Vanishing act – Við skolt meistarans

Fílabeinskistan – FílalagGull™

Lou Reed – Vanishing Act

Lou Reed syngur svo nálægt hljóðnemanum í þessu lagi að maður finnur leðurkeimaða andremmuna. Og maður fílar það. Það er eins og að vera staddur við skolt meistarans að hlýða á það undravirki sem lagið Vanishing Act er.

Um er að ræða Rás 1 gúmmelaði fyrir lengra komna. Lag af plötunni “The Raven” frá 2003. Rúmlega sextugur Reed, pirraður, þungur en smekklegur. Lokalag allra lokalaga. Lag um það að kveðja.

Lou Reed var þekktur fyrir að gefa hann þurrann. Allt frá sílfrandi lampasturtum Velvet Underground til dempaðs trommusándsins í seventís sólódótinu. Lou Reed var brak-meistarinn. Leðurjakki, kamel og kaffi. Og auðvitað endaði hann á einu brakandi þurru.

En tárin eru vot.

Fílalag gramsaði djúpt í fílabeinskistuna eftir þessari 2015 skyldufílun.

Fílið.

Vanishing act – Við skolt meistarans
Fílalag

 
 
00:00 / 01:05:01
 
1X
 

Fuzzy – Fjúkandi pulsubréf

Grant Lee Buffalo – Fuzzy

Klæðið ykkur í gallajakka og leðurjakka og rörsjúgið stóra kók á aftasta bekk í Stjörnubíó þar til hryglir í pappamálinu. Setjið hnausþykkt brúnt seðlaveskið í rassvasann og gelið hárið. Skvettið Calvin Klein ilmvatni á hrjúft spjaldið. Spennið á ykkur mótorhjólaklossana. Dragið djúpt andann. Árið er 1993. Það er fuzzari.

Hér er farið yfir þetta allt. Vitabarsborgarana, Something-sólóið í Gítarnum fyrir neðan LA-kaffi. Skaðræðið, baugana og hin fjúkandi pulsubrauð. Það er bullandi eftirpartí á Njálsgötunni og ljóðræn eftirsjásnegla í græjunum. Blár Daihatsu Charade fyrir utan með brúnan hassmola í hanskahólfinu. Öllum líður illa, allt er snilld.

Úr múrsteinslögðu bandarísku vöruhúsi. Inn í veröld hinna fjúkandi pulsubréfa. Hér er það. Loðið sem aldrei fyrr.

Fuzzy – Fjúkandi pulsubréf
Fílalag

 
 
00:00 / 00:52:46
 
1X
 

The Age of Aquarius – Kapítalisminn og draumar hippakynslóðarinnar að r##a inn í kústaskáp

The 5th Dimension – The Age of Aquarius

Unglingar með reykelsi. Tónaðir Broadway leikarar í útpældum fatahenglum. Veröld að fara af hjörunum. Hér er um að ræða kapítalismann og drauma hippakynslóðarinnar saman inn í kústaskáp að búa til beikon. Engu er til sparað í þessari tungllendingar-neglu sem þrumaði sér inn á topp Billboard listans sumarið ’69. Hér fer saman blómabúða-fnykurinn við ískalda pillugræðgi. Þetta lag er bæði loðið um lófana og í handarkrikunum. Leikið þér eigi að lavalampanum. Velkomin í fimmtu víddina. Upp er runnin Öld Vatnsberans.

The Age of Aquarius – Kapítalisminn og draumar hippakynslóðarinnar að r##a inn í kústaskáp
Fílalag

 
 
00:00 / 01:08:29
 
1X
 

Theme from New York, New York – Með 20. öldina út á kinn

Frank Sinatra – Theme from New York, New York

Bláskjár. Frank Sinatra. Níu hundruð þúsund sígarettur. Tvö hundruð og átta tíu þúsund martíní-glös. T-steikur, broads, kertaljós. Röddin í útvarpinu, axlirnar á sviðinu, augun á umslaginu.

Francis Albert. Jarðaður með foreldrum sínum. Kistan úttroðin af stemningsvarningi. Slökkt á Las Vegas. Empire State byggingin lýst bláu ljósi. Þar fór þrútnun aldarinnar ofan í box.

Hátindurinn? Böllin á Broadway (ekki í Ármúla), yfirlið unglingsstúlknanna sem höfðu beðið alla nóttina að komast inn. Óskarsverðlaunin fyrir bestan leik 1954. Forsetavígsluball Kennedy 1961. Sundlaugabakkasnilldin. Völdin, peningarnir, áhrifin, glamúrinn. Eða var hápunkturinn bara að drepast í stól með viskíglas á hverju kvöldi. Lognast útaf úr ofgnótt. Hverfa inn í augu engilsins.

Ronní, Bógí, Crosbý. Silki dregið eftir þófmjúku handarbaki. Mal kadilakks í þykkninu. Sálin tindrandi en holdið jafn dautt og kartöflusalat á afgangadiski á dæner um niðdimma nótt. Eða var það öfugt?

Gamli Bláskjár. Klikkaður maður með hatt í vitstola veröld, kamelsjúgandi, sálarkljúfandi manneskja í myrkrinu. Pírir augun og hverfur okkur sjónum, með 20. öldina löðrandi út á kinn.

Theme from New York, New York – Með 20. öldina út á kinn
Fílalag

 
 
00:00 / 01:25:13
 
1X
 

The Power of Love – Tyggjó, kærleikur, agi, höggmynd, skriðþungi, stjörnuþoka, tryggð

Jennifer Rush – The Power of Love

Það er þýsk-amerísk negla í dag. Hin Ameríska Jennifer Rush fór til Þýskalands til að taka upp sitt frægasta lag, The Power of Love, sem er eitt vinsælasta og útbreiddasta lag allra tíma. Sem hefur rokið á topplista með henni sjálfri, Celine Dion og hinum áströlsku Air Supply.

Rush er sjálf með ótrúlegan bakgrunn. Hét upprunalega Heidi Stern en breytti nafninu sínu í hið ofsafengna Rush til að vera heiðarlegri með þá staðreynd að hún er æðisgengið hæfileikabúnt sem lætur mestu söngdívur heimsins hljóma eins og fiskeldisseiði.

The Power of Love er grafalvarlegt lag. Þar er ekki að finna ögðu af húmor eða eftirgjöf. Til að útskýra Power of Love er best að ímynda sér lest, en í stað þess að þessi lest sé á teinum sem fer frá A-B á tvívíðum fleti, þá tekst lestin á loft eins og geimskutla og ryður sífellt frá sér meiri geimþoku þar sem hún fer inn í ókannaðar víddir himinskautana. Power of Love er höggmynd, þrívíður hlutur sem hægt er að príla í, fram og til baka, upp og niður, þar til taugareseptorarnir þrjóta.

Njótið, blótið og sótfílið þetta lag. Þetta er þýsk-amerískur skriðþungi sem ekkert getur stoppað. Ekkert getur stöðvað Jennifer Rush því rúss hennar er helíumsól sem hrað- og seigbrennur hvort tveggja í senn til dýrðar kærleika, tryggðar og hvers lags dyggðar.

The Power of Love – Tyggjó, kærleikur, agi, höggmynd, skriðþungi, stjörnuþoka, tryggð
Fílalag

 
 
00:00 / 00:55:26
 
1X
 

Love Minus Zero/No Limit – Hrafninn sem kyndir ofn okkar allra

Bob Dylan – Love Minus Zero / No Limit

Lagið sem er til umfjöllunar í dag er svo epískt að greinin um fílunina verður í “Í ljósi sögunnar” stíl.

Dagarnir 13., 14. og 15. janúar voru nokkuð kaldir í New York borg árið 1965. Hitinn fór lítið yfir frostmark og fór alveg niður í mínus 12 gráður á celsíus að morgni föstudagsins fimmtánda. Á þessum þremur dögum, í hljóðveri Columbia útgáfunnar í CBS byggingunni á 52. stræti í miðhluta Manhattan, var platan Bringing it All Back Home með Bob Dylan tekin upp.

Í miðri frosthörkunni, á föstudeginum, var lagið “Mr. Tamborine Man” tekið upp, en það hafði að vísu verið samið nálægt ári fyrr, eða í febrúar 1964. Á þessum þremur dögum voru einnig tekin upp lög eins og “Gates of Eden”, “Maggie’s Farm” og “It’s All Over Now Baby Blue” – allt lög sem breyttu gangi sögunnar.

En það var fimmtudags eftirmiðdagurinn 14. janúar sem gaf bestu uppskeruna. Í einu þriggja og hálfra klukkustunda lotu tók Bob Dylan upp, ásamt hljómsveit, nothæfar og endanlegar útgáfur af lögunum “Outlaw Blues”, “She Belongs to Me”, “Bob Dylan’s 115th Dream” ásamt einu af hans allra frægustu lögum “Subterranean Homesick Blues”. Eins og það sé ekki nóg þá kláraði hljómsveitin og Dylan líka upptöku af laginu “Love Minus Zero / No Limit”, þennan kalda fimmtudag í New York þann 14. janúar 1965. Upptökur hófust kl. 14.30 og var lokið kl. 18.

En það sem tók aðeins 3,5 klukkustundir að taka upp, hefur fólk eytt milljónum klukkustunda í að greina. “Bringing it All Back Home” er platan sem sprengdi upp heilann í risastórri kynslóð hugvísindafólks og sjálfskipaðra greiningarsveita – en slík ýfing hefur ávallt verið eitt af aðalsmerkjum Dylans.

Það er því varla tilviljun að í fyrsta sinn sem Fílalag leitar í sömu plötuna eftir lagafílun, sé það einmitt þessi plata sem varð fyrir valinu. Áður hefur Tamborínumaðurinn verið maukgreindur – en nú er komið að hinum algilda, fitusprengda, gerilsneydda, leifturhitaða Kærleika. Nú setjum við hann á borð okkar og drögum ekkert af honum.

Love Minus Zero/No Limit – Hrafninn sem kyndir ofn okkar allra
Fílalag

 
 
00:00 / 01:26:47
 
1X
 

Live is Life – Að eilífu æring

Opus – Live is Life

Maradona horfir á Vesúvíus. Grétar Örvarsson stingur múslískeið í munn. Kartöflusalat svitnar á útiborði í bjórgarði í Graz. Evrópa er öxull.

Hemmi Gunn setur á sig svitaband og fer á svið á Broadway. Rúta með móðuðum rúðum brunar í gegnum íslenska sumarnótt. Veröldin er drifskaft.

Maður með permanent horfir upp á flúraðar hallirnar við Ringstrasse, á bónaða þjóhnappa herforingjanna sem standa sperrtir á stalli sínum. Í fjarska heyrist ómur frá múgnum sem heimtar tilgang.

Ekki meira ofbeldi, ekki meira stríð. Polkareggí skal það vera. Polkareggí skal það vera og við gefum allt í það. Allt.

Live is Life – Að eilífu æring
Fílalag

 
 
00:00 / 00:56:58
 
1X
 

Loser – Áferð sultunnar

Beck – Loser

Eftirpartísófi með teppi hekluðu úr tékknesk-bóhemískum ljóðum og bróderaður með Andy Warhol Factory-flúxi. Póst-móderníski skúnkurinn Beck Hansen er fílaður niður í sviðasultu í dag og það er margt sem hægt er að japla á:

Myndlistarsköddunin, molasykurinn og miðsnesið á David Geffen. Þessi kynningartexti hefur enga skýra línu enda er sólbakaður loðfíll undir smásjánni og ekki hægt að sjá Appalachian þykknið fyrir trjánum þegar Beck litli Hansen er annars vegar.

Sprechen Sie Deutsch, Baby?!

Fílið bara. Loser.

Loser – Áferð sultunnar
Fílalag

 
 
00:00 / 01:20:31
 
1X
 

I Wanna Get High – Skúnka-skaðræði

Cypress Hill – I Wanna Get High

Það er komið að skoti úr bongóinu. Hér er um negul-neglu að ræða. Kúbversk-mexíkönsku-amerísku á-skala-við-Billy-Joel-seljandi gangsterarnir frá Suðurhliði. Það heyrðist hvíslað undir síprus-viðnum að guðspjallið skrifaði guðspjallamaðurinn B-Real ásamt senaða hundinum.

Á tímabili lágu allir í valnum. Háskólakrakkar í Bandaríkjunum, lagerstarfsmenn í Austurríki. Allir vilja ganga til messu á svörtum sunnudegi. Líka þú, hvort sem þú varst skotinn í lungað sautján ára eða heimsóttir Kiss í kringlunni og keyptir þér prumpusprey. Þetta er þín músík. Hér er blásið í lúðra þér til heiðurs.

I Wanna Get High – Skúnka-skaðræði
Fílalag

 
 
00:00 / 00:48:23
 
1X
 

Heyr himna smiður – Miðalda-monsterið


Kolbeinn Tumason & Þorkell Sigurbjörnsson – Heyr himna smiður
Árið 2018 völdu Íslendingar sitt uppáhalds tónverk í kosningu sem haldin var á vegum Ríkisútvarpsins. Niðurstaða valsins var áhugaverð þó hún hafi kannski ekki komið sérstaklega á óvart. Vinsælasta tónverk íslensku þjóðarinnar er kórverkið Heyr himna smiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson við rúmlega 800 ára gamlan sálm Kolbeins Tumasonar. Valið kemur ekki á óvart enda er verkið víða spilað í jarðarförum og öðrum athöfnum, og þar að auki hefur það notið töluverðrar vinsælda út fyrir landsteinana. Heyrðist það meðal annars í Eurovision mynd Will Ferrel og í sjónvarpsþáttunum Handmaid’s Tale auk þess sem hljómsveitin Árstíðir hefur heillað tugir milljóna með sínum flutningi.
En hvers vegna er Heyr himna smiður svona gríðarlega vinsælt? Er það fjögurra radda útsetningin, grípandi laglínan eða er það sú staðreynd að 800 ára gamall textinn er þrátt fyrir allt skiljanlegur okkur nútímafólki? Eða er það vegna þess að við erum öll undir sömu sökina seld. Við höfum öll setið á veitingastað með miðaldaþema, hvort sem það er Hrói höttur, White Castle Burgers eða hverskonar hellislaga bjórkjallari eða knæpa. Við erum öll sólgin í miðaldir. Ævintýrin, kastalasýkin, sokkabuxurnar. Í gráma þægindatilveru okkar er vart hægt að finna meiri líkn en að setja á sig plussuð hljóðdempandi heyrnartól og streyma miðöldunum inn í vitundina, mildaða niður í þriggja mínútna popplengd.
Eða er niðurstaðan bara sú að Íslendingar bara djúpfíla himnasmiðinn og um það er ekkert meira að segja. Þetta er bara pjúra fílun

Heyr himna smiður – Miðalda-monsterið
Fílalag

 
 
00:00 / 01:34:41
 
1X
 

Blue Monday – Yfirlýsing

New Order – Blue Monday

Hvenær varð síðast bylting? Hversu gömul er sú hugmyndafræði sem við styðjumst við á Vesturlöndum í dag? Hversu gamall er nútíminn? Þurfti ekki að umturna öllum viðmiðum og setja ný mörk eftir lok síðari heimstyrjaldar – eða eftir fall kommúnismans? Hvert er skipulag hlutanna í alþjóðavæddum heimi viðskipta og hugmynda?

Sjöundi mars 1983 var mánudagur. Það var engin heimstyrjöld í gangi þá. Það voru heldur engin minnistæð þjóðfélagsátök, götuóeirðir eða upphlaup. Mánudagurinn sjöundi mars 1983 var í raun ósköp venjulegur mánudagur hjá flestum, mæðulegur eins og mánudögum er vísa. Fólk mætti í vinnuna, borðaði ristað brauð og pældi ekkert sérstaklega í hvert heimurinn stefndi.

Síðan eru liðin 37 ár.

Hitastig andrúmsloftsins hefur hækkað.

Hjörtu okkar hafa kólnað.

Blue Monday – Yfirlýsing
Fílalag

 
 
00:00 / 01:07:30
 
1X
 

Roar – Kona öskrar

Katy Perry – Roar

Úr valdamesta landinu, farsælasta ríkinu, undan menningarheimi útbreiddustu trúarbragðanna, með öguðustu aðferðafræðinni, stendur hún á alstærsta sviðinu.

Og öskrar!

Katy Perry er ein sú allra stærsta undanfarinna áratuga. Hún á 100 milljónir fylgjenda á Twitter, 100 milljónir á Insta. Urrið hennar er með þrjá milljarða spilana á YouTube. Og hún hefur klárað sérhvert verkefni, kramið hindranir, brætt hjörtu og farið sína leið. Við fílum.

Roar – Kona öskrar
Fílalag

 
 
00:00 / 00:54:45
 
1X
 

Jóga – Litbrigði jarðarinnar

Björk – Jóga

Stærsta poppstjarna Íslands fyrr og síðar er tekin fyrir í dag. Snúðarnir, hvíta dúnúlpan, textúrinn, vefnaðurinn. Ferill Bjarkar er fínofinn og verður aldrei greindur til hlítar, en sumir þræðir eru meira áberandi en aðrir.

Björk er útpæld, verk hennar eru gagnrýnendakonfekt og tengsl hennar við stór þemu eins og umhverfisvernd og frelsisbaráttu þjóða og einstaklinga eru aðdáunarverð. En við skulum aldrei gleyma að fíla hana líka, fíla músíkina og lýríkina án þess að ofhugsa hana of mikið.

Björk, stóra, sú einstaka, sú einbeitta. Dýrust kveðnasta Liljan. Við fílum hana.

Jóga – Litbrigði jarðarinnar
Fílalag

 
 
00:00 / 01:33:05
 
1X
 

Everybody Wants to Rule the World – Tvö skott, miskunnarleysi, náungakærleikur er fyrir aumingja

Tears for Fears – Everybody Wants to Rule the World

Charles Chaplin bítur í grænt epli í útlegð sinni í Manoir de Ban við Genfarvatn. Ólívutanaður Ísraeli klístrar á sig Ray Ban Aviators og snýr sveif í skriðdreka sem er í þann mund að storma inn í Líbanon.

Þristur í lágflugi yfir túndrum Síberíu. Maður með hvassar augabrúnir kyrktur í lest á fjallateinum Kákasus. Hátt strengdar buxur, þétt reimaðir alpín-skór. Skúli Mogensen droppaður úr Súper-Púmu, skíðar niður með Mattehorn með bavíanarass.

Enskir pólóbola drulluhalar mappa út trommutakt í hljóðveri í London. Húsvörður með rjóðar kinnar og þvagsýrugigt pússar stigahandrið í Höfða. Það er há-átta og alls ekki mál að fara að hátta.

Tár jafngilda ótta. Skálum í tárabikar. Látum veigarnar flæða yfir bakka sína. Látum Evret og Tígris freyða og flæða. Hammúrabí situr í sæti sínu og í höfði hans hljómar lítið lag hvers texti segir: það vilja allir stjórna heiminum.

Everybody Wants to Rule the World – Tvö skott, miskunnarleysi, náungakærleikur er fyrir aumingja
Fílalag

 
 
00:00 / 00:54:23
 
1X
 

Norwegian Wood & Fourth Time Around – Þegar Guð steig niður

Bítlarnir – Norwegian Wood (This Bird Has Flown)
Bob Dylan – Fourth Time Around

Turnarnir tveir í sexunni voru Bítlarnir og Bob Dylan. Og það er ekki lítið að hafa verið turn í sexunni því í sexunni þróaðist tónlist mikið. Hún dýpkaði og tók inn ýmsa eiginleika sem áður voru framandi í dægurtónlist. Hún hætti að vera aðeins samfelld frásögn og fór að taka inn áferðir bæði í hljóðum og texta. Tónlistarfólk nálgaðist listsköpun sína á nýjan hátt og valdeflingin var gríðarleg. Um miðja sexuna má segja að tónlistarfólk hafi verið orðið að andlegum leiðtogum ungs fólks um allan heim en þá var í gangi skemmtilegt endurvarp milli tveggja engilsaxneskra menningarheima: Bandaríkjanna og Bretlands.

