðjum þessum átökum, og var tilvera þeirra meira og minna sigling í gegnum kúlnahríð.

Spice Girls voru líka ekkert venjulegt band. Og til að gefa hlutunum smá samhengi má benda á að Spice Girls eru eitt af örfáum hljómsveitum þar sem fólk þekkir alla meðlimina með nafni. Þá eru þær líka eitt af örfáum hljómsveitum sem hafa fengið íslenskt nafn sem hefur náð að loða við þær: Kryddpíurnar. Það er eitthvað bítlískt við stærðargráðuna á því.

Það er því margt til að fara yfir í fílun dagsins. Við sögu koma rasskinnar Karls Bretaprins og Margrét Thatcher. Hlustið og fílið.

Fílalag
Fílalag
Wannabe - Kryds-ild
/

Have You Ever Seen The Rain? – Full ákefð

Creedence Clearwater Revival – Have You Ever Seen The Rain?

Saga Creedence Clearwater Revival er best tekin saman með einu orði: ákefð. Hljómsveitin starfaði aðeins í örfá ár en gaf út sjö stórar plötur, ferðaðist um heiminn, tók Ed Sullivan mulninginn og Woodstock mulninginn og allt þar á milli. Og svo nánast eins skyndilega og þetta hófst þá var það búið. Bensíngjöfin var í botni allan tímann og lög hljómsveitarinnar bera þess merki, þau eru öll intensíf frá fyrstu til síðustu sekúndu – engin uppbygging eða dútleri heldur bara 100% framleiðsla allan tímann. Að hlusta á CCR er svipað eins og að fara á veitingastað og það er byrjað að bera fram sjóðandi heitar pönnur með sizzling enchiladas-gúmmelaði og stjörnuljósi ofan á áður en þú ert almennilega sestur við borðið. Og svo halda réttirnir áfram að koma. CCR er sindrandi enchiladas-færiband.

Og í raun kristallast þessi hugmynd enn frekar í rödd söngvarans og lagahöfundarins John Fogerty. Umræddur maður er ekkert endilega mikið fyrir mann að sjá, býsna venjulegur í útliti, jafnvel lítilfjörlegur. Ef maður ætti að dæma manninn af útlitinu einu þá mætti halda að þetta væri maður sem væri með svona 2,5 af 10 í ákefð. En ekkert gæti verið fjær sannleikanum. John Fogerty er með eina stillingu og hún er 10/10 í ákefð, allan tímann, og þannig var þetta keyrt út í gegnum allan líftíma CCR. Og vegna þess að Fogerty er 100% trylltur allan tímann í söng sínum, þá er ekkert svigrúm fyrir blæbrigði. Hann verður því að vinna með það skrítna upplegg að setja allar tilfinningar í rödd sína í einu. Ef lag á að túlka bæði sorg og gleði, þá er ekki einn kafli soldið sorglegur og annar glaður, heldur er Fogerty bæði sorgmæddur og glaður allan tímann. Og hvernig er það hægt? Það veit það enginn, það er galdur, en það var svo sannarlega gert og fullkomnað í laginu Have You Ever Seen the Rain – sem fram á þennan dag er óskiljanlegt lag. Fólk veit ekki hvort að lagið fjallar um gleði eða sorg, það er einhvernveginn um bæði gleði og sorg á sama tíma, með fullri ákefð á báðum tilfinningum, eins og kraumandi salsa-sósa sem er grýtt framan í þig á veitingastað djúpt inn í Ameríku.

Fílalag
Fílalag
Have You Ever Seen The Rain? - Full ákefð
/

Gentle On My Mind – Lagið sem allir fíluðu

John Hartford og ýmsir – Gentle on My Mind

Setjið á ykkur svunturnar. Á hlaðborðinu eru Glen Campbell, Aretha Franklin, Frank Sinatra, Elvis Presley og Dean Martin. Þau eiga það öll sameiginlegt að hafa flutt og maukfílað lagið Gentle on My Mind eftir ameríska blue-grass tónlistarmanninn John Hartford, og það gerið þið einnig.

Gentle on My Mind er cinamatískt og þéttofið meistarastykki – vöndull myndríkra hugsana sem flýtur eftir straumnum eins og fljótabátur úr sögu eftir Mark Twain. Svo mikil músík, svo mikið víðfeðmi.

Fílalag
Fílalag
Gentle On My Mind - Lagið sem allir fíluðu
/

Over & Over – Sans Serif

Hot Chip – Over and Over

Það er komið að tilgangslausu trúttilúllus skaðræði í formi duracell airwaves hjakks. Nú skal djammað fast og post mortem framkvæmt á post modern.

Öld grafíska hönnuðarins. Eftirpartí á ellefunni. Þriggja pipara Ban Thai réttum sturtað yfir nóvember-kvíðann. Þröngar buxur, 8 GB RAM, heimildamynd um erfðabreytt matvæli. Staffadjamm. Ofnskúffan hennar ömmu.

Yfirspennu-ale. Helvetica. Górilla í jakkafötum klæðir sig í górillubúning. Það er komið að tilgangslausu trúttilúllus skaðræði í formi duracell airwaves hjakks. Aftur og aftur.

Fílalag
Fílalag
Over & Over - Sans Serif
/

Let’s Spend the Night Together – Brokkið ykkur

Rolling Stones – Let’s Spend the Night Together

Farið inn í föðurhúsin, undir loðfeldinn, inn í merginn, inn í kjarnsýruna og marinerið ykkur þar til Stephen Hawking segir Bó að segja gó á Big Bang. Náðuð þið þessu. Ekki. Tökum þetta aftur. Farið inn í föðurhúsin, undir loðfeldinn, inn í merginn, inn í kjarnsýruna og marinerið ykkur þar til Stephen Hawking segir Bó að segja gó á Big Bang.

Það er búið að loka Búrfellsvirkjun. Charlie Watts er allur. En tvennt fyllir hugann sama hversu oft það er framreitt Stjörnuhimininn ofan okkur og siðferðislögmálið hið innra, eins og segir á legsteini Kant. Farið inn í föðurhúsin, undir loðfeldinn, inn í merginn, inn í kjarnsýruna og marinerið ykkur þar til Stephen Hawking segir Bó að segja gó á Big Bang. En umfram allt: Brokkið ykkur!

Fílalag
Fílalag
Let's Spend the Night Together - Brokkið ykkur
/

It Ain’t Over ‘Til It’s Over – Make-Up-Sex Möxun

Lenny Kravitz – It Ain’t Over ‘Til It’s Over

Snjáð gallabuxnaefni. Nefhringur. Skartgripir. Búdda-líkneski. Lág fituprósenta. Fender Rhodes. Haltu-mér-slepptu-mér-orka. Steinaldarmataræði. Innlit útlit í Amazon. Ríðum saman út í sólarlagið með John Wayne einu sinni enn. Einu sinni enn. Einu sinni enn.

