You’ll Never Walk Alone – Gangráður heimsbyggðar

Músík er sameinandi afl sem spyr hvorki um stétt né stöðu. Þetta eru væmin orð, en þó alveg sönn. Jafnvel hörðustu rokkarar koma heim af djamminu og sjá endursýningu á Mamma Mia á bíórásinni og skæla ofan í leðurjakka sína.
Lagið sem fílað er í dag er upphaflega úr söngleik – mjög væmnum Broadway-söngleik – en það er í dag fílað af hörðustu iðnaðarmönnum. Líklega er ekkert lag hummað jafn angurvært í Smiðjuhverfinu í Kópavogi og einmitt þetta lag.
Já. Það hitti heiminn í hartastað. Það hefur verið sungið í kommúnum, kirkjum og á fótboltavöllum (og ekki bara hjá aðdáendum Liverpool). Verum vinir, verum glöð, hvar í flokki sem við stöndum og sama með hverjum við höldum. Föðmum náunga okkar, þrýstum brjósti hans að okkar þannig að sómasamlokan í vasa hans springur í plasti sínu. Og öskrum saman Smiðjuhverfis-sálminn. Lífið er sársauki, en við finnum hann öll saman.

You’ll Never Walk Alone – Gangráður heimsbyggðar
Fílalag

 
 
00:00 / 0:00:00
 
1X
 

Love Will Tear Us Apart – Fenið

Ef til væri playlisti sem héti: “Motivational hits fyrir fólk sem fílar ekki Motivational hits” þá er alveg öruggt hvaða lag væri þar efst á blaði. Love Will Tear Us Apart. Lag sem hefur ært ófáan Englendinginn í gegnum tíðina, kramið hjörtu og látið varir herpast.
Samt er lagið enginn gleðisprengja. Það fjallar um þjáninguna.
Manchester gráminn, myndlistarsköddunin, vonleysið, mátturinn og dýrðin. Joy Division.
Fílalag sökk í fenið í dag.

Love Will Tear Us Apart – Fenið
Fílalag

 
 
00:00 / 01:00:41
 
1X
 

Að leggja sér músík til munns (Fílalag + SOÐ)

Fílalag fékk Kristinn Guðmundsson hjá Soð með sér í lið fyrir sinn nýjasta þátt. Á meðan Snorri og Ebbi fíluðu lagið A Whiter Shade of Pale eldaði Kristinn mat sem byggðan er á laginu, en Soð er matreiðsluþáttur. Það er því einnig hægt að horfa á þennan þátt Fílalags, í styttri útgáfu, hjá Soð.
A Whiter Shade of Pale með Procol Harum er einn stærsti fíllinn í stofunni. Risastórt lag sem skóp sexuna og hefur legið eins og hula yfir vestrænni menningu alla tíð síðan. Það þurfti fleiri skilningarvit heldur en eyrun til að fíla þetta lag og því var brugðið á það ráð að elda lagið líka – Kristinn sá um það – og var afraksturinn svo snæddur í lok lags.  Já. Lagið var étið. Þetta útskýrist betur ef hlustað er á þáttinn.
Njótið, snæðið, fílið.

Að leggja sér músík til munns (Fílalag + SOÐ)
Fílalag

 
 
00:00 / 01:21:36
 
1X
 

Nákvæmlega – Þegar Suðurland nötraði

Skítamórall – Nákvæmlega
Gestófíll: Sóli Hólm
Fílalag fékk sérstakan gest til sín til að útskýra hinn mikla hamfarakrókódíl sem sunnlenska aldamóta-sveitaballapoppið var. Sóli Hólm mætti og nötraði er hann lýsti af áfergju stemningunni í raðhúsapartíi í Hveragerði árið 2000 og fílingnum sem skók allt Suðurlandið á árunum 1997-2002.
Já. Þetta var einn stór jarðskjálfti og suðurlandsskjálftinn 17. júní árið 2000 (sem var eiginlegur jarðskjálfti) var nánast hlægilegur í samanburði. Þetta hófst upp úr miðri níunni og fer virkilega af stað í kringum 1997 þegar Land og Synir mæta með Vöðvastæltur og Skímó bongóar sig inn með Nákvæmlega.
Fræðist. Fílið.

Nákvæmlega – Þegar Suðurland nötraði
Fílalag

 
 
00:00 / 01:09:41
 
1X
 

Just the Way You Are – Brúnhærð, krulluð sjöa

Farið er á rostungaveiðar í dag. Sjálfur Billy Joel er fangaður og ekki er um lítið skrokk-ummál að ræða. Billy Joel, píanómaður, spelmaður með þykka höfuðkúpu, er dreginn á land, löðraður lýsi.
Joel hefur átt nokkur tímabil. Hreinræktaður píanómaður, MTV-brúða en þó ávallt boxari og Bronxari. Og hér er gripið inn í eitt hans mikilvægasta tímabil sem nefnist hjartaknúsara-sjöan. Hér er allt til reiðu: brúnu krullurnar, sjúskaði blazer-jakkinn, wurlitzer píanóið. Allt klárt.
Það væri ekki leiðinlegt að sitja inn á ítölskum veitingastað í Bronx-hverfinu
í miðri sjöu, í ljótum jakka, stressaður vegna skattaskulda, og heyra þetta lag koma í útvarpinu meðan börnin maula brauð úr körfu. Stemning.

Just the Way You Are – Brúnhærð, krulluð sjöa
Fílalag

 
 
00:00 / 01:11:51
 
1X
 

Angel – Gríðarleg árás

Massive Attack – Angel

Hnausþykkt vax drýpur. Á er skollið hakkaramyrkur. Nú mega vinirnir vara sig.

Engillinn stígur niður. Dimmt er myrkur augna. Tortíming er í nánd.

Pópúlar músíkk verður ekki dýpri, ekki seigari. Í kolakjallaranum brenna eldar í ofnum.

Fílið og deyið.