Í stuttu máli má segja að Bretar hafi kennt Ameríkönum að skilja dýptina í sinni eigin tónlist. Breskar blúsrokksveitir eins og Rolling Stones dýrkuðu ameríska blús- og þjóðlagasöngvara og slógu í gegn með amerískri músík í Ameríku. Það þurfti mjóa Breta til að kenna Bandaríkjamönnum að fíla sitt eigið stöff. Það sama var uppi á teningnum með Bítlana. Þó að þeir hafi slegið í gegn í Bretlandi 1963, þá var það ekki fyrr en með för þeirra til Ameríku sem hið eiginlega alþjóðlega Bítllaæði hófst. Þetta er oft kallað “breska innrásin”, þegar bresk bönd kenndu amerískum ungmennum að fíla eigin tónlistararf. Þetta varð svo Bob Dylan innblástur til að semja plötuna “Bringing it All Back Home” sem markar upphaf rafmagnaða kaflans í ferli hans, en með titli plötunnar vísar Dylan til þess að nú sé hann að taka músíkina aftur heim, þaðan sem hún kom. Strax ári síðar gefa Bítlarnir svo út “Rubber Soul” sem er líka vísun í þetta amerísk-breska samband, því að titillinn vísar til þess að þeir séu “gúmmí-sálverjar”, þ.e. ekki ekta amerískir sálarsöngvarar af afrískum uppruna, heldur bláeyga breska gúmmí-útgáfan – sem verður að teljast smekkleg hógværð. En á Rubber Soul eru Bítlarnir ekki bara að spreyta sig á sálarmúsík, þeir eru líka að gera sínar fyrstu tilraunir með skrítin hljóðfæri og skrítna og síkadelíska texta en hið síðarnefnda var eitthvað sem Bob Dylan var kyndilberi í. Og auðvitað fór þetta fram í mesta vinskap, en þó er eins og eitt lag á Rubber Soul, hið brautryðjandi Bítlalag “Norwegian Wood”, hafi farið skringilega ofan í Dylan, því er hann lokaði þeysireiðar kaflanum í lífi sínu með plötunni Blonde on Blonde sumarið 1966 virðist hann ekki hafa staðist þá freistingu að senda smá sneið á Bítlana með laginu “Fourth Time Around” – sem í laglínu- og hljómauppbyggingu, textaþemu og áferð, kemur út eins og eklipsa utan um norska viðinn. Þessu er erfitt að lýsa með orðum – því Fourth Time Around er í raun ekki sama lag og Norwegian Wood, heldur er fremur eins og það umvefji síðarnefnda lagið og hálfpartinn sefi það með líkindum.

Þetta má vel ræða og fíla allan daginn – enda eru þetta afar sterk Bítla- og Dylan lög – frá hápunktum sköpunarkrafts beggja aðila – og bæði ákveðin púsl í þetta sérstaka Ameríku- og Bretlands endurvarp, sem og æðisleg dæmi um tímana þegar Guð hreinlega steig niður af himnum og leiddi tónlistarfólk inn í nýjar víddir í sköpun sinni. En umfram allt eru þessi lög fíluð því þau eru stórkostleg. Þau geyma allt: þau eru grípandi, dáleiðandi, áferðarfögur og hreinlega göldrótt. Og samspil þeirra tveggja er eitthvað sem er svo erfitt að henda reiður á – hvernig Dylan hylur norska viðinn eins og dalalæða þannig að enginn veit neitt nema að eitthvað mystískt og epískt er í gangi.

Tveir bestu listamennirnir fílaðir í dag, tvö bestu lögin, sem er í raun sama lagið. Hrollköld fílun, gæsahúð maximus, kalkúnaskinn í rassinn þinn.

Norwegian Wood & Fourth Time Around – Þegar Guð steig niður
Fílalag

 
 
00:00 / 01:25:15
 
1X
 

By Your Side – Koddahjal, silkisjal

Sade – By Your Side

Hin nígerísk-breska Helen Folasade Adu, eða „Sade” líkt og samnefnd hljómsveit hennar nefnist, er ein af þeim stóru af MTV-kynslóðinni. Hún átti risasmelli í áttunni en lá mikið til baka í níunni en kom svo aftur árið 2000 með risasmellinum By Your Side.

Að hlusta á Sade er eins og að vera boðið inn í helli veggfóðraðan með silkisjölum. Sándið er plussað, rýmið er öruggt. Allt verður mýkra og fallegra líkt og nafnið hennar, Sade, sem borið er fram Sjadei.

Sade er margslunginn listamaður sem hefur haft mikinn stjórn á ferli sínum. Yfir þetta er farið í þætti dagsins. Njótið, fílið!

By Your Side – Koddahjal, silkisjal
Fílalag

 
 
00:00 / 00:55:03
 
1X
 

One Headlight – Glætan og myrkrið

The Wallflowers – One Headlight

Ég veit hvað þú gerðir síðasta sumar. Þú keyrðir yfir brúna hjá sýslumörkunum á einni lukt og bjúikkinn hvarf inn í myrkrið. Það komast ekki allir á Kirkjugarðsballið í haust sem ætluðu þangað í vor.

Maísakurinn. Bregðuruslið. Sætir unglingar leiknir af þrítugum alkóhólistum. Hörð ljós níunnar. Ein lukt. Beint í andlitið, beint í grímuna, beint í meitlað spjaldið. Múltí-platína. Gubbað í fötu. Kjálkar, haka, nef, augu.

Rokkið er í andaslitrunum. Það var í andaslitrunum 1957, 1967, 1977, 1987 og 1997. Og alltaf var því bjargað af dreamy drulluhala með telecaster.

Addams-fjölskyldan. Yfirgefnar timburhallir. Lakkaðar líkkistur. Djúplakkaðar, póleraðar, valhnotuhirslur.

Upplausn hugmynda. Endurfæðing. Bestun. Þorgeir Ástvaldsson með hvíta hanska.  Heisið, meisið, þykknið, myrkrið. Skaðræði, ofbeldi. Ameríka. 
Ein lukt er allt sem þarf.

One Headlight – Glætan og myrkrið
Fílalag

 
 
00:00 / 01:02:42
 
1X
 

Wild World – Genakokteill allrar eilífðar

Cat Stevens – Wild World

Í hvítri mussunni stígur hann á Ibiza-sprekið og klórar sér snöggt kafloðnum maganum. Steven Demetre Georgiou, einnig þekktur sem Cat Stevens, einnig þekktur sem Ysuf Islam, var einn heitasti lagahöfundur og söngvari sjöunnar. Allt sem hann gerði á árunum upp úr 1970 breyttist í gull, og það sem meira, það eldist vel.

Stevens tókst það sem afar fáum hefur tekist. Plöturnar hans minna jafn mikið á kynlíf eins og þær minna á námskeið í hekli. Hann keyrði á bókasafnsgreddu, skandinavískri kókaínorku. Stevens, sem er hálfur Svíi og hálfur Grikki, alinn upp í London, bjó til ómótstæðilegan kokteil sálar- og þjóðlagatónlistar. Hann var fær söngvari, fær höfundur og að auki var hann stúdíó-rotta.

Í dag er hann þekktur sem Yusuf Islam – en allt meikar þetta sens ef athyglinni er beint að því hversu mörg hráefni er í raun að finna í Kettinum – og hversu vel þau eru hrist saman. 

Högni Stefáns, gjörið svo vel.

Wild World – Genakokteill allrar eilífðar
Fílalag

 
 
00:00 / 00:50:17
 
1X
 

Mellow Yellow – Gamli gulur

Donovan – Yellow Mellow

Pottlok á höfði. Graður Skoti horfir til Austursins og sigrar Vestrið. Frasabók sexunnar klár í vasa. Allir slakir, gulir og gíraðir.

Stælarnir í hámarki. Aðdróttanir, bananar, víðar skyrtur.
Skyldufílun á gamla gula.

Mellow Yellow – Gamli gulur
Fílalag

 
 
00:00 / 00:59:05
 
1X
 

Dreams – Sútað leður

Fleetwood Mac – Dreams

Loðfíll tekinn fyrir. STOP. DD Unit kölluð inn. STOP. Macið sútað. STOP. Leðurvesti, tögl. STOP.

Hér er um að ræða risafílun á öllum skala. Stórkostlegur gestófíll, stórkostlegt lag. Hnífapörin munduð. Loðfíllinn skorinn. 

Mac & Cheese a Chili’s í úthverfi Fort Lauderdale. Fleetwood Mac á grillið. Anytime, 24/7/365.

Dreams – Sútað leður
Fílalag

 
 
00:00 / 01:59:28
 
1X
 

Heart of Glass – Óbrjótandi, óþrjótandi kúl

Blondie – Heart of Glass

New York. Rottur. Pizzukassar. Ljósmyndarar. Leðurjakkar.. Brunastigar. Rafgítarar. Trommuheilar. Þröngir kjólar. Strigaskór. Kalkúnasamlokur.

Platínugyllt hár. Gulir leigubílar. Stressaðir endurskoðendur. Lakkrísbindi. Diskótjútt. Ökklinn á Sidda frænda. Pillur.

Blondie var og er, óþrjótandi kúl, með óbrjótandi glerhjarta.

Heart of Glass – Óbrjótandi, óþrjótandi kúl
Fílalag

 
 
00:00 / 01:33:04
 
1X
 

For Whom The Bell Tolls – Feigð, húð, hryggð, hefnd, reiði, örkuml, angist, bólur, reiði, sekt, keyrsla

Metallica – For Whom the Bell Tolls

Kalifornía 1981. Veröldin heilsar nýrri tónlistarstefnu. Metallinn hefur fengið að súrrast í áratug og nú er komið  að kalsíum og næringaefnabættri uppfærslu. Keyrslu-málmurinn er fundinn upp. Thrash-metallinn. Fremstir í flokki eru nokkrir unglingar í gallajökkum með slæma húð. Þeir eiga eftir að verða eitt stærsta skrímsli tónlistarsögunnar.

Hvort sem þú ert spjótkastari frá Algeirsborg eða pípulagningamaður í Prag. Þeir stungu málm í rassinn þinn. Þó þú sért fín frú í Ofanleiti. Enginn er hólpinn. Vegir málsmiðjunnar liggja svo víða og hafa svo djúpa grunna, að enginn getur fetað sig i gegnum lífið án þess að þurfa að fara yfir slík gatnamót.

Kirk, James, Lars og Cliff. Þetta var ólíklegt, þetta er jafnvel fáránlegt, en söngvar ykkar um andstyggð og tortímingu eru eitt útbreiddasta gospel okkar tíma. Öllu er afmörkuð stund, eins og segir í hinni merku bók, og núna er stundin til að fíla það.

For Whom The Bell Tolls – Feigð, húð, hryggð, hefnd, reiði, örkuml, angist, bólur, reiði, sekt, keyrsla
Fílalag

 
 
00:00 / 01:24:33
 
1X
 

My Hero – Lappadagasnilld

Foo Fighters – My Hero

Handboltarokkið er tekið föstum tökum í þætti dagsins. Um er að ræða slökkviliðsmannastomperinn My Hero með Foo Figthers, úr miðju hávaðastríðinu 1998.

Nirvana lagði skyndilega upp laupana vorið 1994 við fráfall Kurt Cobains og eftir stóðu tveir hálfþrítugir atvinnulausir rokkarar. Krist Novoselic er í dag að mestu þekktur sem gaurinn sem spilaði á bassa í Nirvana en trommarinn Dave Grohl fór aðra leið og stimplaði sig inn í ameríska þjóðarsál sem lagahöfundur, söngvari, aktivisti og grínari. Verkefnið hans, Foo Fighters, varð að arena-skrímsli og plöturnar átta eru meira og minna sneisafullar af hitturum.

Hér er farið yfir þetta allt. Kaffidrykkjuna, hljómsveitabolina og þrútnunina. Að lokum verður hin eina sanna lappadagasnilld fíluð í strimla.

My Hero – Lappadagasnilld
Fílalag

 
 
00:00 / 00:44:42
 
1X
 

Sweet Caroline – Harka demantsins, ljúfleiki lífsins

Neil Diamond – Sweet Caroline

Þá er komið að augabrúnunum frá Brooklyn. Neil Diamond. Axlafílarinn mikli. Strit og uppskera. Hvolpaást í sumarbúðum. Vor, sumar, útsprungin blóm í vasa í Viceroy mettuðu baksviðsherbergi. Barnalæknabringan.

Skyrturnar, skylmingarnar, Talmúd-ritningin. Haltu kjafti brjóstsykur. Svartur gítar, svart hár, svört aska á botni kamínu í bjálkakofa. Stjörnur á himninum. Orion-drulla stensluð í kama-sutra bæklinga í Fossvogshverfi.

Hótelherbergi í Memphis. Endalaus teppalögð sjöa. Víðátta myrkursins. Sólskinið á hafnarboltavellinum. Fræjum sáð í grænan svörð. 

Sweet Caroline – Harka demantsins, ljúfleiki lífsins
Fílalag

 
 
00:00 / 01:01:19
 
1X
 

Hausverkun – Drullumall sem varð að múr

Botnleðja – Hausverkun

Gestófíll: Ari Eldjárn

Það er komið að því. Hnausþykk fílun á bestu rokkhljómsveit síðari tíma á Íslandi. Ari Eldjárn var kallaður út því hér þurfti að draga búrhveli að landi. Botnleðja var rokktríó sem hafði allt. Ungæðiskraft, fyndna texta og svo voru þeir líka mjög kúl.

Heiðar, Raggi og Halli voru með þetta. Hafnarfjarðargæjar, fæddir í sjöunni sem drullumölluðu með skóflur í sandkassanum og fóru beint inn í æfingarhúsnæði og rokk-drullumölluðu. Hlóðu í raun upp heilan vegg að lokum – ósnertanlegan hljóðheim. Hér er um að ræða músíktilrauna jacksnúru systemið eins og það leggur sig. Hlustið og þið munuð fíla því hér er farið yfir þetta allt. Gítar-og bassasíddina, Keflavíkur-Hafnarfjarðar rokk-öxulinn, London-loftbrúna, píkutryllis-jazz-skeggið, Duracell áhrifin og að sjálfsögðu níu-kryppurnar.

Og að sjálfsögðu er lagið Hausverkun tekið fyrir. Þar eru Botnleðjuáhrifin öll til staðar. Ungæðislegur kraftur og texti sem búið er að vefja inn í útsetningarvöndul og lúðrablástur, þétt og vel sándandi múrverk, alveg jafn girnilegt til snæðings eins og þegar það kom úr ofninum haustið 1996. Takk fyrir allt Botnleðja.

Hausverkun – Drullumall sem varð að múr
Fílalag

 
 
00:00 / 01:17:23
 
1X
 

The Rose – Sú sem sprakk út

Bette Midler – The Rose

„Stóra systir mín var vön að sitja á gólfinu í herberginu sínu. Þetta var 1979 og nánast daglega setti hún 45 snúninga plötuna með Rósinni undir fóninn á plötuspilaranum frá Sears. Hún lést í fyrra, var 53 ára gömul. Maðurinn hennar og ég vorum að fara í gegnum dótið hennar og þá fann ég albúmið, umbúðirnar voru snjáðar, en 45 snúninga platan var í hulstrinu sínu. […] 30 sekúndum síðar heyrðist í tveimur fullorðnum mönnum snökta hljóðlega, þar sem þeir sátu í bílskúrnum. Hví í friði Dawn.”

Textinn hér fyrir ofan er þýðing á einu af efstu kommentunum sem finna má undir einni af útgáfum lagsins The Rose með Bette Midler, á youtube. Kommentið var sett inn árið 2019 af notandanum: SouthOCmixdown. Efsta kommentið undir laginu, sett inn af Thea Lloyd, hljómar svona: „Konan mín lést skyndilega fyrir ári síðan. Við vorum gift í 45 ár. Þetta var uppáhalds lagið hennar og í sérhvert skipti sem ég heyri það, tætir það mig niður í öreindir.”

Rósin er fíluð í dag. Þetta er saga Bette Midler. Þetta er saga konunnar sem söng fyrir hommana í sánunni þegar enginn annar vildi vita neitt af þeim vita. Þetta er saga konunnar sem gafst aldrei upp, sem hélt áfram að gefa af sér áratugum saman. Þetta er saga þeirrar sem sprakk út, fékk sviðið og söng fyrir allan heiminn.

Og í bílskúrnum gráta menn. Í menkeivum gráta menn. Um allan heim. Hommarnir í gufunni, unglingsstrákarnir, ekklarnir, verðbréfasalarnir og hinir venjulegu. Stelpurnar sem halda að enginn vilji sig, fólkið sem starir í spegilinn. Rósin sprakk út fyrir öll.

The Rose – Sú sem sprakk út
Fílalag

 
 
00:00 / 00:59:14
 
1X
 

Organ Donor – Kvíðadrepandi félagsmiðstöðvastomper

DJ Shadow – Organ Donor

Lygnið aftur augum. Hann er kominn að kveða burt kvíðann. Sjálfur skuggaprinsinn. DJ Shadow, í linum Dickies buxum og með hveitilitað hörund býður hann ykkur á scratch-námskeið.

Það er komið að því að fíla. Það fíla allir Organ Donor, jafnt dýr sem menn. Fólk sem hefur aldrei heyrt það fílar það yfirleitt við fyrstu hlustun. Þetta hefur ekki enn verið vísindalega sannað, en ef eitthvað lið í Sviss fengi styrk til rannsókna, þá væri niðurstaðan örugglega Shadow í vil.

Það er enginn að biðja ykkur um að brosa. Það er enginn að biðja ykkur um að dansa. En ef þið djúpfílið ekki Líffæragjafann, þá skuluð þið gefa ykkur fram því að fólkið í Sviss mun þurfa að leggja hald á skaddaðan heila ykkar

Organ Donor – Kvíðadrepandi félagsmiðstöðvastomper
Fílalag

 
 
00:00 / 00:57:38
 
1X
 

Þeir bestu – Ég mun fela öll mín tár

Hljómar – Ég mun fela öll mín tár

Undir fílunarnálunni eru Hljómar frá Keflavík. Besta band Íslands, fyrr og síðar.  Þeir voru vinsælastir, frjóastir og metnaðarfyllstir allra banda á Íslandi í svo langan tíma. Óháð öllu meiki og heimsyfirráðum, þá hefur ekkert band gefið hann jafn grimmann.

Frá falsettum Berta Jens til lagasmíða Gunna Þórðar, frá tyggjókjafti Rúna Júl til ölvandi raddar Shady Owens. Hljómar eru sólkerfi þar sem flest önnur bönd eru kálgarður.

Hættum að hafa í flimtingum. Keflavík er sólin. Hljómar geislar hennar.

Þeir bestu – Ég mun fela öll mín tár
Fílalag

 
 
00:00 / 01:02:35
 
1X
 

Alheimssturtan – Óðurinn til gleðinnar: Gestófíll Jóhann Alfreð

Ludwig van Beethoven – Óðurinn til gleðinnar

Gestófíll: Jóhann Alfreð Kristinsson

Það sem lagt hefur verið á álfuna. Fyrst voru það kóngarnir, púðraðir, grimmir og graðir. Blóðið bunaði. Svo voru það byltingarsinnarnir, grimmari, graðari, hraðari. Blóðið spýttist. Svo var það Napóleon, púðraður, graður og agaður og blóðið fossaðist. Og með þessu fylgdist Schiller og síðar Lúðvík gamli rófubóndi og heilluðust og hneyksluðust á víxl.