Kaffibarþjóna-augnaráðið. Vifta í húsgagnalausu herbergi. Engissprettur á túni. Naflahringir, sportrendur, blesönd á sundi, longboard-reið við Feneyjaströnd. Allir út á dekk, látum loftbori merja jörðina undan okkur með phallus táknum úr auglýsingasálfræði 103. Ríðum saman á kynbættum hesti, undir gúmmítrjánum, með mangó í maga. Einu sinni enn. Einu sinni enn.

Fílalag
Fílalag
It Ain't Over 'Til It's Over - Make-Up-Sex Möxun
/

The Logical Song – Saðsamasti morgunverður allra tíma

The Logical Song bresku hljómsveitarinnar Supertramp frá 1979 er svo rökrétt að það nær ekki nokkurri átt. Samið af þunnum Bretum í hljómsveitabolum, tekið upp í fyrsta flokks hljóðveri í Bandaríkjunum, loftþéttur popppakki fyrir alla framtíð. Létt heimspekilegur texti með tímalausum hugleiðingum, Abbey Road hljómandi gítarar, wurlitzer hljómborðslínur og möfflaðar sjöu-trommur.

The Logical Song er dæmi um homo sapiens að skapa eitthvað tímalaust með öllum stimplum vélar sinnar. Og viljir þú áfyllingu á saðsamasta morgunverð allra tíma, þá er hún vissulega í boði. Við skulum ekki gleyma að árið 2001 kom Scooter og súper trampstampaði þessa neglu inn á heilabörk heimsins.

Fílalag
Fílalag
The Logical Song - Saðsamasti morgunverður allra tíma
/

Foolish Games – Djásnið í djúpinu

Jewel – Foolish Games

Það er mikið af rusli í heiminum. KFC-umbúðir á sófaborði, ljótar byggingar í illa skipulögðum borgum sem öllum er sama um, kusk á hillu, milljónir laga sem er tímasóun að hlusta á. Í raun er heimurinn bara einn stór ruslahaugur. Saga okkar líka. Flestar minningar, flest orð sem hafa verið sögð, þetta er bara rusl og suð sem skiptir engu máli. Maður verður að líta á það þannig: Að öðrum kosti verður maður bara ruglaður.

En svo eru gersemar í ruslinu. Jewel er ein þeirra. Gersemi í þeim risastóra ruslabing sem amerísk fjöldamenning er. Hún fæddist í Utah, ólst upp í Alaska og var síðar heimilislaus í San Diego. En þá skrifaði hún undir plötusamning og varð fræg. En þá fyrst er hætta á að breytast í rusl. En Jewel gerði það ekki, því hún er ein af þessum manneskjum, þessum örfáu sem eru öðruvísi, öruggari, sterkari. Það gerist endrum og eins og það er alltaf jafn mikill galdur.

Fílalag
Fílalag
Foolish Games - Djásnið í djúpinu
/

Fílalag – Wild Thing (2.0) – Þáttur frá 2014

Fílalag er í hýði eins og flestir aðrir landsmenn. Því gripum við til þess að gramsa í gullkistunni og draga fram í dagsljósið eina af fyrstu fílunum sem kuklaðar voru enda ekki að undrast því lagið er algjör frumeðlustomper: Wild Thing. Takk fyrir.

Við látum ekki eina útgáfu duga heldur kjömsum á þrem útgáfum; orginallinn, Troggsarinn og Jimi-inn. Takk fyrir.

Þátturinn kom upprunalega út 16. maí 2014. Takk fyrir.

Fílalag
Fílalag
Fílalag - Wild Thing (2.0) - Þáttur frá 2014
/

Nessun Dorma – Hetja sigrar

Milljónir manna, milljónir sagna, tjöld máluð í litbrigðum jarðarinnar, sól á himni, hveiti á akri. Og stígvélið sparkar í knöttinn á miðjarðarhafi sagna, valda, átaka og ástríðna. Ítalía. Legíónur Sesars, drottnarar veraldar á tímum biblíusagna, meitlaðir hermenn og mömmustrákar olíu og hveitis. Verdi, Puccini, pússuð stígvél og strimlaskegg. Sigur, deiling, drottnun. La Scala á öðrum skala en Aðalstræti 10. La Scala á öðrum skala en kornhlöður þessarar veraldar. La Scala, kornhlaða mannsandans, hin eina sanni, stóri umvefjandi gimsteinn alls mannslegs skala. La Scala og Viceroy fliss Hemma Gunn. Það er kalkúnn í matinn, það er reyktur svínabógur í matinn, það eru sólþurrkaðar ansjósur bornar fram í sundlaugum 500 fermetra Stigahlíða-halla. Það eru beinar útsetningar, það eru föll járntjalda, það er fall fasisma og upprisa rómantíkur á nýjum skala. Gervihnettir svífa um á sporbaugum sínum og senda hrafntinnusvartar augabrúnir í kvarz-steinuð hús þessarar veraldar. Tjöldin eru máluð, á himni sindra stjörnur, þar til dagur rís, þar til dagur rís og hetjan sigrar. Í milljónasta sinn, ávallt á nýjum skala.

Fílalag
Fílalag
Nessun Dorma - Hetja sigrar
/

Love – Eggjarauðan sem aldrei eyðist

John Lennon – Love

Það er ekki bara Brimborg sem er öruggur staður til að vera á heldur líka innsta hólf í innstu kistu hvelfingar grafhýsis Tútankamúns. Það er hægt að verja og það er hægt að brynverja. Og ekkert er jafn öruggt, jafn varið, jafn hugmyndafræðilega afmarkað og lagið “Love” með John Lennon.

Love Lennons er sólin á himninum, döggin á grasi að morgni, það öruggasta og tryggasta sem við eigum. Kærleikurinn svífur þarna um, ofbeldið allt um kring, en kærleikurinn svífur þarna um í eggi sínu. Brynvarinn, ryðvarinn, gegnvarinn.

Fílalag
Fílalag
Love - Eggjarauðan sem aldrei eyðist
/

Heartbreaker – Harmurinn og hæðirnar

Bee Gees – Heartbreaker

Saga Bee Gees er Sagan með stóru S-i og greini. Saga þjóðflutninga, saga efnahagsþrenginga, hæstu hæða, dýpstu dala. Elsta saga í heimi. Fyrsta Mósebók, fjórði kafli: Kain og Abel. Á ég að gæta bróðir míns? Vesalingar og krypplingar Victors Hugo, verksmiðjubörn Dickens. Undirskálaaugu Andersens.