Angel – Gríðarleg árás
Fílalag

 
 
00:00 / 00:48:37
 
1X
 

I Put A Spell On You – Álagsstund

Það fór fram hópfílun þegar Fílahjörðin mætti við drykkjarstöðvar sínar og stakk sér á bólakaf í tilfinninga-uppnáms-stomperinn I Put a Spell on You. Var lagið bæði mergfílað með höfundi sínum, Screamin’ Jay Hawkins og svo einnig með Creedence Clearwater Revival.
Sérhver taug var þanin í þessari fílun. Móða stríðsins. Ofsi afbrýðisseminnar. Ofsóknaræðið og lostinn í sjokk og tortímingu. Það er rosalega mikið undir í lagiu I Put a Spell on You. Það er verið að leggja álögur á manneskju – jafnvel alla sem á hlýða. Að verki eru galdar, ef ekki kölski sjálfur.

I Put A Spell On You – Álagsstund
Fílalag

 
 
00:00 / 01:02:59
 
1X
 

Money For Nothing – Ókeypis peningar

Árið er 1985. Heimsbyggðin er þyrst í rokk og popp. Kalda stríðið er í gangi en fólk austan járntjaldsins vill snjóþvegnar gallabuxur og ískalt kók. Dire Straits mæta, með sjálfan Sting sér við hlið, og gefa heiminum seðjandi mjólk úr júgrum sínum. Money for Nothing.
Um er að ræða bæði upphafningu og ádeilu á MTV-kynslóðina og poppstjörnulífstílinn. Grannur vegur að feta, og aðeins á færi útlærðustu popp-séffa, sumsé aðeins á færi Knopfler-bræðra og vina þeirra.
Hlýðið á og sperrið eyrun eins og refir.

Money For Nothing – Ókeypis peningar
Fílalag

 
 
00:00 / 00:59:01
 
1X
 

Spirit in the sky – Ljósið við enda ganganna

Hvernig ætli stóra ferðalagið sé? Hápunktur allrar lífsreynslu hlýtur að vera sjálf himnaförin. Að klára dæmið og sameinast alheims-andanum. En er hægt að reyna að ímynda sér það?
Í velmegunar-skýi sexunnar voru menn og konur allavega komin þangað. Norman Greenbaum fór langt með að koma fólki í nýja vídd með lagi sínu Spirit in the Sky sem kom út 1969 – en það var sama ár og Bandaríkjamenn komu manni á tunglið.
Stemningin í laginu Spirit in the Sky er svo yfirgengileg, að mörgum þykir nóg um. Það er einfaldlega farið alla leið í þessu lagi. Himnasjomlinn sjálfur er að gefa high-fives. Þetta lag er kaleikur. Há-stemning og rússibani í slómó. Sleikið út um og fílið. Vúff.

Spirit in the sky – Ljósið við enda ganganna
Fílalag

 
 
00:00 / 00:55:34
 
1X
 

Waterfalls – Jarmið. Gjaldþrotið. Geggjunin.

Það þurfti ekkert minna en vel-versaðan gestófíl til að afhausa fílinn í herberginu þegar Waterfalls með TLC var tekið fyrir. Sandra Barilli, bransakona, mætti í fílun og fór yfir stóru umfjöllunarefni Níunnar. HIV, dópið, stúlknasveitir og jarmið.
Tionne „T-Boz” Watkins, Lisa „Left Eye” Lopes og Rozonda „Chilli” Thomas mynduðu TLC og urðu strax vinsælar, fóru svo í klassískt bransagjaldþrot, en náðu sér á strik aftur. Saga þeirra inniheldur allt það svakalegasta úr amerískri öfgamenningu og umfjöllunarefni laganna eru ekki á smáum skala heldur.
Waterfalls fjallar um stór málefni. Að ætla sér ekki um of. Annars endar maður dauður. En það enda svo sem allir þannig – en um það er einnig fjallað í þættinum.
Hlýðið á og samfílið. Á borð er borinn risasmellur.

Waterfalls – Jarmið. Gjaldþrotið. Geggjunin.
Fílalag

 
 
00:00 / 01:21:23
 
1X
 

Our House – Afar vel smíðað hús

Þeir voru sperrtir, glenntir og illa tenntir. Crosby, Stills, Nash og Young, með hassmola í vösum átján hundruð grýlna jakka sinna. Þetta var súpergrúbba – rjómi flower-power menningarinnar, tappaður á þjóðlagapela.

Los Angeles. Víetnam-stríðið. Glamrandi gítarar. Alpha-male raddanir. Tónleikasalir fylltir 60s woke gleraugnaglámum. Milljón eyru sperrt. Þvílík stemning.
Crosby, Stills, Nash og Young fluttu napra gáfumanna snilld sáldraða ofan í fílgúddbúðing. Ein mikilvægasta hljómsveit amerískrar sögu eða bara fjórir fokkerar með yddaða drjóla. Take your pick.
Hér var allavega hlaðið í afar ljúft lag – Our House – friðelskandi laglína, sönn og allsber. Fílið.

Our House – Afar vel smíðað hús
Fílalag

 
 
00:00 / 01:06:19
 
1X
 

With Or Without You – Leggstu í fósturstellingu, hver sem þú ert, hvar sem þú ert

Hver ertu? Þú! Hvort sem þú borðaðir bjúga í kvöldmat eða slafraðir í þig fusion-rétti á sushi samba innan um fasteignasala og myndlistarflippara. Hver sem þú ert! Leggstu á malbikið. Láttu þig sökkva.
Hvar sem þú ert. Ertu á Sauðárkróki að drekka nýmjólk eftir vakt hjá Rækjuvinnslunni? Ertu lögga með vélindabakflæði? Ertu það? Ertu kristinn, múhammeddískur eða stundar þú átrúnað á salamöndruna? Eða ertu bara eins og flestir aðrir, vantrúaður en þó hallelúja-öskrandi í takt við kreddu líðandi stundar, coleman þægilegur monthani með dramb sem engan ýfir?
Fyrir þrjátíu árum síðan lögðu fjórir Írar mottu. Og hún hjúpar þetta allt. Hún hylur sjálfa flatneskjuna.
Og ef þú vilt ekki fatta það – þá fílarðu ekki sjálfan þig. Og við því er ekkert að gera.
En Bono og félagar fíla þig samt. Þeir elska þig, skilyrðislaust. Og munu alltaf vinda blóð úr hjarta sínu fyrir þig.

With Or Without You – Leggstu í fósturstellingu, hver sem þú ert, hvar sem þú ert
Fílalag

 
 
00:00 / 01:09:31
 
1X
 

Lust For Life – Lostaþorsti

Stundum er allt í góðum gír. Allir sáttir. Enginn með vesen. Matur í ísskápnum. Bíómynd í sjónvarpinu. En þá grípur fólk einhver losti. Þorsti í skaðræði, gríðarleg löngun í tortímingu og rassaspörk.