Eitt voru þeir þó vissir um. Að ofar tjaldi himnanna byggi miskunnsamur Guð. Í máli og tónum ortu þeir uppgjör við grimmdina og niðurstaðan varð óður. Til gleðinnar, hét það. Og það er allt lagt undir. Mökunarkall rostunga, fjórfaldur kór, yfirveðsett lengd og bara fyrst og fremst sturtan mikla.

Síðar átti sturtan eftir að vera notuð í pólitískum tilgangi. Til að sameina Evrópu við lok kalda stríðsins. Og herra Guð ofar stjörnutjaldi. Það tókst. Helmut Kohl að hægprumpa í stól í Bonn með Óðinn glamrandi er alföðursdómur okkar allra.

Og aldrei láta þann glæp henda að Evrópa sundrist að nýju. Ekki láta það gerast. Ekki á ykkar vakt. Schiller og Beethoven lögðu allt of mikið á sig til að það megi gerast. Þetta voru átök. Þessi sturta er ekki ókeypis. Hún er sú dýrasta af öllu dýrmætu. Gísa-Pýramídi evrópskrar menningar.

Sinfónía númer 9 í d moll, opus 125, fjórði hluti. Stjórnandi, Herbert von Karajan. Gjörið svo vel.

Alheimssturtan – Óðurinn til gleðinnar: Gestófíll Jóhann Alfreð
Fílalag

 
 
00:00 / 01:30:31
 
1X
 

I’m Sleeping My Day Away – Einbeittur brotavilji

D.A.D. – I’m Sleeping My Day Away

Sporðdreki hríslast eftir maga á konu með mjótt mitti. Þurrt eyðimerkurlandslag. Smokkar. Rauður Winston á náttborði. Hríslandi kögur á ljótum leðurjakka.

Danir í húsbát súpa á náttúruvíni. Fólk á Akranesi skaddar sig. Leðurblökur undir þakskyggni í Perth í Ástralíu. Í myrkrinu eru glyrnur.
Mikki Mús liggur í valnum. Skorinn á háls bak við kandífloss-stand. Bambi stendur stjarfur í bílljósunum.

Þeir eru komnir. Úthvíldir danskir skrattar. Og þeir ætla að fremja ógeðsleg myrkaverk.

I’m Sleeping My Day Away – Einbeittur brotavilji
Fílalag

 
 
00:00 / 00:51:32
 
1X
 

Dreams – Málaðu veggina með trönuberjasultu

Cranberries – Dreams

Ungt fólk í yfirgefnum vöruhúsum. Dýna á gólfi. Bjór. Fússball borð. Kona í hippakjól keyrir belgvíðan gulan leigubíl yfir hvít, spíssuð úthverfagrindverk. Hlátur. Þau eru mætt og þau mála og mála. Mála og borða pizzur. Draumar. Rauð sósa út á kinn. Trönuberjasulta lengst út á kinn. Mála barnaherbergi. Stilla upp rimlarúmum, óróum. Bumba. Borgartúnið bíður. Impossible is nothing.

Morðið á Marat. Just do it. Draumar. Byltingunni blæðir út. Dauði í baðkari. Limrurnar verða ekki fleiri. En mikið voru kinnar þínar rjóðar á gula leigubílnum.

Dreams – Málaðu veggina með trönuberjasultu
Fílalag

 
 
00:00 / 00:55:27
 
1X
 

Sunday Mornin’ Comin’ Down – Loðinn óður til þynnku

Kris Kristofferson – Sunday Morning Coming Down

Aldrei í veraldarsögunni hefur verið jafn viðeigandi að vera þunnur eftir áfengisdrykkju en í Nashville 1970. Famboðið af steiktum kjúkling til að borða og teppalögðum stigum til að hrynja niður var einfaldlega svo mikið.

Og þar var Kris, skelþunnur. Þar var Kris, vel hærður. Þar var Kris, með sálina fulla af angist og kjálkana glamrandi, að plokka gítarinn. En hver var þessi Kris? Hann var labrador hundur Bandaríkjanna, söngaskáld, hermaður með mastersgráðu í bókmenntum, þyrluflugmaður, kvikmyndastjarna, hólkvíði kóngurinn sem slátraði sjöunni. Kris Kristofferson er líklega eini maðurinn sem púllar það að vera í kúrekanærfötum, sitjandi á kamri, en samt vera sexí á meðan.

Tökum ofan. Já, bara hattinn og alltsaman. Sköfum hár okkar af til hyllingar. Hér syngur Kris um það að vera þunnur. Og það er á pari við barokk-tónsmíðar til heiðurs Den Gamle Gode í Uppsölum. Geri aðrir betur. Steinfílið.

Sunday Mornin’ Comin’ Down – Loðinn óður til þynnku
Fílalag

 
 
00:00 / 01:08:25
 
1X
 

Cry Me a River – Leyfðu mér að fljóta á kanó á stórfljóti tára þinna

Justin Timberlake – Cry Me a River
Gestófíll: Dröfn Ösp Snorradóttir-Rozas

Hann ólst í Mikka Mús klúbbnum, missti nánast sveindóminn með svörtu eyrun á hausnum og dansaði sinn stengjabrúðudans á stjörnutorgi heimsins. En árið 2002 reis hann upp eins og heilagur Mikjáll forðum. En saga Timburvatnsins er hvorki sagan af upprisu Krists eða eilífri endurholdgun fuglsins Fönixar heldur saga skógarguðsins Pan. Því það er hann. Hreinn og beinn maður viðsins en einnig flautuleikandi demóna, guð kynorku.

Og það þurfti ekkert minna en skrásettan íbúa Los Angeles og raðáhorfanda á Justin Timberlake tónleika, Dröfn Ösp, DD-Unit, til að fíla sjálfa kyn-geitina. Hér er allt tekið fyrir í þeysigestafílun: ramennúðlu-hárið, ástarsambandið við Britney, Timbaland útsetningarnar, fegurð þríbura Pharrell Williams og margt fleira. En umfram allt er reynt að taka utan um þennan Memphis Tennessee músíkmátt sem Justin Timberlake er. Við mælum með sterkum GT fyrir JT eða bara með freyðivínsglasi. Þetta er hátíðarfílun.

Cry Me a River – Leyfðu mér að fljóta á kanó á stórfljóti tára þinna
Fílalag

 
 
00:00 / 01:09:56
 
1X
 

Superstar – Hvítar tennur, brúnt leður

Carpenters – Superstar

Trésmiðurinn brúnast í sólinni. Leðurólar Jésú-sandalanna herpast um svitastorkna ökkla. Það húmar að. Raðmorðingjamyrkur skellur á.

Vaktmaður Golfklúbbsins er skorinn á háls.

Það er há-sjöa. Sjálvirkir vatnsúðarar spreyja út í nóttina. Súperstjarnan skín á himni.

Superstar – Hvítar tennur, brúnt leður
Fílalag

 
 
00:00 / 00:58:35
 
1X
 

Born in the U.S.A. – Kældur, vaggandi skrokkur í BNA

Bruce Springsteen – Born in the U.S.A.

Levis 501. Nestisbox úr stáli. M16 hríðskotariffill. Eldar loga. Miskunnsami samverjinn kveikir sér í sígarettu og askar ofan á fólkið í ræsinu. Samverjinn ryður sér inn í neðanjarðarlest með harðplasta stresstösku sem hefil. Það er átta. Það er harka. Allir lúðrar eru þandir. Allt logar. Nema þeir sem eru í kælingu. Hægri, hrjúfri deyfingu. Kaldir dúddar rugga sér. Brenna út, líkamlega og andlega, því enginn heyrir í þeim og öllum er skítsama.

Þrátt fyrir samfélagsmiðla og ofgnótt tjáningarleiða, þá er stór hluti fólks algjörlega ósýnilegt. Þetta er allskonar fólk, af öllum kynþáttum, kynjum, tegundum og sortum. Stór hluti okkar er í hægri staðdeyfingu að fjara út einhverstaðar. En hvort sem deyfingin felst í því að horfa á súdó-vísinda heimildamyndir og netflixa sig í döðlur eða troða sig út með vöfflum á kosningamiðstöð Miðflokksins, þá er staðreyndin samt sú, að allt þetta fólk er afsprengi þjóðfélags okkar. Og aðeins listin getur ljáð þeim rödd.

Poppmúsík líknar. Hún er um þjáninguna. Hér er það. Kannski misskildasta lag allra tíma. Tveggja hljóma blús um þjáningu og skilningsleysi, sem endaði sem ástaróður til lífstílsins sem þjáninguna skapaði.

Steini. More than just a pretty face. Fílið.

Born in the U.S.A. – Kældur, vaggandi skrokkur í BNA
Fílalag

 
 
00:00 / 01:07:51
 
1X
 

Love is a losing game – Djúpsteiktur loftsteinn af himnum

Amy Winehouse – Love is a Losing Game

Hún varð aldrei gömul. Samt var rödd hennar djúp og vitur. Djass-þjáning úr fimmunni, soul-titringur úr sexunni. Sígarettur að brenna út í öskubökkum í spilasölum rússneskra olígarka, transfitusafi kjúklingsins í Southgate. Hámenning. Lágmenning. Dekadans.

Tattú. Kerti í vínflöskum. Reykingalykt af feldi grás síams-kattar. Camden. Gljástig djassgeggjara. Hot rod-mittið. Titrandi söngfugl á lauflausri grein sem slútar yfir kirkjugarðsleikmynd í film-noir-mynd sem er aðeins fáanleg á Aðalvideoleigunni. 

Hún var djúpsteiktur lofsteinn, sendur niður til okkar af almættinu. Við stöndum í gígnum.

Love is a losing game – Djúpsteiktur loftsteinn af himnum
Fílalag

 
 
00:00 / 01:03:42
 
1X
 

Stanslaust stuð – Glimmer á lifrapylsu

Páll Óskar – Stanslaust stuð

Þá kom loksins að því. Páll Óskar, maður fólksins, var fílaður í strimla frammi fyrir lýðnum. Ekkert passar betur fyrir Palla-fílun en múgur og margmenni. Músík Páls Óskars er músík fólksins. Sá Íslendingur sem ekki hefur maukfílað Palla er með ruslafötu í stað hjarta.

Palli breytti Íslandi. Hann setti glimmer á lifrapylsuna. Ef ekki væri fyrir hann þá væri Ísland fábreytilegra, fordómafyllra og leiðinlegra. Við værum öll fátækari.

Í þættinum er farið hratt yfir sögu en þó af miklum ákafa. Ferill Palla er langur og þar er margt býsna óvænt að finna. Svo er athyglinni beint að laginu góða og hinu íslenska “stuði”, sem er margslungið og merkilegt fyrirbæri.

Stanslaust stuð – Glimmer á lifrapylsu
Fílalag

 
 
00:00 / 01:06:13
 
1X
 

Týpískt – Ironic

Alanis Morissette – Ironic

Ottawa. Sleðaferð. Þreföld ógn. Flannel. Cadillac Eldorado. Gleðin er endalaus. Kakó í lokin.

Atlantis týndist. Alanis líka. Hún var gerð að níugríninu. Kanadíski go-2 brandarinn. En nú rís hún upp á ný. Það er háflóð. Kakóið streymir upp úr Tim Hortons bollunum. Þið getið reynt að synda. Þið getið reynt að flýja. En flóðið mun ná ykkur, eins og þið eruð sprellifandi og gjammandi yfir óréttlæti heimsins, munið þið öll enda sem glamrandi grindur. 

Týpísk járnköld staðreynd.

Týpískt – Ironic
Fílalag

 
 
00:00 / 00:57:59
 
1X
 

Only Shallow – Háheiðinn, þjóðsögulegur en iðnvæddur rafmulningur

My Bloody Valentine – Only Shallow

Ímyndið ykkur ef að innan í jörðinni sjálfri væri stórt tómarúm. Það væri hægt að taka lyftu niður fleiri þúsund kílamótra og í kjarna sjálfrar jarðarinnar væri stór hvelfing. Þessi hvelfing væri Grafhýsi hugmyndanna. Grafhýsið væri eins og mörg önnur grafhýsi, með flúraða veggi sem lýstu því í myndmáli og með texta hvað væri grafið handan veggjanna eða undir gólfinu. Í veggjunum sjálfum væru svo risastór hólf og sérhvert hólf innihélda eina hugmynd sem dvalið hefði á jörðinni en væri nú búið að leggja.

Í grafhýsi hugmyndanna væri til dæmis hólf fyrir riddaramennsku miðalda, forna leirkerasmíði suður-amerískra frumbyggja og margt fleira. Og þar væri líka hólf fyrir nýliðnar hugmyndir. Þar væri til dæmis hólf fyrir rafmagnsgítarinnar. Og ef það hólf væri opnað þá myndi heyrast tónlist.

My Bloody Valentine er bandið sem tók rafmagnsgítarinnar lengst allra. Hér er hugmyndinni hreinlega lagt. Það er ekki hægt að taka hana lengra. Þetta keltneska iðnaðarsurg, þessi háheiðni dekadent rafbylgjumulningur er einfaldlega það þéttasta og þurrasta sem hægt er að framkalla með hugmyndinni rafmagnsgítar.

Þegar rafmagnsgítarhólfið í Grafhýsi hugmyndanna væri opnað myndi byrjunin á plötunni Loveless frá 1991 heyrast, af þvílíkum styrk, að jafnaðist á við hávaðann í þotuhreyfli.

Fílið.

Only Shallow – Háheiðinn, þjóðsögulegur en iðnvæddur rafmulningur
Fílalag

 
 
00:00 / 00:51:08
 
1X
 

Bitter Sweet Symphony – Að fasa út sársaukann

The Verve – Bitter Sweet Symphony

Eitt stærsta lag allra tíma. 1997. Manchester-drjólar að gefa hann góðan. Stórir leðurjakkar. Alkólíseraðir tónlistarblaðamenn, skrjáfandi þunnir, skrifandi og túlkandi. Há-britpop. Allt í gangi.

En ljúfsára tónkviðan fjallar aðeins um eitt: Sársaukann. Það sem allir eiga sameiginlegt.

Þetta tengist allt mali katta, raftíðnisviði heilans og öðrum þáttum sem of flókið er að útskýra hér. Hlustið á þáttinn. En fyrst og fremst: fílið lagið.

Bitter Sweet Symphony – Að fasa út sársaukann
Fílalag

 
 
00:00 / 00:53:29
 
1X
 

Guð blessi meyjarblómið þitt amma – The Village Green Preservation Society

The Kinks – The Village Green Preservation Society

Fílalag kafar djúpt ofan í glatkistuna að þessu sinni og grefur upp eina frumfílun frá júní 2014. Það er kannski við hæfi að líta um öxl þegar þetta nostalgíuhnoss er fílað.

Kjamsið. Fílið. Munið. Gleymið.

Guð blessi meyjarblómið þitt amma – The Village Green Preservation Society
Fílalag

 
 
00:00 / 00:55:38
 
1X
 

Oh What A Night (December ’63) – Kransæðarfílingur

Frankie Valli and the Four Seasons – December, 1963 (Oh What a Night)

Árið 1975 var þannig komið fyrir hljómsveitinni The Four Seasons og söngvara hennar, Frankie Valli, að það var ekkert eftir nema fílingurinn. Fötin voru úr pólýester, tennurnar gular og áratuga sukk-líferni var farið að taka sinn toll. En akkúrat þá, þegar svitalyktin var hvað mest, drógu þeir úr hatti sínum sinn allra stærsta hittara.

Lagið “December, 1963”, keyrir á öllu. Nýhafið diskóæði er nýtt til hins ítrasta, það heyrist í synthum, þrír söngvarar eru tilkvaddir. Þeir henda öllu inn í lagið nema eldhúsvaskinum. Þarna átti að negla sjöuna. Og yfirleitt þegar gamlir skarfar reyna að negla eitthvað nýtt, þá mistekst það harkalega. Harkalega.

En ekki hér. Hér varð til lag sem er svo unaðslega grúvandi að allar áhyggjuraddir um hallærislegheit hljóma eins og dauðahryglur í þorski ofan í lest á frystitogara.

Frankie Valli og félagar hans færa einfaldlega fram það sem skemmtanabransinn snýst um. Steikur, djæf og fíling.

Oh What A Night (December ’63) – Kransæðarfílingur
Fílalag

 
 
00:00 / 00:50:08
 
1X
 

I Only Have Eyes For You – Fegurð að handan

The Flamingos – I Only Have Eyes For You

Mjúkur koss úr hamborgaralúgu. Tyggjó-plata á rauðri tungu. Mínígolf í myrkrinu. Elskandi, dekkandi faðmur svínaslátrara heims.

Gljáfægð stræti fyllt rykfrakkabófum. Óspillt engi. Djöflar í fylgsnum.

Geðrof. Nálgunarbann. Einbeittur ástarvilji. Fuglar syngja. Kalkúnn eltir gulan pallbíl og drepur lögfræðinginn á kamrinum. Í milljónir ára, tugmilljónir ára, hafa þær verið eins. Endurnar á tjörninni. Þær segja brabra þar til þú verður gaga.

Fegurð fimmunnar. Fundin í grafhýsi.

I Only Have Eyes For You – Fegurð að handan
Fílalag

 
 
00:00 / 00:47:40
 
1X
 

I Will Always Love You – Gullstöng

I Will Always Love You – Dolly Parton & Whitney Houston

Hringið í Immanuel Kant. Já. Bara niður í gröfina í Kalíníngrad. Og andið í tólið. Það er fagurfræðileg fullkomnun undir fílunarnálinni í dag. I Will Always Love You. Stór orð. Stór framkvæmd. Hér er jafna fyrir ykkur.

Virði hverrar sekúndu í I Will Always Love You er jafn eðlismassa gulls sinnum óendanleiki mínus innanrými sálar Belsebúbs. Ekki hringja í hagfræðing.

Hér er þetta allt tekið fyrir. Teppið í stofunni hjá Dolly Parton, Sony-fjarstýring í lófa sem linast fram af baðkarsbrún. Haldið ykkur fast, kælið ykkur hratt, gefið ykkur öll á vald þéttustu eyrnapinnanibbu sem ofinn hefur verið, stjaksetjið ykkur á gullstönginni.

I Will Always Love You – Gullstöng
Fílalag

 
 
00:00 / 01:03:12
 
1X
 

Alone Again Naturally – Að finna botninn

Alone Again Naturally – Gilbert ‘O Sullivan

Strappið á ykkur væmna leðurtösku. Ræsið Volkswagen bjölluna á köldum vetrarmorgni. Það er sjöa. Öllum er kalt. Það lekur blóð úr öllum hjörtum. Það er kominn tími á væmna írska singer-songwriter neglu. Og væmin er hún kannski, en skotheld er hún einnig.

Við erum að tala um milljón dollara chart-topping soft-rokk eins og það gerðist best undir lok gylltu fimmunar. Hér er allt sem við þurfum í einu popplagi. Hér er sleginn takturinn sem allir þurfa, taktur umkomuleyisins. Gefum Íranum orðið.

Alone Again Naturally – Að finna botninn
Fílalag

 
 
00:00 / 00:51:10
 
1X
 

A Town Called Malice – Að hrista úr sér sjöuna

The Jam – A Town Called Malice

Nú er moddið tekið fyrir í allri sinni dýrð. Sultan er fíluð. Paul Weller í brakandi ullarjakkafötum að negla út melódíska þjóðsöngva á Rickenbackerinn.