Saga Bee Gees inniheldur þjóðflutninga, lestarslys, hótelsvítur, sundlaugabakka, ofsóknaræði en fyrst og síðast samheldni, metnað, vinnusemi og þolinmæði gagnvart harðneskju lífsins. Þetta eru stór orð, en saga bræðranna frá Brisbane er engum lík. Hún verður aldrei tekin saman í eina setningu þó að djörf atlaga gæti verið útfærð með orðunum „Keltar negla heiminn”.

Þvílíkir hæfileikar. Þvílík seigla. Þvílík saga. En fyrst og síðast: þvíííííílíkur fílingur.

Fílalag
Fílalag
Heartbreaker - Harmurinn og hæðirnar
/

Killing Me Softly With His Song- Að smyrja kæfu ofan á skýin

Roberta Flack – Killing Me Softly

Lyklapartí í Norræna húsinu 1973. Samískar hempur lagðar á gólfin. Reykelsi fíruð. Kæfan smurð.

Maður að koma heim af næturvakt hjá HS Orku lamast og leggur bílnum í myrkrinu, roðnar í myrkrinu.

Peningar, kærleikur, myrkur. Hið myljandi hjól draumanna. Mylla draumanna.

Fílalag
Fílalag
Killing Me Softly With His Song- Að smyrja kæfu ofan á skýin
/

Tubthumping – Almyrkvi af gleði

Chumbawamba – Tubthumping

Gestófíll – Ari Eldjárn

Í raun deyr man mörg þúsund sinnum áður en vomurinn með ljáinn mætir loksins. Það verður mótlæti, það verður sköddun, það verða vonbrigði, það verður lágdeyða og stundum er fótunum hreinlega sópað undan vel meinandi fólki. En ef einhver heldur að tilgangur lífsins sé að forðast mótlæti, átök og almenna kássu, þá er til átta manna fílósófískt pönkband frá Leeds sem er þér hjartanlega ósammála.

Ari Eldjárn mætti með Fílalag sem gestófíll til að kryfja hið marglaga, ærandi Tubthumping með hljómsveitinni Chumbawamba sem flengreið röftum árið 1997 og áfram. Og niðurstaðan er: Ef þú ert lamin niður þá hengir þú þig aftur upp eins og klósett á útúrgröffuðum vegg djúpt inn í vömbinni á skemmtistað í tröllalandi. Það er ekki til neitt sem heitir að gefast upp. Stattu upp, stattu upp og haltu áfram, dúndraðu í þig glundrinu sem er lagt á borð fyrir þig og bara gerðu eitthvað úr þessu.

Danni minn. Elsku, rytjulegi drengurinn minn, þú þarft ekki að gyrða þig í brók, þú mátt meira að segja ganga um með kloflúðurinn úti, svo lengi sem þú ferð með bænirnar þínar, stendur upp og heldur áfram. Ljárinn kemur seinna, en þangað til, hafðu hátt, stattu á eplakassa og öskraðu úr þér sýrulegin lungun.

Þrjátíu ár. Þrjátíu ár af aga, músík og skaðræði. Þetta lögðu þau á sig. Svo þú getir fílað þetta litla lag. Fílaðu það með höfðinu, fílaðu það með lifrinni og nuddaðu opnum hjartavöðva þínum upp að mólekúlum þess, því þetta er sannarlega club-stumping, mind-numbing, baðkarsþrymill. Þetta er Tubthumber og það ætlar að rífa þig í sig eins og hungrað ljón tætir í sig sebrahest í BBC-heimildamynd. Öllum líður vel. Allir fíla. Og enginn man neitt eftir á, þar sem við sprautumst niður glerið fyrir framan sláttumanninn eins og rúðupissið sem við sannarlega erum.

Fílalag
Fílalag
Tubthumping - Almyrkvi af gleði
/

King of the Road – Að elta skiltin

Roger Miller – King of the Road

Ef það er eitthvað sem vantar á Íslandi þá er það alvöru vegamenning. Að geta farið út í buskann. Á Íslandi er maður alltaf kominn í hring áður en maður veit af. Það er helst að maður geti náð einhverri smá útlegð á Kjálkanum eða kannski nyrst á Melrakkasléttu, en annars eru alltaf einhver vaxjakka-greppitrýni með náttúruvín mætt til að hrella þig.

En á öllum meginlöndum heimsins er hægt að týnast á veginum, og eiginlega lifa á veginum, án takmarks og tilgangs. Oft eru það sorgleg örlög, en það fer samt eftir viðhorfi. Sumir sem eru á sífelldu flandri líta á það sem ástand hins fullkomna áhyggjuleysis, en það er aðeins á færi þeirra sem hafa hjartalag flökkudýrsins. Það er ekki fyrir alla, en það á sannarlega konunglega spretti.

Það er hægt að týnast í húsinu sínu, falla inn í sjálfan sig í sjálfsmyndarglímu. En það er eiginlega ekki hægt að týnast á vegum úti. Maður eltir bara skiltin.

Fílalag
Fílalag
King of the Road - Að elta skiltin
/

Uptown Girl – Blöðruselur í brunastiga

Billy Joel – Uptown Girl

Það er útkall. Bláu ljósin og vælandi sírena. Upp í brunastiga í Bronx stendur útþaninn kalkúnn og spangólar á gula leigubílana sem þjóta hjá. Það er ekki hægt að tjónka við hann.

Elsta saga veraldar. Fátæki strákurinn sem er skotinn í prinsessunni, eða öfugt. Lítið krakkaævintýri, en samt svo stórt.

Billy Joel er gaurinn sem byrjaði að vera miðaldra 20 ára, og er enn að, hálfri öld síðar. Með brotið nef, hvíttaðar tennur og grjótharða bumbu. Hann hefur stundum kýlt fast, stundum kýlt laust. En hann hefur alltaf kýlt upp á við.

Fílalag
Fílalag
Uptown Girl - Blöðruselur í brunastiga
/

Son of a Preacher Man – Spartsl í holu hjartans

Dusty Springfield – Son of a Preacher Man

Fíkja veraldar. Svið biblískra atburða. Martin Luther King skotinn til bana á mótelsvölum. Memphis, 1968. Svið harmsins.

Dusty Springfield var frá Bretlandi. Hét upprunalega O’Brien. Hún var eiginlega of hæfileikarík til að vera til. Hún fann sig í öllu, þjóðlagahefð en líka sálartónlist þar sem hún gaf þeim allra stærstu ekkert eftir. Og 1968 smurði hún þessu inn. Frá heimastöð harmsins, skinkumyrja í maga, sinnepsgul slikja, skæni yfir opinn kvíðann.