Um það fjallar lagið Lust for Life. Það er hin hreinræktaða stemning. Ásókn í romp. Hér er hún mætt: sálarbaseraða, pönk-lúppan – lamin saman af David Bowie, margarín-smurð af Iggy Pop.

Ef eitthvað lag verðskuldar F.Í.L.U.N. þá er það þetta lag.

Lust For Life – Lostaþorsti
Fílalag

 
 
00:00 / 01:04:09
 
1X
 

I Wanna Be Adored – Ljónið öskrar

Hafið þið verið að fíla Liam Gallagher á netinu? Hafið þið verið að rifja upp 90s fílinginn, anorakkana, sólgleraugun og brit-pop-strigakjaftinn? Gleymið öllu sem þið hafið verið að gösla í. Gleymið öllu, því allt er þetta bara lélegt endurvarp af frumöskrinu.

Stone Roses. Þeir mættu með fyrstu plötuna sína 1989. Og Britpop fæddist! Madchester-typpafnykurinn var svo rosalegur að fólk er enn haldandi fyrir vit sín. I Wanna Be Adored með Stone Roses er þvílík opnun, þvílík gangræsing, þvílík sprengja – að annað eins hefur ekki sést síðan.

Ljónið öskrar. „Þú dáir mig”. „Þú dáir mig”. Og mér er alveg sama. Ég hef enga sál. Myndlistarsköddun, súld, stórir gítarar, pillur.

I Wanna Be Adored – Ljónið öskrar
Fílalag

 
 
00:00 / 00:49:57
 
1X
 

Myth – Svifryk. Blóð. Brúnar krullur.

Nú er fjandinn laus. Fílalag er á nálægum slóðum. Í dag er lag úr indíkreðsunni frá 2012 tæklað. Það er Airwaves norpið. Það er fjúkandi Japaninn. Það er strandkofinn í mistrinu.

Óhamingunni verður allt að vopni. Eldur úr iðrum, ár úr fjöllum, goðsögnum eyðir. Allt hverfur. Jafnvel mistrið. Það hverfur líka. Ó mistrið. Það sem þú faldir skiptir engu máli. Það varst þú – mistur – sem varst sæta stelpan á ballinu.

Baltimore drulluhalar.

Myth – Svifryk. Blóð. Brúnar krullur.
Fílalag

 
 
00:00 / 01:05:02
 
1X
 

Walking On Sunshine – Lík dansa

Fílalag er snúið aftur eftir tveggja vikna hlé. Snorri er nýgiftur og svífur nú um á rósrauðu skýi. Fílun dagsins er því fílgúdd-þykknið sjálft „Walking on Sunshine”. Sjaldan hefur annarri eins rakettu verið spýtt inn í hagkerfið og þessu lagi.

Það komast allir í fíling við að heyra þetta lag. Ef þetta lag væri spilað í kirkjugarði þá fara líkin á hreyfingu. Þetta er pakki fullur af sól – yndi allra markaðsfræðinga, brúsa-á-töppuð stemning: flutt af mjóum new-wave Englendingum í þunnum frökkum og amerískri heimasætu. Þvílíkt kombó, þvílíkt bingó, þvílíkt bongó fyrir heilann.

Walking On Sunshine – Lík dansa
Fílalag

 
 
00:00 / 01:10:42
 
1X
 

Parklife – Chav-tjallismi

Þeim langaði að fanga breska hversdagsstemningu. og þeim tókst það. Blur hlóð í væna wagner-í-eldspýtustokk-exístensíalíska-popp-sápu-óperu, sem þó aldrei rís, heldur kraumar allan tímann eins og skaftpottur á gamalli AGA eldavél í sundurmolnuðu múrsteinshúsi í Longsleddale í Kúmbríu.
Um er að ræða bresk tilþrif: gnægtarborð tilvísana, undiröldu og stemningar, í mónótónískum sælgætisumbúðum. Það skrjáfar og glitrar en eldsumbrotin fara öll fram neðan jarðar, eins og breskt heimavistarskólaprump sem smýgur gegnum þykkar ullarbrækur áður en það er veitt ofan í mjólkurglas hvers botn er kinglóttur sem gleraugu herra Winston Ono.
Njótið og fílið.

Parklife – Chav-tjallismi
Fílalag

 
 
00:00 / 00:51:09
 
1X
 

Nights in White Satin – Pluss-áklæði kynslóðanna

Hér verður sigið ofan í þægilegt aftursæti á biblíusvörtum leigubíl sem keyrir í gegnum rigninguna í gljáandi stórborg. Baby by your side. Sexan varð sjaldan jafn sexí, jafn pluss-rafmögnuð.
Nögl er dregin eftir silki-áklæði. Svartir olíudropar rigna yfir ljóskerin.
Þeim tókst það. Þessum bresku pöbb-stemnings-böllum tókst það. Aldrei vanmeta Breta sem eitthvað bublar í. Hér var hrært í seið. Elíxir sem enn gefur.

Nights in White Satin – Pluss-áklæði kynslóðanna
Fílalag

 
 
00:00 / 00:51:15
 
1X
 

Narcotic – Nítíuogátta oktana límonaði-sprengja

Liquido – Narcotic
Hér er það komið. Gas allra landsmanna, jagerskota-þrusa. Hér er þrumuguðinn Þór öskurstemmdur upp í skýjunum, klæddur eins og Duff-Man, að hella límonaði-ferskri dísilolíu yfir djammþyrst ungmenni í sumrinu, og kveikja svo í öllu draslinu.
Þetta lag gat ekki verið ófílað. Þetta er lag heillar kynslóðar. Cross-over negla úr níunni, þjóðsöngur sem fór langt með að sameina þunglynda og kaldhæðna rokkara og pungsveitt sveitaballaliðið.
Það þurfti háskólagáfumenni frá Þýskalandi í verknaðinn. Þau reiknuðu, þau strituðu, þau sigruðu. Allavega um stundarsakir.

