Skriðþunginn í skálinni – Bítlarnir – Dizzy Miss Lizzy, lifandi í Hollywood Bowl 1965

Bítlarnir eru að mörgu leyti þægilegt viðfangsefni. Þeir voru fjórir og þeir voru þvengmjóir. Þrátt fyrir alla sköpunargáfuna og dýptina þá eru Bítlarnir konsept sem er nokkuð þægilegt að setja í einn harðan pakka. Framkvæmdatímabil Bítlana afmarkast af sléttum tölum. Þeir störfuðu á árunum 1960-1970. Þetta var orkupakki sex, og hann situr naglfastur undir jólatré 20. aldarinnar sem ein fegursta gjöf sem mannkynið hefur fengið.

Ýmsir fræðingar hafa svo verið duglegir við að búta sögu Bítlana niður í ýmis tímabil. Það var leðurtímabilið. Það var LSD-tímabilið. Það var Indlands-tímabilið og svo má endalaust deila um hvenær einu tímabili lauk og annað tók við. En það sem er óþarfi að deila um er að þessi tíu ára pakki var hálfnaður árið 1965. Þá áttu þeir jafn mikið að baki eins og þeir áttu framundan. Og nú skulum við fara að tala hreina eðlisfræði:

Skriðþungi er mælikvarði á tregðu hlutar á hreyfingu við breytingar á hraða. Árið 1965 eru Bítlarnir á það mikilli hreyfingu sem afl í heiminum að þeirra innri skriðþungi ýtir frá hvers konar tregðu. Ef maður hugsar til þess þá er 65-70 tímabil Bítlanna í raun uppfullt af áföllum og tregðu: dauði Epsteins, Jésú-hneykslið, handtökur, rifrildi, eiturlyfjanotkun og að lokum málaferli og gríðarlegt mótlæti. En skriðþunginn er einfaldlega það mikill að áföllin breytast í epíska list. En við hvert áfall dregur samt örlítið úr skriðþunganum sbr. þá augljósu staðreynd að Bítla-sleðinn nam loks staðar árið 1970.

Af þessari eðlisfræði má draga þá ályktun að burtséð hvað fólki kann að þykja um gæði, þá er skriðþungi Bítlanna mestur um mitt ár 1965. Og það var einmitt í ágúst mánuði það ár sem skálaklipptu lifrarpylsurnar frá Mersey-ánni stigu á svið í sjálfri Skálinni, Hollywood-Bowl, og fluttu prógram sitt fyrir sautján þúsund skálaklippt amerísk ungmenni. Og þar gerðist það undir Hollywood-himninum, í miðjum flutningi á laginu Dizzy Miss Lizzy, sem var einhverstaðar í miðju prógraminu, að Bítlarnir öðluðust sinn peak-skriðþunga. Það gerðist nánar tiltekið í miðju laginu þegar John Lennon öskrar línuna: “Come on, give me fever!” Og peak-skriðþungi Bítlanna felur í sér margt og meira en það. Peak-skriðþungi Bítlanna er líka peak-skriðþungi rokks og róls, peak-skriðþungi bjartsýni, ungæðis, fryggðar og dyggðar.

Skriðþungi er einnig þekktur undir öðru nafni á íslensku og það er hreyfimagn og það er mjög viðeigandi hugtak þegar hlustað er á Bítlana í lifandi flutningi frá þessum tíma. Í Bítlunum er orka sem hefur bæði möguleikann á að hreyfa og möguleikann á að hreyfa miklu magni. Að fíla ekki Dizzy Miss Lizzy í flutningi Bítlana árið 1965 er því nánast eðlisfræðilega óhugsandi. Þessi fílun sem fram fer í dag er því ekki bara skyldufílun heldur eðlisfræðileg niðurstaða.

Fílalag
Fílalag
Skriðþunginn í skálinni - Bítlarnir - Dizzy Miss Lizzy, lifandi í Hollywood Bowl 1965
/

Strönd og stuð! – Good Vibrations

Rafbylgjur smjúga í gegnum þunna gifsveggi. Brunabíll keyrir í útkall. Í höfuðkúpu er haldin veisla. Húlahringir orbita áreynslulaust.

Pabbi skammar. Stanislav nágranni er sendur í raflostameðferð. Sólin hamrar geislum sínum á stillt hafið. Segulband flækist. Ljósálfur liggur á blakbolta. Stendur svo upp og stígur dans, á ströndinni, í takt við rafbylgjur.

Þessi fílun fór fram live í Borgarleikhúsinu 23. apríl 2022.

Fílalag
Fílalag
Strönd og stuð! - Good Vibrations
/

Goodbye Yellow Brick Road – Hinn sinnepsguli vegur (Live í Borgó)

Elton John – Goodbye Yellow Brick Road

Árið er 1973. Kynóðir Jesúsar safna krökkum upp í Volkswagen rúgbrauð og keyra til fjalla. Djúpgul skotveiðisólgleraugu seljast eins og heitar lummur. Bólufreðnir síðhippar gæða sér á Tex Mex meðan hár vex. Veröldin varð vitstola 1969 en þarna fjórum árum síðar hefur skollið á með heiðgulu rofi. Og inn í það syngur Kelti með örþunna filmu yfir sálinni og músíkina í bjarnarhrömmunum. Inn í þetta ástand syngur Kelti dýrasta sálm sjöunnar: Goodbye Yellow Brick Road.

Fílun dagsins var tekin upp “live” í Borgarleikhúsinu og er því einstaklega löng og lífleg. Rætt var um ýmis myndbönd í fíluninni og eru hlekkir á þau hér. Áratugamyndir af Tona gamla má svo einnig finna hér fyrir neðan. Góða skemmtun.

Toni í strandafíling 16. ágúst 2021. Heilsteiktir fiskar og DJ-æring.

Toni svo aðframkomin af firringu að hann nær að láta Imagine hljóma ósympatískt.

Toni going “full Donald”

Toni Live á Dodgers Stadium 75. Bernie Taupin að sötra coors úr 70s dós á hlýrabol.

Upptökur á Yellow Brick Road í Frakklandi ’73. Deep sjöu kúl.

Toni og Goggi að mæta í jarðaförina hjá Díönu. Westminster Abbey. Full on Denna Dæmalausa lúkkið. Rautt hairpiece og frekjuskarð.

Fílalag
Fílalag
Goodbye Yellow Brick Road - Hinn sinnepsguli vegur (Live í Borgó)
/

Wannabe – Kryds-ild

Fyrsta plata Spice Girls hét Spice og hún var nákvæmlega það: krydd. Og ekkert venjulegt krydd heldur napalm-karrí-lyftiduft. Kryddpíurnar sprengdu upp veröldina, og eins og allar alvöru sprengjur, þá gerðust hlutirnir hratt og átökin voru mikil. En það sem stóð eftir voru þó falleg skilaboð um mátt tónlistar, gildi vináttu og mátt stúlkna og kvenna – og hafa þessi grunn skilaboð bara skerpts og eflst með tímanum.

Kryddpíurnar voru sannarlega í eldlínu níunnar, þar sem tókust á hugmyndir um hver er “wannabe”, hversu margar dúkkur af þér máttu selja áður en þú verður feik og sellát og hversu langt má ganga í að setja breska samveldisfánann á alla skapaða hluti án þess að það verði beinlínis þjóðernisrembinur? Kryddpíurnar voru í miðjum þessum átökum, og var tilvera þeirra meira og minna sigling í gegnum kúlnahríð.

Spice Girls voru líka ekkert venjulegt band. Og til að gefa hlutunum smá samhengi má benda á að Spice Girls eru eitt af örfáum hljómsveitum þar sem fólk þekkir alla meðlimina með nafni. Þá eru þær líka eitt af örfáum hljómsveitum sem hafa fengið íslenskt nafn sem hefur náð að loða við þær: Kryddpíurnar. Það er eitthvað bítlískt við stærðargráðuna á því.

Það er því margt til að fara yfir í fílun dagsins. Við sögu koma rasskinnar Karls Bretaprins og Margrét Thatcher. Hlustið og fílið.

Fílalag
Fílalag
Wannabe - Kryds-ild
/

Have You Ever Seen The Rain? – Full ákefð

Creedence Clearwater Revival – Have You Ever Seen The Rain?

Saga Creedence Clearwater Revival er best tekin saman með einu orði: ákefð. Hljómsveitin starfaði aðeins í örfá ár en gaf út sjö stórar plötur, ferðaðist um heiminn, tók Ed Sullivan mulninginn og Woodstock mulninginn og allt þar á milli. Og svo nánast eins skyndilega og þetta hófst þá var það búið. Bensíngjöfin var í botni allan tímann og lög hljómsveitarinnar bera þess merki, þau eru öll intensíf frá fyrstu til síðustu sekúndu – engin uppbygging eða dútleri heldur bara 100% framleiðsla allan tímann. Að hlusta á CCR er svipað eins og að fara á veitingastað og það er byrjað að bera fram sjóðandi heitar pönnur með sizzling enchiladas-gúmmelaði og stjörnuljósi ofan á áður en þú ert almennilega sestur við borðið. Og svo halda réttirnir áfram að koma. CCR er sindrandi enchiladas-færiband.

Og í raun kristallast þessi hugmynd enn frekar í rödd söngvarans og lagahöfundarins John Fogerty. Umræddur maður er ekkert endilega mikið fyrir mann að sjá, býsna venjulegur í útliti, jafnvel lítilfjörlegur. Ef maður ætti að dæma manninn af útlitinu einu þá mætti halda að þetta væri maður sem væri með svona 2,5 af 10 í ákefð. En ekkert gæti verið fjær sannleikanum. John Fogerty er með eina stillingu og hún er 10/10 í ákefð, allan tímann, og þannig var þetta keyrt út í gegnum allan líftíma CCR. Og vegna þess að Fogerty er 100% trylltur allan tímann í söng sínum, þá er ekkert svigrúm fyrir blæbrigði. Hann verður því að vinna með það skrítna upplegg að setja allar tilfinningar í rödd sína í einu. Ef lag á að túlka bæði sorg og gleði, þá er ekki einn kafli soldið sorglegur og annar glaður, heldur er Fogerty bæði sorgmæddur og glaður allan tímann. Og hvernig er það hægt? Það veit það enginn, það er galdur, en það var svo sannarlega gert og fullkomnað í laginu Have You Ever Seen the Rain – sem fram á þennan dag er óskiljanlegt lag. Fólk veit ekki hvort að lagið fjallar um gleði eða sorg, það er einhvernveginn um bæði gleði og sorg á sama tíma, með fullri ákefð á báðum tilfinningum, eins og kraumandi salsa-sósa sem er grýtt framan í þig á veitingastað djúpt inn í Ameríku.

Fílalag
Fílalag
Have You Ever Seen The Rain? - Full ákefð
/

Gentle On My Mind – Lagið sem allir fíluðu

John Hartford og ýmsir – Gentle on My Mind

Setjið á ykkur svunturnar. Á hlaðborðinu eru Glen Campbell, Aretha Franklin, Frank Sinatra, Elvis Presley og Dean Martin. Þau eiga það öll sameiginlegt að hafa flutt og maukfílað lagið Gentle on My Mind eftir ameríska blue-grass tónlistarmanninn John Hartford, og það gerið þið einnig.

Gentle on My Mind er cinamatískt og þéttofið meistarastykki – vöndull myndríkra hugsana sem flýtur eftir straumnum eins og fljótabátur úr sögu eftir Mark Twain. Svo mikil músík, svo mikið víðfeðmi.

Fílalag
Fílalag
Gentle On My Mind - Lagið sem allir fíluðu
/

Over & Over – Sans Serif

Hot Chip – Over and Over

Það er komið að tilgangslausu trúttilúllus skaðræði í formi duracell airwaves hjakks. Nú skal djammað fast og post mortem framkvæmt á post modern.

Öld grafíska hönnuðarins. Eftirpartí á ellefunni. Þriggja pipara Ban Thai réttum sturtað yfir nóvember-kvíðann. Þröngar buxur, 8 GB RAM, heimildamynd um erfðabreytt matvæli. Staffadjamm. Ofnskúffan hennar ömmu.

Yfirspennu-ale. Helvetica. Górilla í jakkafötum klæðir sig í górillubúning. Það er komið að tilgangslausu trúttilúllus skaðræði í formi duracell airwaves hjakks. Aftur og aftur.