Fílalag
Fílalag
Son of a Preacher Man - Spartsl í holu hjartans
/

Workingman’s Blues #2 – Með hjartað fullt af bananabrauði

Bob Dylan – Workinman’s Blues #2

Bob Dylan kjarnar hugmyndina um „boomer”. Það er erfitt að kyngja því nú á tímum þegar 37 ára gamalt fólk kallar 39 ára gamalt fólk búmera og heldur að það sé með neglu. En það er áttræður Bubbi gamli Zimmermann, fæddur 24. maí 1941, sem er aðalbúmerinn. Hann útskrifaðist úr highschool í blazer-jakka með Presley-hár og sleikti svo út allt 60s gúmmelaðið, mótmælin, bítlaskóna, bítnikkabúllsjittið og að lokum sígaunahippið, endurkomuna og efasemdirnar. Með stækkandi bankabók og hækkandi hlutabréfum, eftir að hafa tekið erfiða tímabilið á flatan beinaberan kassann, reis hann svo að lokum upp sem endanlegur Jésú Kristur New York Times ritstjórnarinnar, nóbelaður og skósólaður inn í frægðarhöll búmeranna sponsored by Ray Ban og Pfizer.

En Bob Dylan er geitin og geitur láta aldrei að sér hæða. Seinni tíma Zimmy gleymir aldrei hvaðan hann kom. Hann hefur aldrei látið nappa sig í Napa-dalnum í vínsmökkun því hann er hrísgrjón og baunir gaur, tötrasveinn meðal tötrasveina. En umfram allt þá hefur hann aldrei látið neinn ráðskast með sig. Sama hvað líður óskurum og nóbelum þá svarar hann engu kalli. Enginn getur keypt hann, nema mamma hans, sem tók á móti honum heim úr skólanum með nýbakað bananabrauð. Lykillinn að Bob Dylan er að það er enginn fjandans lykill. Hann er bara fullur af kærleika, stútfullur af bananabrauði og hann á afmæli og hann er sjálfur hafurinn.

Fílalag
Fílalag
Workingman's Blues #2 - Með hjartað fullt af bananabrauði
/

Dry The Rain – Skoskt, artí, indífokk

The Beta Band – Dry the Rain

Þunglyndisfílgúddið verður ekki tærara en þetta. Hér er hann mættur í Pringles-mylsnaða sófann þinn: Indígírkassinn mikli sem hrært hefur í þunnum keltum í tvo áratugi. Dry the Rain með Beta Band er þéttofinn refill. Í ísskápnum eru 28 síðir Amstel, sígarettuaskan fellur ofan á pínulitlar bjórvambir, græjurnar óma í hárri trúfestu.

Intel Pentium. Kattamatur. Futsal.

Nú leggjumst við öll á bæn í súldinni og dásömum lágt sjálfsmat. Með ertingu í húð göngum við inn í hofið og stingum okkur til sunds.

Fílalag
Fílalag
Dry The Rain - Skoskt, artí, indífokk
/

Fyrir átta árum – Einn kílómetri af eilífð

Heimir og Jónas – Fyrir átta árum

Sumarlandið. Vormanían. Spássering í kringum Tjörn. Byltingarfólk og hökutoppar. Glaumbar og hass. Predikari segir þér hvað kílóið af salti kostar í raun og veru. Kinkandi kollar. Guy Ritchie þrútnar.

Kristalsglasi hent á arin. Vakan hefur staðið yfir alla vikuna, allt vorið. Undir 19. aldar legubekk á Þrúðvangi liggur 100 kíló af kraftbirtingarhljómi og nötrar. Jack London horfir á.

Þeir sem fóru af fiðluballinu í vor lifa enn sem draugar. Laufásvegur er búlevarð. Kríthvít andlit á göngu. Á suðurleið í leit að líknardeild. Jakkarnir, sokkarnir, tárin og árin.

Á bak við gluggatjöldin bærast hvítir armar sem sigldu yfir á tímum spænsku veikinnar.

Fegurðin. Ó, fegurðin. Vaktu með okkar borgaralega skáld. Horfðu frá bekk þínum á alla hersinguna koma úr predikun í Fríkirkjunni og ganga ofan í Tjörnina og drukkna í linnulausri fegurðarárás vo-vo-vo-vorsins.

Fílalag
Fílalag
Fyrir átta árum - Einn kílómetri af eilífð
/

I Can See Clearly Now – Að skipta út hryggjarsúlu sinni fyrir sólargeisla

Johnny Nash – I Can See Clearly Now

Ef fílgúdd væri vara sem maður kaupir út í búð, þá erum við í þann mund að setja tvo fimmtíu kílóa sekki í skottið á bílnum við bílastæðið hjá Costgo. Framundan er bökuð kartafla snædd í ölvandi sólskini undir hamraveggjum. Pakkið fellihýsinu í súputening og étið það. Mesta fílgúdd-stemningslag allra tíma er fílað í dag.

Málið er ekki flókið. Málið er kristaltært. Það er ekki ský á himni. Hann er blár og á honum miðjum er ein stök gul kúla sem er að negla gleði inn í skrokk ykkar. Gengið er hátt. Hjartað slær. Börn brosa. Spékoppar leiftra á andlitum. Öllum líður vel.

Aldrei hætta að berjast. Hamist á hamstrahjólinu. Spænið það upp til agna með vinnslu þannig að neistar fljúga og kveikið í veröldinni. Eltið ljósið, eltið drauminn, lífið er kartöflusalat, það er hægt að komast undir regnbogann!

Fílalag
Fílalag
I Can See Clearly Now - Að skipta út hryggjarsúlu sinni fyrir sólargeisla
/

Music – Að leggjast á hraðbrautina

Madonna – Music

„Popp” er hart orð. Það eru þrjú pé í því og það brotnar á vörum manns. Popp er líka harður business. Líklega sá allra harðasti. Popp fær fólk til að lita á sér hárið, klæðast þröngum buxum, syngja í falsettum, dilla rassinum, öskra eins og apar, taka pillur, fara í málaferli við fjölskyldumeðlimi og bara almennt smána sig síendurtekið. Popp er svo harður húsbóndi að þegar þú ert búinn að poppast ertu sprungin blaðra, ömurlegt gúmmírusl útí horni eftir barnaafmæli.

Og enginn getur stjórnað poppi. Það er ómögulegt að vita hvað verður vinsælt. Það er ómögulegt að þóknast poppinu, fjöldanum, og miskunnarleysi hans. En það er hægt að eiga sín móment, og enginn í sögu poppsins, hefur átt jafn mörg slík móment og Meyjan.

Madonna var kölluð drottning poppsins. En í raun er hún meira en það. Því hún náði nokkrum sinnum að lyfta keyri sínu og svipuhöggva sjálft poppið til hlýðni. Og ekkert nær betur utan um þennan aga, þennan fókus, og þessa drottnun heldur en síðasta lag Madonnu sem náði toppi Billboard Hot 100 listans. En það er lagið Music. Þar fer Madonna alla leið og hreinlega leggst á sjálfa hraðbrautina og lætur tortímandi 18-hjóla trukkana, sem allir gætu hæglega grandað henni, keyra framhjá sér. Hún leggst á hraðbrautina og klárar dæmið.