Narcotic – Nítíuogátta oktana límonaði-sprengja
Fílalag

 
 
00:00 / 01:05:50
 
1X
 

Peggy Sue – Hin mikla malbikun

Hvernig stendur á því að þetta hefur ekki verið fílað fyrr? Fílunarsaga án Buddy Holly er eins og Nýja testamentið með engum Jésú. En hér er hann loksins tekinn fyrir, smyrjarinn mikli frá Lubbock, Charles Hardin Holley og dyggar krybbur hans.
Saga Buddy Holly er saga hinnar miklu malbikunar. Saga þess þegar rokktónlist var breytt úr iðnaði yfir í list, saga tjörgunar og aflsmuna, svita, hita og þrúgandi aðstæðna, sem skiluðu að lokum í þráðbeinum vegi sem aðrir gátu keyrt eftir, flautandi fyrir munni sér lagstúf undir silkimjúkri fjöðrun.
Hér er þetta allt tekið fyrir. Stóru jakkarnir, strató-sperringurinn, hitinn, kuldinn, slysið. Líf Buddy Holly var keyrsla og það var veisla. Hér er um að ræða hnallþóru, sveitinni boðið. Vefjið ykkur í Oxford-peysur líkt og um spennutreyur væri að ræða, strappið á ykkur Steam Punk gleraugum með kennslukonu-sniði, hlaðið í ykkur Hot Talames. Nú verður farið í útsýnisferð yfir Clearwater Iowa. Buckle up. Því músíkin dó aldrei. Hún er sprelllifir. Sprelllifir.

Peggy Sue – Hin mikla malbikun
Fílalag

 
 
00:00 / 01:18:53
 
1X
 

Hard to Explain – Rokgjarnt lífrænt efnasamband (live á Húrra)

Það kom ekkert annað til greina en að ganga nærri sér á live-fílun frammi fyrir sjálfri Fílahjörðinni. The Strokes var fílað. Hljómsveit sem skóp Fílabræður á sínum tíma. Rokkbylgjan upp úr aldamótum skall hart á Vesturlandabúum og sumir eru enn að seig-freta í þröngar Happy Mondays Dillon hosurnar.
Hér er þetta allt tekið fyrir. Brúnu krullurnar. Ljósa gallajakkaefnið. Converse-skórnir. Það er ótrúlegt hvað rokkið er seigt. Einhvern veginn tókst nokkrum einkaskólagengnum New York drulluhölum að hræra upp í fyrstu bók Móse enn eina ferðina. Þrír hljómar og fokk nú, gítar, bassi, trommur og tyggjó. Þetta er ekkert flókið.
Eða jú reyndar. Þetta er flókið. Hard To Explain. Bless.
P.s. Titilinn á þessum textastubb er fenginn héðan: https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/umhverfisraduneyti/nr/7836-

Hard to Explain – Rokgjarnt lífrænt efnasamband (live á Húrra)
Fílalag

 
 
00:00 / 00:51:44
 
1X
 

Jack & Diane – Svo basic að það blæðir

Tottið chili-pylsu og troðið henni í svöðusár frelsarans. Lífið heldur áfram löngu eftir að það hættir að vera spennandi. Í dag verður farið inn í Kjarnann. Haldið ykkur fast.

Fyrst smá formáli.
Fílalag hefur þrisvar sinnum fjallað um Bruce Springsteen, meðal annars í fyrsta þættinum sínum. Ástæða þess að Springsteen er svo hátt skrifaður hjá Fílalag (og raunar í tónlistarblaðanördasamfélaginu almennt) er vegna þess að hann er ósvikinn. Hann er ekki að reyna að vera neinn annar – Sprinsteen (eða Steini eins og við köllum hann) er ekki aðeins frumlegur heldur beinlínis frumstæður í einfaldleika sínum. Textar eftir Steina segja hlutina á mannamáli. Hann er engum líkur.
Eða hvað? Er hægt að vera meiri Steini en Springsteen sjálfur? Er hægt að vera meira basic, fara dýpra inn í kjarnann? Er hægt að steingerva heartland-rokkið, hjartlands-steininn, meira en sjálfur Steini?
Já. Það var gert árið 1982 af John Mellencamp. Heyrn er sögu ríkari. Jack & Diane. Svo basic að það blæðir.
Troðið ykkur í gallabuxur, sótbláar, klæðið ykkur í himinn ryðríkisins. Þú stendur að morgni og heilsar laufguðum trjám. Þú gerir það sem þig lystir meðan söngur fugla heyrist. Þú gerir þitt besta, og lífið heldur áfram.

Jack & Diane – Svo basic að það blæðir
Fílalag

 
 
00:00 / 01:15:48
 
1X
 

What’s Going On – Hvað er í gangi??!!

Árið er 1971. Alríkisstjórn Bandaríkjanna hefur tekið þeldökk ungmenni í hundruð þúsunda tali úr ryðguðum vonleysis iðnborgum sínum og sent þau í stríð til Asíu to “go and kill the yellow man,” svo vitnað sé í stjórann. Herinn hefur mætt og ítrekað sprautað á liðið með brunaslöngum. Á sama tíma og ísskápar landsins kalkúnavæðast sem aldrei fyrr og velmegunin er í hápunkti, þá virðist skorta á einfalda samkennd milli fólks.
Og er þá nema von að einn af prinsum Detroit borgar spyrji sig: “Hvað er eiginlega í gangi?” Prinsinn umræddi er að sjálfsögðu Marvin Gaye, ein skærasta stjarna Motown útgáfunnar. Maður sem hafði fram að því mest verið þekktur fyrir að dilla Kananum inn í þægilegt rom-com ástand. Gaye sagði: hingað og ekki lengra fyrr en einhver segir mér hvað er í gangi. Svo tók hann upp lagið “What’s Going On?” Og heimurinn hlustaði. Haka niður á kinn.
Hér er fjallað um þetta allt. Einkum þó rosalega sögu Marvins sjálfs, uppruna hans og örlög. Þvílík örlög.