Fílalag
Fílalag
Over & Over - Sans Serif
/

Let’s Spend the Night Together – Brokkið ykkur

Rolling Stones – Let’s Spend the Night Together

Farið inn í föðurhúsin, undir loðfeldinn, inn í merginn, inn í kjarnsýruna og marinerið ykkur þar til Stephen Hawking segir Bó að segja gó á Big Bang. Náðuð þið þessu. Ekki. Tökum þetta aftur. Farið inn í föðurhúsin, undir loðfeldinn, inn í merginn, inn í kjarnsýruna og marinerið ykkur þar til Stephen Hawking segir Bó að segja gó á Big Bang.

Það er búið að loka Búrfellsvirkjun. Charlie Watts er allur. En tvennt fyllir hugann sama hversu oft það er framreitt Stjörnuhimininn ofan okkur og siðferðislögmálið hið innra, eins og segir á legsteini Kant. Farið inn í föðurhúsin, undir loðfeldinn, inn í merginn, inn í kjarnsýruna og marinerið ykkur þar til Stephen Hawking segir Bó að segja gó á Big Bang. En umfram allt: Brokkið ykkur!

Fílalag
Fílalag
Let's Spend the Night Together - Brokkið ykkur
/

It Ain’t Over ‘Til It’s Over – Make-Up-Sex Möxun

Lenny Kravitz – It Ain’t Over ‘Til It’s Over

Snjáð gallabuxnaefni. Nefhringur. Skartgripir. Búdda-líkneski. Lág fituprósenta. Fender Rhodes. Haltu-mér-slepptu-mér-orka. Steinaldarmataræði. Innlit útlit í Amazon. Ríðum saman út í sólarlagið með John Wayne einu sinni enn. Einu sinni enn. Einu sinni enn.

Kaffibarþjóna-augnaráðið. Vifta í húsgagnalausu herbergi. Engissprettur á túni. Naflahringir, sportrendur, blesönd á sundi, longboard-reið við Feneyjaströnd. Allir út á dekk, látum loftbori merja jörðina undan okkur með phallus táknum úr auglýsingasálfræði 103. Ríðum saman á kynbættum hesti, undir gúmmítrjánum, með mangó í maga. Einu sinni enn. Einu sinni enn.

Fílalag
Fílalag
It Ain't Over 'Til It's Over - Make-Up-Sex Möxun
/

The Logical Song – Saðsamasti morgunverður allra tíma

The Logical Song bresku hljómsveitarinnar Supertramp frá 1979 er svo rökrétt að það nær ekki nokkurri átt. Samið af þunnum Bretum í hljómsveitabolum, tekið upp í fyrsta flokks hljóðveri í Bandaríkjunum, loftþéttur popppakki fyrir alla framtíð. Létt heimspekilegur texti með tímalausum hugleiðingum, Abbey Road hljómandi gítarar, wurlitzer hljómborðslínur og möfflaðar sjöu-trommur.

The Logical Song er dæmi um homo sapiens að skapa eitthvað tímalaust með öllum stimplum vélar sinnar. Og viljir þú áfyllingu á saðsamasta morgunverð allra tíma, þá er hún vissulega í boði. Við skulum ekki gleyma að árið 2001 kom Scooter og súper trampstampaði þessa neglu inn á heilabörk heimsins.

Fílalag
Fílalag
The Logical Song - Saðsamasti morgunverður allra tíma
/

Foolish Games – Djásnið í djúpinu

Jewel – Foolish Games

Það er mikið af rusli í heiminum. KFC-umbúðir á sófaborði, ljótar byggingar í illa skipulögðum borgum sem öllum er sama um, kusk á hillu, milljónir laga sem er tímasóun að hlusta á. Í raun er heimurinn bara einn stór ruslahaugur. Saga okkar líka. Flestar minningar, flest orð sem hafa verið sögð, þetta er bara rusl og suð sem skiptir engu máli. Maður verður að líta á það þannig: Að öðrum kosti verður maður bara ruglaður.

En svo eru gersemar í ruslinu. Jewel er ein þeirra. Gersemi í þeim risastóra ruslabing sem amerísk fjöldamenning er. Hún fæddist í Utah, ólst upp í Alaska og var síðar heimilislaus í San Diego. En þá skrifaði hún undir plötusamning og varð fræg. En þá fyrst er hætta á að breytast í rusl. En Jewel gerði það ekki, því hún er ein af þessum manneskjum, þessum örfáu sem eru öðruvísi, öruggari, sterkari. Það gerist endrum og eins og það er alltaf jafn mikill galdur.

Fílalag
Fílalag
Foolish Games - Djásnið í djúpinu
/

Fílalag – Wild Thing (2.0) – Þáttur frá 2014

Fílalag er í hýði eins og flestir aðrir landsmenn. Því gripum við til þess að gramsa í gullkistunni og draga fram í dagsljósið eina af fyrstu fílunum sem kuklaðar voru enda ekki að undrast því lagið er algjör frumeðlustomper: Wild Thing. Takk fyrir.

Við látum ekki eina útgáfu duga heldur kjömsum á þrem útgáfum; orginallinn, Troggsarinn og Jimi-inn. Takk fyrir.

Þátturinn kom upprunalega út 16. maí 2014. Takk fyrir.

Fílalag
Fílalag
Fílalag - Wild Thing (2.0) - Þáttur frá 2014
/

Nessun Dorma – Hetja sigrar

Milljónir manna, milljónir sagna, tjöld máluð í litbrigðum jarðarinnar, sól á himni, hveiti á akri. Og stígvélið sparkar í knöttinn á miðjarðarhafi sagna, valda, átaka og ástríðna. Ítalía. Legíónur Sesars, drottnarar veraldar á tímum biblíusagna, meitlaðir hermenn og mömmustrákar olíu og hveitis. Verdi, Puccini, pússuð stígvél og strimlaskegg. Sigur, deiling, drottnun. La Scala á öðrum skala en Aðalstræti 10. La Scala á öðrum skala en kornhlöður þessarar veraldar. La Scala, kornhlaða mannsandans, hin eina sanni, stóri umvefjandi gimsteinn alls mannslegs skala. La Scala og Viceroy fliss Hemma Gunn. Það er kalkúnn í matinn, það er reyktur svínabógur í matinn, það eru sólþurrkaðar ansjósur bornar fram í sundlaugum 500 fermetra Stigahlíða-halla. Það eru beinar útsetningar, það eru föll járntjalda, það er fall fasisma og upprisa rómantíkur á nýjum skala. Gervihnettir svífa um á sporbaugum sínum og senda hrafntinnusvartar augabrúnir í kvarz-steinuð hús þessarar veraldar. Tjöldin eru máluð, á himni sindra stjörnur, þar til dagur rís, þar til dagur rís og hetjan sigrar. Í milljónasta sinn, ávallt á nýjum skala.

Fílalag
Fílalag
Nessun Dorma - Hetja sigrar
/

Love – Eggjarauðan sem aldrei eyðist

John Lennon – Love

Það er ekki bara Brimborg sem er öruggur staður til að vera á heldur líka innsta hólf í innstu kistu hvelfingar grafhýsis Tútankamúns. Það er hægt að verja og það er hægt að brynverja. Og ekkert er jafn öruggt, jafn varið, jafn hugmyndafræðilega afmarkað og lagið “Love” með John Lennon.

Love Lennons er sólin á himninum, döggin á grasi að morgni, það öruggasta og tryggasta sem við eigum. Kærleikurinn svífur þarna um, ofbeldið allt um kring, en kærleikurinn svífur þarna um í eggi sínu. Brynvarinn, ryðvarinn, gegnvarinn.

Fílalag
Fílalag
Love - Eggjarauðan sem aldrei eyðist
/

Heartbreaker – Harmurinn og hæðirnar

Bee Gees – Heartbreaker

Saga Bee Gees er Sagan með stóru S-i og greini. Saga þjóðflutninga, saga efnahagsþrenginga, hæstu hæða, dýpstu dala. Elsta saga í heimi. Fyrsta Mósebók, fjórði kafli: Kain og Abel. Á ég að gæta bróðir míns? Vesalingar og krypplingar Victors Hugo, verksmiðjubörn Dickens. Undirskálaaugu Andersens.

Saga Bee Gees inniheldur þjóðflutninga, lestarslys, hótelsvítur, sundlaugabakka, ofsóknaræði en fyrst og síðast samheldni, metnað, vinnusemi og þolinmæði gagnvart harðneskju lífsins. Þetta eru stór orð, en saga bræðranna frá Brisbane er engum lík. Hún verður aldrei tekin saman í eina setningu þó að djörf atlaga gæti verið útfærð með orðunum „Keltar negla heiminn”.

Þvílíkir hæfileikar. Þvílík seigla. Þvílík saga. En fyrst og síðast: þvíííííílíkur fílingur.

Fílalag
Fílalag
Heartbreaker - Harmurinn og hæðirnar
/

Killing Me Softly With His Song- Að smyrja kæfu ofan á skýin

Roberta Flack – Killing Me Softly

Lyklapartí í Norræna húsinu 1973. Samískar hempur lagðar á gólfin. Reykelsi fíruð. Kæfan smurð.

Maður að koma heim af næturvakt hjá HS Orku lamast og leggur bílnum í myrkrinu, roðnar í myrkrinu.

Peningar, kærleikur, myrkur. Hið myljandi hjól draumanna. Mylla draumanna.

Fílalag
Fílalag
Killing Me Softly With His Song- Að smyrja kæfu ofan á skýin
/

Tubthumping – Almyrkvi af gleði

Chumbawamba – Tubthumping

Gestófíll – Ari Eldjárn

Í raun deyr man mörg þúsund sinnum áður en vomurinn með ljáinn mætir loksins. Það verður mótlæti, það verður sköddun, það verða vonbrigði, það verður lágdeyða og stundum er fótunum hreinlega sópað undan vel meinandi fólki. En ef einhver heldur að tilgangur lífsins sé að forðast mótlæti, átök og almenna kássu, þá er til átta manna fílósófískt pönkband frá Leeds sem er þér hjartanlega ósammála.

Ari Eldjárn mætti með Fílalag sem gestófíll til að kryfja hið marglaga, ærandi Tubthumping með hljómsveitinni Chumbawamba sem flengreið röftum árið 1997 og áfram. Og niðurstaðan er: Ef þú ert lamin niður þá hengir þú þig aftur upp eins og klósett á útúrgröffuðum vegg djúpt inn í vömbinni á skemmtistað í tröllalandi. Það er ekki til neitt sem heitir að gefast upp. Stattu upp, stattu upp og haltu áfram, dúndraðu í þig glundrinu sem er lagt á borð fyrir þig og bara gerðu eitthvað úr þessu.

Danni minn. Elsku, rytjulegi drengurinn minn, þú þarft ekki að gyrða þig í brók, þú mátt meira að segja ganga um með kloflúðurinn úti, svo lengi sem þú ferð með bænirnar þínar, stendur upp og heldur áfram. Ljárinn kemur seinna, en þangað til, hafðu hátt, stattu á eplakassa og öskraðu úr þér sýrulegin lungun.

Þrjátíu ár. Þrjátíu ár af aga, músík og skaðræði. Þetta lögðu þau á sig. Svo þú getir fílað þetta litla lag. Fílaðu það með höfðinu, fílaðu það með lifrinni og nuddaðu opnum hjartavöðva þínum upp að mólekúlum þess, því þetta er sannarlega club-stumping, mind-numbing, baðkarsþrymill. Þetta er Tubthumber og það ætlar að rífa þig í sig eins og hungrað ljón tætir í sig sebrahest í BBC-heimildamynd. Öllum líður vel. Allir fíla. Og enginn man neitt eftir á, þar sem við sprautumst niður glerið fyrir framan sláttumanninn eins og rúðupissið sem við sannarlega erum.

Fílalag
Fílalag
Tubthumping - Almyrkvi af gleði
/

King of the Road – Að elta skiltin

Roger Miller – King of the Road

Ef það er eitthvað sem vantar á Íslandi þá er það alvöru vegamenning. Að geta farið út í buskann. Á Íslandi er maður alltaf kominn í hring áður en maður veit af. Það er helst að maður geti náð einhverri smá útlegð á Kjálkanum eða kannski nyrst á Melrakkasléttu, en annars eru alltaf einhver vaxjakka-greppitrýni með náttúruvín mætt til að hrella þig.