Weller fór fyrir þriðju kynslóð moddara. Hann var barn sjöunnar en átti líka stóran þátt í að hrista þyngslin af þjóðinni. Weller, maður alþýðunnar, var ekki pönkari, en hann fór fyrir byltingu í tónlist. Hann endurvakti stemninguna og umfram allt fílinginn. Fílum nú svanasöng The Jam frá 1982, en Jam var band sem sannarlega kunni að hætta á toppnum!

A Town Called Malice – Að hrista úr sér sjöuna
Fílalag

 
 
00:00 / 00:48:09
 
1X
 

Because The Night – Lát huggast barn

Patti Smith – Because the Night

Rokk. Ljóð. Sköddun. Dýpt. Eftirpartí á Njálsgötu 1980. Óþægilegar buxur. Þurrt hár. Öskubakkar. Sjöl. Kökkur í hálsum. Leðurjakki. Sameiginleg vonbrigði. Mótlæti. Grimmd. Losti. Heitt bað. Of heitt bað. Dofi. Hægur dans. Svefn. Dauði. 

Patti Smith. Dóttir ryðbeltis og roða morguns. Drottning dænersköddunar, frönsku akademíunnar, geislavirkra holræsanna og alls sem hefur backbeat. Veit oss líkn. Þar til morgun rís.

Steini í leddara. Tom Petty í gallara. Dylan í kögrara. Tékkneskt diplómatabarn í rússkinnara. Tékkneskt gítarbarn með skítugar neglur í alltof heitu eftirpartí baði. Patti í T-Shirt. Tyrkneskt teppi, bróderuð sjöl. Rokk. Ljóð. Sköddun. Dýpt. Eftirpartí. Öskubakkar. Mótlæti. Kærleikur. Losti. Svefn. Dauði. Upprisa. Líkn. Líkn. Þar til morgun rís.

Because The Night – Lát huggast barn
Fílalag

 
 
00:00 / 00:58:33
 
1X
 

The Revolution Will Not Be Televised – Er hægt að sigra fasisma og hafa gaman á meðan?

Gill Scott Heron – The Revolution Will Not Be Televised

Ameríska ljóðskáldið Gill Scott Heron sagði það best árið 1970. Þú horfir ekki á byltinguna í sjónvarpinu. Það er ekki nóg að flatmaga í sófanum og borða pizzu og styðja aktívismann án þess að leggja neitt að veði sjálfur.

Það voru aðrir tímar þá. Fólk barðist fyrir réttindum sínum á götum úti. En sumir létu sér nægja að horfa á í sjónvarpinu. Það voru aðrir tímar þá, eða hvað? Núna geta allir flatmagað. Hún byltir sér sjálf, blessuð byltingin, í boði Adidas, Puma og Nike.

The Revolution Will Not Be Televised – Er hægt að sigra fasisma og hafa gaman á meðan?
Fílalag

 
 
00:00 / 00:53:50
 
1X
 

Thirteen – Að vera þrettán

Big Star – Thirteen

Hvernig er að vera þrettán? Það er einstaklingsbundið. Eitt er víst og það er að minningin af því að vera þrettán er ekki sú sama og að vera þrettán.

Minningin er í öllum tilfellum angurvær, jafnvel sársaukafull, en umfram allt alveg ósvikin.

Það er soft-trigger-warning á þessum þætti Fílalags, eða að minnsta kosti laginu sem spilað er í lokin. Lagið Þrettán með Big Star. Bandarískur kassagítar mulningur frá 1972, sem fangar angurværðina alla. Njótið. Fílið.

Thirteen – Að vera þrettán
Fílalag

 
 
00:00 / 00:56:53
 
1X
 

Atlavík ’84 – Koddafar í andliti. Matarkex í maga.

Rúnk – Atlavík ’84

Hvað gerist ef maður hleypir rafstraumi ofan í blauta rauðrófustöppu?

Yfirleitt gerist reyndar ekki neitt. En stundum gerist snilld.

Hljómsveitin Rúnk er súpergrúbba íslenska indísins. Hér er um að ræða Ólympus fjall Fókus 2000 menningarinnar. Meðlimir bandsins voru þau Björn Kristjánsson (Borko), Svavar Pétur Eysteinsson (Prins Póló), Hildur Guðnadóttir (Chernobyl, Emmy), Benedikt Hermann Hermannsson (Benni Hemm Hemm) og Ólafur Björn Ólafsson (on sticks). Saman gerðu þau eina plötu, Ghengi Dahls, sem kom út 2002.


Hér er öll kássan fíluð, og sleikt út um. Fílið með.

Atlavík ’84 – Koddafar í andliti. Matarkex í maga.
Fílalag

 
 
00:00 / 01:00:21
 
1X
 

The Boy With The Arab Strap – Lifrarpylsa sem dansar búgí vúgí (Live á Kex Hostel)

Belle & Sebastian – The Boy With the Arab Strap

Íslendingar athugið. Það er til enn kaldhæðnara og grárra samfélag en það íslenska. Við erum ekki heimsmeistarar í norpi, niðurrifi og bugun. Það eru að minnsta kosti aðrir keppendur á þeim ólympíuleikum og sumir af bestu leikmönnunum koma frá Skotlandi.

Þess vegna er Skotland æðislegt. Það er gráasta lifrarpylsan á markaðnum og ekkert skapar jafn skemmtilegan kontrast og þegar grá lifrarpylsa hnykkir sér til og frá í seiðandi búgí-vúgí takti.

Belle & Sebastian er tekið fyrir í nýjasta þætti Fílalags, sem tekinn var upp í lifandi flutningi frammi fyrir þyrstri hjörð. Hér var tekið á öllum mikilvægustu málunum. Kaffibarþjónsþrotinu, Amelie-toppnum og rúnkminni langveikra. En fyrst og fremst var þetta fílingur. Njótið.

The Boy With The Arab Strap – Lifrarpylsa sem dansar búgí vúgí (Live á Kex Hostel)
Fílalag

 
 
00:00 / 01:00:58
 
1X
 

Roadrunner – Stemmdur hundur

The Modern Lovers – Roadrunner

Hvað er betra en hundur sem gægist út um bílrúðu með tunguna úti? Stemningslega séð? Ekkert. Jonathan Richman og hljómsveit hans, Aðdáendur nútímans, voru samt nokkuð nærri því í lagi sínu Roadrunner. Þeir eru gjörsamlega hunda-stemmdir í þessari prótó-pönk ljóðrænu skyldufílunar neglu frá 1973.

Lagið, sem fjallar um úthverfamenningu í Bandaríkjunum, er fastur og þéttur ástaróður með tunguna úti. Allir eru í fíling, keyrandi um, með útvarpið í botni, allar rúður skrúfaðar niður.

Roadrunner – Stemmdur hundur
Fílalag

 
 
00:00 / 00:54:14
 
1X
 

End Of The World – Dramatískt, loðið, hættulegt

Aphrodite’s Child – End of the World

Í fyrsta skipti í Fílalag er það grískt. Og grískt skal það vera með allri þeirri hnausþykku drjúpandi olíu sem því fylgir. Aphrodite’s Child er hugsanlega frægasta rokksveit sem komið hefur frá Grikklandi og halelúja, ó áfram kristmenn krossmenn, hvað hún gaf hann góðann.

Það nær í raun ekki nokkurri átt hversu gríðarlega vel er hlaðið í þá dramatísku sex-barokk horror-neglu sem lagið End of the World, af samnefndri plötu frá 1968 er. Vúff. Fílið þetta, og bara grjóthaldið kjafti.

End Of The World – Dramatískt, loðið, hættulegt
Fílalag

 
 
00:00 / 00:42:18
 
1X
 

Some Velvet Morning – Poseidon og leðurstígvélakvendið

Nú er það áferð. Lagið sem fílað er í dag hefur sömu áferð og ef feldur af jarðíkorna væri tekinn, honum dýft ofan í stamp fullan af hunangi sem staðsettur væri í gufubaði og hann svo strengdur upp milli tveggja kaktusa til þerris.

Það er djúpt í þessu, það er ljúft í þessu. En með þessu fylgir einnig gomma af óræðni og síkadelíu. Niðurstaðan er notaleg ónotatilfinning – sem er alveg mergjuð tilfinning. Eitthvað sem allir fíla.

Some Velvet Morning – Poseidon og leðurstígvélakvendið
Fílalag

 
 
00:00 / 00:51:29
 
1X
 

West End Girls – Brakandi sigur

Pet Shop Boys – West End Girls
Það brakar í poppkorni. Það heyrist til dæmis afar skýrt í bíósölum rétt áður en kvikmyndin hefst. Fátt einkennir popp meira en brökun. Það er því mjög viðeigandi að hitt fyrirbærið sem einnig gengur undir nafninu popp, popptónlist, er einnig andlag brökunar. Segja má að því meira sem braki í popptónlistinni, því meira popp sé hún.
Og þvílíkt sem það brakaði þegar ferill breska monstersins Pet Shop Boys fór í gang. Vúff. Þetta dúó, sem átti eftir að enda með að selja meira en 100 milljón platna, er léttsaltaður popp-unaður og innan skamms hefst bíómynd á tjaldinu. Og hún er ekki af verri endanum: þungur, noir-rykfrakka Bogart klumpur.
Það eru nefnilega líka þyngsli í þessu. Til að popp verði klassískt (sem það verður í raun frekar sjaldan) þá þarf að vera eitthvað meira í gangi. Og það er svo sannarlega raunin hjá gæludýrabúðastrákunum. Hér er farið yfir þetta allt. Þyngslin, mótífin, stemninguna en umfram allt sigurinn. Happy Pride. Pet Shop Boys. Gjörið svo vel!

West End Girls – Brakandi sigur
Fílalag

 
 
00:00 / 01:01:24
 
1X
 

Get it on – Að gefa hann góðann

T.Rex – Get it On

Útvíðar buxur. Fílingur. Allt er stemning. Að dansa við jólatréð er stemning. Að láta renna í bað er stemning. Allir eru sætir, allir eru skítugir. Vínylplatan hefur djúpar rákir.  Jarðskjálfti má ríða yfir. Nálin mun ekki haggast úr sínu grúvi. Þetta verður tekið heim. Enginn er svangur. Allir eru nærðir af stemningu. Lífið er grúv, stemning er fílingur, Guð býr í smáatriðunum. Hér er hugsað um sérhverja taug. Engin taug líkama þíns er vanrækt. Berðu virðingu fyrir því, mannsbarn. Þú er pelaandlag. Grameðlan sveiflar 800 kílóa sporði sínum og þú verður fyrir tíðninni. Spenntu þig, sperrtu þig, spelkaðu þig. Komdu því í gang, lemdu í gjall, gefðu hann góðann og komdu því í gang.

Get it on – Að gefa hann góðann
Fílalag

 
 
00:00 / 01:08:09
 
1X
 

Tætum og tryllum – Stemning allra landsmanna

Stuðmenn – Tætum og tryllum

Leggjum á borð. Það er 1975. Það er þjóðvegur. Það er ökutæki. Það er fólk um borð.

Það er stemning.

Hið mikla íslenska vegalag er fílað í dag. Og skaparar þess, sjálfir Stuðmenn, með Björgvin Halldórsson í forsöng. Herra Guð. Þetta er of mikið. Með þetta lag í akstri, sól á himni, fjórtán skinkur á mælinum og þriggja daga helgi framundan. Úff. Vúff.

Stemningin verður ekki meiri.

Gleðilega verslunarmannahelgi kæra þjóð. Það er komið að Hljómsveit allra landsmanna!

Tætum og tryllum – Stemning allra landsmanna
Fílalag

 
 
00:00 / 01:05:26
 
1X
 

Every Breath You Take – Dúnmjúkt eltihrella síris

The Police – Every Breath You Take

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Wikipedia er hér um að ræða mest spilaða lag allra tíma. Takk fyrir. Kannski ekki útilokað enda líður ekki sá dagur á léttbylgjum hins vestræna heims að þessu lagi er ekki fleytt.

En í hverju felst galdurinn? Er það möfflaður gítarleikurinn eða kröftugt mjóbak Stings? Er það tvíræður textinn eða sú staðreynd að lagið rís allan tímann eins og ítölsk aría? Greiningadeildin fór yfir þetta lið fyrir lið, en sleppti þó ekki því sem mestu máli skiptir: að fíla lagið.

Every Breath You Take – Dúnmjúkt eltihrella síris
Fílalag

 
 
00:00 / 01:09:18
 
1X
 

David – Stinnur kattaþófi

GusGus – David
Bagettulitað hold. Frönsk retrófútúrísk hraðlest. Þunnur maður með þýska nýbylgju á VHS undir hendinni. Klapparstígurinn í íslenskum september úða. Steppur Rússlands. Kampavín. Sunnudagsskóli. Lamadýr. Strandsalt hár.

 Drukkið úr kaleik. Tjaldbúðir. Dulur. Slæður. Flautur. Skálabumbur. Syndir. Fjármálastjóri Airbus sýpur brimsalta ostru og askar sígauna ofan í tvíhnepptan ullarblazer. Veröldin er taflborð, svarthvít Fassbinder kameruól strekkt um háls þinn. Og lausnarorðið er: Davíð. 

Göss göss gjörið svo vel…

David – Stinnur kattaþófi
Fílalag

 
 
00:00 / 00:56:51
 
1X
 

Virtual Insanity – Að dansa sig frá vandræðum

Jamiroquai – Virtual Insanity

Varúð, varúð! Framundan er fílun á flíspeysuslagara. Inka gullið er fundið. Fönk-fnykinn leggur yfir allan bæinn. Peningalykt. 

Það er Jay Kay. Það er frumbyggja-djamm. Það er íslenskt panilklætt útilegudjamm. Takið skrykkdans í svefnpokum ykkar og luftgítarið ykkur í drasl með flugnaspöðum. 

Nú skal fílað. Nú skal papparazzi lemjandi sportbíla götustrákurinn krufinn og kannað hvar Camden Bretinn keypti meskalín-teið. Það er komið að því! Jamiroquai gjörið svo vel!

Virtual Insanity – Að dansa sig frá vandræðum
Fílalag

 
 
00:00 / 01:03:26
 
1X
 

Anyone Who Had A Heart – Dimmblátt stræti 20. aldar

Úr gullkistu Fílalags
Anyone Who Had a Heart – Dusty Springfield

New York. Djass. Dýpt. Tuttugasta öldin. Gulir belgvíðir leigubílar fljóta um strætin. Farþegar sökkva í plussið. Slaki í öxlum. Nagandi ótti í brjóstum.
Flygill á fimmtugustu hæð. Aska í bakka. Teppi á gólfum. Teppi á veggjum. Teppi á innanverðum heilahvelum. Teppalagðar taugar, teppalagðar kransæðar. Allt er teppalagt nema hjartað. Það stendur nakið, til sýnis í ýlfrandi pússuðum búðarglugga á Fimmtutröð.

Allir hljóta að sjá það. Sérhver lifandi vera sér ástarglampann í augum stúlkunnar. Nema hann. Brotið hjarta. Saxófónsóló í höfðinu. All nite diner depurð fegurð.

Burt og Dusty. Takk!

Anyone Who Had A Heart – Dimmblátt stræti 20. aldar
Fílalag

 
 
00:00 / 00:44:42
 
1X
 

That’s Amore – Hreindýrahorn á húddinu

Dean Martin – That’s Amore

Hann er mættur. Húðin glansar eins og Miðjarðarhafið á sumareftirmiðdegi, tennurnar skína eins og ítölsku alparnir. Hann er fullur, hann er stemmdur, hann er Dino Paul Crocetti, öðru nafni Dean Martin.

Það er allt stórt við Dean Martin. Stór augu, stórt nef, stórt enni, stórt hár, stór munnur, stór haka, stór kinnbein, stórar axlir, stórar augabrúnir. Samt var hann nettur!

Þrjár eiginkonur, fjórir garðyrkjumenn, átta börn, sundlaug, pabbi fullur, hreindýr á húddinu.

Ástin er mótstæðilegt baunapasta. Lífið er dásamlegt.

Fílið. Slefið.

That’s Amore – Hreindýrahorn á húddinu
Fílalag

 
 
00:00 / 00:56:39
 
1X
 

Stop! In The Name Of Love – Stopp! Stöðvaðu!

The Supremes – Stop! In The Name of Love

Hættu öllu sem þú ert að gera. Hættu að hugsa það sem þú varst að hugsa. Nú er komið að stórvirkum vinnuvélum. Upp með hendur, niður með brækur, hættu að svindla ef þú vilt ekki láta malbikunarvaltarann breyta þér í pönnuköku.

Beint frá Hitsville U.S.A. Beint frá höfuðstöðvum jarðolíusmurðrar stemningarinnar. Hér kemur það. Ómótstæðilegur vasa-Wagner. Hvers eiga litlir larfar frá sjávarplássi í Norður-Atlantshafi að gjalda? Þeir eiga enga málsvörn. Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað? Svarið er: á sérhverjum þeim stað sem þú svaraðir ekki kalli Díönu. Stopp! Stöðvaðu!

Stoppaðu! Þetta er helst í fréttum. Alla daga, allan daginn, fyrir þig. Allan liðlangann skaltu mala þetta ofan í þig. Hvað sem þú gerir. Örugglega, 100% positively 4th Street, skaltu ekki, ekki gera ekki neitt. Með öðrum orðum. Ekki gera neitt. Stopp og fílaðu! Stopp og hlustaðu á hjartað! Stopp!

Stop! In The Name Of Love – Stopp! Stöðvaðu!
Fílalag

 
 
00:00 / 01:08:31
 
1X
 

Glugginn – Frumdagar kúlsins

Flowers – Glugginn

Gestófíll: Teitur Magnússon

Fílalag grefur í gullkistu sína að þessu sinni og töfrar fram eina af sínum fyrstu fílunum. Um er að ræða fílun á Glugganum með Flowers. Lagið er samið af Rúnari Gunnarssyni forsprakka Dáta og einum besta söngvara Íslandssögunnar og Þorsteini Eggertssyni frumrokkara og hirðskáldi sexu og sjöu. Alíslenskt lag, en þó nokkuð amerískt í hljómi, enda voru geysilega margar Wrigleys-stangir leðraðar niður að minturót við samningu og upptöku þess.

Glugginn felur í sér frumdaga íslensks kúls. Þegar menn eins og Jónas R. gengu um í pelsum og voru töff. Og fílun á laginu felur einnig í sér árdaga lagafílunar. Hér eru Ebbi og Snorri mættir, ásamt Teiti Magnússyni, sem hrærir í fjölskynjunarpotti sínum og galdrar fram ófyrirséðar hliðar Gluggans.

Glugginn – Frumdagar kúlsins
Fílalag

 
 
00:00 / 00:38:06
 
1X
 

Race For The Prize – Kalsíumhlaðin sprengja litbrigða og hugmynda

The Flaming Lips – Race for the Prize

Ef atómsprengja með glimmeri springur í eyðimörk og enginn heyrir í henni eða sér hana. Sprakk hún þá?

Önnur spurning. Eins og flestir vita er hægt að kjúfa hljóðmúrinn, þ.e. ferðast hraðar en hljóðið. Þetta geta hraðskreiðar orrustuþotur til dæmis gert og við það heyrast gríðarlegar himnadrunur. En er hægt að loka hljóðmúrnum? Hvað er andstæða þess að kljúfa hljóðmúrinn? Laga hljóðmúrinn, bera á hann extra lag af múrhúð, hylja hann skeljasandi og sveipa yfir hann leikhústjaldi? Er það hægt? Að styrkja hljóðmúrinn?!