What’s Going On – Hvað er í gangi??!!
Fílalag

 
 
00:00 / 01:54:08
 
1X
 

Coffee & TV – Alkóríseruð indí-drulla, endastöð, snilldarstöð

Blur voru ein stærsta popphljómsveit níunnar. Damon Albarn var poppskrímsli sem þefaði uppi stemningu og samdi popphittara. Hann elskaði athygli og poppkúltúr. En innan Blur var líka að finna hreinræktaða indídrullu í formi gítarleikarans Graham Coxon.
Og eins og gengur brenndi Blur brýr að baki sér. Það er erfitt að halda sér á popp-toppnum. Og þá kom indídrullan Coxon sterkur inn. Eftir að hafa legið þunnur og hálf-fullur á börum í London samdi hann þennan óð til slakkerismans: sannkallað lágmenningarkall um kaffi og sjónvarp, slaufaðan í loftþéttann indípakka. Og það var fokkismi sem þessi sem í raun bjargaði arfleið Blur.
Heyr er sögu ríkari. Hér er þetta helsta tekið fyrir. Næntís-kryppur, samspil skate-menningar og líkamsstöðu, gallabuxnasnið og fleira og fleira.

Coffee & TV – Alkóríseruð indí-drulla, endastöð, snilldarstöð
Fílalag

 
 
00:00 / 01:06:38
 
1X
 

Álfheiður Björk – Ítölsk skíða-ástarjátning borin fram með tómatsósu á Broadway, Ármúla

Kapteinn Ahab dó áður en hann náði að sigrast á Moby sínum Dick og lengi hefur litið út fyrir að Fílalag væri ekki að ráða við stóra fiska í íslenskri poppsögu eins og Eyjólf Kristjánsson og Björn Jörund. En viti konur. Hér eru þeir fílaðir báðir í einu.
Það er komið að því að fíla Álfheiði Björk. Þessi Broadway í Ármúla negla frá sléttri níu, er ærandi, gírandi og afhjúpandi. Álfheiður Björk er eitt af þessum lögum sem verður jafnvel betra ef það er öskursungið af tómatsósurauðu fólki í eftirpartíi. James Bond hafði leyfi til að drepa. Álfheiði Björk má fíla.
Hér er þetta allt saman tekið fyrir. Strípurnar á Eyfa, stóru vestin, sperringur Jörunds, tíkallasímarnir og töfrarnir. Spennið á ykkur fílunar-beltin. It’s time for take-off.

Álfheiður Björk – Ítölsk skíða-ástarjátning borin fram með tómatsósu á Broadway, Ármúla
Fílalag

 
 
00:00 / 00:55:46
 
1X
 

All the Things She Said – Hlaðnara en demantanáma

Það er við hæfi að fíla lag frá Rússlandi í dag. Og ekkert venjulegt lag. Um er að ræða stærsta smell t.A.T.u, nu-metal popp-gúmmelaði með þjóðdansa-kviðristum. Lag sem er hlaðnara af orku en óopnaður Monster í kælinum við kassann í Elko.

En hvaðan kemur þessi rosalega orka sem heyra má í t.A.T.u? Það spilar að sjálfsögðu inn í að flytjendurnir, þær Lena Katina og Júlía Volkóva, eru rússneskar – og Rússland er afar hlaðið land og illskiljanlegt. Þar er að finna geysimörg þjóðarbrot og saga þess er full af stríðum, árekstrum og ofbeldi, en líka stórbrotnum listum og vísindaafrekum.

En ætlunin í dag er ekkert endilega að skilja Rússland, þó að einhverjar línur séu dregnar fram, heldur fyrst og fremst að halla sér aftur í stólnum og djúpfíla. All the Things She Said, gjörið svo vel!

All the Things She Said – Hlaðnara en demantanáma
Fílalag

 
 
00:00 / 00:54:48
 
1X
 

Easy – Eðlur. Tunnur. Easy.

Kjöt hægeldast. Svitadropar merlast á pensilstrokuyfirvaraskeggjum. Afró gljáir. Það eru allir
góðir. Þetta er easy.
Alabama-kóngar í Los Angeles. Sólrík sjöa. Allt í gangi. Fílunarstig: hátt. Rauð viðvörun. Sérhver taug sperrt. Eldrauð fílunarviðvörun!
Þetta er ekki flókið. Þetta er easy.

Easy – Eðlur. Tunnur. Easy.
Fílalag

 
 
00:00 / 01:06:46
 
1X
 

Re-Sepp-Ten : „Fuck You Danmark”

VM-Holdet & Dodo – Re-Sepp-Ten: Vi er røde, vi er hvide

Það ríkti mikil eftirvænting þegar Danir gáfu út stemningslag vegna þátttöku sinnar á HM í fótbolta í Mexíkó árið 1986. Lagið, sem heitir Re-Sepp-Ten, en gengur oftar undir nafni undirtitils síns, Vi er røde, vi er hvide, er þrusugott. Fólk er enn að syngja það. Það eru jafnvel til japanskar kover-útgáfur af þessu lagi.

En hér er það að sjálfsögðu frumútgáfan er er fíluð í strimla. Raunar er lagið fílað niður í slíkar öreindir að úr verður áhugaverð kjörnun á því hvaða þýðingu þátttaka á stórmótum hefur fyrir litlar þjóðir. Svo tekur fílunin furðulega stefnu, sem endar á orðunum: „Fuck You Danmark”. Því hver þarf Danmörku þegar Ísland er á leiðinni á HM?

En hvers vegna þá að fíla Vi er røde, vi er hvide? Jú, vegna þess að við getum það, við megum það og við bara fílum það.

Re-Sepp-Ten : „Fuck You Danmark”
Fílalag

 
 
00:00 / 00:59:34
 
1X
 

Annie’s Song – Sumarbúðir, reipist gler, myrkur tærleikans

Ýmislegt má veiða upp úr sjöunni, enda er hún djúp og gárug eins og seiðpottur frumskaparans. Í dag er ausan að vísu ekki látin síga niður á botn heldur er froðan úr efsta lagi veidd ofan í skál og krufin til hlítar af munnkirtlum fílunar. Og að sjálfsögðu kemur þá í ljós að jafnvel froða sjöunnar er djúp og viðamikil og í sífelldri togstreitu milli Júpiters og Appolós, eins og Minnesota-skáldið kvað.
En í dag er Colorado skáldið til umfjöllunar. Barnslegt og einfalt á yfirborðinu, en undir niðri kraumar keðjusagargeðveiki og þrá eftir viðurkenningu. Það er John Denver sem er undir fílunarnálinni og við sögu kemur mennóníta uppruninn, flugstöðvarsamsærin og allt hið stóra og mikla sem listin hefur upp á að bjóða.
John Denver var tær – og sjaldan jafn tær og í laginu til Önnu. En tærar fjallalindir eru ekki aðeins tærar, heldur eðli málsins samkvæmt einnig myrkar. Þau haldast ávallt í hendur, systkinin, tærleikinn og dimman.
Hlustið, fílið.