En á öllum meginlöndum heimsins er hægt að týnast á veginum, og eiginlega lifa á veginum, án takmarks og tilgangs. Oft eru það sorgleg örlög, en það fer samt eftir viðhorfi. Sumir sem eru á sífelldu flandri líta á það sem ástand hins fullkomna áhyggjuleysis, en það er aðeins á færi þeirra sem hafa hjartalag flökkudýrsins. Það er ekki fyrir alla, en það á sannarlega konunglega spretti.

Það er hægt að týnast í húsinu sínu, falla inn í sjálfan sig í sjálfsmyndarglímu. En það er eiginlega ekki hægt að týnast á vegum úti. Maður eltir bara skiltin.

Fílalag
Fílalag
King of the Road - Að elta skiltin
/

Uptown Girl – Blöðruselur í brunastiga

Billy Joel – Uptown Girl

Það er útkall. Bláu ljósin og vælandi sírena. Upp í brunastiga í Bronx stendur útþaninn kalkúnn og spangólar á gula leigubílana sem þjóta hjá. Það er ekki hægt að tjónka við hann.

Elsta saga veraldar. Fátæki strákurinn sem er skotinn í prinsessunni, eða öfugt. Lítið krakkaævintýri, en samt svo stórt.

Billy Joel er gaurinn sem byrjaði að vera miðaldra 20 ára, og er enn að, hálfri öld síðar. Með brotið nef, hvíttaðar tennur og grjótharða bumbu. Hann hefur stundum kýlt fast, stundum kýlt laust. En hann hefur alltaf kýlt upp á við.

Fílalag
Fílalag
Uptown Girl - Blöðruselur í brunastiga
/

Son of a Preacher Man – Spartsl í holu hjartans

Dusty Springfield – Son of a Preacher Man

Fíkja veraldar. Svið biblískra atburða. Martin Luther King skotinn til bana á mótelsvölum. Memphis, 1968. Svið harmsins.

Dusty Springfield var frá Bretlandi. Hét upprunalega O’Brien. Hún var eiginlega of hæfileikarík til að vera til. Hún fann sig í öllu, þjóðlagahefð en líka sálartónlist þar sem hún gaf þeim allra stærstu ekkert eftir. Og 1968 smurði hún þessu inn. Frá heimastöð harmsins, skinkumyrja í maga, sinnepsgul slikja, skæni yfir opinn kvíðann.

Fílalag
Fílalag
Son of a Preacher Man - Spartsl í holu hjartans
/

Workingman’s Blues #2 – Með hjartað fullt af bananabrauði

Bob Dylan – Workinman’s Blues #2

Bob Dylan kjarnar hugmyndina um „boomer”. Það er erfitt að kyngja því nú á tímum þegar 37 ára gamalt fólk kallar 39 ára gamalt fólk búmera og heldur að það sé með neglu. En það er áttræður Bubbi gamli Zimmermann, fæddur 24. maí 1941, sem er aðalbúmerinn. Hann útskrifaðist úr highschool í blazer-jakka með Presley-hár og sleikti svo út allt 60s gúmmelaðið, mótmælin, bítlaskóna, bítnikkabúllsjittið og að lokum sígaunahippið, endurkomuna og efasemdirnar. Með stækkandi bankabók og hækkandi hlutabréfum, eftir að hafa tekið erfiða tímabilið á flatan beinaberan kassann, reis hann svo að lokum upp sem endanlegur Jésú Kristur New York Times ritstjórnarinnar, nóbelaður og skósólaður inn í frægðarhöll búmeranna sponsored by Ray Ban og Pfizer.

En Bob Dylan er geitin og geitur láta aldrei að sér hæða. Seinni tíma Zimmy gleymir aldrei hvaðan hann kom. Hann hefur aldrei látið nappa sig í Napa-dalnum í vínsmökkun því hann er hrísgrjón og baunir gaur, tötrasveinn meðal tötrasveina. En umfram allt þá hefur hann aldrei látið neinn ráðskast með sig. Sama hvað líður óskurum og nóbelum þá svarar hann engu kalli. Enginn getur keypt hann, nema mamma hans, sem tók á móti honum heim úr skólanum með nýbakað bananabrauð. Lykillinn að Bob Dylan er að það er enginn fjandans lykill. Hann er bara fullur af kærleika, stútfullur af bananabrauði og hann á afmæli og hann er sjálfur hafurinn.

Fílalag
Fílalag
Workingman's Blues #2 - Með hjartað fullt af bananabrauði
/

Dry The Rain – Skoskt, artí, indífokk

The Beta Band – Dry the Rain

Þunglyndisfílgúddið verður ekki tærara en þetta. Hér er hann mættur í Pringles-mylsnaða sófann þinn: Indígírkassinn mikli sem hrært hefur í þunnum keltum í tvo áratugi. Dry the Rain með Beta Band er þéttofinn refill. Í ísskápnum eru 28 síðir Amstel, sígarettuaskan fellur ofan á pínulitlar bjórvambir, græjurnar óma í hárri trúfestu.

Intel Pentium. Kattamatur. Futsal.

Nú leggjumst við öll á bæn í súldinni og dásömum lágt sjálfsmat. Með ertingu í húð göngum við inn í hofið og stingum okkur til sunds.

Fílalag
Fílalag
Dry The Rain - Skoskt, artí, indífokk
/

Fyrir átta árum – Einn kílómetri af eilífð

Heimir og Jónas – Fyrir átta árum

Sumarlandið. Vormanían. Spássering í kringum Tjörn. Byltingarfólk og hökutoppar. Glaumbar og hass. Predikari segir þér hvað kílóið af salti kostar í raun og veru. Kinkandi kollar. Guy Ritchie þrútnar.

Kristalsglasi hent á arin. Vakan hefur staðið yfir alla vikuna, allt vorið. Undir 19. aldar legubekk á Þrúðvangi liggur 100 kíló af kraftbirtingarhljómi og nötrar. Jack London horfir á.

Þeir sem fóru af fiðluballinu í vor lifa enn sem draugar. Laufásvegur er búlevarð. Kríthvít andlit á göngu. Á suðurleið í leit að líknardeild. Jakkarnir, sokkarnir, tárin og árin.

Á bak við gluggatjöldin bærast hvítir armar sem sigldu yfir á tímum spænsku veikinnar.

Fegurðin. Ó, fegurðin. Vaktu með okkar borgaralega skáld. Horfðu frá bekk þínum á alla hersinguna koma úr predikun í Fríkirkjunni og ganga ofan í Tjörnina og drukkna í linnulausri fegurðarárás vo-vo-vo-vorsins.

Fílalag
Fílalag
Fyrir átta árum - Einn kílómetri af eilífð
/

I Can See Clearly Now – Að skipta út hryggjarsúlu sinni fyrir sólargeisla

Johnny Nash – I Can See Clearly Now

Ef fílgúdd væri vara sem maður kaupir út í búð, þá erum við í þann mund að setja tvo fimmtíu kílóa sekki í skottið á bílnum við bílastæðið hjá Costgo. Framundan er bökuð kartafla snædd í ölvandi sólskini undir hamraveggjum. Pakkið fellihýsinu í súputening og étið það. Mesta fílgúdd-stemningslag allra tíma er fílað í dag.

Málið er ekki flókið. Málið er kristaltært. Það er ekki ský á himni. Hann er blár og á honum miðjum er ein stök gul kúla sem er að negla gleði inn í skrokk ykkar. Gengið er hátt. Hjartað slær. Börn brosa. Spékoppar leiftra á andlitum. Öllum líður vel.

Aldrei hætta að berjast. Hamist á hamstrahjólinu. Spænið það upp til agna með vinnslu þannig að neistar fljúga og kveikið í veröldinni. Eltið ljósið, eltið drauminn, lífið er kartöflusalat, það er hægt að komast undir regnbogann!

Fílalag
Fílalag
I Can See Clearly Now - Að skipta út hryggjarsúlu sinni fyrir sólargeisla
/

Music – Að leggjast á hraðbrautina

Madonna – Music

„Popp” er hart orð. Það eru þrjú pé í því og það brotnar á vörum manns. Popp er líka harður business. Líklega sá allra harðasti. Popp fær fólk til að lita á sér hárið, klæðast þröngum buxum, syngja í falsettum, dilla rassinum, öskra eins og apar, taka pillur, fara í málaferli við fjölskyldumeðlimi og bara almennt smána sig síendurtekið. Popp er svo harður húsbóndi að þegar þú ert búinn að poppast ertu sprungin blaðra, ömurlegt gúmmírusl útí horni eftir barnaafmæli.

Og enginn getur stjórnað poppi. Það er ómögulegt að vita hvað verður vinsælt. Það er ómögulegt að þóknast poppinu, fjöldanum, og miskunnarleysi hans. En það er hægt að eiga sín móment, og enginn í sögu poppsins, hefur átt jafn mörg slík móment og Meyjan.

Madonna var kölluð drottning poppsins. En í raun er hún meira en það. Því hún náði nokkrum sinnum að lyfta keyri sínu og svipuhöggva sjálft poppið til hlýðni. Og ekkert nær betur utan um þennan aga, þennan fókus, og þessa drottnun heldur en síðasta lag Madonnu sem náði toppi Billboard Hot 100 listans. En það er lagið Music. Þar fer Madonna alla leið og hreinlega leggst á sjálfa hraðbrautina og lætur tortímandi 18-hjóla trukkana, sem allir gætu hæglega grandað henni, keyra framhjá sér. Hún leggst á hraðbrautina og klárar dæmið.

Fílalag
Fílalag
Music - Að leggjast á hraðbrautina
/

Come on Eileen – Keltnesk krossfesting

Dexys Midnight Runners – Come on Eileen

Fyrir þau ykkar sem hafið gengið slyddublaut inn í blokkarstigagang. Fyrir þau ykkar sem hafið stigið inn í stóran leigubíl um miðja nótt á leiðinni úr einu fokkjúi með vonda hljóðvist í það næsta. Fyrir þau ykkar sem hafið borðað grænt epli í miðju nóvemberskammdegi og fundið maga ykkar þenjast og meðvitundina fjara út.

Fyrir þau ykkar sem búið í sama hverfi og þið ólust upp í. Fyrir þau ykkar sem sjáið enn sömu grjótfúlu andlitin líða inn og út um illa lagða slyddujeppa. Fyrir þau ykkar sem standið vaktina.

Fyrir þau ykkar sem standið við sjoppuna í firðinum, með hamrandi tikkið í Essó-fánunum að baki ykkur, og öskrið orðin „Elín Helena” út í frussandi páskahretið.

Come on Eileen er fyrir ykkur.

Fílalag
Fílalag
Come on Eileen - Keltnesk krossfesting
/

Næturljóð – Gárur á tjörn tímans

Næturljóð – MA Kvartettinn

Fáni blaktir yfir Studebaker á Holtavörðuheiði. Prúðbúinn maður festir á sig skóhlífar í innbænum á Akureyri. Púrtvíni hellt í glas í reykfylltu bakherbergi á Sóleyrjargötu. Elfur tímans áfram rennur.

Þjóðin er fyrirburi í kassa. Hábeinn heppni finnur túskilding og býður öllum með sér inn í Gamla bíó. Fiskifluga suðar. Ilmandi hey í klakka. Útvarpsstjóri finnur til átta lakkplötur. Áfram hjartasárið brennur þó að héraðslæknirinn á Kópaskeri eigi meðal.

Fílalag
Fílalag
Næturljóð - Gárur á tjörn tímans
/

Hallelujah – Heilög gredda

Hallelujah – Ýmsir

Leonard Cohen var 49 ára þegar hann tók upp lagið Hallelujah fyrir plötu sína “Various Positions”. Plötunni var hafnað af bandaríska útgáfurisanum Sony, enda var hún í þyngri kantinum og flest lögin spiluð á casio-hljómborð. En á plötunni voru samt tvö af helstu lögum Lenna: Dance Me To the End of Love og hið sírísandi Hallelujah, sem er á góðri leið með að verða að vinsælasta lagi allra tíma.

Og hér er farið yfir stóru söguna. Hvernig Hallelujah Lenna sigldi hægt en örugglega á þann sem stað sem það er á í dag, en það hefur mikið að gera með þá staðreynd að Hallelujah er bæði spólgratt lag en líka heilagt, en það er tvenna sem nánast ómögulegt að sjósetja. En Lenna tókst það og er það ekki lítið þrekvirki.