Hljómsveitin The Flaming Lips frá Oklahoma í Bandaríkjunum er stórt rannsóknarefni. Í raun er sveitin eins mikið indí og nokkur hljómsveit gæti verið – nánast skólabókardæmi. En krafturinn er svo mikill, hljóðheimurinn svo stór, hugmyndirnar svo víðfeðmar, melódíurnar svo fagrar, skilaboðin svo áræðin – að hún hættir að vera jaðar og verður að miðpunkti. Enda er það kannski ekki tilviljun að í kjölfar plötunnar The Soft Bulletin sem kom út rétt fyrir aldamót, varð indí í raun meginstraums.

Sándið í laginu “Race for the Price” sem hér er til fílunar, er svo stórt og mikið, að það má byggja á þvín heilu borgirnar. Hugmyndirnar eru svo miklar, litbrigðin svo fjölbreytt, að það má sáldra yfir það kartöfluflögu-krispí-fræjum sem gefa munu af sér metrópólis eftir metrópólis af iðandi vinnslu. Race for the Price er slík sprengja, atómboma indísins. Og líka gott til að gönna síðuna.
Fílið!

Race For The Prize – Kalsíumhlaðin sprengja litbrigða og hugmynda
Fílalag

 
 
00:00 / 00:54:28
 
1X
 

Rio – 35 millimetra bresk heimsveldisgredda

Duran Duran – Rio

Gestófíll: Gunnar “Taylor” Hansson

Núna hellum við okkur út í þetta. Takið fram mittissíðu smókingjakkana með uppbrettu ermarnar, blásið hárið, hyljið varir ykkar með þykkum háfjalla-varasalva. Auðvitað er margoft búið að rifja þetta  upp og hlæja að þessu. En Fílalag kafar dýpra. Þetta er ekkert hláturverkefni heldur alvöru greining. Duran Duran er undir fílunarfóninum og við fengum sjálfan Gunna “Taylor” Hansson, leikara, til að nálgast þetta með okkur.

Gunni segir frá norpinu fyrir utan skemmtistaði í Smiðjuhverfinu í Kópavogi þar sem íslenskir fjórtán ára krakkar fuku í rokinu og rifu eitís-jakka sína á naglaspýtum. Hann segir frá risi Birmingham greddunnar og að lokum falli húgenottans Le Bons í borg hins bróðurlega kærleika. Allt er þetta á biblískum skala, því greining á Duran Duran verðurskuldar miklu meira en Viceroy Bylgjufliss. Greining á Duran Duran er greining á heilli kynslóð og heilu heimsveldi.

Verði ykkur að góðu – og munið eftir tónleikum Duran í Laugardalshöll þann 25. júní, en hlustun á þátt dagsins er ágætis upphitun fyrir það gúmmelað.

Rio – 35 millimetra bresk heimsveldisgredda
Fílalag

 
 
00:00 / 01:21:55
 
1X
 

Rammstein – Þrútinn iðnaðartilli sem þráir mammasín

Rammstein – Rammstein

Uppskrift að konsepti: Alið manneskju upp í samfélagi sem dýrkar karlmennsku, hernaðarhyggju og stáliðnað. Bætið við slatta af nasistasekt og uppeldisfræðisblæti. Kryddið með bókmenntasköddun og bóhemískum lífsviðhorfum. Allt fer þetta fram í dauðateygjum þrúgandi kommúnisma og leyndahyggju. Látið manneskjuna æfa sund. 

Hvað skyldi koma út úr því?

Hlustið. Fílið.

Rammstein – Þrútinn iðnaðartilli sem þráir mammasín
Fílalag

 
 
00:00 / 00:17:53
 
1X
 

Barn – Barn eilífðar

Ragnar Bjarnason – Barn

Sviðsmynd: Ísland og allt sem því fylgir sekkur í sæ. Konseptið klárast. Ekki meiri íslensk tunga. Ekki meiri Öræfajökull. Ekki meiri ORA-baunir. Ekki meiri #MyStopover. Bara allt farið. Blóm og kransar. Samfélag þjóðanna leikur á fiðlu og horfir á eftir þessari hugmynd sem Ísland var. En hvaða lag skyldi leikið?

Til greina kæmi að nota sömu sálma til að kveðja Ísland eins og gert hefur verið um borgara þess. Velja eitthvað úr smiðju sálmaskáldsins Valdimars Briem eða Allt eins og blómstrið eina eftir Hallgrím Pétursson. Eða taka Smávinir fagrir á þetta. Basic.

En hvað með að syngja annað lag yfir öllu konseptinu. Hvað með lagið og ljóðið um barnið sem lék sér við ströndina. Því hvað er Ísland annað en það. Barn sem leikur sér við ströndina. Alltaf jafn óþroskað, alltaf jafn smátt gagnvart víðáttu hafsins, en þó hugmynd sem líður áfram.

Þið afsakið sófa-heimspekina. En hvað er annað hægt þegar maður fílar þennan exístensíalíska slagara? Barn. Hér er um að ræða eilífiðarbarnið, konsept, kjörnun sem gefur heilanum gríðarlegt pláss til hughrifa. Textinn eftir Stein Steinarr takk fyrir túkall. Lagið eftir Ragga Bjarna saltkjöt og baunir túkall. Er hægt glenna tilvistina meira upp? Og að þetta skuli hafa verið samið og flutt á Íslandi fyrir hálfri öld. Að við eigum slíka perlu í okkar búri. 

Barnið mitt. Frúin hlær í betri bíl. Ó, barnið mitt. Það vex eitt blóm lengst fyrir vestan. Ó, barn!

Barn – Barn eilífðar
Fílalag

 
 
00:00 / 00:52:34
 
1X
 

Love Don’t Cost A Thing – Þegar allt glóði

Jennifer Lopez – Love Don’t Cost a Thing

Popptíví tíminn. Latin sprengjan. Bronshúðað fólk, dansandi á ströndinni. Glingur og drasl á hverjum fingri, eyrnalokkar, naflalokkar, allt í gangi. Og drottningin, sem var reyndar stærri en þetta allt. Jennifer. Úr hverfinu, bronsuð úr Bronxinu.

Hápunkturinn var í kringum 2001. Þegar hún stytti nafn sitt í J.Lo og gaf út samnefnda plötu. Þá kom “Love Don’t Cost a Thing” út. Ástin er ókeypis. En allt hitt kostar. Bílar, skartgripir, merkjaföt. Það var nóg til.
Hlustið. Fílið.

Love Don’t Cost A Thing – Þegar allt glóði
Fílalag

 
 
00:00 / 00:56:34
 
1X
 

Summer In The City – Bartar, hiti

The Lovin’ Spoonful – Summer in the City

Hvar? New York borg, New York ríki, Bandaríkin. Hvenær? 4. júlí 1966. Hvað? Sprengja af himnum.

Er hægt að ímynda sér heitari kjarnaorku en sjóðheitan júlídag á miðri Manhattan í miðri sexunni? Heimsveldið með allt í botni. Heraflar á hreyfingu í Asíu. Bílar að spýtast út úr verksmiðjum í Detroit. Bráðnandi Hershey kossar í vösum. Skrifstofukonur í stuttum kjólum að hoppa á milli skugga með svitadropa á enni. Byggingarverkamenn með loftpressu. Loftpressa í höfði allra. Hippar á rúgbrauði með vélindabakflæði af stemningu. Bítnikkar með alpahúfur að öskra á brúnan múrsteinsvegg.

Það er sumar. Það er city. Það er sumar. Það er city.

Fílið.

Summer In The City – Bartar, hiti
Fílalag

 
 
00:00 / 00:46:26
 
1X
 

American Girl – Gallaefni nuddast saman, neistar fljúga

Tom Petty & The Heartbreakers – American Girl


Innkoma Thomas Earl Petty inn í ameríska músíksenu er jafn einföld og hún er ótrúleg. Ef hjartað er á réttum stað þarf þetta ekki að vera flókið. Bara klæða sig í gallajakka, strappa á sig Rickenbacker og tengja sig inn í strauminn.

Tom Petty er stóri galdurinn í músíkinni. Risastór hamfarakrókódíll sem náði að sameina rokk – nánast pönkað púlkjuðarokk – við þjóðlagatónlist og djúpa textasmíð – en samt koma þessu öllu í poppbúning og selja milljónir platna. Og þetta gerði hann þó hann liti alla tíð út eins og fuglahræða. Og þetta gat hann því allan tímann brann sólarkjarnaheitur eldur inn í honum. Og það er eldurinn sem heyrist í laginu sem kom Petty á kortið. Lagið um amerísku stúlkuna.

Og hver er sú bandaríska? Við munum aldrei vita það. Við vitum bara að eldurinn brann líka í henni. Og þetta er heitur eldur. Til samanburðar þá er eldurinn sem brennur í Bruce Springsteen dísilolíueldur, seigur og síheitur. En eldur gallabuxnaprinsins frá Gainesville er óræðari enda er eldsneytið niðurbrædd hjartafita. Slíkur eldur brennir á óskilgreindan hátt. Þið skiljið sem viljið skilja.

En allir munu fíla.

American Girl – Gallaefni nuddast saman, neistar fljúga
Fílalag

 
 
00:00 / 01:09:08
 
1X
 

Final Countdown – Með sjóðheitan kjarnorkuúrgang í klofinu

Europe – The Final Countdown
Það var lokaniðurtalning í gamla Nýló salnum þegar hármetal-hesthúsið Europe var fílað í allri sinni dýrð, frammi fyrir fílahjörðinni. Tjúúúúú.

The Final Countdown er það sem við viljum öll. Spólgröð kaldastríðs negla með hestamannaívafi, sænskt metal-salat með öllu helstu trikkunum: lúðra-synthanum, ofurhraða gítarsólóinu og óperusöngstílnum. Kannski besta iðnaðarrokksnegla sögunnar.

Leiðtogafundurinn. Eiki Hauks í leðurfrakka. Jóreykur á himni. Tikkið í fánastöngunum fyrir utan Staðarskála. Sokkur í klofinu.
Takk fyrir okkur Fílahjörð. Njótið. Fílið!

Final Countdown – Með sjóðheitan kjarnorkuúrgang í klofinu
Fílalag

 
 
00:00 / 00:55:38
 
1X
 

Fix You – Alheimsfixið

Coldplay – Fix You
Rétt eins og stýrikerfið á tölvunni þinni er með „settings” eða „preferences”, þá hefur hinn hlutlægi heimur einnig stillingar. Og í dag er hin vestræna veröld stillt inn á afstæðishyggju, trúleysi og dýrkun á einstaklingnum. Í því felst að ekkert er réttara en annað eða fegurra en annað. Þetta er póst-módern stilling. Og það er í sjálfu sér ekkert að henni.

En hin vestræna veröld er samt ekki jafn afstæð og við höldum í fyrstu. Hún er líka með stillingar sem leyfir ákveðnum öflum að koma í stað trúarvalds. Í innbyggðum stillingum nútímans virðist sem að leyfilegt sé að hleypa einni angló-saxneskri strákagítarhljómsveit inn í alhygðar-samtalið á um það bil tveggja áratuga fresti.
Coldplay er þetta afl. Hin óstuðandi andlega nærvera sem líknar. Arftaki U2 sem mannelskandi, transpólitíska sameiningaraflið sem jafnt fasteignasalar sem frumulíffræðingar hlusta á undir stýri og gráta við á leið heim úr vinnunni eftir erfiðan dag.
Coldplay gefur skammtinn. Coldplay gefur fixið. Við erum pelabörn.

Fix You – Alheimsfixið
Fílalag

 
 
00:00 / 00:58:24
 
1X
 

Unchained Melody – Ballad Maximus

Righteous Brothers – Unchained Melody
Hvað er hægt að segja? Hér er um að ræða stærstu ballöðu hins vestræna heims. Lag sem hættir ekki að rísa.

Spanið er gríðarlegt. Hér er stiginn rússneskur ballet í bland við amerískan babtista-skjálfta. Allt er undir. Allt vinnst. Í Unchained Melody leysist allur mannsandinn úr læðingi.

Unchained Melody er gjöf. Við þiggjum. Við fílum.
p.s. athugið að í þættinum var að hluta til notast við ranga útgáfu af æviágripi Hy Zarets, textahöfundar lagsins, og hann sagður hafa lært verkfræði. Hið rétta er að hann lærði lögfræði.

Unchained Melody – Ballad Maximus
Fílalag

 
 
00:00 / 00:46:29
 
1X
 

Marquee Moon – Glorhungur í myrkur og norp

Television – Marquee Moon

Þá er það East-Village Fokkjú baugasnilld í boði ameríska frumpönksins. Undir nálinni er Television. Önnur eins leðurjakka tyggjó slumma hefur aldrei verið tekin upp eins og fyrsta platan með þessu póetíska gítarglamrandi braki. 

Television er grímulaus ásókn í fegurðarskaðræði. Til að fegurð ljóssins sjáist þarf einnig að fíla skuggana. Television teygir sig langt eftir hinu skyggða. Hér er um að ræða lakkríssvartan kadilakk sem fossast ofan í svarbrúna mold.

Fílið þetta og dettið svo niður, glorhungruð og beygð, geislavirku rotturnar sem þið eruð.

Marquee Moon – Glorhungur í myrkur og norp
Fílalag

 
 
00:00 / 00:53:48
 
1X
 

Númeró 200

Fílun í lok þáttar: The Zombies – This Will Be Our Year

Í tilefni af 200. þætti Fílalags fer Sandra Barilli með okkur í ferðalag um lendur fílanna. Viðkomustaðir eru ýmis skemmtileg atvik úr sögu þáttanna þar sem dagsetningum er haldið skilmerkilega til haga.

Ringó fer á klósettið, Paul Simon stendur ráðvilltur frammi fyrir stafrænni upptökutækni, Kim Larsen pantar sér Eldum rétt. Þetta og fleiri sögur má finna í tímamótaþætti dagsins.

Númeró 200
Fílalag

 
 
00:00 / 00:46:17
 
1X
 

Forever Young – Dramatík. Fegurð. Kviðristun.

Youth Group – Forever Young

Alphaville – Forever Young

Það eru tvær útgáfur undir nálinni hjá Fílalag í dag en aðeins eitt lag. Og þvílíkt lag. Hér er ekkert lítið í húfi. Heimurinn, fegurðin, æskan.
Forever Young er rýtingur í kvið dauðlegra. Hversu oft hefur einhver horfst í augu við staðhæfinguna: það er erfitt að eldast án málstaðar – og sokkið við tilhugsunina? Og nú er komið nýtt sjónarhorn á þetta alltsaman – því höfundar Forever Young eru allir komnir á sjötugsaldur.

Þessi fílun er veisla. Hlaðborð hugmynda. Á meðal þess sem er á boðstólnum er: Kalda stríðið, vestur-þýskt myndlistarfokk, neórómantík, O.C.-tímabilið, brúnu krullurnar, converse-smokrunin, óperufasteignasalar, æska, hringtengingar, valdarán og fegurð.

Allt fölnar, allt deyr, ekkert varir að eilífu. Þess vegna er lífið fagurt, vegna þess að hvert augnablik er einstakt. Það eina sem kemur aftur er áminning um hið liðna og horfna. Lífið er ein stór bíósýning af kviðristandi rýtingum. Youth Group. Æskudeildin. Alphaville. Fasískir fegurðarseggir. Mundið hnífa ykkar og leyfið okkur að falla á þá.A

Forever Young – Dramatík. Fegurð. Kviðristun.
Fílalag

 
 
00:00 / 01:19:59
 
1X
 

Modern Love – Að gönna Síðuna

Hann mætti aftur, sólbrúnn, í stórum jakka og gult hár. Hann tætti í sig áttuna. Við erum að tala um Hnífa-Davíð í sinni tíundu endurholdgun. Platan hét Let’s Dance og hittararnir komu í röðum. Modern Love líklega sá mest gírandi.

Það er bannað að spila Modern Love með Bowie nálægt kirkjugörðum. Alls ekki mæta með gettóblaster í Fossvogskirkjugarð og setja þetta lag á. Það ærir líkin. Þau byrja að dansa ofan í gröfum sínum og það kemur hreyfingu á jarðveginn, sem getur valdið jarðsigi og aurskriðum. Sýnið ábyrgð.

Modern Love er hinsvegar fullkomið lag til að hlusta á þegar kálfum er hleypt út á vorin. Og einnig þegar farið er út að skokka. Smeygið nú á ykkur hlaupaskóna, setjið á ykkur eitís-svitabönd og gönnið Ægissíðuna. Hlaupið eins og sperrtir kálfar. Það er kominn tími til að gönna Síðuna.

Modern Love – Að gönna Síðuna
Fílalag

 
 
00:00 / 00:38:29
 
1X
 

Freak Like Me – Hlaðið virki

Sugababes – Freak Like Me
Það er komið að því að kafa ofan í popptíví-árin. Þegar popptónlist innihélt ekki siðferðisleg skilaboð. Sugababes komu frá London og slógu í gegn með sinni fyrstu plötu ári 2000. Tveimur árum síðar hélt sigurgangan áfram með lögum eins og Round Round og svo laginu sem fílað er í dag, Freak Like Me.

En Freak Like Me á sér lengri sögu. Það er ábreiða af lagi Adinu Howard frá 1995, sem var sjálft inspírerað af fönkmúsík frá miðri sjöunni, og var síðar hefað af Sugababes með breskri nýbylgju. Freak Like Me með Sugababes er eins og kastali sem sífellt hefur verið styrktur og bættur. Niðurstaðan er býsna skotheld popp-klassík.

Þetta útskýrist allt betur í þætti dagsins. Fílið!

Freak Like Me – Hlaðið virki
Fílalag

 
 
00:00 / 00:58:41
 
1X
 

Year of the Cat – Ofið teppi úr sjöunni

Al Stewart – Year of the Cat

Þá er komið að einu hnausþykku. Hér er um að ræða twix rjómasúkkulaði þar sem karamellan mallar við kjörhitastig. Breskt þjóðlagakonfekt með óskiljanlegum en þýðum texta. Hér er allt gert rétt. Þetta er lag til að príla í.

Að þessu sinni er fílunin hrein. Það er hvorki hægt að skilja né greina Ár kattarins til hins ítrasta. Það er aðeins hægt að skynja það, þreifa á því, fálma í átt að því. Kötturinn hefur alltaf vinninginn. Þú þarft að dýrka hann, dá hann, smjaðra fyrir honum, elta hann, hoppa í gegnum gjarðir fyrir hann. Og hann á allt skilið.

Við erum stödd í ári kattarins. Sleikið loppur ykkar og djúpfílið þetta.

Year of the Cat – Ofið teppi úr sjöunni
Fílalag

 
 
00:00 / 01:02:35
 
1X
 

Blue Velvet – Ég er einn og það er vont

Bobby Vinton – Blue Velvet

Bobby Vinton, pólsk-ameriski prinsinn. Myrkrið, mýktin, rafmögnun flauelsins. Sveppaský í bakgrunni. Ofbeldi í lofti. Einu sinni var.

Mannslíkaminn.Húsasund í Pittsburgh. Lýsandi glyrnur í myrkrinu. Spítölun.

Líkaminn er klastur, vöðva sina og eldglæringa.

Bandaríkin eru ljóðrænni en öll Vestur-Evrópa til samans. Pennsylvanía ein og sér skákar allri Skandinavíu.

Dreptu í sígarettu í bananasplitti. Ræstu Plymouthinn. Fílaðu mannsbarn fílaðu þetta annars munu vofurnar elta þig bak við peningatankinn og lemja þig eins og teiknimyndafígúran sem þú ert. 