Annie’s Song – Sumarbúðir, reipist gler, myrkur tærleikans
Fílalag

 
 
00:00 / 00:58:52
 
1X
 

Mr. Tambourine Man – Vogun vinnur

Ekkert er jafn síkópatískt, en að sama skapi gaman, eins og að leggja vandlega á borð fyrir sjálfan sig. Bjóða sjálfum sér í mat. Dúkaleggja, draga fram silfrið og postulínið og hægelda stóran grís með epli í kjaftinum. Sitja svo einn að snæðingi og njóta.
Árið 1964 var Bob Dylan í sérstakri stöðu. Hann var þegar hylltur sem Messías. Hann var borinn um á gullstóli amerískra sósíalista og intellektúala. En Bob Dylan, þessi 23 ára gamla, föla millistéttarrengla frá Minnesota, vissi að það er stórhættulegur stóll að sitja í. Hvernig hann vissi það er ómögulegt að segja. Hann vissi að hann yrði að hækka sig um einn og taka sénsa.
Mikið hefur verið skrifað um það þegar Bob Dylan dró fram rafmagnsgítarinn. Að þá hafi hann sagt skilið við þjóðlagahefðina og raunverulega skapað varanlega ímynd sína, án aðkomu annarra. En það er greining sem segir ekki alla söguna. Bob Dylan kastaði teningunum á borðið fyrr en það.
Því 1964 leggur hann á borð fyrir einn og snæðir heilan grís. Þurrkar sér vandlega með næfurhvítri og stífaðri munnþurku, og horfir stíft framan í heiminn. Og svipur hans sagði: Mér er drullusama hvað ykkur finnst því ég veit að þetta sem ég var að gera var það besta sem þið hafið séð.
 
Og þessi snæðingur heitir í daglegu tali Mr. Tamborine Man. Lagið sem breytti Bob Dylan frá því að vera einbeittur trúbador með meiningar yfir í að vera flugeldasýningameistari veraldarinnar. Mr. Tamborine Man felur í sér stækkun á sjálfri dægurmenningunni. Það er algerlega sjálfsköpuð snilld. Ekki andsvar við neinu, ekki fánaberi neins, umgirðing, aftöppun eða endurskoðun. Mr. Tamborine Man er frumsnilld.
Fílalagi fallast hendur. Njótið bara og fílið. Hér er Herbergismaðurinn tekinn fyrir í fjórða sinn og er hann því fílunarmethafi eins og sakir standa.
Fílið.

Mr. Tambourine Man – Vogun vinnur
Fílalag

 
 
00:00 / 01:25:46
 
1X
 

Wake Up – Micro-brewery kynslóðin vaknar

Arcade Fire koma frá Kanada. Að vísu er tæplega tveggja metra hái söngvarinn Win Butler amerískur mormóni sem fór til Montreal til að stúdera trúarbragðafræði og dró síðar bróðir sinn með í bandið. En restin er kanadískt krútt í gegn, kjöt- og kraftmikið.
Kanada er mjög „inclusive” land. Allir fá að vera með. Þar þrífst ekki elítumenning. Í Kanada fá allir að fara upp á svið og enginn er merkilegri en annar.
Það er gaman að blása í lúðra og drekka bjór, horfa á gamlar teiknimyndir, ræða heimspeki án þess að vera með prik upp í rassgatinu á sér. Og tengjast öðrum í gegnum nostalgíu fyrir millistéttarmenningu, fílgúddi og fegurð. Arcade Fire færði heiminum allt þetta.
Rokk og ról snýst ekki bara um að sparka upp hurð og kveikja á zippó kveikjara. Rokk og ról getur líka verið vinalegt, litríkt og ruglingslegt. Framúrstefnulegt og mainstream, bæði í einu. Arcade Fire virðist allavega takast það. Og varla eru þau að plata okkur öll?
Við fáum að vita meira í Fílalag þætti dagsins. Vaknið!

Wake Up – Micro-brewery kynslóðin vaknar
Fílalag

 
 
00:00 / 00:59:34
 
1X
 

Oh, Pretty Woman – Rjómafyllt kirsuber vafið inn í slaufu

(Úr glatkistu Fílalags. Þátturinn fór upprunalega í loftið 14. ágúst 2014)

Myndir af innhverfa óperettu-sólgleraugna kúrekanum Roy Orbison eru tattúveraðar á margar rasskinnar víðsvegar um heiminn, og ekki að ástæðulausu. Roy Orbison var allur pakkinn. Frum-rokkari, eilífðarunglingur og stemningsmaður. Hann var heil vídd. Hann söng, hann lék, hann samdi.
Og hvort hann samdi. Oh, Pretty Woman, sem hann samdi ásamt Bill Dees, er vasasinfónía eins og þær gerast bestar. Heilt óperuhús af dramatík vöndlað saman í útvarpsvænt lag. Hnausþykk tilfinningakvika í þægilegum umbúðum; slaufa utan um; sundlaug ofan á öllu draslinu.
Geðveikt lag. Rosalegur náungi. Þetta má fíla þar til beikonbugður himinsins molna ofan sálina. Fílið.

Oh, Pretty Woman – Rjómafyllt kirsuber vafið inn í slaufu
Fílalag

 
 
00:00 / 00:41:41
 
1X
 

Sunny way – Kjallarinn á Þórscafé

Gestófíll: Ari Eldjárn

Það er febrúar 1974. Við erum stödd í iðnaðarhverfi austan megin við Hlemm í Reykjavík. Hrafn kroppar í prins póló umbúðir upp við fölgráan ljósastaur sem lýsir dapri flúorskímu yfir miskunnarlaust íslenskt sjöu-skammdegið.
Það er verið að taka upp lag í kjallaranum á Þórscafé. Hljómsveitin Steinblóm er mætt. Lagið heitir Sunny way. Síðhippa-mottulagning úr Menntaskólanum við Hamrahlíð. Meðlimir bandsins áttu síðar meir allir eftir að skipta út gíturum sínum fyrir þvottavélar, rokkinu fyrir fjölskyldulíf. En akkúrat þarna, á dimmasta staðnum, á dimmasta árstímanum, í miðjum dimmasta áratuginum, fór eitthvað á flug. Steinblóm fetaði veg sólarinnar.
Þið hafið líklega aldrei heyrt lagið Sunny way áður, en kannski verður það nú eitt af ykkar uppáhalds lögum. Það er gimsteinn – gullmoli, perla úr undirdjúpunum. Fetið veg sólarinnar, fílið!