Fílalag
Fílalag
Hallelujah - Heilög gredda
/

Sk8er Boi – Halló litli villikötturinn minn

Avril Lavigne – Sk8er Boi

Opnaðu ferska dós af tennisboltum (já, tennisboltar eru seldir í dósum og þær opnast með flipa eins og gosdósir og gefa frá sér “ttsss” hljóð). Dragðu djúpt andann og finndu ferskan ilm síðkapítalismans streyma ofan í dýpstu lungnarætur.

Farðu í Kringluna og rústaðu Kringlunni. Rústaðu líka kortinu þínu. Kauptu þig glaða, kauptu þig reiða, kauptu þig tjúllaða. Dressaðu þig upp í Converse All Star twisted hauskúpuhettupeysuheilablóðfall og leystu þig út með lími í Pennanum.

Áferð himinsins er kaþólskur skólabúningur með málningarslettum. Sjóndeildarhringurinn, verslunarmiðstöðvarbílastæðarampur. Verkefni þitt: gosselígoss.

Það er getnaðarvarnarpillu-pabbi-lemur-mig-aids-þáttur í sjónvarpinu um unglinga í gallajökkum á BMX hjólum með litla uppskjótanlega butterfly hnífa

Nuddaðu þér upp við Joe & the Juice tattú á upphandlegg lesblinds fucbois. Red Bull veitir vængi.

Fílalag
Fílalag
Sk8er Boi - Halló litli villikötturinn minn
/

We are Young – Fómó-framleiðsla

Fun. – We Are Young

Það er þversagnarkenndur vöndull undir nálinni. Poppsmellur sem fór í fyrsta sæti ameríska vinsældalistans, peppandi, ærandi og neysluhvetjandi Super-Bowl-auglýsinga teppalagning. En á sama tíma er lagið, We Are Young, dulbúið örvæntingarhróp heillar kynslóðar. Gallajakkaklæddrar kynslóðar sem var stungið í samband við ramen og látin framleiða fómó í boði Verizon.

Gefið þessu tíma, smá þolinmæði, það liggur mikið undir hérna. En ekki gleyma að fíla. Því ekkert smýgur jafn vel undir húðina eins og hárbeittur líkkistunagli, hamraður niður í boði Gatorade.

Fílalag
Fílalag
We are Young - Fómó-framleiðsla
/

Itchycoo Park – Að brenna sig á fegurðinni

Small Faces – Itchycoo Park

Hoppum og skoppum í gegnum blómagarðinn með litlar sólhlífar og gúrkusamlokur í maganum eins og í bók eftir Thackeray og veltumst um í grasinu og hlæjum og brennum okkur á brenninetlum og hellum mjólk á sárið og grátum með hjörtum okkar yfir fegurðinni og breytum sorginni í útvarpsbylgjur sem við vörpum yfir veröldina eins og fluginnrásarher í vísindaskáldsagnastyrjöld og föllum saman yfir hverfulleika augnabliksins og felum harminn í óralangri setningu sem minnir á ljóð eftir Birgi Svan Símonarson.

Andvörpum og göngum yfir brúna og ofan í kanínuholuna í gegnum dyr skynjunarinnar, etum, drekkum og verum glöð eins og tröll í barnabók sem myndskreytt er af Brian Pilkington. Drekkum sjötíu miniature-flöskur. Sturtum harminum í okkur á vængjum breskra loftleiða. Gleymið týpunum í Vesturbæjarlauginni, á Kaffibarnum. Troðið eyrnarpinna inn í sjötta skilningarvitið og hreinsið út. Hér eru mætt sjálf Spjöld sögunnar.

Fílalag
Fílalag
Itchycoo Park - Að brenna sig á fegurðinni
/

Útrásin í myrkrinu – Smells Like Teen Spirit

Gestófíll: Ilmur Kristjánsdóttir

Þeir frelsuðu unglinga á Vesturströnd Bandaríkjanna, þeir frelsuðu unglinga í Bangkok á Tælandi. Þeir frelsuðu unglinga í Austurbæ Reykjavíkur. Nirvana kom sá og sónikaði sig í gegn með sinni annarri plötu. Skiptir ekki máli hét hún í lauslegri þýðingu og þar með var tónn níunnar sleginn og hann var sleginn fast. Whatever. Nevermind. Með kærleika og lífsleiða. Ykkar Kurt. Ykkar Kurt með hvolpaaugun. Ykkar Kurt með kremhvítt hjarta.

Gleðin kemur úr maganum. Hryggðin kemur úr gallinu. Krafturinn kemur úr þjóhnöppunum. Fílunin er líkamans. Fimm núll ein mínúta af frelsun. Fimm núll einn hjúpur á skönkum. Converse All-Star undir yl. Flannel-svitalykt. Jón Ásgeir á lyftaranum. Pizza 67. 27 Club straight to Nirvana.

Takk fyrir bylgjurnar, þá og nú. Slökkvum ljósin og hossumst. Fyrir frelsun magans, fyrir frelsun manns-magans. kv. Þín kynslóð.

Fílalag
Fílalag
Útrásin í myrkrinu - Smells Like Teen Spirit
/

Harðsnúna Hanna – Hámark norpsins

Ðe lónlí blú bojs – Harðsnúna Hanna

Steypustyrktarjárn. 24 metrar á sekúndu. Tikk í fánastöngum. Þrefaldur vodki í kók. Vanlíðan. Æsingur. Spenna. Æring.

Bældar tilfinningar. Gráar minningar. Mótlæti, skaðræði, flótti, norp, örvænting, stuð.

Skyggð sjóngleraugu. Drápuhlíðargrjót. Hass. Gangstéttarhella. Volkswagen bjalla. Snókerkjuði. Slímugt þang í fjöru, grár vikur í holti. Svarthvít veröld, blóðmörsskán og strætó.

Nýbýlavegur. Eftirpartí. Múrskeið.

Fílalag
Fílalag
Harðsnúna Hanna - Hámark norpsins
/

I Feel Love – Eimuð ást

Donna Summer – I Feel Love

Alþjóðlegt teymi. Bandarísk söngkona, Týróli, Breti, Þjóðverji að sjá um snúrurnar og Íslendingur á kantinum. Saman skópu þau dansmúsíkina og allt fór þetta fram í München í Þýskalandi í sinnepsgulri sjöu.

Nú er frumdanstónlistarsleggjan I Feel Love með Donnu Summer tekin fyrir og er hér um að ræða stóra vörðu í dægurmenningunni. I Feel Love er ekki lag fyrir ameríska maísbændur. I Feel Love var svo framúrstefnulegt þegar það kom út árið 1977 að við erum eiginlega ekki enn búinn að ná því. En fíla það við getum.

Fílalag
Fílalag
I Feel Love - Eimuð ást
/

Fourth Rendez-Vous – Til stjarnanna

Jean-Michel Jarre – Quatrième Rendez-vous

Belgískur milljónamæringur stígur um borð í einkaþotu. Kona með áhyggjufulla rödd segir frá siðferðislegum álitamálum í tengslum við loðdýrarækt. Gufan merlast úr viðtækjunum og blandast gufunni úr pottinum þar sem ýsan sýður. Velkomin að speglinum.

Jörðin hlýnar. Rafbylgjur flæða. Fólk í þungum þönkum leggst í bastrólu. Hlutabréf hækka. Kvartbuxur í bústaðnum. PHEV-bíll keyptur á vistvænum lánum. Í kvöld er prógram frá NRK um sjálfbærni.

Einu sinni voru heimarnir þrír. Fyrsti heimurinn. Þróuðu ríkin, lýðræðisríkin. Annar heimurinn. Kommúnistarnir, einræðisríkin. Og þriðji heimurinn. Restin. Valinn síðastur í leikfimi. En svo var bitið í Big Macinn og sagt: lítið til stjarnanna.

Fimmta lýðveldið. Fjórða stefnumótið. Fyrsti kossinn. Ég kyssti föla vanga móður jarðar áður en ég lagði hana í gröfina.

Fílalag
Fílalag
Fourth Rendez-Vous - Til stjarnanna
/

Blister in the Sun – Graftarkýlið sem sprakk út

Violent Femmes – Blister in the Sun

Fyrsta lag á fyrstu plötu hljómsveitarinnar Violent Femmes er þeirra stærsta lag. Það heitir Blister in the Sun og söngvarinn, Gordon Gano, var aðeins átján ára þegar það var tekið upp – en hann hafði víst samið lagið mun fyrr. Lagið er því óður til unglingagreddu og óöryggis, það er stemningsstomper sem sem hefur hægt og rólega breyst í bjórkvölda-hópeflis-standard.

Fílalag
Fílalag
Blister in the Sun - Graftarkýlið sem sprakk út
/

Da Funk – Skothelt, skyggt gler

Daft Punk – Da Funk

Endurtekningin. Lífsleiðinn. Gljáinn. Feimnin, friggðin, nostalgían. Jökullinn hopar. Evrópa ropar. Sykurpúðar, stúdíólúðar, Christian Dior blússur liggja eins og hráviði fyrir framan kennslustofuna þar sem enfant terrible úr stúdentaóeirðunum ’68 ætlar að kenna þér kynferðislega geómatríu.

Daft Punk eru kontrapunktur kapítalismans. Endurvinnslustöð og endastöð. Allir fíla.

Fílalag
Fílalag
Da Funk - Skothelt, skyggt gler
/

White Rabbit – Nærðu huga þinn

Jefferson Airplane – White Rabbit

San Francisco 1967. Reipi undir smásjánni. Rannsóknarlögreglumenn frá FBI með hlerunarbúnað í hvítum sendiferðarbílum. Drullugir hippar. Satan stutt frá.

Maður í skyrtu með víðum 19. aldar ermum siglir niður Thames, sér sefið, sér froskana, lirfurnar. Hann gleypir flugu.

Nett tign í sírisi. Frændi Charlie Chaplin loðnari en fjallagórilla. Fimm hundruð þúsund krakkar með opna huga. Þyrlur sveimandi.

Þetta gerðist allt. Nærðu huga þinn og steinfílaðu.

Fílalag
Fílalag
White Rabbit - Nærðu huga þinn
/

Feel – Svarthvítt bað

Feel – Robbie Williams

Bootcut gallabuxur. Sperrt mjóbak. Diesel auglýsing. Stóðhestur kældur í baði.
Robbie Williams var ungur þegar hann mætti með augabrýrnar sínar og þrátt fyrir mikla kókanínneyslu og allskonar ólifnað, þá er hann ennþá jafn sperrtur og ný upptrekktur gormur.
Hér er farið yfir allt það helsta. Manchester heimspekina, hestagredduna og keisaradæmi bjórglasabotnsins. Robbie Williams er nefnilega margt. Hann er sjálfsmynd hins venjulega Dana, vonarneisti karaókí-söngvarans, samviska okkar flestra. En svo er hann líka bara maður sem mætti þunnur í stúdíó og var í fíling. Og nú er feelið hans Robbie fílað sem aldrei fyrr.

Fílalag
Fílalag
Feel - Svarthvítt bað
/

Jólin alls staðar – Geimvera krufin í kjallara Búnaðarbankans í Austurstræti

Ellý Vilhjálms og Vilhjálmur Vilhjálmsson – Jólin alls staðar

Okkar fallegasta jólalag er tekið fyrir í dag. Það voru hjónin Jóhanna G. Erlingsson og Jón „Bassi” Sigurðsson sem eru höfundar hins eilífa og unaðslega verks Jólin alls staðar, en verkið var sungið af systkinunum Ellý og Villa Vill á jólaplötu þeirra sem gefin var út af SG hljómplötum 1971. Allt við þetta er kærleiksríkt, fallegt, íslenskt og eilíft.

Árið er 1971. Bartarnir krauma. Neonið í Bankastræti brennur. Þétt en þunn fituskán af lifrapylsu liggur yfir tilverunni. Í útvarpinu heyrist þögn.

Jólin. Alls staðar.

Fílalag
Fílalag
Jólin alls staðar - Geimvera krufin í kjallara Búnaðarbankans í Austurstræti
/

Euphoria – Bugles, Dópamín, kerúbíni þenur lúður

Loreen – Euphoria

Þríhöfða vöðvatröll stígur niður úr leikmyndageimskipi .Glussahljóð fyllir skálar eyrna. Fasteignasali í Reykjavík kaupir ljótan jakka í Sautján. Buglesi er sturtað í skálar í húsi í Kórahverfinu. Evrópa, ertu vakandi, Evrópa, sefur þú?