Blue Velvet – Ég er einn og það er vont
Fílalag

 
 
00:00 / 01:10:13
 
1X
 

Chase the Devil – Skrattinn og Sogæðakerfið

Max Romeo – Chase the Devil

Hvað gerir maður gegn djöflinum? Ef hann hittir hann einn á túni til dæmis? Hvað gerir hann? Segir hæ? Berst við hann? Eða setur hann á sig járnbrynju og eltir hann. Eltir hann lengi, lengi.

Lagið “Chase the Devil” eða “Eltu Skrattann” eins og það útleggst á íslensku er köfun ofan í sál mannsins. Lagið er samið og flutt af sannfæringu, í ástandi alskynjunar, æðis ofsóknar og niðurstaðan er músíkalskt og lýrískt tómarými. Ekkert verður tekið af þessu lagi. Ekkert fer heldur inn.

Það er fullkomnað.

Chase the Devil – Skrattinn og Sogæðakerfið
Fílalag

 
 
00:00 / 00:49:51
 
1X
 

Common People – Nikkuspil neðan þilja (live á Kex Hostel)

Eftir næstum fimmtán ár af ströggli sló hljómsveitin Pulp í gegn. Þau komu frá Sheffield og höfðu norpað í artí nýbylgju rokk baslinu svo lengi að fitugir hártoppar þeirra voru komnir með sjálfstæðar kennitölur. En svo gerðist það. Pulp sló í gegn. Brit poppið kom til bjargar. Fyrst var það lagið Babies árið 1992. Enn fastar var bankað á dyrnar með laginu Do You Remember the First Time sem kom út 1994. En það var svo 22. maí árið 1995 – á hátindi brit-poppsins – sem Pulp kláraði dæmið og varð að tákni á himninum, en það var útgáfudagur lagsins Common People.

Common People er sexaður alþýðusöngur. Óður til plebbisma, smárrar hugsunar en umfram allt stemningar. Ekkert ærir fólk meira en lög sem fjalla um það sem ærir fólk, sem er nákvæmlega það sem Common People gerir. Venjulegt fólk dansar, drekkur, ríður, reykir, spilar púl, syngur, trallar. Og þetta öskrar Jarvis Cocker með sinn litla munn, fyrir hönd alls fólksins í Sheffield og alla sem vilja hlusta. Loksins. Eftir hálfan annan áratug af norpi fékk venjulega fólkið loksins rödd.

Fílunin á Common People var tekin upp „live” að viðstöddu margmenni á Nýló sal Kex-hostel við Skúlagötu. Miklar þakkir til allra sem mættu, í nikkuspilið neðan þilja, þar sem venjulega fólkið skemmtir sér.

Common People – Nikkuspil neðan þilja (live á Kex Hostel)
Fílalag

 
 
00:00 / 01:06:55
 
1X
 

Garden Party – Partíið endalausa

Mezzoforte – Garden Party

Það eru engin orð framkölluð í laginu sem er fílað í dag. Í því heyrist aðeins söngur saxafóns og tóna. Það er enginn skrítinn framburður sem upplýsir um uppruna, stétt eða stöðu flytjandans. Hér er leikinn hreinn gleðidjass, tónlistin sem leikin er í lyftunni upp í sjöunda himin.

Að þessi músík sé framkölluð af rúmlega tvítugum íslenskum krökkum úr plássi í Norður-Atlantshafi, er dæmi um hvernig vegir tónlistargyðjunnar eru órannsakanlegir. Garðpartí Mezzofortes er snurðulaust, tímalaust og endalaust. Fílið. Njótið.

Garden Party – Partíið endalausa
Fílalag

 
 
00:00 / 00:55:29
 
1X
 

So Alone – Krummi krunkar í tyggjóbréf og andar ferskleika

Bang Gang – So Alone

Hér er farið yfir Bang Gang. Og hér er að mörgu að hyggja.
Aldrei gleyma Hrafna-Flóka. Aldrei gleyma undirgöngunum undir Miklubraut, svarta svaninum, fituga syntha-hárinu, tíkallasímunum. Íslenska kúl. Aldrei gleyma hvaðan þú komst.

Íslenska kúl. Þegar þú ert alveg við það að týna þér í hashtag mystopover mulningi. Aldrei gleyma skeljasandsklæddum lakkríssnuddunum. Aldrei gleyma asbast-súpu lyktinni fyrir utan Elliheimilið Grund. Ekki gleyma því.

Það verður allt í lagi. Við eigum þetta skilið. Við eigum skilið að svífa um í fjallakláf í myntuferskleika. Við eigum gríðarlegan hressleika skilið. Svo mikið höfum við lagt á okkur. Þessi þáttur er ekki aðeins um hljómsveitina Bang Gang heldur er hann einnig tileinkaður hlutdeild hennar í draumi okkar allra. Barði og kó. Takk fyrir allt

So Alone – Krummi krunkar í tyggjóbréf og andar ferskleika
Fílalag

 
 
00:00 / 00:57:31
 
1X
 

Call On Me – Graður Svíi penslar

Í fílun dagsins er farið í skemmtilegt ferðalag um vegi poppsins. Eric Prydz heitir listamaðurinn sem er til umfjöllunar. Ef maður myndagúglar Prydz, sem er sænskur plötusnúður með sterkan rave-bakgrunn, fær maður upp mynd af hálf-miðaldra manni með Audda Blö húfu og skegghýjung. Og árið 2004 var árið hans. Þá gaf hann út lagið sitt, Call on Me, sem notar sampl úr laginu Valerie sem sungið var af Steve Winwood árið 1982. En Steve Winwood er ein af hetjum bresku sexunnar og var til dæmis orðinn meðlimur í Spencer Davis Group þegar hann var fjórtán ára. Winwood átti síðar eftir að spreyja yfir Gullbylgjuna með bæði sjöu- og áttu-hitturum og er Valerie í þeim flokki.


En þessi 2004-negla, sem hér er til fílunar, er einskonar samantekt á poppsögunni Um er að ræða ungæðislega froðu, skreytta með trixum síns tíma. Prydz finnur leið til að kreista eins mikla stemningu út úr melodíunni og hægt er. Hann finnur sjálfan greddu-elixírinn. Lagafílun verður ekki skýrari. Hægt væri að trylla inn gettóblaster á Líkdeild Landspítalans í Fossvogi og jafnvel hinir dauðu mundu rugga sér í lendunum við að heyra þann mulning sem hér er borinn á borð. Njótið. Fílið.

Call On Me – Graður Svíi penslar
Fílalag

 
 
00:00 / 00:26:31
 
1X
 

Turn! Turn! Turn! – Breyting, snúningur, beygja, umrót

The Byrds – Turn! Turn! Turn!

Hvað eiga ofbeldisfullir konungar Ísraels til forna sameiginlegt með sólbrúnum 68 kynslóðar kaliforníu-hippum? Allt.


Hér mæta þeir inn í taugakerfi ykkar. Fogglarnir. Moppuhártoppslegnir Los Angeles gítar-prestarnir. Tambúrínu-lemjandi hass-hvolparnir. Með tvö þúsund og fimm hundruð ára boðskap. 


Þú hefur fengið fimmtíu og þrjú ár til að búa þig undir boðskapinn. Og það er nógur tími. Fyrir sérhvern tilgang, er tími. Örvænting er ekki til. Og friðurinn mun sigra stríðið. Það er aldrei of seint að elska. Það er alltaf tími til að smyrja kæfu á rúgbrauð.


Gleðilegt nýtt ár. Gleðilegan nýjan snúning, nýja umbyltingu, nýja beygju á lífsins braut sem við fetum í eilífri hringrás, aftur og aftur og aftur, þar til fuglarnir hrynja af himnum og boðorð konungsins í Babýlon verða ómerk. Gleðilegt líf, fíling skuluð þér eiga.

Turn! Turn! Turn! – Breyting, snúningur, beygja, umrót
Fílalag

 
 
00:00 / 00:51:47
 
1X
 

Fairytale of New York – Þegar allt er meyrt

The Pogues – Fairytale of New York


Löngu áður en Jésú kristur ákvað að heiðra jarðarbúa með nærveru sinni var fólk byrjað að dýrka vetrar- og sumarsólstöður. Það var tíminn þegar dulveröldin sameinaðist þeirri raunverulegu, þegar álfar og vættir fóru á kreik, ríkir urðu fátækir og fátækir ríkir.


Vetrarsólstöður, jólin, eru einnig tími þar sem fortíð og nútíð renna saman. Þegar horft er svo mikið inn á við að ákvarðanir fortíðar standa manni ljóslifandi fyrir sjónum. Og að lokum skal í þessum textabút, þess gætt, að jólin eru tími alþýðunnar.


Allt þetta kristallast í laginu sem er fílað í dag. Fairytale of New York með alþýðu-pönk-þjóðlaga hljómsveitinni The Pogues. Sérstakt jólalag, alveg tímalaust, sem fjallar um þennan tíma ársins, þegar allt er meyrt, þegar allt er hægt, þegar von og vonbrigði verða í raun sami hluturinn, kvíði og eftirvænting sömuleiðis. Þetta er lag um sköddun, nánd og allt það malt og appelsín. Þetta er póesía, þétt vafinn vöndull.


Hlustið. Fílið.


Gleðileg jól.

Fairytale of New York – Þegar allt er meyrt
Fílalag

 
 
00:00 / 00:56:09
 
1X
 

Laisse Tomber Les Filles – Láttu stelpurnar í friði

France Gall – Laisse Tomber Les Filles

Mið-sexu stælarnir. Tyggjóið. Franska yfirlætið. Gainsbourg-töfrarnir. Stelpu yé-yé. Þetta er gírandi.

Fíkn. Daníelsbók biblíunnar. Úthverfi í London. Vitiði ekkert hvað er á seyði? Hlustið á þáttinn. Hlustið á þáttinn kisur. Knémenn.

France Gall söng þetta. Gainsbourg skrifaði þetta. Um slíkt himnastöff þarf að fara fögrum orðum. Aðeins hógvær orð duga. Við reyndum.

Fílið.

Laisse Tomber Les Filles – Láttu stelpurnar í friði
Fílalag

 
 
00:00 / 01:01:23
 
1X
 

You’ll Never Walk Alone – Gangráður heimsbyggðar

Músík er sameinandi afl sem spyr hvorki um stétt né stöðu. Þetta eru væmin orð, en þó alveg sönn. Jafnvel hörðustu rokkarar koma heim af djamminu og sjá endursýningu á Mamma Mia á bíórásinni og skæla ofan í leðurjakka sína.
Lagið sem fílað er í dag er upphaflega úr söngleik – mjög væmnum Broadway-söngleik – en það er í dag fílað af hörðustu iðnaðarmönnum. Líklega er ekkert lag hummað jafn angurvært í Smiðjuhverfinu í Kópavogi og einmitt þetta lag.
Já. Það hitti heiminn í hartastað. Það hefur verið sungið í kommúnum, kirkjum og á fótboltavöllum (og ekki bara hjá aðdáendum Liverpool). Verum vinir, verum glöð, hvar í flokki sem við stöndum og sama með hverjum við höldum. Föðmum náunga okkar, þrýstum brjósti hans að okkar þannig að sómasamlokan í vasa hans springur í plasti sínu. Og öskrum saman Smiðjuhverfis-sálminn. Lífið er sársauki, en við finnum hann öll saman.

You’ll Never Walk Alone – Gangráður heimsbyggðar
Fílalag

 
 

00:00 / 0:00:00
 

1X

 

Love Will Tear Us Apart – Fenið

Ef til væri playlisti sem héti: “Motivational hits fyrir fólk sem fílar ekki Motivational hits” þá er alveg öruggt hvaða lag væri þar efst á blaði. Love Will Tear Us Apart. Lag sem hefur ært ófáan Englendinginn í gegnum tíðina, kramið hjörtu og látið varir herpast.
Samt er lagið enginn gleðisprengja. Það fjallar um þjáninguna.
Manchester gráminn, myndlistarsköddunin, vonleysið, mátturinn og dýrðin. Joy Division.
Fílalag sökk í fenið í dag.

Love Will Tear Us Apart – Fenið
Fílalag

 
 

00:00 / 01:00:41
 

1X

 

Að leggja sér músík til munns (Fílalag + SOÐ)

Fílalag fékk Kristinn Guðmundsson hjá Soð með sér í lið fyrir sinn nýjasta þátt. Á meðan Snorri og Ebbi fíluðu lagið A Whiter Shade of Pale eldaði Kristinn mat sem byggðan er á laginu, en Soð er matreiðsluþáttur. Það er því einnig hægt að horfa á þennan þátt Fílalags, í styttri útgáfu, hjá Soð.
A Whiter Shade of Pale með Procol Harum er einn stærsti fíllinn í stofunni. Risastórt lag sem skóp sexuna og hefur legið eins og hula yfir vestrænni menningu alla tíð síðan. Það þurfti fleiri skilningarvit heldur en eyrun til að fíla þetta lag og því var brugðið á það ráð að elda lagið líka – Kristinn sá um það – og var afraksturinn svo snæddur í lok lags.  Já. Lagið var étið. Þetta útskýrist betur ef hlustað er á þáttinn.
Njótið, snæðið, fílið.

Að leggja sér músík til munns (Fílalag + SOÐ)
Fílalag

 
 

00:00 / 01:21:36
 

1X

 

Nákvæmlega – Þegar Suðurland nötraði

Skítamórall – Nákvæmlega
Gestófíll: Sóli Hólm
Fílalag fékk sérstakan gest til sín til að útskýra hinn mikla hamfarakrókódíl sem sunnlenska aldamóta-sveitaballapoppið var. Sóli Hólm mætti og nötraði er hann lýsti af áfergju stemningunni í raðhúsapartíi í Hveragerði árið 2000 og fílingnum sem skók allt Suðurlandið á árunum 1997-2002.
Já. Þetta var einn stór jarðskjálfti og suðurlandsskjálftinn 17. júní árið 2000 (sem var eiginlegur jarðskjálfti) var nánast hlægilegur í samanburði. Þetta hófst upp úr miðri níunni og fer virkilega af stað í kringum 1997 þegar Land og Synir mæta með Vöðvastæltur og Skímó bongóar sig inn með Nákvæmlega.
Fræðist. Fílið.

Nákvæmlega – Þegar Suðurland nötraði
Fílalag

 
 

00:00 / 01:09:41
 

1X

 

Just the Way You Are – Brúnhærð, krulluð sjöa

Farið er á rostungaveiðar í dag. Sjálfur Billy Joel er fangaður og ekki er um lítið skrokk-ummál að ræða. Billy Joel, píanómaður, spelmaður með þykka höfuðkúpu, er dreginn á land, löðraður lýsi.
Joel hefur átt nokkur tímabil. Hreinræktaður píanómaður, MTV-brúða en þó ávallt boxari og Bronxari. Og hér er gripið inn í eitt hans mikilvægasta tímabil sem nefnist hjartaknúsara-sjöan. Hér er allt til reiðu: brúnu krullurnar, sjúskaði blazer-jakkinn, wurlitzer píanóið. Allt klárt.
Það væri ekki leiðinlegt að sitja inn á ítölskum veitingastað í Bronx-hverfinu
í miðri sjöu, í ljótum jakka, stressaður vegna skattaskulda, og heyra þetta lag koma í útvarpinu meðan börnin maula brauð úr körfu. Stemning.

Just the Way You Are – Brúnhærð, krulluð sjöa
Fílalag

 
 

00:00 / 01:11:51
 

1X

 

Angel – Gríðarleg árás

Massive Attack – Angel

Hnausþykkt vax drýpur. Á er skollið hakkaramyrkur. Nú mega vinirnir vara sig.

Engillinn stígur niður. Dimmt er myrkur augna. Tortíming er í nánd.

Pópúlar músíkk verður ekki dýpri, ekki seigari. Í kolakjallaranum brenna eldar í ofnum.

Fílið og deyið.

Angel – Gríðarleg árás
Fílalag

 
 

00:00 / 00:48:37
 

1X

 

I Put A Spell On You – Álagsstund

Það fór fram hópfílun þegar Fílahjörðin mætti við drykkjarstöðvar sínar og stakk sér á bólakaf í tilfinninga-uppnáms-stomperinn I Put a Spell on You. Var lagið bæði mergfílað með höfundi sínum, Screamin’ Jay Hawkins og svo einnig með Creedence Clearwater Revival.
Sérhver taug var þanin í þessari fílun. Móða stríðsins. Ofsi afbrýðisseminnar. Ofsóknaræðið og lostinn í sjokk og tortímingu. Það er rosalega mikið undir í lagiu I Put a Spell on You. Það er verið að leggja álögur á manneskju – jafnvel alla sem á hlýða. Að verki eru galdar, ef ekki kölski sjálfur.

I Put A Spell On You – Álagsstund
Fílalag

 
 

00:00 / 01:02:59
 

1X

 

Money For Nothing – Ókeypis peningar

Árið er 1985. Heimsbyggðin er þyrst í rokk og popp. Kalda stríðið er í gangi en fólk austan járntjaldsins vill snjóþvegnar gallabuxur og ískalt kók. Dire Straits mæta, með sjálfan Sting sér við hlið, og gefa heiminum seðjandi mjólk úr júgrum sínum. Money for Nothing.
Um er að ræða bæði upphafningu og ádeilu á MTV-kynslóðina og poppstjörnulífstílinn. Grannur vegur að feta, og aðeins á færi útlærðustu popp-séffa, sumsé aðeins á færi Knopfler-bræðra og vina þeirra.
Hlýðið á og sperrið eyrun eins og refir.

Money For Nothing – Ókeypis peningar
Fílalag

 
 

00:00 / 00:59:01
 

1X

 

Spirit in the sky – Ljósið við enda ganganna

Hvernig ætli stóra ferðalagið sé? Hápunktur allrar lífsreynslu hlýtur að vera sjálf himnaförin. Að klára dæmið og sameinast alheims-andanum. En er hægt að reyna að ímynda sér það?
Í velmegunar-skýi sexunnar voru menn og konur allavega komin þangað. Norman Greenbaum fór langt með að koma fólki í nýja vídd með lagi sínu Spirit in the Sky sem kom út 1969 – en það var sama ár og Bandaríkjamenn komu manni á tunglið.
Stemningin í laginu Spirit in the Sky er svo yfirgengileg, að mörgum þykir nóg um. Það er einfaldlega farið alla leið í þessu lagi. Himnasjomlinn sjálfur er að gefa high-fives. Þetta lag er kaleikur. Há-stemning og rússibani í slómó. Sleikið út um og fílið. Vúff.

Spirit in the sky – Ljósið við enda ganganna
Fílalag

 
 

00:00 / 00:55:34
 

1X

 

Waterfalls – Jarmið. Gjaldþrotið. Geggjunin.

Það þurfti ekkert minna en vel-versaðan gestófíl til að afhausa fílinn í herberginu þegar Waterfalls með TLC var tekið fyrir. Sandra Barilli, bransakona, mætti í fílun og fór yfir stóru umfjöllunarefni Níunnar. HIV, dópið, stúlknasveitir og jarmið.
Tionne „T-Boz” Watkins, Lisa „Left Eye” Lopes og Rozonda „Chilli” Thomas mynduðu TLC og urðu strax vinsælar, fóru svo í klassískt bransagjaldþrot, en náðu sér á strik aftur. Saga þeirra inniheldur allt það svakalegasta úr amerískri öfgamenningu og umfjöllunarefni laganna eru ekki á smáum skala heldur.
Waterfalls fjallar um stór málefni. Að ætla sér ekki um of. Annars endar maður dauður. En það enda svo sem allir þannig – en um það er einnig fjallað í þættinum.
Hlýðið á og samfílið. Á borð er borinn risasmellur.