Fílalag
Fílalag
Music - Að leggjast á hraðbrautina
/

Come on Eileen – Keltnesk krossfesting

Dexys Midnight Runners – Come on Eileen

Fyrir þau ykkar sem hafið gengið slyddublaut inn í blokkarstigagang. Fyrir þau ykkar sem hafið stigið inn í stóran leigubíl um miðja nótt á leiðinni úr einu fokkjúi með vonda hljóðvist í það næsta. Fyrir þau ykkar sem hafið borðað grænt epli í miðju nóvemberskammdegi og fundið maga ykkar þenjast og meðvitundina fjara út.

Fyrir þau ykkar sem búið í sama hverfi og þið ólust upp í. Fyrir þau ykkar sem sjáið enn sömu grjótfúlu andlitin líða inn og út um illa lagða slyddujeppa. Fyrir þau ykkar sem standið vaktina.

Fyrir þau ykkar sem standið við sjoppuna í firðinum, með hamrandi tikkið í Essó-fánunum að baki ykkur, og öskrið orðin „Elín Helena” út í frussandi páskahretið.

Come on Eileen er fyrir ykkur.

Fílalag
Fílalag
Come on Eileen - Keltnesk krossfesting
/

Næturljóð – Gárur á tjörn tímans

Næturljóð – MA Kvartettinn

Fáni blaktir yfir Studebaker á Holtavörðuheiði. Prúðbúinn maður festir á sig skóhlífar í innbænum á Akureyri. Púrtvíni hellt í glas í reykfylltu bakherbergi á Sóleyrjargötu. Elfur tímans áfram rennur.

Þjóðin er fyrirburi í kassa. Hábeinn heppni finnur túskilding og býður öllum með sér inn í Gamla bíó. Fiskifluga suðar. Ilmandi hey í klakka. Útvarpsstjóri finnur til átta lakkplötur. Áfram hjartasárið brennur þó að héraðslæknirinn á Kópaskeri eigi meðal.

Fílalag
Fílalag
Næturljóð - Gárur á tjörn tímans
/

Hallelujah – Heilög gredda

Hallelujah – Ýmsir

Leonard Cohen var 49 ára þegar hann tók upp lagið Hallelujah fyrir plötu sína “Various Positions”. Plötunni var hafnað af bandaríska útgáfurisanum Sony, enda var hún í þyngri kantinum og flest lögin spiluð á casio-hljómborð. En á plötunni voru samt tvö af helstu lögum Lenna: Dance Me To the End of Love og hið sírísandi Hallelujah, sem er á góðri leið með að verða að vinsælasta lagi allra tíma.

Og hér er farið yfir stóru söguna. Hvernig Hallelujah Lenna sigldi hægt en örugglega á þann sem stað sem það er á í dag, en það hefur mikið að gera með þá staðreynd að Hallelujah er bæði spólgratt lag en líka heilagt, en það er tvenna sem nánast ómögulegt að sjósetja. En Lenna tókst það og er það ekki lítið þrekvirki.

Fílalag
Fílalag
Hallelujah - Heilög gredda
/

Sk8er Boi – Halló litli villikötturinn minn

Avril Lavigne – Sk8er Boi

Opnaðu ferska dós af tennisboltum (já, tennisboltar eru seldir í dósum og þær opnast með flipa eins og gosdósir og gefa frá sér “ttsss” hljóð). Dragðu djúpt andann og finndu ferskan ilm síðkapítalismans streyma ofan í dýpstu lungnarætur.

Farðu í Kringluna og rústaðu Kringlunni. Rústaðu líka kortinu þínu. Kauptu þig glaða, kauptu þig reiða, kauptu þig tjúllaða. Dressaðu þig upp í Converse All Star twisted hauskúpuhettupeysuheilablóðfall og leystu þig út með lími í Pennanum.

Áferð himinsins er kaþólskur skólabúningur með málningarslettum. Sjóndeildarhringurinn, verslunarmiðstöðvarbílastæðarampur. Verkefni þitt: gosselígoss.

Það er getnaðarvarnarpillu-pabbi-lemur-mig-aids-þáttur í sjónvarpinu um unglinga í gallajökkum á BMX hjólum með litla uppskjótanlega butterfly hnífa

Nuddaðu þér upp við Joe & the Juice tattú á upphandlegg lesblinds fucbois. Red Bull veitir vængi.

Fílalag
Fílalag
Sk8er Boi - Halló litli villikötturinn minn
/

We are Young – Fómó-framleiðsla

Fun. – We Are Young

Það er þversagnarkenndur vöndull undir nálinni. Poppsmellur sem fór í fyrsta sæti ameríska vinsældalistans, peppandi, ærandi og neysluhvetjandi Super-Bowl-auglýsinga teppalagning. En á sama tíma er lagið, We Are Young, dulbúið örvæntingarhróp heillar kynslóðar. Gallajakkaklæddrar kynslóðar sem var stungið í samband við ramen og látin framleiða fómó í boði Verizon.

Gefið þessu tíma, smá þolinmæði, það liggur mikið undir hérna. En ekki gleyma að fíla. Því ekkert smýgur jafn vel undir húðina eins og hárbeittur líkkistunagli, hamraður niður í boði Gatorade.

Fílalag
Fílalag
We are Young - Fómó-framleiðsla
/

Itchycoo Park – Að brenna sig á fegurðinni

Small Faces – Itchycoo Park

Hoppum og skoppum í gegnum blómagarðinn með litlar sólhlífar og gúrkusamlokur í maganum eins og í bók eftir Thackeray og veltumst um í grasinu og hlæjum og brennum okkur á brenninetlum og hellum mjólk á sárið og grátum með hjörtum okkar yfir fegurðinni og breytum sorginni í útvarpsbylgjur sem við vörpum yfir veröldina eins og fluginnrásarher í vísindaskáldsagnastyrjöld og föllum saman yfir hverfulleika augnabliksins og felum harminn í óralangri setningu sem minnir á ljóð eftir Birgi Svan Símonarson.

Andvörpum og göngum yfir brúna og ofan í kanínuholuna í gegnum dyr skynjunarinnar, etum, drekkum og verum glöð eins og tröll í barnabók sem myndskreytt er af Brian Pilkington. Drekkum sjötíu miniature-flöskur. Sturtum harminum í okkur á vængjum breskra loftleiða. Gleymið týpunum í Vesturbæjarlauginni, á Kaffibarnum. Troðið eyrnarpinna inn í sjötta skilningarvitið og hreinsið út. Hér eru mætt sjálf Spjöld sögunnar.