Gervisnjókornavél er flutt með FedEx sendibíl. Bílstjórinn hlustar á fréttastúf um kjaraviðræður. Himnar opnast og sól lemur sig niður í stöfum. Áætlun KLM flugfélagsins er 100%. Við Miðjarðarhaf snýr kona sér við á sólbekk. Í höfninni í Ódessu eru þotulúðrar þeyttir. Evrópa, sefur þú?

Pleður. Sokkur í klofi. Söngur fuglanna í trjánum. Orka vorsins. Maníugul geðdeildarorka vorsins. Hvítir mittisjakkar. Helmut Kohl slær badminton-flugu í flöktandi birtu. Heitur koss í köldum undirgöngum. Blossi næturinnar, blikið við enda hafsins, þögnin, alsælan, Evrópa að eilífu.

Fílalag
Fílalag
Euphoria - Bugles, Dópamín, kerúbíni þenur lúður
/

Stand By Me – Konungleg upplifun

Ben E. King – Stand By Me

Viltu vera konungur, en finnst of mikið vesen að gera uppreisn og drepa gamla kónginn? Viltu vera konungur en veist ekkert um pólitík eða hernað og hreinlega nennir ekki að klæða þig í purpurarauða skikkju og setja upp kórónu? Það er allt í lagi. Því þú getur orðið konungur með því að gera eftirfarandi:

Borðaðu uppáhalds matinn þinn og Royal búðing í eftirrétt. Sestu í hægindastól inn í stofu heima hjá þér og fáðu kött upp í til þín. Vertu í þægilegum inniskóm. Settu teppi yfir fætur þínar. Settu svo á þig venjuleg yfir-eyru-snúru heyrnartól. Ekkert bluetooth rugl eða sound-cancellation kjaftæði. Bara klassísk stofuheyrnartól sem hylja eyrun.

Settu svo Stand By Me á fóninn og konungsríkið er þitt.

Fílalag
Fílalag
Stand By Me - Konungleg upplifun
/

Kinky Afro – Þriggja daga lykt

Happy Mondays – Kinky Afro

Brútalismi. Gráir veggir. Steinsteypa. Rigning. Vond hárgreiðsla. Bryðjandi kjálkar. Vond nærvera. Sveittar nasir.

Engin markmið. Engar vonir. Engin reisn. Engin niðurstaða. Ekkert í gangi.

Nema ALLT.

Happy Mondays er skilgreiningin á losta. Skaðræði. Fryst hjörtu í leit að blossa.

Fílalag
Fílalag
Kinky Afro - Þriggja daga lykt
/

Don’t Get Me Wrong – Hindin heilaga

The Pretenders – Don’t Get Me Wrong

Chrissie Hynde, söngvari, gítarleikari og lagahöfundur hljómsveitarinnar Pretenders hafði marga fjöruna sopið þegar hún söng lagið “Don’t Get Me Wrong” árið 1986. Þessi ameríska söngkona flutti ung til Bretlands og drakk í sig pönksenuna og stofnaði þar band sitt, sem átti eftir að verða geysivinsælt bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum áður en tveir meðlimir þess létust með skömmu millibili eftir ofneyslu eiturlyfja.

En Hynde hélt áfram og átti eftir að raða inn fleiri hitturum. Meðal annars laginu sem er fílað í dag. Um er að ræða síðnýbylgjuneglu í hestamannamóts-takti með valdeflandi texta sem ærir fólk enn þann dag í dag hvort sem það er að hlusta á Útvarp Suðurland eða eitthvað annað.

Fílalag
Fílalag
Don’t Get Me Wrong - Hindin heilaga
/

Sister Golden Hair – Filter Última

America – Sister Golden Hair

Sjöan. Hraun. Teppi. Sértrúarsöfnuðir. Fyrstu bylgju hugbúnaðarfrumkvöðlar. Gyllta hárið. Heisið. Loftið. Þyngslin. Gula geðrofið. Buxna-bulge.

Kjallarinn í botlanganum. Þurrt hár. Þurr kynging. Klístraðir lófar. Panilklæddir veggir, panilklæddir bílar, panilklædd samviska þjóðar.

Beltissylgja spennt. Nál stillt. Fótur á pedal. Skyggð gleraugu á grímu. Gullslegin tálsýn í farþegasætinu. Er hún til eða er hún rúnkminnisplakat við höfðagaflinn? Það er partí í botlanganum og þú flýtur niður ristilinn, niður Ho Chi Minh fljótið, niður í trekt síðsíkadelíunnar þar sem þú ert gripinn af þægilegri pepsí-auglýsingu.

Allt er gult. Allt er djúp-, brún- vaselínmóðað af gulsku, af gæsku og illsku. Systir! Fæ ég að heyra það einu sinni? Systir, fæ ég að heyra það tvisvar?

Systir. Gullslegið. Hár.

Þetta var draumur og 360 milljónir dreyma hann allan daginn, alla daga og það er þægilegt og það er ægilegt.

Fílalag
Fílalag
Sister Golden Hair - Filter Última
/

The Best – Það allra besta

Tina Turner – The Best

Ein stærsta saga veraldar. Anna Mae Bullock, fædd í Tennessee 1939. Sú orkuríkasta, sú gæfasta, sú stóra. Tina Turner. Sú sem snéri öllu á hvolf. Tók bresku rokk yrðlinganna og sýndi þeim hvar Davíð keypti mánaskeindan landann. Sýndi öllum hvað það er að lifa af. Sýndi öllum heiminum hvað það er að vera sigurvegari.

Hagræðipungar. Hvar sem þið eruð í veröldinni. Í timburþiljuðum LSE ráðstefnusölum, í glerklæddu Borgartúninu. Hvar sem þið gosepelið um bestun. Tina kláraði dæmið. Sú kraftmikla sagði síðasta orðið. Þið eruð best. Þú ert best. Takið þessa línu og gerið hvað sem þið viljið við hana. Þetta eru lokaorð frá Zürich. Lokaorð frá Ameríku.

Takk þið sem fylgdust með lifandi fílun frá Ásvallagötu. Þið eruð best!

Fílalag
Fílalag
The Best - Það allra besta
/

Vanishing act – Við skolt meistarans

Fílabeinskistan – FílalagGull™

Lou Reed – Vanishing Act

Lou Reed syngur svo nálægt hljóðnemanum í þessu lagi að maður finnur leðurkeimaða andremmuna. Og maður fílar það. Það er eins og að vera staddur við skolt meistarans að hlýða á það undravirki sem lagið Vanishing Act er.

Um er að ræða Rás 1 gúmmelaði fyrir lengra komna. Lag af plötunni “The Raven” frá 2003. Rúmlega sextugur Reed, pirraður, þungur en smekklegur. Lokalag allra lokalaga. Lag um það að kveðja.

Lou Reed var þekktur fyrir að gefa hann þurrann. Allt frá sílfrandi lampasturtum Velvet Underground til dempaðs trommusándsins í seventís sólódótinu. Lou Reed var brak-meistarinn. Leðurjakki, kamel og kaffi. Og auðvitað endaði hann á einu brakandi þurru.

En tárin eru vot.

Fílalag gramsaði djúpt í fílabeinskistuna eftir þessari 2015 skyldufílun.

Fílið.

Fílalag
Fílalag
Vanishing act - Við skolt meistarans
/

Fuzzy – Fjúkandi pulsubréf

Grant Lee Buffalo – Fuzzy

Klæðið ykkur í gallajakka og leðurjakka og rörsjúgið stóra kók á aftasta bekk í Stjörnubíó þar til hryglir í pappamálinu. Setjið hnausþykkt brúnt seðlaveskið í rassvasann og gelið hárið. Skvettið Calvin Klein ilmvatni á hrjúft spjaldið. Spennið á ykkur mótorhjólaklossana. Dragið djúpt andann. Árið er 1993. Það er fuzzari.

Hér er farið yfir þetta allt. Vitabarsborgarana, Something-sólóið í Gítarnum fyrir neðan LA-kaffi. Skaðræðið, baugana og hin fjúkandi pulsubrauð. Það er bullandi eftirpartí á Njálsgötunni og ljóðræn eftirsjásnegla í græjunum. Blár Daihatsu Charade fyrir utan með brúnan hassmola í hanskahólfinu. Öllum líður illa, allt er snilld.

Úr múrsteinslögðu bandarísku vöruhúsi. Inn í veröld hinna fjúkandi pulsubréfa. Hér er það. Loðið sem aldrei fyrr.

Fílalag
Fílalag
Fuzzy - Fjúkandi pulsubréf
/

The Age of Aquarius – Kapítalisminn og draumar hippakynslóðarinnar að r##a inn í kústaskáp

The 5th Dimension – The Age of Aquarius

Unglingar með reykelsi. Tónaðir Broadway leikarar í útpældum fatahenglum. Veröld að fara af hjörunum. Hér er um að ræða kapítalismann og drauma hippakynslóðarinnar saman inn í kústaskáp að búa til beikon. Engu er til sparað í þessari tungllendingar-neglu sem þrumaði sér inn á topp Billboard listans sumarið ’69. Hér fer saman blómabúða-fnykurinn við ískalda pillugræðgi. Þetta lag er bæði loðið um lófana og í handarkrikunum. Leikið þér eigi að lavalampanum. Velkomin í fimmtu víddina. Upp er runnin Öld Vatnsberans.

Fílalag
Fílalag
The Age of Aquarius - Kapítalisminn og draumar hippakynslóðarinnar að r##a inn í kústaskáp
/

Theme from New York, New York – Með 20. öldina út á kinn

Frank Sinatra – Theme from New York, New York

Bláskjár. Frank Sinatra. Níu hundruð þúsund sígarettur. Tvö hundruð og átta tíu þúsund martíní-glös. T-steikur, broads, kertaljós. Röddin í útvarpinu, axlirnar á sviðinu, augun á umslaginu.

Francis Albert. Jarðaður með foreldrum sínum. Kistan úttroðin af stemningsvarningi. Slökkt á Las Vegas. Empire State byggingin lýst bláu ljósi. Þar fór þrútnun aldarinnar ofan í box.

Hátindurinn? Böllin á Broadway (ekki í Ármúla), yfirlið unglingsstúlknanna sem höfðu beðið alla nóttina að komast inn. Óskarsverðlaunin fyrir bestan leik 1954. Forsetavígsluball Kennedy 1961. Sundlaugabakkasnilldin. Völdin, peningarnir, áhrifin, glamúrinn. Eða var hápunkturinn bara að drepast í stól með viskíglas á hverju kvöldi. Lognast útaf úr ofgnótt. Hverfa inn í augu engilsins.

Ronní, Bógí, Crosbý. Silki dregið eftir þófmjúku handarbaki. Mal kadilakks í þykkninu. Sálin tindrandi en holdið jafn dautt og kartöflusalat á afgangadiski á dæner um niðdimma nótt. Eða var það öfugt?

Gamli Bláskjár. Klikkaður maður með hatt í vitstola veröld, kamelsjúgandi, sálarkljúfandi manneskja í myrkrinu. Pírir augun og hverfur okkur sjónum, með 20. öldina löðrandi út á kinn.

Fílalag
Fílalag
Theme from New York, New York - Með 20. öldina út á kinn
/

The Power of Love – Tyggjó, kærleikur, agi, höggmynd, skriðþungi, stjörnuþoka, tryggð

Jennifer Rush – The Power of Love

Það er þýsk-amerísk negla í dag. Hin Ameríska Jennifer Rush fór til Þýskalands til að taka upp sitt frægasta lag, The Power of Love, sem er eitt vinsælasta og útbreiddasta lag allra tíma. Sem hefur rokið á topplista með henni sjálfri, Celine Dion og hinum áströlsku Air Supply.

Rush er sjálf með ótrúlegan bakgrunn. Hét upprunalega Heidi Stern en breytti nafninu sínu í hið ofsafengna Rush til að vera heiðarlegri með þá staðreynd að hún er æðisgengið hæfileikabúnt sem lætur mestu söngdívur heimsins hljóma eins og fiskeldisseiði.