Waterfalls – Jarmið. Gjaldþrotið. Geggjunin.
Fílalag

 
 

00:00 / 01:21:23
 

1X

 

Our House – Afar vel smíðað hús

Þeir voru sperrtir, glenntir og illa tenntir. Crosby, Stills, Nash og Young, með hassmola í vösum átján hundruð grýlna jakka sinna. Þetta var súpergrúbba – rjómi flower-power menningarinnar, tappaður á þjóðlagapela.

Los Angeles. Víetnam-stríðið. Glamrandi gítarar. Alpha-male raddanir. Tónleikasalir fylltir 60s woke gleraugnaglámum. Milljón eyru sperrt. Þvílík stemning.
Crosby, Stills, Nash og Young fluttu napra gáfumanna snilld sáldraða ofan í fílgúddbúðing. Ein mikilvægasta hljómsveit amerískrar sögu eða bara fjórir fokkerar með yddaða drjóla. Take your pick.
Hér var allavega hlaðið í afar ljúft lag – Our House – friðelskandi laglína, sönn og allsber. Fílið.

Our House – Afar vel smíðað hús
Fílalag

 
 

00:00 / 01:06:19
 

1X

 

With Or Without You – Leggstu í fósturstellingu, hver sem þú ert, hvar sem þú ert

Hver ertu? Þú! Hvort sem þú borðaðir bjúga í kvöldmat eða slafraðir í þig fusion-rétti á sushi samba innan um fasteignasala og myndlistarflippara. Hver sem þú ert! Leggstu á malbikið. Láttu þig sökkva.
Hvar sem þú ert. Ertu á Sauðárkróki að drekka nýmjólk eftir vakt hjá Rækjuvinnslunni? Ertu lögga með vélindabakflæði? Ertu það? Ertu kristinn, múhammeddískur eða stundar þú átrúnað á salamöndruna? Eða ertu bara eins og flestir aðrir, vantrúaður en þó hallelúja-öskrandi í takt við kreddu líðandi stundar, coleman þægilegur monthani með dramb sem engan ýfir?
Fyrir þrjátíu árum síðan lögðu fjórir Írar mottu. Og hún hjúpar þetta allt. Hún hylur sjálfa flatneskjuna.
Og ef þú vilt ekki fatta það – þá fílarðu ekki sjálfan þig. Og við því er ekkert að gera.
En Bono og félagar fíla þig samt. Þeir elska þig, skilyrðislaust. Og munu alltaf vinda blóð úr hjarta sínu fyrir þig.

With Or Without You – Leggstu í fósturstellingu, hver sem þú ert, hvar sem þú ert
Fílalag

 
 

00:00 / 01:09:31
 

1X

 

Lust For Life – Lostaþorsti

Stundum er allt í góðum gír. Allir sáttir. Enginn með vesen. Matur í ísskápnum. Bíómynd í sjónvarpinu. En þá grípur fólk einhver losti. Þorsti í skaðræði, gríðarleg löngun í tortímingu og rassaspörk.

Um það fjallar lagið Lust for Life. Það er hin hreinræktaða stemning. Ásókn í romp. Hér er hún mætt: sálarbaseraða, pönk-lúppan – lamin saman af David Bowie, margarín-smurð af Iggy Pop.

Ef eitthvað lag verðskuldar F.Í.L.U.N. þá er það þetta lag.

Lust For Life – Lostaþorsti
Fílalag

 
 

00:00 / 01:04:09
 

1X

 

I Wanna Be Adored – Ljónið öskrar

Hafið þið verið að fíla Liam Gallagher á netinu? Hafið þið verið að rifja upp 90s fílinginn, anorakkana, sólgleraugun og brit-pop-strigakjaftinn? Gleymið öllu sem þið hafið verið að gösla í. Gleymið öllu, því allt er þetta bara lélegt endurvarp af frumöskrinu.

Stone Roses. Þeir mættu með fyrstu plötuna sína 1989. Og Britpop fæddist! Madchester-typpafnykurinn var svo rosalegur að fólk er enn haldandi fyrir vit sín. I Wanna Be Adored með Stone Roses er þvílík opnun, þvílík gangræsing, þvílík sprengja – að annað eins hefur ekki sést síðan.

Ljónið öskrar. „Þú dáir mig”. „Þú dáir mig”. Og mér er alveg sama. Ég hef enga sál. Myndlistarsköddun, súld, stórir gítarar, pillur.

I Wanna Be Adored – Ljónið öskrar
Fílalag

 
 

00:00 / 00:49:57
 

1X

 

Myth – Svifryk. Blóð. Brúnar krullur.

Nú er fjandinn laus. Fílalag er á nálægum slóðum. Í dag er lag úr indíkreðsunni frá 2012 tæklað. Það er Airwaves norpið. Það er fjúkandi Japaninn. Það er strandkofinn í mistrinu.

Óhamingunni verður allt að vopni. Eldur úr iðrum, ár úr fjöllum, goðsögnum eyðir. Allt hverfur. Jafnvel mistrið. Það hverfur líka. Ó mistrið. Það sem þú faldir skiptir engu máli. Það varst þú – mistur – sem varst sæta stelpan á ballinu.

Baltimore drulluhalar.

Myth – Svifryk. Blóð. Brúnar krullur.
Fílalag

 
 

00:00 / 01:05:02
 

1X

 

Walking On Sunshine – Lík dansa

Fílalag er snúið aftur eftir tveggja vikna hlé. Snorri er nýgiftur og svífur nú um á rósrauðu skýi. Fílun dagsins er því fílgúdd-þykknið sjálft „Walking on Sunshine”. Sjaldan hefur annarri eins rakettu verið spýtt inn í hagkerfið og þessu lagi.

Það komast allir í fíling við að heyra þetta lag. Ef þetta lag væri spilað í kirkjugarði þá fara líkin á hreyfingu. Þetta er pakki fullur af sól – yndi allra markaðsfræðinga, brúsa-á-töppuð stemning: flutt af mjóum new-wave Englendingum í þunnum frökkum og amerískri heimasætu. Þvílíkt kombó, þvílíkt bingó, þvílíkt bongó fyrir heilann.

Walking On Sunshine – Lík dansa
Fílalag

 
 

00:00 / 01:10:42
 

1X

 

Parklife – Chav-tjallismi

Þeim langaði að fanga breska hversdagsstemningu. og þeim tókst það. Blur hlóð í væna wagner-í-eldspýtustokk-exístensíalíska-popp-sápu-óperu, sem þó aldrei rís, heldur kraumar allan tímann eins og skaftpottur á gamalli AGA eldavél í sundurmolnuðu múrsteinshúsi í Longsleddale í Kúmbríu.
Um er að ræða bresk tilþrif: gnægtarborð tilvísana, undiröldu og stemningar, í mónótónískum sælgætisumbúðum. Það skrjáfar og glitrar en eldsumbrotin fara öll fram neðan jarðar, eins og breskt heimavistarskólaprump sem smýgur gegnum þykkar ullarbrækur áður en það er veitt ofan í mjólkurglas hvers botn er kinglóttur sem gleraugu herra Winston Ono.
Njótið og fílið.

Parklife – Chav-tjallismi
Fílalag

 
 

00:00 / 00:51:09
 

1X

 

Nights in White Satin – Pluss-áklæði kynslóðanna

Hér verður sigið ofan í þægilegt aftursæti á biblíusvörtum leigubíl sem keyrir í gegnum rigninguna í gljáandi stórborg. Baby by your side. Sexan varð sjaldan jafn sexí, jafn pluss-rafmögnuð.
Nögl er dregin eftir silki-áklæði. Svartir olíudropar rigna yfir ljóskerin.
Þeim tókst það. Þessum bresku pöbb-stemnings-böllum tókst það. Aldrei vanmeta Breta sem eitthvað bublar í. Hér var hrært í seið. Elíxir sem enn gefur.

Nights in White Satin – Pluss-áklæði kynslóðanna
Fílalag

 
 

00:00 / 00:51:15
 

1X

 

Narcotic – Nítíuogátta oktana límonaði-sprengja

Liquido – Narcotic
Hér er það komið. Gas allra landsmanna, jagerskota-þrusa. Hér er þrumuguðinn Þór öskurstemmdur upp í skýjunum, klæddur eins og Duff-Man, að hella límonaði-ferskri dísilolíu yfir djammþyrst ungmenni í sumrinu, og kveikja svo í öllu draslinu.
Þetta lag gat ekki verið ófílað. Þetta er lag heillar kynslóðar. Cross-over negla úr níunni, þjóðsöngur sem fór langt með að sameina þunglynda og kaldhæðna rokkara og pungsveitt sveitaballaliðið.
Það þurfti háskólagáfumenni frá Þýskalandi í verknaðinn. Þau reiknuðu, þau strituðu, þau sigruðu. Allavega um stundarsakir.

Narcotic – Nítíuogátta oktana límonaði-sprengja
Fílalag

 
 

00:00 / 01:05:50
 

1X

 

Peggy Sue – Hin mikla malbikun

Hvernig stendur á því að þetta hefur ekki verið fílað fyrr? Fílunarsaga án Buddy Holly er eins og Nýja testamentið með engum Jésú. En hér er hann loksins tekinn fyrir, smyrjarinn mikli frá Lubbock, Charles Hardin Holley og dyggar krybbur hans.
Saga Buddy Holly er saga hinnar miklu malbikunar. Saga þess þegar rokktónlist var breytt úr iðnaði yfir í list, saga tjörgunar og aflsmuna, svita, hita og þrúgandi aðstæðna, sem skiluðu að lokum í þráðbeinum vegi sem aðrir gátu keyrt eftir, flautandi fyrir munni sér lagstúf undir silkimjúkri fjöðrun.
Hér er þetta allt tekið fyrir. Stóru jakkarnir, strató-sperringurinn, hitinn, kuldinn, slysið. Líf Buddy Holly var keyrsla og það var veisla. Hér er um að ræða hnallþóru, sveitinni boðið. Vefjið ykkur í Oxford-peysur líkt og um spennutreyur væri að ræða, strappið á ykkur Steam Punk gleraugum með kennslukonu-sniði, hlaðið í ykkur Hot Talames. Nú verður farið í útsýnisferð yfir Clearwater Iowa. Buckle up. Því músíkin dó aldrei. Hún er sprelllifir. Sprelllifir.

Peggy Sue – Hin mikla malbikun
Fílalag

 
 

00:00 / 01:18:53
 

1X

 

Hard to Explain – Rokgjarnt lífrænt efnasamband (live á Húrra)

Það kom ekkert annað til greina en að ganga nærri sér á live-fílun frammi fyrir sjálfri Fílahjörðinni. The Strokes var fílað. Hljómsveit sem skóp Fílabræður á sínum tíma. Rokkbylgjan upp úr aldamótum skall hart á Vesturlandabúum og sumir eru enn að seig-freta í þröngar Happy Mondays Dillon hosurnar.
Hér er þetta allt tekið fyrir. Brúnu krullurnar. Ljósa gallajakkaefnið. Converse-skórnir. Það er ótrúlegt hvað rokkið er seigt. Einhvern veginn tókst nokkrum einkaskólagengnum New York drulluhölum að hræra upp í fyrstu bók Móse enn eina ferðina. Þrír hljómar og fokk nú, gítar, bassi, trommur og tyggjó. Þetta er ekkert flókið.
Eða jú reyndar. Þetta er flókið. Hard To Explain. Bless.
P.s. Titilinn á þessum textastubb er fenginn héðan: https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/umhverfisraduneyti/nr/7836-

Hard to Explain – Rokgjarnt lífrænt efnasamband (live á Húrra)
Fílalag

 
 

00:00 / 00:51:44
 

1X

 

Jack & Diane – Svo basic að það blæðir

Tottið chili-pylsu og troðið henni í svöðusár frelsarans. Lífið heldur áfram löngu eftir að það hættir að vera spennandi. Í dag verður farið inn í Kjarnann. Haldið ykkur fast.

Fyrst smá formáli.
Fílalag hefur þrisvar sinnum fjallað um Bruce Springsteen, meðal annars í fyrsta þættinum sínum. Ástæða þess að Springsteen er svo hátt skrifaður hjá Fílalag (og raunar í tónlistarblaðanördasamfélaginu almennt) er vegna þess að hann er ósvikinn. Hann er ekki að reyna að vera neinn annar – Sprinsteen (eða Steini eins og við köllum hann) er ekki aðeins frumlegur heldur beinlínis frumstæður í einfaldleika sínum. Textar eftir Steina segja hlutina á mannamáli. Hann er engum líkur.
Eða hvað? Er hægt að vera meiri Steini en Springsteen sjálfur? Er hægt að vera meira basic, fara dýpra inn í kjarnann? Er hægt að steingerva heartland-rokkið, hjartlands-steininn, meira en sjálfur Steini?
Já. Það var gert árið 1982 af John Mellencamp. Heyrn er sögu ríkari. Jack & Diane. Svo basic að það blæðir.
Troðið ykkur í gallabuxur, sótbláar, klæðið ykkur í himinn ryðríkisins. Þú stendur að morgni og heilsar laufguðum trjám. Þú gerir það sem þig lystir meðan söngur fugla heyrist. Þú gerir þitt besta, og lífið heldur áfram.

Jack & Diane – Svo basic að það blæðir
Fílalag

 
 

00:00 / 01:15:48
 

1X

 

What’s Going On – Hvað er í gangi??!!

Árið er 1971. Alríkisstjórn Bandaríkjanna hefur tekið þeldökk ungmenni í hundruð þúsunda tali úr ryðguðum vonleysis iðnborgum sínum og sent þau í stríð til Asíu to “go and kill the yellow man,” svo vitnað sé í stjórann. Herinn hefur mætt og ítrekað sprautað á liðið með brunaslöngum. Á sama tíma og ísskápar landsins kalkúnavæðast sem aldrei fyrr og velmegunin er í hápunkti, þá virðist skorta á einfalda samkennd milli fólks.
Og er þá nema von að einn af prinsum Detroit borgar spyrji sig: “Hvað er eiginlega í gangi?” Prinsinn umræddi er að sjálfsögðu Marvin Gaye, ein skærasta stjarna Motown útgáfunnar. Maður sem hafði fram að því mest verið þekktur fyrir að dilla Kananum inn í þægilegt rom-com ástand. Gaye sagði: hingað og ekki lengra fyrr en einhver segir mér hvað er í gangi. Svo tók hann upp lagið “What’s Going On?” Og heimurinn hlustaði. Haka niður á kinn.
Hér er fjallað um þetta allt. Einkum þó rosalega sögu Marvins sjálfs, uppruna hans og örlög. Þvílík örlög.

What’s Going On – Hvað er í gangi??!!
Fílalag

 
 

00:00 / 01:54:08
 

1X

 

Coffee & TV – Alkóríseruð indí-drulla, endastöð, snilldarstöð

Blur voru ein stærsta popphljómsveit níunnar. Damon Albarn var poppskrímsli sem þefaði uppi stemningu og samdi popphittara. Hann elskaði athygli og poppkúltúr. En innan Blur var líka að finna hreinræktaða indídrullu í formi gítarleikarans Graham Coxon.
Og eins og gengur brenndi Blur brýr að baki sér. Það er erfitt að halda sér á popp-toppnum. Og þá kom indídrullan Coxon sterkur inn. Eftir að hafa legið þunnur og hálf-fullur á börum í London samdi hann þennan óð til slakkerismans: sannkallað lágmenningarkall um kaffi og sjónvarp, slaufaðan í loftþéttann indípakka. Og það var fokkismi sem þessi sem í raun bjargaði arfleið Blur.
Heyr er sögu ríkari. Hér er þetta helsta tekið fyrir. Næntís-kryppur, samspil skate-menningar og líkamsstöðu, gallabuxnasnið og fleira og fleira.

Coffee & TV – Alkóríseruð indí-drulla, endastöð, snilldarstöð
Fílalag

 
 

00:00 / 01:06:38
 

1X

 

Álfheiður Björk – Ítölsk skíða-ástarjátning borin fram með tómatsósu á Broadway, Ármúla

Kapteinn Ahab dó áður en hann náði að sigrast á Moby sínum Dick og lengi hefur litið út fyrir að Fílalag væri ekki að ráða við stóra fiska í íslenskri poppsögu eins og Eyjólf Kristjánsson og Björn Jörund. En viti konur. Hér eru þeir fílaðir báðir í einu.
Það er komið að því að fíla Álfheiði Björk. Þessi Broadway í Ármúla negla frá sléttri níu, er ærandi, gírandi og afhjúpandi. Álfheiður Björk er eitt af þessum lögum sem verður jafnvel betra ef það er öskursungið af tómatsósurauðu fólki í eftirpartíi. James Bond hafði leyfi til að drepa. Álfheiði Björk má fíla.
Hér er þetta allt saman tekið fyrir. Strípurnar á Eyfa, stóru vestin, sperringur Jörunds, tíkallasímarnir og töfrarnir. Spennið á ykkur fílunar-beltin. It’s time for take-off.

Álfheiður Björk – Ítölsk skíða-ástarjátning borin fram með tómatsósu á Broadway, Ármúla
Fílalag

 
 

00:00 / 00:55:46
 

1X

 

All the Things She Said – Hlaðnara en demantanáma

Það er við hæfi að fíla lag frá Rússlandi í dag. Og ekkert venjulegt lag. Um er að ræða stærsta smell t.A.T.u, nu-metal popp-gúmmelaði með þjóðdansa-kviðristum. Lag sem er hlaðnara af orku en óopnaður Monster í kælinum við kassann í Elko.

En hvaðan kemur þessi rosalega orka sem heyra má í t.A.T.u? Það spilar að sjálfsögðu inn í að flytjendurnir, þær Lena Katina og Júlía Volkóva, eru rússneskar – og Rússland er afar hlaðið land og illskiljanlegt. Þar er að finna geysimörg þjóðarbrot og saga þess er full af stríðum, árekstrum og ofbeldi, en líka stórbrotnum listum og vísindaafrekum.

En ætlunin í dag er ekkert endilega að skilja Rússland, þó að einhverjar línur séu dregnar fram, heldur fyrst og fremst að halla sér aftur í stólnum og djúpfíla. All the Things She Said, gjörið svo vel!

All the Things She Said – Hlaðnara en demantanáma
Fílalag

 
 

00:00 / 00:54:48
 

1X

 

Easy – Eðlur. Tunnur. Easy.

Kjöt hægeldast. Svitadropar merlast á pensilstrokuyfirvaraskeggjum. Afró gljáir. Það eru allir
góðir. Þetta er easy.
Alabama-kóngar í Los Angeles. Sólrík sjöa. Allt í gangi. Fílunarstig: hátt. Rauð viðvörun. Sérhver taug sperrt. Eldrauð fílunarviðvörun!
Þetta er ekki flókið. Þetta er easy.

Easy – Eðlur. Tunnur. Easy.
Fílalag

 
 

00:00 / 01:06:46
 

1X

 

Re-Sepp-Ten : „Fuck You Danmark”

VM-Holdet & Dodo – Re-Sepp-Ten: Vi er røde, vi er hvide

Það ríkti mikil eftirvænting þegar Danir gáfu út stemningslag vegna þátttöku sinnar á HM í fótbolta í Mexíkó árið 1986. Lagið, sem heitir Re-Sepp-Ten, en gengur oftar undir nafni undirtitils síns, Vi er røde, vi er hvide, er þrusugott. Fólk er enn að syngja það. Það eru jafnvel til japanskar kover-útgáfur af þessu lagi.