Fílalag
Fílalag
Itchycoo Park - Að brenna sig á fegurðinni
/

Útrásin í myrkrinu – Smells Like Teen Spirit

Gestófíll: Ilmur Kristjánsdóttir

Þeir frelsuðu unglinga á Vesturströnd Bandaríkjanna, þeir frelsuðu unglinga í Bangkok á Tælandi. Þeir frelsuðu unglinga í Austurbæ Reykjavíkur. Nirvana kom sá og sónikaði sig í gegn með sinni annarri plötu. Skiptir ekki máli hét hún í lauslegri þýðingu og þar með var tónn níunnar sleginn og hann var sleginn fast. Whatever. Nevermind. Með kærleika og lífsleiða. Ykkar Kurt. Ykkar Kurt með hvolpaaugun. Ykkar Kurt með kremhvítt hjarta.

Gleðin kemur úr maganum. Hryggðin kemur úr gallinu. Krafturinn kemur úr þjóhnöppunum. Fílunin er líkamans. Fimm núll ein mínúta af frelsun. Fimm núll einn hjúpur á skönkum. Converse All-Star undir yl. Flannel-svitalykt. Jón Ásgeir á lyftaranum. Pizza 67. 27 Club straight to Nirvana.

Takk fyrir bylgjurnar, þá og nú. Slökkvum ljósin og hossumst. Fyrir frelsun magans, fyrir frelsun manns-magans. kv. Þín kynslóð.

Fílalag
Fílalag
Útrásin í myrkrinu - Smells Like Teen Spirit
/

Harðsnúna Hanna – Hámark norpsins

Ðe lónlí blú bojs – Harðsnúna Hanna

Steypustyrktarjárn. 24 metrar á sekúndu. Tikk í fánastöngum. Þrefaldur vodki í kók. Vanlíðan. Æsingur. Spenna. Æring.

Bældar tilfinningar. Gráar minningar. Mótlæti, skaðræði, flótti, norp, örvænting, stuð.

Skyggð sjóngleraugu. Drápuhlíðargrjót. Hass. Gangstéttarhella. Volkswagen bjalla. Snókerkjuði. Slímugt þang í fjöru, grár vikur í holti. Svarthvít veröld, blóðmörsskán og strætó.

Nýbýlavegur. Eftirpartí. Múrskeið.

Fílalag
Fílalag
Harðsnúna Hanna - Hámark norpsins
/

I Feel Love – Eimuð ást

Donna Summer – I Feel Love

Alþjóðlegt teymi. Bandarísk söngkona, Týróli, Breti, Þjóðverji að sjá um snúrurnar og Íslendingur á kantinum. Saman skópu þau dansmúsíkina og allt fór þetta fram í München í Þýskalandi í sinnepsgulri sjöu.

Nú er frumdanstónlistarsleggjan I Feel Love með Donnu Summer tekin fyrir og er hér um að ræða stóra vörðu í dægurmenningunni. I Feel Love er ekki lag fyrir ameríska maísbændur. I Feel Love var svo framúrstefnulegt þegar það kom út árið 1977 að við erum eiginlega ekki enn búinn að ná því. En fíla það við getum.

Fílalag
Fílalag
I Feel Love - Eimuð ást
/

Fourth Rendez-Vous – Til stjarnanna

Jean-Michel Jarre – Quatrième Rendez-vous

Belgískur milljónamæringur stígur um borð í einkaþotu. Kona með áhyggjufulla rödd segir frá siðferðislegum álitamálum í tengslum við loðdýrarækt. Gufan merlast úr viðtækjunum og blandast gufunni úr pottinum þar sem ýsan sýður. Velkomin að speglinum.

Jörðin hlýnar. Rafbylgjur flæða. Fólk í þungum þönkum leggst í bastrólu. Hlutabréf hækka. Kvartbuxur í bústaðnum. PHEV-bíll keyptur á vistvænum lánum. Í kvöld er prógram frá NRK um sjálfbærni.

Einu sinni voru heimarnir þrír. Fyrsti heimurinn. Þróuðu ríkin, lýðræðisríkin. Annar heimurinn. Kommúnistarnir, einræðisríkin. Og þriðji heimurinn. Restin. Valinn síðastur í leikfimi. En svo var bitið í Big Macinn og sagt: lítið til stjarnanna.

Fimmta lýðveldið. Fjórða stefnumótið. Fyrsti kossinn. Ég kyssti föla vanga móður jarðar áður en ég lagði hana í gröfina.

Fílalag
Fílalag
Fourth Rendez-Vous - Til stjarnanna
/

Blister in the Sun – Graftarkýlið sem sprakk út

Violent Femmes – Blister in the Sun

Fyrsta lag á fyrstu plötu hljómsveitarinnar Violent Femmes er þeirra stærsta lag. Það heitir Blister in the Sun og söngvarinn, Gordon Gano, var aðeins átján ára þegar það var tekið upp – en hann hafði víst samið lagið mun fyrr. Lagið er því óður til unglingagreddu og óöryggis, það er stemningsstomper sem sem hefur hægt og rólega breyst í bjórkvölda-hópeflis-standard.

Fílalag
Fílalag
Blister in the Sun - Graftarkýlið sem sprakk út
/

Da Funk – Skothelt, skyggt gler

Daft Punk – Da Funk

Endurtekningin. Lífsleiðinn. Gljáinn. Feimnin, friggðin, nostalgían. Jökullinn hopar. Evrópa ropar. Sykurpúðar, stúdíólúðar, Christian Dior blússur liggja eins og hráviði fyrir framan kennslustofuna þar sem enfant terrible úr stúdentaóeirðunum ’68 ætlar að kenna þér kynferðislega geómatríu.

Daft Punk eru kontrapunktur kapítalismans. Endurvinnslustöð og endastöð. Allir fíla.

Fílalag
Fílalag
Da Funk - Skothelt, skyggt gler
/

White Rabbit – Nærðu huga þinn

Jefferson Airplane – White Rabbit

San Francisco 1967. Reipi undir smásjánni. Rannsóknarlögreglumenn frá FBI með hlerunarbúnað í hvítum sendiferðarbílum. Drullugir hippar. Satan stutt frá.

Maður í skyrtu með víðum 19. aldar ermum siglir niður Thames, sér sefið, sér froskana, lirfurnar. Hann gleypir flugu.

Nett tign í sírisi. Frændi Charlie Chaplin loðnari en fjallagórilla. Fimm hundruð þúsund krakkar með opna huga. Þyrlur sveimandi.

Þetta gerðist allt. Nærðu huga þinn og steinfílaðu.