The Power of Love er grafalvarlegt lag. Þar er ekki að finna ögðu af húmor eða eftirgjöf. Til að útskýra Power of Love er best að ímynda sér lest, en í stað þess að þessi lest sé á teinum sem fer frá A-B á tvívíðum fleti, þá tekst lestin á loft eins og geimskutla og ryður sífellt frá sér meiri geimþoku þar sem hún fer inn í ókannaðar víddir himinskautana. Power of Love er höggmynd, þrívíður hlutur sem hægt er að príla í, fram og til baka, upp og niður, þar til taugareseptorarnir þrjóta.

Njótið, blótið og sótfílið þetta lag. Þetta er þýsk-amerískur skriðþungi sem ekkert getur stoppað. Ekkert getur stöðvað Jennifer Rush því rúss hennar er helíumsól sem hrað- og seigbrennur hvort tveggja í senn til dýrðar kærleika, tryggðar og hvers lags dyggðar.

Fílalag
Fílalag
The Power of Love - Tyggjó, kærleikur, agi, höggmynd, skriðþungi, stjörnuþoka, tryggð
/

Love Minus Zero/No Limit – Hrafninn sem kyndir ofn okkar allra

Bob Dylan – Love Minus Zero / No Limit

Lagið sem er til umfjöllunar í dag er svo epískt að greinin um fílunina verður í “Í ljósi sögunnar” stíl.

Dagarnir 13., 14. og 15. janúar voru nokkuð kaldir í New York borg árið 1965. Hitinn fór lítið yfir frostmark og fór alveg niður í mínus 12 gráður á celsíus að morgni föstudagsins fimmtánda. Á þessum þremur dögum, í hljóðveri Columbia útgáfunnar í CBS byggingunni á 52. stræti í miðhluta Manhattan, var platan Bringing it All Back Home með Bob Dylan tekin upp.

Í miðri frosthörkunni, á föstudeginum, var lagið “Mr. Tamborine Man” tekið upp, en það hafði að vísu verið samið nálægt ári fyrr, eða í febrúar 1964. Á þessum þremur dögum voru einnig tekin upp lög eins og “Gates of Eden”, “Maggie’s Farm” og “It’s All Over Now Baby Blue” – allt lög sem breyttu gangi sögunnar.

En það var fimmtudags eftirmiðdagurinn 14. janúar sem gaf bestu uppskeruna. Í einu þriggja og hálfra klukkustunda lotu tók Bob Dylan upp, ásamt hljómsveit, nothæfar og endanlegar útgáfur af lögunum “Outlaw Blues”, “She Belongs to Me”, “Bob Dylan’s 115th Dream” ásamt einu af hans allra frægustu lögum “Subterranean Homesick Blues”. Eins og það sé ekki nóg þá kláraði hljómsveitin og Dylan líka upptöku af laginu “Love Minus Zero / No Limit”, þennan kalda fimmtudag í New York þann 14. janúar 1965. Upptökur hófust kl. 14.30 og var lokið kl. 18.

En það sem tók aðeins 3,5 klukkustundir að taka upp, hefur fólk eytt milljónum klukkustunda í að greina. “Bringing it All Back Home” er platan sem sprengdi upp heilann í risastórri kynslóð hugvísindafólks og sjálfskipaðra greiningarsveita – en slík ýfing hefur ávallt verið eitt af aðalsmerkjum Dylans.

Það er því varla tilviljun að í fyrsta sinn sem Fílalag leitar í sömu plötuna eftir lagafílun, sé það einmitt þessi plata sem varð fyrir valinu. Áður hefur Tamborínumaðurinn verið maukgreindur – en nú er komið að hinum algilda, fitusprengda, gerilsneydda, leifturhitaða Kærleika. Nú setjum við hann á borð okkar og drögum ekkert af honum.

Fílalag
Fílalag
Love Minus Zero/No Limit - Hrafninn sem kyndir ofn okkar allra
/

Live is Life – Að eilífu æring

Opus – Live is Life

Maradona horfir á Vesúvíus. Grétar Örvarsson stingur múslískeið í munn. Kartöflusalat svitnar á útiborði í bjórgarði í Graz. Evrópa er öxull.

Hemmi Gunn setur á sig svitaband og fer á svið á Broadway. Rúta með móðuðum rúðum brunar í gegnum íslenska sumarnótt. Veröldin er drifskaft.

Maður með permanent horfir upp á flúraðar hallirnar við Ringstrasse, á bónaða þjóhnappa herforingjanna sem standa sperrtir á stalli sínum. Í fjarska heyrist ómur frá múgnum sem heimtar tilgang.

Ekki meira ofbeldi, ekki meira stríð. Polkareggí skal það vera. Polkareggí skal það vera og við gefum allt í það. Allt.

Fílalag
Fílalag
Live is Life - Að eilífu æring
/

Loser – Áferð sultunnar

Beck – Loser

Eftirpartísófi með teppi hekluðu úr tékknesk-bóhemískum ljóðum og bróderaður með Andy Warhol Factory-flúxi. Póst-móderníski skúnkurinn Beck Hansen er fílaður niður í sviðasultu í dag og það er margt sem hægt er að japla á:

Myndlistarsköddunin, molasykurinn og miðsnesið á David Geffen. Þessi kynningartexti hefur enga skýra línu enda er sólbakaður loðfíll undir smásjánni og ekki hægt að sjá Appalachian þykknið fyrir trjánum þegar Beck litli Hansen er annars vegar.

Sprechen Sie Deutsch, Baby?!

Fílið bara. Loser.

Fílalag
Fílalag
Loser - Áferð sultunnar
/

I Wanna Get High – Skúnka-skaðræði

Cypress Hill – I Wanna Get High

Það er komið að skoti úr bongóinu. Hér er um negul-neglu að ræða. Kúbversk-mexíkönsku-amerísku á-skala-við-Billy-Joel-seljandi gangsterarnir frá Suðurhliði. Það heyrðist hvíslað undir síprus-viðnum að guðspjallið skrifaði guðspjallamaðurinn B-Real ásamt senaða hundinum.

Á tímabili lágu allir í valnum. Háskólakrakkar í Bandaríkjunum, lagerstarfsmenn í Austurríki. Allir vilja ganga til messu á svörtum sunnudegi. Líka þú, hvort sem þú varst skotinn í lungað sautján ára eða heimsóttir Kiss í kringlunni og keyptir þér prumpusprey. Þetta er þín músík. Hér er blásið í lúðra þér til heiðurs.

Fílalag
Fílalag
I Wanna Get High - Skúnka-skaðræði
/

Heyr himna smiður – Miðalda-monsterið


Kolbeinn Tumason & Þorkell Sigurbjörnsson – Heyr himna smiður
Árið 2018 völdu Íslendingar sitt uppáhalds tónverk í kosningu sem haldin var á vegum Ríkisútvarpsins. Niðurstaða valsins var áhugaverð þó hún hafi kannski ekki komið sérstaklega á óvart. Vinsælasta tónverk íslensku þjóðarinnar er kórverkið Heyr himna smiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson við rúmlega 800 ára gamlan sálm Kolbeins Tumasonar. Valið kemur ekki á óvart enda er verkið víða spilað í jarðarförum og öðrum athöfnum, og þar að auki hefur það notið töluverðrar vinsælda út fyrir landsteinana. Heyrðist það meðal annars í Eurovision mynd Will Ferrel og í sjónvarpsþáttunum Handmaid’s Tale auk þess sem hljómsveitin Árstíðir hefur heillað tugir milljóna með sínum flutningi.
En hvers vegna er Heyr himna smiður svona gríðarlega vinsælt? Er það fjögurra radda útsetningin, grípandi laglínan eða er það sú staðreynd að 800 ára gamall textinn er þrátt fyrir allt skiljanlegur okkur nútímafólki? Eða er það vegna þess að við erum öll undir sömu sökina seld. Við höfum öll setið á veitingastað með miðaldaþema, hvort sem það er Hrói höttur, White Castle Burgers eða hverskonar hellislaga bjórkjallari eða knæpa. Við erum öll sólgin í miðaldir. Ævintýrin, kastalasýkin, sokkabuxurnar. Í gráma þægindatilveru okkar er vart hægt að finna meiri líkn en að setja á sig plussuð hljóðdempandi heyrnartól og streyma miðöldunum inn í vitundina, mildaða niður í þriggja mínútna popplengd.
Eða er niðurstaðan bara sú að Íslendingar bara djúpfíla himnasmiðinn og um það er ekkert meira að segja. Þetta er bara pjúra fílun

Fílalag
Fílalag
Heyr himna smiður - Miðalda-monsterið
/

Blue Monday – Yfirlýsing

New Order – Blue Monday

Hvenær varð síðast bylting? Hversu gömul er sú hugmyndafræði sem við styðjumst við á Vesturlöndum í dag? Hversu gamall er nútíminn? Þurfti ekki að umturna öllum viðmiðum og setja ný mörk eftir lok síðari heimstyrjaldar – eða eftir fall kommúnismans? Hvert er skipulag hlutanna í alþjóðavæddum heimi viðskipta og hugmynda?

Sjöundi mars 1983 var mánudagur. Það var engin heimstyrjöld í gangi þá. Það voru heldur engin minnistæð þjóðfélagsátök, götuóeirðir eða upphlaup. Mánudagurinn sjöundi mars 1983 var í raun ósköp venjulegur mánudagur hjá flestum, mæðulegur eins og mánudögum er vísa. Fólk mætti í vinnuna, borðaði ristað brauð og pældi ekkert sérstaklega í hvert heimurinn stefndi.

Síðan eru liðin 37 ár.

Hitastig andrúmsloftsins hefur hækkað.

Hjörtu okkar hafa kólnað.

Fílalag
Fílalag
Blue Monday - Yfirlýsing
/

Roar – Kona öskrar

Katy Perry – Roar

Úr valdamesta landinu, farsælasta ríkinu, undan menningarheimi útbreiddustu trúarbragðanna, með öguðustu aðferðafræðinni, stendur hún á alstærsta sviðinu.

Og öskrar!

Katy Perry er ein sú allra stærsta undanfarinna áratuga. Hún á 100 milljónir fylgjenda á Twitter, 100 milljónir á Insta. Urrið hennar er með þrjá milljarða spilana á YouTube. Og hún hefur klárað sérhvert verkefni, kramið hindranir, brætt hjörtu og farið sína leið. Við fílum.

Fílalag
Fílalag
Roar - Kona öskrar
/

Jóga – Litbrigði jarðarinnar

Björk – Jóga

Stærsta poppstjarna Íslands fyrr og síðar er tekin fyrir í dag. Snúðarnir, hvíta dúnúlpan, textúrinn, vefnaðurinn. Ferill Bjarkar er fínofinn og verður aldrei greindur til hlítar, en sumir þræðir eru meira áberandi en aðrir.

Björk er útpæld, verk hennar eru gagnrýnendakonfekt og tengsl hennar við stór þemu eins og umhverfisvernd og frelsisbaráttu þjóða og einstaklinga eru aðdáunarverð. En við skulum aldrei gleyma að fíla hana líka, fíla músíkina og lýríkina án þess að ofhugsa hana of mikið.

Björk, stóra, sú einstaka, sú einbeitta. Dýrust kveðnasta Liljan. Við fílum hana.

Fílalag
Fílalag
Jóga - Litbrigði jarðarinnar
/

Everybody Wants to Rule the World – Tvö skott, miskunnarleysi, náungakærleikur er fyrir aumingja

Tears for Fears – Everybody Wants to Rule the World

Charles Chaplin bítur í grænt epli í útlegð sinni í Manoir de Ban við Genfarvatn. Ólívutanaður Ísraeli klístrar á sig Ray Ban Aviators og snýr sveif í skriðdreka sem er í þann mund að storma inn í Líbanon.

Þristur í lágflugi yfir túndrum Síberíu. Maður með hvassar augabrúnir kyrktur í lest á fjallateinum Kákasus. Hátt strengdar buxur, þétt reimaðir alpín-skór. Skúli Mogensen droppaður úr Súper-Púmu, skíðar niður með Mattehorn með bavíanarass.

Enskir pólóbola drulluhalar mappa út trommutakt í hljóðveri í London. Húsvörður með rjóðar kinnar og þvagsýrugigt pússar stigahandrið í Höfða. Það er há-átta og alls ekki mál að fara að hátta.

Tár jafngilda ótta. Skálum í tárabikar. Látum veigarnar flæða yfir bakka sína. Látum Evret og Tígris freyða og flæða. Hammúrabí situr í sæti sínu og í höfði hans hljómar lítið lag hvers texti segir: það vilja allir stjórna heiminum.