Sunny way – Kjallarinn á Þórscafé
Fílalag

 
 
00:00 / 01:00:46
 
1X
 

Nothing Compares 2 U – Grátið á bekk í París, grátið í Vestmannaeyjum. Grátið.

Það er komið að því. Fjólubláa fönkmaskínan er undir fóninum. Sex-naggurinn. Meiri brennsa. Minni sóda. This is it. Prince Rogers Nelson.

En ekki bara það. Þetta er tvíhleypa. Ekkert jafnast á við það. Berskjöldunar-bjútíið Sinéad O’Connor er með í för. Tveim köttum verður hleypt úr pokanum. Það er Nothing Compares 2 U. Ekkert rugl.

Farið í víðar bomsur. Læsið útidyrahurðunum. Hellið skál fulla af pedigree chum hundamat. Mjólk yfir. Snæðið. Hlýðið á. Steinþegiði svo, farið í þagnardaga í Skálholti. Þetta er örmögnun ástarinnar. Síðasta lag fyrir fréttir, síðasta lag fyrir allar stéttir.

Nothing Compares 2 U – Grátið á bekk í París, grátið í Vestmannaeyjum. Grátið.
Fílalag

 
 
00:00 / 01:23:46
 
1X
 

Box of Rain – Sviti. Heimspeki. Fílgúdd. Hass. Paranoja. Kynlíf. Dauði. Stemning.

Kafloðin handabök skoppa upp og niður á hljómborði. Sýra merlast í heilahvelum. Djúpsteikingarfita hjúpar innanverð vélindu. Grateful Dead eru í hljóðverinu. Veröldin er kamelgul. Meðvitund, svefn og dauði. Allt eru þetta frændur.

Loðnasti fíllinn er tekinn fyrir. Kafloðinn. Hárið er hart og mikið, liggur strítt í allar áttir. Grateful Dead er meira en hljómsveit. Það er menningarfyrirbrigði, afl, vídd og fasti. Kannski soldið erfitt að útskýra það í 45 mínútna hlaðvarps-þætti. En Fílalag fór í málið.

Því Grateful Dead er fyrst og fremst – framar allri heimspeki, nördaskap og skaðræði – Grateful Dead er fyrst og fremst grííííííííðarlegur fílingur.

Hér er borinn fram kassi af regni.

Njótið!

Box of Rain – Sviti. Heimspeki. Fílgúdd. Hass. Paranoja. Kynlíf. Dauði. Stemning.
Fílalag

 
 
00:00 / 0:00:00
 
1X
 

Look on Down from the Bridge – Eftirpartí, korter í hrylling, fegurð, skaðræði

X-kynslóðin færði okkur meira en gröns og perlandi e-pillu-svita. X-arar höfðu líka á sér fágaðari hliðar, eins og gengur. Á árunum í kringum 1990 var til dæmis Kalifornía full af af berfættum rokkabillí-neó-hippum. Og þvílík fegurðar-trog sem sú sena bar á borð fyrir heimsbyggðina.

Í dag er undir fílunanar-nálinni ein allra þyngsta fegurðar-skífa sem gefin var út í níunni. Sjálft “Look on Down from the Bridge” með hljómsveitinni Mazzy Star. Þetta er lekandi, drjúpandi hammond-hamsatólgur, líknardeildar-perla, lag sem hæfir eftirpartís-hellun á skaðræðisstigi.

Setjið á ykkur eldrauð og lítil John Lennon sólgleraugu, hengið písmerkið um hálsinn, keyrið bílinn ykkar niðrá höfn og lekið inn í eilífðina. Það er kominn tími til að líta fram af brúnni.

Look on Down from the Bridge – Eftirpartí, korter í hrylling, fegurð, skaðræði
Fílalag

 
 
00:00 / 00:58:27
 
1X
 

Hey Jude – Bítlað yfir sig

Samfélagið er uppfullt af fólki með Bítlana á heilanum. Fólk sem þylur upp nöfnin á hljóðversplötunum í tíma og ótíma, les þykka bítladoðranta og yfirstúderar Bítlana. Svo er líka til fólk sem hreinlega bítlar yfir sig, sem getur ekki sest við píanó án þess að úr því verði Bítlalaga-orgía og jolly good stemning.

Ástand „bítlunar” er raunverulegt ástand, og oftast er það hið besta mál.

En best af öllu er að Bítlarnir sjálfir voru náttúrulega stöðugt í ástandi „bítlunar”. Engir voru jafn bítlaðir og þeir. Þeir voru nöllar sem kunnu sjálfir að þylja upp möntru um eigið mikilvægi og sögu. Ein af ástæðum þess að saga Bítlana er svona vel skráð er vegna þess að Bítlarnir sjálfir eru bítlaðir, þ.e. mjög uppteknir af bítla-fyrirbærinu og menningarlegum áhrifum þess.

Og svo bítluðu þeir náttúrulega yfir sig. Sem er ákveðin eðlisverkandi snilld. Í laginu Hey Jude eru samankomnir yfirbítlaðir Bítlar. Það er gríðarleg bítlastemning í gangi, framkvæmd af Bítlunum sjálfum, og útkoman er náttúrulega eitt af þeirra allra, allra stærstu lögum.

Og á þennan loðfíl var ráðist í nýjasta Fílalag þættinum, sem tekin var upp „live” frammi fyrir fílahjörðinni á Húrra. Góð stemning, frábært lag, úrvals fílun. Njótið.