En hér er það að sjálfsögðu frumútgáfan er er fíluð í strimla. Raunar er lagið fílað niður í slíkar öreindir að úr verður áhugaverð kjörnun á því hvaða þýðingu þátttaka á stórmótum hefur fyrir litlar þjóðir. Svo tekur fílunin furðulega stefnu, sem endar á orðunum: „Fuck You Danmark”. Því hver þarf Danmörku þegar Ísland er á leiðinni á HM?

En hvers vegna þá að fíla Vi er røde, vi er hvide? Jú, vegna þess að við getum það, við megum það og við bara fílum það.

Re-Sepp-Ten : „Fuck You Danmark”
Fílalag

 
 

00:00 / 00:59:34
 

1X

 

Annie’s Song – Sumarbúðir, reipist gler, myrkur tærleikans

Ýmislegt má veiða upp úr sjöunni, enda er hún djúp og gárug eins og seiðpottur frumskaparans. Í dag er ausan að vísu ekki látin síga niður á botn heldur er froðan úr efsta lagi veidd ofan í skál og krufin til hlítar af munnkirtlum fílunar. Og að sjálfsögðu kemur þá í ljós að jafnvel froða sjöunnar er djúp og viðamikil og í sífelldri togstreitu milli Júpiters og Appolós, eins og Minnesota-skáldið kvað.
En í dag er Colorado skáldið til umfjöllunar. Barnslegt og einfalt á yfirborðinu, en undir niðri kraumar keðjusagargeðveiki og þrá eftir viðurkenningu. Það er John Denver sem er undir fílunarnálinni og við sögu kemur mennóníta uppruninn, flugstöðvarsamsærin og allt hið stóra og mikla sem listin hefur upp á að bjóða.
John Denver var tær – og sjaldan jafn tær og í laginu til Önnu. En tærar fjallalindir eru ekki aðeins tærar, heldur eðli málsins samkvæmt einnig myrkar. Þau haldast ávallt í hendur, systkinin, tærleikinn og dimman.
Hlustið, fílið.

Annie’s Song – Sumarbúðir, reipist gler, myrkur tærleikans
Fílalag

 
 

00:00 / 00:58:52
 

1X

 

Mr. Tambourine Man – Vogun vinnur

Ekkert er jafn síkópatískt, en að sama skapi gaman, eins og að leggja vandlega á borð fyrir sjálfan sig. Bjóða sjálfum sér í mat. Dúkaleggja, draga fram silfrið og postulínið og hægelda stóran grís með epli í kjaftinum. Sitja svo einn að snæðingi og njóta.
Árið 1964 var Bob Dylan í sérstakri stöðu. Hann var þegar hylltur sem Messías. Hann var borinn um á gullstóli amerískra sósíalista og intellektúala. En Bob Dylan, þessi 23 ára gamla, föla millistéttarrengla frá Minnesota, vissi að það er stórhættulegur stóll að sitja í. Hvernig hann vissi það er ómögulegt að segja. Hann vissi að hann yrði að hækka sig um einn og taka sénsa.
Mikið hefur verið skrifað um það þegar Bob Dylan dró fram rafmagnsgítarinn. Að þá hafi hann sagt skilið við þjóðlagahefðina og raunverulega skapað varanlega ímynd sína, án aðkomu annarra. En það er greining sem segir ekki alla söguna. Bob Dylan kastaði teningunum á borðið fyrr en það.
Því 1964 leggur hann á borð fyrir einn og snæðir heilan grís. Þurrkar sér vandlega með næfurhvítri og stífaðri munnþurku, og horfir stíft framan í heiminn. Og svipur hans sagði: Mér er drullusama hvað ykkur finnst því ég veit að þetta sem ég var að gera var það besta sem þið hafið séð.
 
Og þessi snæðingur heitir í daglegu tali Mr. Tamborine Man. Lagið sem breytti Bob Dylan frá því að vera einbeittur trúbador með meiningar yfir í að vera flugeldasýningameistari veraldarinnar. Mr. Tamborine Man felur í sér stækkun á sjálfri dægurmenningunni. Það er algerlega sjálfsköpuð snilld. Ekki andsvar við neinu, ekki fánaberi neins, umgirðing, aftöppun eða endurskoðun. Mr. Tamborine Man er frumsnilld.
Fílalagi fallast hendur. Njótið bara og fílið. Hér er Herbergismaðurinn tekinn fyrir í fjórða sinn og er hann því fílunarmethafi eins og sakir standa.
Fílið.

Mr. Tambourine Man – Vogun vinnur
Fílalag

 
 

00:00 / 01:25:46
 

1X

 

Wake Up – Micro-brewery kynslóðin vaknar

Arcade Fire koma frá Kanada. Að vísu er tæplega tveggja metra hái söngvarinn Win Butler amerískur mormóni sem fór til Montreal til að stúdera trúarbragðafræði og dró síðar bróðir sinn með í bandið. En restin er kanadískt krútt í gegn, kjöt- og kraftmikið.
Kanada er mjög „inclusive” land. Allir fá að vera með. Þar þrífst ekki elítumenning. Í Kanada fá allir að fara upp á svið og enginn er merkilegri en annar.
Það er gaman að blása í lúðra og drekka bjór, horfa á gamlar teiknimyndir, ræða heimspeki án þess að vera með prik upp í rassgatinu á sér. Og tengjast öðrum í gegnum nostalgíu fyrir millistéttarmenningu, fílgúddi og fegurð. Arcade Fire færði heiminum allt þetta.
Rokk og ról snýst ekki bara um að sparka upp hurð og kveikja á zippó kveikjara. Rokk og ról getur líka verið vinalegt, litríkt og ruglingslegt. Framúrstefnulegt og mainstream, bæði í einu. Arcade Fire virðist allavega takast það. Og varla eru þau að plata okkur öll?
Við fáum að vita meira í Fílalag þætti dagsins. Vaknið!

Wake Up – Micro-brewery kynslóðin vaknar
Fílalag

 
 

00:00 / 00:59:34
 

1X

 

Oh, Pretty Woman – Rjómafyllt kirsuber vafið inn í slaufu

(Úr glatkistu Fílalags. Þátturinn fór upprunalega í loftið 14. ágúst 2014)

Myndir af innhverfa óperettu-sólgleraugna kúrekanum Roy Orbison eru tattúveraðar á margar rasskinnar víðsvegar um heiminn, og ekki að ástæðulausu. Roy Orbison var allur pakkinn. Frum-rokkari, eilífðarunglingur og stemningsmaður. Hann var heil vídd. Hann söng, hann lék, hann samdi.
Og hvort hann samdi. Oh, Pretty Woman, sem hann samdi ásamt Bill Dees, er vasasinfónía eins og þær gerast bestar. Heilt óperuhús af dramatík vöndlað saman í útvarpsvænt lag. Hnausþykk tilfinningakvika í þægilegum umbúðum; slaufa utan um; sundlaug ofan á öllu draslinu.
Geðveikt lag. Rosalegur náungi. Þetta má fíla þar til beikonbugður himinsins molna ofan sálina. Fílið.

Oh, Pretty Woman – Rjómafyllt kirsuber vafið inn í slaufu
Fílalag

 
 

00:00 / 00:41:41
 

1X

 

Sunny way – Kjallarinn á Þórscafé

Gestófíll: Ari Eldjárn

Það er febrúar 1974. Við erum stödd í iðnaðarhverfi austan megin við Hlemm í Reykjavík. Hrafn kroppar í prins póló umbúðir upp við fölgráan ljósastaur sem lýsir dapri flúorskímu yfir miskunnarlaust íslenskt sjöu-skammdegið.
Það er verið að taka upp lag í kjallaranum á Þórscafé. Hljómsveitin Steinblóm er mætt. Lagið heitir Sunny way. Síðhippa-mottulagning úr Menntaskólanum við Hamrahlíð. Meðlimir bandsins áttu síðar meir allir eftir að skipta út gíturum sínum fyrir þvottavélar, rokkinu fyrir fjölskyldulíf. En akkúrat þarna, á dimmasta staðnum, á dimmasta árstímanum, í miðjum dimmasta áratuginum, fór eitthvað á flug. Steinblóm fetaði veg sólarinnar.
Þið hafið líklega aldrei heyrt lagið Sunny way áður, en kannski verður það nú eitt af ykkar uppáhalds lögum. Það er gimsteinn – gullmoli, perla úr undirdjúpunum. Fetið veg sólarinnar, fílið!

Sunny way – Kjallarinn á Þórscafé
Fílalag

 
 

00:00 / 01:00:46
 

1X

 

Nothing Compares 2 U – Grátið á bekk í París, grátið í Vestmannaeyjum. Grátið.

Það er komið að því. Fjólubláa fönkmaskínan er undir fóninum. Sex-naggurinn. Meiri brennsa. Minni sóda. This is it. Prince Rogers Nelson.

En ekki bara það. Þetta er tvíhleypa. Ekkert jafnast á við það. Berskjöldunar-bjútíið Sinéad O’Connor er með í för. Tveim köttum verður hleypt úr pokanum. Það er Nothing Compares 2 U. Ekkert rugl.

Farið í víðar bomsur. Læsið útidyrahurðunum. Hellið skál fulla af pedigree chum hundamat. Mjólk yfir. Snæðið. Hlýðið á. Steinþegiði svo, farið í þagnardaga í Skálholti. Þetta er örmögnun ástarinnar. Síðasta lag fyrir fréttir, síðasta lag fyrir allar stéttir.

Nothing Compares 2 U – Grátið á bekk í París, grátið í Vestmannaeyjum. Grátið.
Fílalag

 
 

00:00 / 01:23:46
 

1X

 

Box of Rain – Sviti. Heimspeki. Fílgúdd. Hass. Paranoja. Kynlíf. Dauði. Stemning.

Kafloðin handabök skoppa upp og niður á hljómborði. Sýra merlast í heilahvelum. Djúpsteikingarfita hjúpar innanverð vélindu. Grateful Dead eru í hljóðverinu. Veröldin er kamelgul. Meðvitund, svefn og dauði. Allt eru þetta frændur.

Loðnasti fíllinn er tekinn fyrir. Kafloðinn. Hárið er hart og mikið, liggur strítt í allar áttir. Grateful Dead er meira en hljómsveit. Það er menningarfyrirbrigði, afl, vídd og fasti. Kannski soldið erfitt að útskýra það í 45 mínútna hlaðvarps-þætti. En Fílalag fór í málið.

Því Grateful Dead er fyrst og fremst – framar allri heimspeki, nördaskap og skaðræði – Grateful Dead er fyrst og fremst grííííííííðarlegur fílingur.

Hér er borinn fram kassi af regni.

Njótið!

Box of Rain – Sviti. Heimspeki. Fílgúdd. Hass. Paranoja. Kynlíf. Dauði. Stemning.
Fílalag

 
 

00:00 / 0:00:00
 

1X

 

Look on Down from the Bridge – Eftirpartí, korter í hrylling, fegurð, skaðræði

X-kynslóðin færði okkur meira en gröns og perlandi e-pillu-svita. X-arar höfðu líka á sér fágaðari hliðar, eins og gengur. Á árunum í kringum 1990 var til dæmis Kalifornía full af af berfættum rokkabillí-neó-hippum. Og þvílík fegurðar-trog sem sú sena bar á borð fyrir heimsbyggðina.

Í dag er undir fílunanar-nálinni ein allra þyngsta fegurðar-skífa sem gefin var út í níunni. Sjálft “Look on Down from the Bridge” með hljómsveitinni Mazzy Star. Þetta er lekandi, drjúpandi hammond-hamsatólgur, líknardeildar-perla, lag sem hæfir eftirpartís-hellun á skaðræðisstigi.

Setjið á ykkur eldrauð og lítil John Lennon sólgleraugu, hengið písmerkið um hálsinn, keyrið bílinn ykkar niðrá höfn og lekið inn í eilífðina. Það er kominn tími til að líta fram af brúnni.

Look on Down from the Bridge – Eftirpartí, korter í hrylling, fegurð, skaðræði
Fílalag

 
 

00:00 / 00:58:27
 

1X

 

Hey Jude – Bítlað yfir sig

Samfélagið er uppfullt af fólki með Bítlana á heilanum. Fólk sem þylur upp nöfnin á hljóðversplötunum í tíma og ótíma, les þykka bítladoðranta og yfirstúderar Bítlana. Svo er líka til fólk sem hreinlega bítlar yfir sig, sem getur ekki sest við píanó án þess að úr því verði Bítlalaga-orgía og jolly good stemning.

Ástand „bítlunar” er raunverulegt ástand, og oftast er það hið besta mál.

En best af öllu er að Bítlarnir sjálfir voru náttúrulega stöðugt í ástandi „bítlunar”. Engir voru jafn bítlaðir og þeir. Þeir voru nöllar sem kunnu sjálfir að þylja upp möntru um eigið mikilvægi og sögu. Ein af ástæðum þess að saga Bítlana er svona vel skráð er vegna þess að Bítlarnir sjálfir eru bítlaðir, þ.e. mjög uppteknir af bítla-fyrirbærinu og menningarlegum áhrifum þess.

Og svo bítluðu þeir náttúrulega yfir sig. Sem er ákveðin eðlisverkandi snilld. Í laginu Hey Jude eru samankomnir yfirbítlaðir Bítlar. Það er gríðarleg bítlastemning í gangi, framkvæmd af Bítlunum sjálfum, og útkoman er náttúrulega eitt af þeirra allra, allra stærstu lögum.

Og á þennan loðfíl var ráðist í nýjasta Fílalag þættinum, sem tekin var upp „live” frammi fyrir fílahjörðinni á Húrra. Góð stemning, frábært lag, úrvals fílun. Njótið.

Hey Jude – Bítlað yfir sig
Fílalag

 
 

00:00 / 00:58:35
 

1X

 

Streets of Philadelphia – Ljóðrænt Casio-mix sem mokar inn peningum og tárum

Það er komið að Steina, Bruce Springsteen, í þriðja sinn hjá Fílalag. Nú er það níu-steini sem er tekinn fyrir. Hann er með kleinuhringjaskegg, barta og líka rokkabillí hár. Mikið í gangi, samt í tilvistarkreppu. Hollywood hringir og vill fá lag frá honum fyrir myndina Philadelphia.
Steini klæðir sig í þrjár hettupeysur, sækir Casio hljómborð, setur einfaldasta trommuheilann á, spilar liggjandi hljómamottu og muldrar svo ljóðræna snilld inn í vitund heimsbyggðarinnar. Hann selur milljónir, fær óskarinn, finnur sjálfan sig og fer svo aftur heim að gera við mótorhjólið sitt. Case closed.
Farið í fósturstellingu, nötrið og fílið.

Streets of Philadelphia – Ljóðrænt Casio-mix sem mokar inn peningum og tárum
Fílalag

 
 

00:00 / 00:58:47
 

1X

 

Torn – David Schwimmer. Ljót peysa. Svampmáluð íbúð.

Fílalag var soldið torn yfir því hvort fíla ætti lag dagsins. Um er að ræða mikið meginstraums lag – kannski full mikið af því góða. Popp gerist ekki meira toro-þurrsósupakkað en þetta. En eins og er svo oft með góð popplög, þá er eitthvað verulega djúsí undir yfirborðinu.
Torn er fyrsti (og í raun eini) smellur Natalie Imbruglia, en þessi ástralska söng- og leikkona þurfti ekki að gera meira til að festa sig í sessi sem millennium drottning allrar heimsbyggðar. Hún kom sá og mauksigraði heiminn með easy-listening break up ballöðunni sinni, Torn. Lagið er reyndar samið af LA-singer-songwriter hestahölum og fyrst flutt af danskri söngkonu 1993, en það kom ekki að sök. Imbruglia tók lagið og negldi heiminn með því 1997.
Við erum í tuttugu ára fassjon hringekjunni. Krakkarnir eru að kaupa sér 1997 re-issue Nike pabba-hlaupaskó eins og enginn sé morgundagurinn, til að negla Steve Jobs lúkkið. Og allir eru að hlusta á Torn og snarfíla það, jafnvel meira en nokkru sinni fyrr.

Torn – David Schwimmer. Ljót peysa. Svampmáluð íbúð.
Fílalag

 
 

00:00 / 01:02:56
 

1X

 

Baker Street – Sósa lífsins

Er til eitthvað stemmdara fyrirbæri í heiminum heldur en alkólíseraður kokkur í fíling? Miðaldra, fráskilinn maður að hræra í potti og hlusta á tónlist úr gömlu Panasonic útvarpi? Er til hrjúfari gæsahúð en á baki slíks kokks, þar sem hann hlustar á sitt uppáhalds lag og hellir úr rauðvínsflösku ofan í pottinn? Líklega ekki.
En hvaða lag skyldi stemmdi kokkurinn hlusta á til að komast í svona rosalegan fíling. Mörg lög koma til greina, en ekkert dúndrar svona fólki í meiri fíling heldur en Baker Street með Gerry Rafferty. Þetta lag, með sinn rosalega saxa-húkk og exístensíalíska texta. Þetta er lag fyrir fólk sem vill hverfa, hverfa úr aðstæðum sínum, fuðra upp í fíling þannig að ekkert er eftir nema rjúkandi skórnir á gólfinu.
Gerry Rafferty er líka maðurinn sem hvarf. Hann var alltaf að hverfa, enda alkólíseraður Skoti, stemnings-Kelti sem varð helblúsaður inn á milli. Hann er hinn mesti og stærsti léttskyggings-sólgleraugnameistari sem sjöan ól – og ekki voru þeir fáir.
Njótið. Fílið ykkur í botn. Hrærið í sósu lífs ykkar. Með Bakarastrætið í botni. Frelsist. Andið. Hverfið.

Baker Street – Sósa lífsins
Fílalag

 
 

00:00 / 00:59:02
 

1X

 

Where is my mind? – Boston Pizza

Ef maður myndi spyrja einhvern random Bandaríkjamann um hljómsveitina Pixies, þá eru líkur til þess að hann myndi yppa öxlum og ropa framan í þig – Homer Simpson style. Bandaríkjamenn utan hörðustu indí-vígja, þekkja ekki þetta band. Auðvitað þekkja sumir þeirra gítarlínuna í Where is My Mind, sem fílað er í dag, en annað ekki.

Það sama er ekki uppi á teningnum á Íslandi. Sérhver Íslendingur sem átt hefur CD-spilara eða kveikt á Rás 2 þekkir Pixies mjög vel. Bandið hefur meira að segja komið tvisvar til Íslands og fyllt bæði Kaplakrika og Laugardalshöll. Pixies er stadium-band fyrir Íslendinga. Jafn basic og Víking gylltur í hönd gröfumanns á Egilsstöðum.

En samt vita Íslendingar ekkert mikið um uppruna Pixies. Þeir vita til dæmis ekki að þrátt fyrir að Pixies hafi ávallt notið meiri vinsælda í Evrópu, einkum Bretlandi, heldur en í eigin heimalandi – þá er um að ræða mjög amerískt band. Þetta eru Boston-djöflar. Pizza slafrandi, baseball-áhorfandi hettupeysulið með vélindabakflæði. Og það útskýrir eiginlega allt mögulegt í sambandi við Pixies.

Where is My Mind er vissulega einskonar þjóðsöngur landsins þar sem gröns og krútt haldast í hendur – gæsahúðaóður kaldhæðnu kynslóðarinnar. Og það er eitt besta lag allra tíma. En kannski er það fyrst og fremst eins og góð pizza – bara eitthvað hveiti-baserað þarmakítti sem maður fær ekki nóg af.

Where is my mind? – Boston Pizza
Fílalag

 
 

00:00 / 01:07:07
 

1X