Fílalag
Fílalag
Everybody Wants to Rule the World - Tvö skott, miskunnarleysi, náungakærleikur er fyrir aumingja
/

Norwegian Wood & Fourth Time Around – Þegar Guð steig niður

Bítlarnir – Norwegian Wood (This Bird Has Flown)
Bob Dylan – Fourth Time Around

Turnarnir tveir í sexunni voru Bítlarnir og Bob Dylan. Og það er ekki lítið að hafa verið turn í sexunni því í sexunni þróaðist tónlist mikið. Hún dýpkaði og tók inn ýmsa eiginleika sem áður voru framandi í dægurtónlist. Hún hætti að vera aðeins samfelld frásögn og fór að taka inn áferðir bæði í hljóðum og texta. Tónlistarfólk nálgaðist listsköpun sína á nýjan hátt og valdeflingin var gríðarleg. Um miðja sexuna má segja að tónlistarfólk hafi verið orðið að andlegum leiðtogum ungs fólks um allan heim en þá var í gangi skemmtilegt endurvarp milli tveggja engilsaxneskra menningarheima: Bandaríkjanna og Bretlands.

Í stuttu máli má segja að Bretar hafi kennt Ameríkönum að skilja dýptina í sinni eigin tónlist. Breskar blúsrokksveitir eins og Rolling Stones dýrkuðu ameríska blús- og þjóðlagasöngvara og slógu í gegn með amerískri músík í Ameríku. Það þurfti mjóa Breta til að kenna Bandaríkjamönnum að fíla sitt eigið stöff. Það sama var uppi á teningnum með Bítlana. Þó að þeir hafi slegið í gegn í Bretlandi 1963, þá var það ekki fyrr en með för þeirra til Ameríku sem hið eiginlega alþjóðlega Bítllaæði hófst. Þetta er oft kallað “breska innrásin”, þegar bresk bönd kenndu amerískum ungmennum að fíla eigin tónlistararf. Þetta varð svo Bob Dylan innblástur til að semja plötuna “Bringing it All Back Home” sem markar upphaf rafmagnaða kaflans í ferli hans, en með titli plötunnar vísar Dylan til þess að nú sé hann að taka músíkina aftur heim, þaðan sem hún kom. Strax ári síðar gefa Bítlarnir svo út “Rubber Soul” sem er líka vísun í þetta amerísk-breska samband, því að titillinn vísar til þess að þeir séu “gúmmí-sálverjar”, þ.e. ekki ekta amerískir sálarsöngvarar af afrískum uppruna, heldur bláeyga breska gúmmí-útgáfan – sem verður að teljast smekkleg hógværð. En á Rubber Soul eru Bítlarnir ekki bara að spreyta sig á sálarmúsík, þeir eru líka að gera sínar fyrstu tilraunir með skrítin hljóðfæri og skrítna og síkadelíska texta en hið síðarnefnda var eitthvað sem Bob Dylan var kyndilberi í. Og auðvitað fór þetta fram í mesta vinskap, en þó er eins og eitt lag á Rubber Soul, hið brautryðjandi Bítlalag “Norwegian Wood”, hafi farið skringilega ofan í Dylan, því er hann lokaði þeysireiðar kaflanum í lífi sínu með plötunni Blonde on Blonde sumarið 1966 virðist hann ekki hafa staðist þá freistingu að senda smá sneið á Bítlana með laginu “Fourth Time Around” – sem í laglínu- og hljómauppbyggingu, textaþemu og áferð, kemur út eins og eklipsa utan um norska viðinn. Þessu er erfitt að lýsa með orðum – því Fourth Time Around er í raun ekki sama lag og Norwegian Wood, heldur er fremur eins og það umvefji síðarnefnda lagið og hálfpartinn sefi það með líkindum.

Þetta má vel ræða og fíla allan daginn – enda eru þetta afar sterk Bítla- og Dylan lög – frá hápunktum sköpunarkrafts beggja aðila – og bæði ákveðin púsl í þetta sérstaka Ameríku- og Bretlands endurvarp, sem og æðisleg dæmi um tímana þegar Guð hreinlega steig niður af himnum og leiddi tónlistarfólk inn í nýjar víddir í sköpun sinni. En umfram allt eru þessi lög fíluð því þau eru stórkostleg. Þau geyma allt: þau eru grípandi, dáleiðandi, áferðarfögur og hreinlega göldrótt. Og samspil þeirra tveggja er eitthvað sem er svo erfitt að henda reiður á – hvernig Dylan hylur norska viðinn eins og dalalæða þannig að enginn veit neitt nema að eitthvað mystískt og epískt er í gangi.

Tveir bestu listamennirnir fílaðir í dag, tvö bestu lögin, sem er í raun sama lagið. Hrollköld fílun, gæsahúð maximus, kalkúnaskinn í rassinn þinn.

Fílalag
Fílalag
Norwegian Wood & Fourth Time Around - Þegar Guð steig niður
/

By Your Side – Koddahjal, silkisjal

Sade – By Your Side

Hin nígerísk-breska Helen Folasade Adu, eða „Sade” líkt og samnefnd hljómsveit hennar nefnist, er ein af þeim stóru af MTV-kynslóðinni. Hún átti risasmelli í áttunni en lá mikið til baka í níunni en kom svo aftur árið 2000 með risasmellinum By Your Side.

Að hlusta á Sade er eins og að vera boðið inn í helli veggfóðraðan með silkisjölum. Sándið er plussað, rýmið er öruggt. Allt verður mýkra og fallegra líkt og nafnið hennar, Sade, sem borið er fram Sjadei.

Sade er margslunginn listamaður sem hefur haft mikinn stjórn á ferli sínum. Yfir þetta er farið í þætti dagsins. Njótið, fílið!

Fílalag
Fílalag
By Your Side - Koddahjal, silkisjal
/

One Headlight – Glætan og myrkrið

The Wallflowers – One Headlight

Ég veit hvað þú gerðir síðasta sumar. Þú keyrðir yfir brúna hjá sýslumörkunum á einni lukt og bjúikkinn hvarf inn í myrkrið. Það komast ekki allir á Kirkjugarðsballið í haust sem ætluðu þangað í vor.

Maísakurinn. Bregðuruslið. Sætir unglingar leiknir af þrítugum alkóhólistum. Hörð ljós níunnar. Ein lukt. Beint í andlitið, beint í grímuna, beint í meitlað spjaldið. Múltí-platína. Gubbað í fötu. Kjálkar, haka, nef, augu.

Rokkið er í andaslitrunum. Það var í andaslitrunum 1957, 1967, 1977, 1987 og 1997. Og alltaf var því bjargað af dreamy drulluhala með telecaster.

Addams-fjölskyldan. Yfirgefnar timburhallir. Lakkaðar líkkistur. Djúplakkaðar, póleraðar, valhnotuhirslur.

Upplausn hugmynda. Endurfæðing. Bestun. Þorgeir Ástvaldsson með hvíta hanska.  Heisið, meisið, þykknið, myrkrið. Skaðræði, ofbeldi. Ameríka. 
Ein lukt er allt sem þarf.

Fílalag
Fílalag
One Headlight - Glætan og myrkrið
/

Wild World – Genakokteill allrar eilífðar

Cat Stevens – Wild World

Í hvítri mussunni stígur hann á Ibiza-sprekið og klórar sér snöggt kafloðnum maganum. Steven Demetre Georgiou, einnig þekktur sem Cat Stevens, einnig þekktur sem Ysuf Islam, var einn heitasti lagahöfundur og söngvari sjöunnar. Allt sem hann gerði á árunum upp úr 1970 breyttist í gull, og það sem meira, það eldist vel.

Stevens tókst það sem afar fáum hefur tekist. Plöturnar hans minna jafn mikið á kynlíf eins og þær minna á námskeið í hekli. Hann keyrði á bókasafnsgreddu, skandinavískri kókaínorku. Stevens, sem er hálfur Svíi og hálfur Grikki, alinn upp í London, bjó til ómótstæðilegan kokteil sálar- og þjóðlagatónlistar. Hann var fær söngvari, fær höfundur og að auki var hann stúdíó-rotta.

Í dag er hann þekktur sem Yusuf Islam – en allt meikar þetta sens ef athyglinni er beint að því hversu mörg hráefni er í raun að finna í Kettinum – og hversu vel þau eru hrist saman. 

Högni Stefáns, gjörið svo vel.

Fílalag
Fílalag
Wild World - Genakokteill allrar eilífðar
/

Mellow Yellow – Gamli gulur

Donovan – Yellow Mellow

Pottlok á höfði. Graður Skoti horfir til Austursins og sigrar Vestrið. Frasabók sexunnar klár í vasa. Allir slakir, gulir og gíraðir.

Stælarnir í hámarki. Aðdróttanir, bananar, víðar skyrtur.
Skyldufílun á gamla gula.

Fílalag
Fílalag
Mellow Yellow - Gamli gulur
/

Dreams – Sútað leður

Fleetwood Mac – Dreams

Loðfíll tekinn fyrir. STOP. DD Unit kölluð inn. STOP. Macið sútað. STOP. Leðurvesti, tögl. STOP.

Hér er um að ræða risafílun á öllum skala. Stórkostlegur gestófíll, stórkostlegt lag. Hnífapörin munduð. Loðfíllinn skorinn. 

Mac & Cheese a Chili’s í úthverfi Fort Lauderdale. Fleetwood Mac á grillið. Anytime, 24/7/365.

Fílalag
Fílalag
Dreams - Sútað leður
/

Heart of Glass – Óbrjótandi, óþrjótandi kúl

Blondie – Heart of Glass

New York. Rottur. Pizzukassar. Ljósmyndarar. Leðurjakkar.. Brunastigar. Rafgítarar. Trommuheilar. Þröngir kjólar. Strigaskór. Kalkúnasamlokur.

Platínugyllt hár. Gulir leigubílar. Stressaðir endurskoðendur. Lakkrísbindi. Diskótjútt. Ökklinn á Sidda frænda. Pillur.

Blondie var og er, óþrjótandi kúl, með óbrjótandi glerhjarta.

Fílalag
Fílalag
Heart of Glass - Óbrjótandi, óþrjótandi kúl
/

For Whom The Bell Tolls – Feigð, húð, hryggð, hefnd, reiði, örkuml, angist, bólur, reiði, sekt, keyrsla

Metallica – For Whom the Bell Tolls

Kalifornía 1981. Veröldin heilsar nýrri tónlistarstefnu. Metallinn hefur fengið að súrrast í áratug og nú er komið  að kalsíum og næringaefnabættri uppfærslu. Keyrslu-málmurinn er fundinn upp. Thrash-metallinn. Fremstir í flokki eru nokkrir unglingar í gallajökkum með slæma húð. Þeir eiga eftir að verða eitt stærsta skrímsli tónlistarsögunnar.

Hvort sem þú ert spjótkastari frá Algeirsborg eða pípulagningamaður í Prag. Þeir stungu málm í rassinn þinn. Þó þú sért fín frú í Ofanleiti. Enginn er hólpinn. Vegir málsmiðjunnar liggja svo víða og hafa svo djúpa grunna, að enginn getur fetað sig i gegnum lífið án þess að þurfa að fara yfir slík gatnamót.

Kirk, James, Lars og Cliff. Þetta var ólíklegt, þetta er jafnvel fáránlegt, en söngvar ykkar um andstyggð og tortímingu eru eitt útbreiddasta gospel okkar tíma. Öllu er afmörkuð stund, eins og segir í hinni merku bók, og núna er stundin til að fíla það.

Fílalag
Fílalag
For Whom The Bell Tolls - Feigð, húð, hryggð, hefnd, reiði, örkuml, angist, bólur, reiði, sekt, keyrsla
/

My Hero – Lappadagasnilld

Foo Fighters – My Hero

Handboltarokkið er tekið föstum tökum í þætti dagsins. Um er að ræða slökkviliðsmannastomperinn My Hero með Foo Figthers, úr miðju hávaðastríðinu 1998.

Nirvana lagði skyndilega upp laupana vorið 1994 við fráfall Kurt Cobains og eftir stóðu tveir hálfþrítugir atvinnulausir rokkarar. Krist Novoselic er í dag að mestu þekktur sem gaurinn sem spilaði á bassa í Nirvana en trommarinn Dave Grohl fór aðra leið og stimplaði sig inn í ameríska þjóðarsál sem lagahöfundur, söngvari, aktivisti og grínari. Verkefnið hans, Foo Fighters, varð að arena-skrímsli og plöturnar átta eru meira og minna sneisafullar af hitturum.