Fílalag
Fílalag
White Rabbit - Nærðu huga þinn
/

Feel – Svarthvítt bað

Feel – Robbie Williams

Bootcut gallabuxur. Sperrt mjóbak. Diesel auglýsing. Stóðhestur kældur í baði.
Robbie Williams var ungur þegar hann mætti með augabrýrnar sínar og þrátt fyrir mikla kókanínneyslu og allskonar ólifnað, þá er hann ennþá jafn sperrtur og ný upptrekktur gormur.
Hér er farið yfir allt það helsta. Manchester heimspekina, hestagredduna og keisaradæmi bjórglasabotnsins. Robbie Williams er nefnilega margt. Hann er sjálfsmynd hins venjulega Dana, vonarneisti karaókí-söngvarans, samviska okkar flestra. En svo er hann líka bara maður sem mætti þunnur í stúdíó og var í fíling. Og nú er feelið hans Robbie fílað sem aldrei fyrr.

Fílalag
Fílalag
Feel - Svarthvítt bað
/

Jólin alls staðar – Geimvera krufin í kjallara Búnaðarbankans í Austurstræti

Ellý Vilhjálms og Vilhjálmur Vilhjálmsson – Jólin alls staðar

Okkar fallegasta jólalag er tekið fyrir í dag. Það voru hjónin Jóhanna G. Erlingsson og Jón „Bassi” Sigurðsson sem eru höfundar hins eilífa og unaðslega verks Jólin alls staðar, en verkið var sungið af systkinunum Ellý og Villa Vill á jólaplötu þeirra sem gefin var út af SG hljómplötum 1971. Allt við þetta er kærleiksríkt, fallegt, íslenskt og eilíft.

Árið er 1971. Bartarnir krauma. Neonið í Bankastræti brennur. Þétt en þunn fituskán af lifrapylsu liggur yfir tilverunni. Í útvarpinu heyrist þögn.

Jólin. Alls staðar.

Fílalag
Fílalag
Jólin alls staðar - Geimvera krufin í kjallara Búnaðarbankans í Austurstræti
/

Euphoria – Bugles, Dópamín, kerúbíni þenur lúður

Loreen – Euphoria

Þríhöfða vöðvatröll stígur niður úr leikmyndageimskipi .Glussahljóð fyllir skálar eyrna. Fasteignasali í Reykjavík kaupir ljótan jakka í Sautján. Buglesi er sturtað í skálar í húsi í Kórahverfinu. Evrópa, ertu vakandi, Evrópa, sefur þú?

Gervisnjókornavél er flutt með FedEx sendibíl. Bílstjórinn hlustar á fréttastúf um kjaraviðræður. Himnar opnast og sól lemur sig niður í stöfum. Áætlun KLM flugfélagsins er 100%. Við Miðjarðarhaf snýr kona sér við á sólbekk. Í höfninni í Ódessu eru þotulúðrar þeyttir. Evrópa, sefur þú?

Pleður. Sokkur í klofi. Söngur fuglanna í trjánum. Orka vorsins. Maníugul geðdeildarorka vorsins. Hvítir mittisjakkar. Helmut Kohl slær badminton-flugu í flöktandi birtu. Heitur koss í köldum undirgöngum. Blossi næturinnar, blikið við enda hafsins, þögnin, alsælan, Evrópa að eilífu.

Fílalag
Fílalag
Euphoria - Bugles, Dópamín, kerúbíni þenur lúður
/

Stand By Me – Konungleg upplifun

Ben E. King – Stand By Me

Viltu vera konungur, en finnst of mikið vesen að gera uppreisn og drepa gamla kónginn? Viltu vera konungur en veist ekkert um pólitík eða hernað og hreinlega nennir ekki að klæða þig í purpurarauða skikkju og setja upp kórónu? Það er allt í lagi. Því þú getur orðið konungur með því að gera eftirfarandi:

Borðaðu uppáhalds matinn þinn og Royal búðing í eftirrétt. Sestu í hægindastól inn í stofu heima hjá þér og fáðu kött upp í til þín. Vertu í þægilegum inniskóm. Settu teppi yfir fætur þínar. Settu svo á þig venjuleg yfir-eyru-snúru heyrnartól. Ekkert bluetooth rugl eða sound-cancellation kjaftæði. Bara klassísk stofuheyrnartól sem hylja eyrun.

Settu svo Stand By Me á fóninn og konungsríkið er þitt.

Fílalag
Fílalag
Stand By Me - Konungleg upplifun
/

Kinky Afro – Þriggja daga lykt

Happy Mondays – Kinky Afro

Brútalismi. Gráir veggir. Steinsteypa. Rigning. Vond hárgreiðsla. Bryðjandi kjálkar. Vond nærvera. Sveittar nasir.

Engin markmið. Engar vonir. Engin reisn. Engin niðurstaða. Ekkert í gangi.

Nema ALLT.

Happy Mondays er skilgreiningin á losta. Skaðræði. Fryst hjörtu í leit að blossa.

Fílalag
Fílalag
Kinky Afro - Þriggja daga lykt
/

Don’t Get Me Wrong – Hindin heilaga

The Pretenders – Don’t Get Me Wrong

Chrissie Hynde, söngvari, gítarleikari og lagahöfundur hljómsveitarinnar Pretenders hafði marga fjöruna sopið þegar hún söng lagið “Don’t Get Me Wrong” árið 1986. Þessi ameríska söngkona flutti ung til Bretlands og drakk í sig pönksenuna og stofnaði þar band sitt, sem átti eftir að verða geysivinsælt bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum áður en tveir meðlimir þess létust með skömmu millibili eftir ofneyslu eiturlyfja.

En Hynde hélt áfram og átti eftir að raða inn fleiri hitturum. Meðal annars laginu sem er fílað í dag. Um er að ræða síðnýbylgjuneglu í hestamannamóts-takti með valdeflandi texta sem ærir fólk enn þann dag í dag hvort sem það er að hlusta á Útvarp Suðurland eða eitthvað annað.

Fílalag
Fílalag
Don’t Get Me Wrong - Hindin heilaga
/

Sister Golden Hair – Filter Última

America – Sister Golden Hair

Sjöan. Hraun. Teppi. Sértrúarsöfnuðir. Fyrstu bylgju hugbúnaðarfrumkvöðlar. Gyllta hárið. Heisið. Loftið. Þyngslin. Gula geðrofið. Buxna-bulge.

Kjallarinn í botlanganum. Þurrt hár. Þurr kynging. Klístraðir lófar. Panilklæddir veggir, panilklæddir bílar, panilklædd samviska þjóðar.

Beltissylgja spennt. Nál stillt. Fótur á pedal. Skyggð gleraugu á grímu. Gullslegin tálsýn í farþegasætinu. Er hún til eða er hún rúnkminnisplakat við höfðagaflinn? Það er partí í botlanganum og þú flýtur niður ristilinn, niður Ho Chi Minh fljótið, niður í trekt síðsíkadelíunnar þar sem þú ert gripinn af þægilegri pepsí-auglýsingu.