Hér er farið yfir þetta allt. Kaffidrykkjuna, hljómsveitabolina og þrútnunina. Að lokum verður hin eina sanna lappadagasnilld fíluð í strimla.

Fílalag
Fílalag
My Hero - Lappadagasnilld
/

Sweet Caroline – Harka demantsins, ljúfleiki lífsins

Neil Diamond – Sweet Caroline

Þá er komið að augabrúnunum frá Brooklyn. Neil Diamond. Axlafílarinn mikli. Strit og uppskera. Hvolpaást í sumarbúðum. Vor, sumar, útsprungin blóm í vasa í Viceroy mettuðu baksviðsherbergi. Barnalæknabringan.

Skyrturnar, skylmingarnar, Talmúd-ritningin. Haltu kjafti brjóstsykur. Svartur gítar, svart hár, svört aska á botni kamínu í bjálkakofa. Stjörnur á himninum. Orion-drulla stensluð í kama-sutra bæklinga í Fossvogshverfi.

Hótelherbergi í Memphis. Endalaus teppalögð sjöa. Víðátta myrkursins. Sólskinið á hafnarboltavellinum. Fræjum sáð í grænan svörð. 

Fílalag
Fílalag
Sweet Caroline - Harka demantsins, ljúfleiki lífsins
/

Hausverkun – Drullumall sem varð að múr

Botnleðja – Hausverkun

Gestófíll: Ari Eldjárn

Það er komið að því. Hnausþykk fílun á bestu rokkhljómsveit síðari tíma á Íslandi. Ari Eldjárn var kallaður út því hér þurfti að draga búrhveli að landi. Botnleðja var rokktríó sem hafði allt. Ungæðiskraft, fyndna texta og svo voru þeir líka mjög kúl.

Heiðar, Raggi og Halli voru með þetta. Hafnarfjarðargæjar, fæddir í sjöunni sem drullumölluðu með skóflur í sandkassanum og fóru beint inn í æfingarhúsnæði og rokk-drullumölluðu. Hlóðu í raun upp heilan vegg að lokum – ósnertanlegan hljóðheim. Hér er um að ræða músíktilrauna jacksnúru systemið eins og það leggur sig. Hlustið og þið munuð fíla því hér er farið yfir þetta allt. Gítar-og bassasíddina, Keflavíkur-Hafnarfjarðar rokk-öxulinn, London-loftbrúna, píkutryllis-jazz-skeggið, Duracell áhrifin og að sjálfsögðu níu-kryppurnar.

Og að sjálfsögðu er lagið Hausverkun tekið fyrir. Þar eru Botnleðjuáhrifin öll til staðar. Ungæðislegur kraftur og texti sem búið er að vefja inn í útsetningarvöndul og lúðrablástur, þétt og vel sándandi múrverk, alveg jafn girnilegt til snæðings eins og þegar það kom úr ofninum haustið 1996. Takk fyrir allt Botnleðja.

Fílalag
Fílalag
Hausverkun - Drullumall sem varð að múr
/

The Rose – Sú sem sprakk út

Bette Midler – The Rose

„Stóra systir mín var vön að sitja á gólfinu í herberginu sínu. Þetta var 1979 og nánast daglega setti hún 45 snúninga plötuna með Rósinni undir fóninn á plötuspilaranum frá Sears. Hún lést í fyrra, var 53 ára gömul. Maðurinn hennar og ég vorum að fara í gegnum dótið hennar og þá fann ég albúmið, umbúðirnar voru snjáðar, en 45 snúninga platan var í hulstrinu sínu. […] 30 sekúndum síðar heyrðist í tveimur fullorðnum mönnum snökta hljóðlega, þar sem þeir sátu í bílskúrnum. Hví í friði Dawn.”

Textinn hér fyrir ofan er þýðing á einu af efstu kommentunum sem finna má undir einni af útgáfum lagsins The Rose með Bette Midler, á youtube. Kommentið var sett inn árið 2019 af notandanum: SouthOCmixdown. Efsta kommentið undir laginu, sett inn af Thea Lloyd, hljómar svona: „Konan mín lést skyndilega fyrir ári síðan. Við vorum gift í 45 ár. Þetta var uppáhalds lagið hennar og í sérhvert skipti sem ég heyri það, tætir það mig niður í öreindir.”

Rósin er fíluð í dag. Þetta er saga Bette Midler. Þetta er saga konunnar sem söng fyrir hommana í sánunni þegar enginn annar vildi vita neitt af þeim vita. Þetta er saga konunnar sem gafst aldrei upp, sem hélt áfram að gefa af sér áratugum saman. Þetta er saga þeirrar sem sprakk út, fékk sviðið og söng fyrir allan heiminn.

Og í bílskúrnum gráta menn. Í menkeivum gráta menn. Um allan heim. Hommarnir í gufunni, unglingsstrákarnir, ekklarnir, verðbréfasalarnir og hinir venjulegu. Stelpurnar sem halda að enginn vilji sig, fólkið sem starir í spegilinn. Rósin sprakk út fyrir öll.

Fílalag
Fílalag
The Rose - Sú sem sprakk út
/

Organ Donor – Kvíðadrepandi félagsmiðstöðvastomper

DJ Shadow – Organ Donor

Lygnið aftur augum. Hann er kominn að kveða burt kvíðann. Sjálfur skuggaprinsinn. DJ Shadow, í linum Dickies buxum og með hveitilitað hörund býður hann ykkur á scratch-námskeið.

Það er komið að því að fíla. Það fíla allir Organ Donor, jafnt dýr sem menn. Fólk sem hefur aldrei heyrt það fílar það yfirleitt við fyrstu hlustun. Þetta hefur ekki enn verið vísindalega sannað, en ef eitthvað lið í Sviss fengi styrk til rannsókna, þá væri niðurstaðan örugglega Shadow í vil.

Það er enginn að biðja ykkur um að brosa. Það er enginn að biðja ykkur um að dansa. En ef þið djúpfílið ekki Líffæragjafann, þá skuluð þið gefa ykkur fram því að fólkið í Sviss mun þurfa að leggja hald á skaddaðan heila ykkar

Fílalag
Fílalag
Organ Donor - Kvíðadrepandi félagsmiðstöðvastomper
/

Þeir bestu – Ég mun fela öll mín tár

Hljómar – Ég mun fela öll mín tár

Undir fílunarnálunni eru Hljómar frá Keflavík. Besta band Íslands, fyrr og síðar.  Þeir voru vinsælastir, frjóastir og metnaðarfyllstir allra banda á Íslandi í svo langan tíma. Óháð öllu meiki og heimsyfirráðum, þá hefur ekkert band gefið hann jafn grimmann.

Frá falsettum Berta Jens til lagasmíða Gunna Þórðar, frá tyggjókjafti Rúna Júl til ölvandi raddar Shady Owens. Hljómar eru sólkerfi þar sem flest önnur bönd eru kálgarður.

Hættum að hafa í flimtingum. Keflavík er sólin. Hljómar geislar hennar.

Fílalag
Fílalag
Þeir bestu - Ég mun fela öll mín tár
/

Alheimssturtan – Óðurinn til gleðinnar: Gestófíll Jóhann Alfreð

Ludwig van Beethoven – Óðurinn til gleðinnar

Gestófíll: Jóhann Alfreð Kristinsson

Það sem lagt hefur verið á álfuna. Fyrst voru það kóngarnir, púðraðir, grimmir og graðir. Blóðið bunaði. Svo voru það byltingarsinnarnir, grimmari, graðari, hraðari. Blóðið spýttist. Svo var það Napóleon, púðraður, graður og agaður og blóðið fossaðist. Og með þessu fylgdist Schiller og síðar Lúðvík gamli rófubóndi og heilluðust og hneyksluðust á víxl.

Eitt voru þeir þó vissir um. Að ofar tjaldi himnanna byggi miskunnsamur Guð. Í máli og tónum ortu þeir uppgjör við grimmdina og niðurstaðan varð óður. Til gleðinnar, hét það. Og það er allt lagt undir. Mökunarkall rostunga, fjórfaldur kór, yfirveðsett lengd og bara fyrst og fremst sturtan mikla.

Síðar átti sturtan eftir að vera notuð í pólitískum tilgangi. Til að sameina Evrópu við lok kalda stríðsins. Og herra Guð ofar stjörnutjaldi. Það tókst. Helmut Kohl að hægprumpa í stól í Bonn með Óðinn glamrandi er alföðursdómur okkar allra.

Og aldrei láta þann glæp henda að Evrópa sundrist að nýju. Ekki láta það gerast. Ekki á ykkar vakt. Schiller og Beethoven lögðu allt of mikið á sig til að það megi gerast. Þetta voru átök. Þessi sturta er ekki ókeypis. Hún er sú dýrasta af öllu dýrmætu. Gísa-Pýramídi evrópskrar menningar.

Sinfónía númer 9 í d moll, opus 125, fjórði hluti. Stjórnandi, Herbert von Karajan. Gjörið svo vel.

Fílalag
Fílalag
Alheimssturtan - Óðurinn til gleðinnar: Gestófíll Jóhann Alfreð
/

I’m Sleeping My Day Away – Einbeittur brotavilji

D.A.D. – I’m Sleeping My Day Away

Sporðdreki hríslast eftir maga á konu með mjótt mitti. Þurrt eyðimerkurlandslag. Smokkar. Rauður Winston á náttborði. Hríslandi kögur á ljótum leðurjakka.

Danir í húsbát súpa á náttúruvíni. Fólk á Akranesi skaddar sig. Leðurblökur undir þakskyggni í Perth í Ástralíu. Í myrkrinu eru glyrnur.
Mikki Mús liggur í valnum. Skorinn á háls bak við kandífloss-stand. Bambi stendur stjarfur í bílljósunum.

Þeir eru komnir. Úthvíldir danskir skrattar. Og þeir ætla að fremja ógeðsleg myrkaverk.

Fílalag
Fílalag
I'm Sleeping My Day Away - Einbeittur brotavilji
/

Dreams – Málaðu veggina með trönuberjasultu

Cranberries – Dreams

Ungt fólk í yfirgefnum vöruhúsum. Dýna á gólfi. Bjór. Fússball borð. Kona í hippakjól keyrir belgvíðan gulan leigubíl yfir hvít, spíssuð úthverfagrindverk. Hlátur. Þau eru mætt og þau mála og mála. Mála og borða pizzur. Draumar. Rauð sósa út á kinn. Trönuberjasulta lengst út á kinn. Mála barnaherbergi. Stilla upp rimlarúmum, óróum. Bumba. Borgartúnið bíður. Impossible is nothing.

Morðið á Marat. Just do it. Draumar. Byltingunni blæðir út. Dauði í baðkari. Limrurnar verða ekki fleiri. En mikið voru kinnar þínar rjóðar á gula leigubílnum.

Fílalag
Fílalag
Dreams - Málaðu veggina með trönuberjasultu
/

Sunday Mornin’ Comin’ Down – Loðinn óður til þynnku

Kris Kristofferson – Sunday Morning Coming Down

Aldrei í veraldarsögunni hefur verið jafn viðeigandi að vera þunnur eftir áfengisdrykkju en í Nashville 1970. Famboðið af steiktum kjúkling til að borða og teppalögðum stigum til að hrynja niður var einfaldlega svo mikið.

Og þar var Kris, skelþunnur. Þar var Kris, vel hærður. Þar var Kris, með sálina fulla af angist og kjálkana glamrandi, að plokka gítarinn. En hver var þessi Kris? Hann var labrador hundur Bandaríkjanna, söngaskáld, hermaður með mastersgráðu í bókmenntum, þyrluflugmaður, kvikmyndastjarna, hólkvíði kóngurinn sem slátraði sjöunni. Kris Kristofferson er líklega eini maðurinn sem púllar það að vera í kúrekanærfötum, sitjandi á kamri, en samt vera sexí á meðan.

Tökum ofan. Já, bara hattinn og alltsaman. Sköfum hár okkar af til hyllingar. Hér syngur Kris um það að vera þunnur. Og það er á pari við barokk-tónsmíðar til heiðurs Den Gamle Gode í Uppsölum. Geri aðrir betur. Steinfílið.

Fílalag
Fílalag
Sunday Mornin' Comin' Down - Loðinn óður til þynnku
/