Allt er gult. Allt er djúp-, brún- vaselínmóðað af gulsku, af gæsku og illsku. Systir! Fæ ég að heyra það einu sinni? Systir, fæ ég að heyra það tvisvar?

Systir. Gullslegið. Hár.

Þetta var draumur og 360 milljónir dreyma hann allan daginn, alla daga og það er þægilegt og það er ægilegt.

Fílalag
Fílalag
Sister Golden Hair - Filter Última
/

The Best – Það allra besta

Tina Turner – The Best

Ein stærsta saga veraldar. Anna Mae Bullock, fædd í Tennessee 1939. Sú orkuríkasta, sú gæfasta, sú stóra. Tina Turner. Sú sem snéri öllu á hvolf. Tók bresku rokk yrðlinganna og sýndi þeim hvar Davíð keypti mánaskeindan landann. Sýndi öllum hvað það er að lifa af. Sýndi öllum heiminum hvað það er að vera sigurvegari.

Hagræðipungar. Hvar sem þið eruð í veröldinni. Í timburþiljuðum LSE ráðstefnusölum, í glerklæddu Borgartúninu. Hvar sem þið gosepelið um bestun. Tina kláraði dæmið. Sú kraftmikla sagði síðasta orðið. Þið eruð best. Þú ert best. Takið þessa línu og gerið hvað sem þið viljið við hana. Þetta eru lokaorð frá Zürich. Lokaorð frá Ameríku.

Takk þið sem fylgdust með lifandi fílun frá Ásvallagötu. Þið eruð best!

Fílalag
Fílalag
The Best - Það allra besta
/

Vanishing act – Við skolt meistarans

Fílabeinskistan – FílalagGull™

Lou Reed – Vanishing Act

Lou Reed syngur svo nálægt hljóðnemanum í þessu lagi að maður finnur leðurkeimaða andremmuna. Og maður fílar það. Það er eins og að vera staddur við skolt meistarans að hlýða á það undravirki sem lagið Vanishing Act er.

Um er að ræða Rás 1 gúmmelaði fyrir lengra komna. Lag af plötunni “The Raven” frá 2003. Rúmlega sextugur Reed, pirraður, þungur en smekklegur. Lokalag allra lokalaga. Lag um það að kveðja.

Lou Reed var þekktur fyrir að gefa hann þurrann. Allt frá sílfrandi lampasturtum Velvet Underground til dempaðs trommusándsins í seventís sólódótinu. Lou Reed var brak-meistarinn. Leðurjakki, kamel og kaffi. Og auðvitað endaði hann á einu brakandi þurru.

En tárin eru vot.

Fílalag gramsaði djúpt í fílabeinskistuna eftir þessari 2015 skyldufílun.

Fílið.

Fílalag
Fílalag
Vanishing act - Við skolt meistarans
/

Fuzzy – Fjúkandi pulsubréf

Grant Lee Buffalo – Fuzzy

Klæðið ykkur í gallajakka og leðurjakka og rörsjúgið stóra kók á aftasta bekk í Stjörnubíó þar til hryglir í pappamálinu. Setjið hnausþykkt brúnt seðlaveskið í rassvasann og gelið hárið. Skvettið Calvin Klein ilmvatni á hrjúft spjaldið. Spennið á ykkur mótorhjólaklossana. Dragið djúpt andann. Árið er 1993. Það er fuzzari.

Hér er farið yfir þetta allt. Vitabarsborgarana, Something-sólóið í Gítarnum fyrir neðan LA-kaffi. Skaðræðið, baugana og hin fjúkandi pulsubrauð. Það er bullandi eftirpartí á Njálsgötunni og ljóðræn eftirsjásnegla í græjunum. Blár Daihatsu Charade fyrir utan með brúnan hassmola í hanskahólfinu. Öllum líður illa, allt er snilld.

Úr múrsteinslögðu bandarísku vöruhúsi. Inn í veröld hinna fjúkandi pulsubréfa. Hér er það. Loðið sem aldrei fyrr.

Fílalag
Fílalag
Fuzzy - Fjúkandi pulsubréf
/

The Age of Aquarius – Kapítalisminn og draumar hippakynslóðarinnar að r##a inn í kústaskáp

The 5th Dimension – The Age of Aquarius

Unglingar með reykelsi. Tónaðir Broadway leikarar í útpældum fatahenglum. Veröld að fara af hjörunum. Hér er um að ræða kapítalismann og drauma hippakynslóðarinnar saman inn í kústaskáp að búa til beikon. Engu er til sparað í þessari tungllendingar-neglu sem þrumaði sér inn á topp Billboard listans sumarið ’69. Hér fer saman blómabúða-fnykurinn við ískalda pillugræðgi. Þetta lag er bæði loðið um lófana og í handarkrikunum. Leikið þér eigi að lavalampanum. Velkomin í fimmtu víddina. Upp er runnin Öld Vatnsberans.

Fílalag
Fílalag
The Age of Aquarius - Kapítalisminn og draumar hippakynslóðarinnar að r##a inn í kústaskáp
/

Theme from New York, New York – Með 20. öldina út á kinn

Frank Sinatra – Theme from New York, New York

Bláskjár. Frank Sinatra. Níu hundruð þúsund sígarettur. Tvö hundruð og átta tíu þúsund martíní-glös. T-steikur, broads, kertaljós. Röddin í útvarpinu, axlirnar á sviðinu, augun á umslaginu.

Francis Albert. Jarðaður með foreldrum sínum. Kistan úttroðin af stemningsvarningi. Slökkt á Las Vegas. Empire State byggingin lýst bláu ljósi. Þar fór þrútnun aldarinnar ofan í box.

Hátindurinn? Böllin á Broadway (ekki í Ármúla), yfirlið unglingsstúlknanna sem höfðu beðið alla nóttina að komast inn. Óskarsverðlaunin fyrir bestan leik 1954. Forsetavígsluball Kennedy 1961. Sundlaugabakkasnilldin. Völdin, peningarnir, áhrifin, glamúrinn. Eða var hápunkturinn bara að drepast í stól með viskíglas á hverju kvöldi. Lognast útaf úr ofgnótt. Hverfa inn í augu engilsins.

Ronní, Bógí, Crosbý. Silki dregið eftir þófmjúku handarbaki. Mal kadilakks í þykkninu. Sálin tindrandi en holdið jafn dautt og kartöflusalat á afgangadiski á dæner um niðdimma nótt. Eða var það öfugt?

Gamli Bláskjár. Klikkaður maður með hatt í vitstola veröld, kamelsjúgandi, sálarkljúfandi manneskja í myrkrinu. Pírir augun og hverfur okkur sjónum, með 20. öldina löðrandi út á kinn.

Fílalag
Fílalag
Theme from New York, New York - Með 20. öldina út á kinn