Hey Jude – Bítlað yfir sig
Fílalag

 
 
00:00 / 00:58:35
 
1X
 

Streets of Philadelphia – Ljóðrænt Casio-mix sem mokar inn peningum og tárum

Það er komið að Steina, Bruce Springsteen, í þriðja sinn hjá Fílalag. Nú er það níu-steini sem er tekinn fyrir. Hann er með kleinuhringjaskegg, barta og líka rokkabillí hár. Mikið í gangi, samt í tilvistarkreppu. Hollywood hringir og vill fá lag frá honum fyrir myndina Philadelphia.
Steini klæðir sig í þrjár hettupeysur, sækir Casio hljómborð, setur einfaldasta trommuheilann á, spilar liggjandi hljómamottu og muldrar svo ljóðræna snilld inn í vitund heimsbyggðarinnar. Hann selur milljónir, fær óskarinn, finnur sjálfan sig og fer svo aftur heim að gera við mótorhjólið sitt. Case closed.
Farið í fósturstellingu, nötrið og fílið.

Streets of Philadelphia – Ljóðrænt Casio-mix sem mokar inn peningum og tárum
Fílalag

 
 
00:00 / 00:58:47
 
1X
 

Torn – David Schwimmer. Ljót peysa. Svampmáluð íbúð.

Fílalag var soldið torn yfir því hvort fíla ætti lag dagsins. Um er að ræða mikið meginstraums lag – kannski full mikið af því góða. Popp gerist ekki meira toro-þurrsósupakkað en þetta. En eins og er svo oft með góð popplög, þá er eitthvað verulega djúsí undir yfirborðinu.
Torn er fyrsti (og í raun eini) smellur Natalie Imbruglia, en þessi ástralska söng- og leikkona þurfti ekki að gera meira til að festa sig í sessi sem millennium drottning allrar heimsbyggðar. Hún kom sá og mauksigraði heiminn með easy-listening break up ballöðunni sinni, Torn. Lagið er reyndar samið af LA-singer-songwriter hestahölum og fyrst flutt af danskri söngkonu 1993, en það kom ekki að sök. Imbruglia tók lagið og negldi heiminn með því 1997.
Við erum í tuttugu ára fassjon hringekjunni. Krakkarnir eru að kaupa sér 1997 re-issue Nike pabba-hlaupaskó eins og enginn sé morgundagurinn, til að negla Steve Jobs lúkkið. Og allir eru að hlusta á Torn og snarfíla það, jafnvel meira en nokkru sinni fyrr.

Torn – David Schwimmer. Ljót peysa. Svampmáluð íbúð.
Fílalag

 
 
00:00 / 01:02:56
 
1X
 

Baker Street – Sósa lífsins

Er til eitthvað stemmdara fyrirbæri í heiminum heldur en alkólíseraður kokkur í fíling? Miðaldra, fráskilinn maður að hræra í potti og hlusta á tónlist úr gömlu Panasonic útvarpi? Er til hrjúfari gæsahúð en á baki slíks kokks, þar sem hann hlustar á sitt uppáhalds lag og hellir úr rauðvínsflösku ofan í pottinn? Líklega ekki.
En hvaða lag skyldi stemmdi kokkurinn hlusta á til að komast í svona rosalegan fíling. Mörg lög koma til greina, en ekkert dúndrar svona fólki í meiri fíling heldur en Baker Street með Gerry Rafferty. Þetta lag, með sinn rosalega saxa-húkk og exístensíalíska texta. Þetta er lag fyrir fólk sem vill hverfa, hverfa úr aðstæðum sínum, fuðra upp í fíling þannig að ekkert er eftir nema rjúkandi skórnir á gólfinu.
Gerry Rafferty er líka maðurinn sem hvarf. Hann var alltaf að hverfa, enda alkólíseraður Skoti, stemnings-Kelti sem varð helblúsaður inn á milli. Hann er hinn mesti og stærsti léttskyggings-sólgleraugnameistari sem sjöan ól – og ekki voru þeir fáir.
Njótið. Fílið ykkur í botn. Hrærið í sósu lífs ykkar. Með Bakarastrætið í botni. Frelsist. Andið. Hverfið.

Baker Street – Sósa lífsins
Fílalag

 
 
00:00 / 00:59:02
 
1X
 

Where is my mind? – Boston Pizza

Ef maður myndi spyrja einhvern random Bandaríkjamann um hljómsveitina Pixies, þá eru líkur til þess að hann myndi yppa öxlum og ropa framan í þig – Homer Simpson style. Bandaríkjamenn utan hörðustu indí-vígja, þekkja ekki þetta band. Auðvitað þekkja sumir þeirra gítarlínuna í Where is My Mind, sem fílað er í dag, en annað ekki.

Það sama er ekki uppi á teningnum á Íslandi. Sérhver Íslendingur sem átt hefur CD-spilara eða kveikt á Rás 2 þekkir Pixies mjög vel. Bandið hefur meira að segja komið tvisvar til Íslands og fyllt bæði Kaplakrika og Laugardalshöll. Pixies er stadium-band fyrir Íslendinga. Jafn basic og Víking gylltur í hönd gröfumanns á Egilsstöðum.

En samt vita Íslendingar ekkert mikið um uppruna Pixies. Þeir vita til dæmis ekki að þrátt fyrir að Pixies hafi ávallt notið meiri vinsælda í Evrópu, einkum Bretlandi, heldur en í eigin heimalandi – þá er um að ræða mjög amerískt band. Þetta eru Boston-djöflar. Pizza slafrandi, baseball-áhorfandi hettupeysulið með vélindabakflæði. Og það útskýrir eiginlega allt mögulegt í sambandi við Pixies.

Where is My Mind er vissulega einskonar þjóðsöngur landsins þar sem gröns og krútt haldast í hendur – gæsahúðaóður kaldhæðnu kynslóðarinnar. Og það er eitt besta lag allra tíma. En kannski er það fyrst og fremst eins og góð pizza – bara eitthvað hveiti-baserað þarmakítti sem maður fær ekki nóg af.

Where is my mind? – Boston Pizza
Fílalag

 
 
00:00 / 01:07:07
 
1X
 

You can call me Al – Týndur miðaldra maður finnur sig

Paul Simon var týndur í áttunni. Hann ráfaði um götur New York í stórum blazer-jakka og hugsaði um sína aumu tilvist. Jú, vissulega naut hann enn lýðhylli. Auðvitað gat hann snarfyllt Central Park með Garfunkelinu ef hann vildi. En skipti þjóðlagasósan hans einhverju máli? Var ekki öllum sama hvað hann var að bralla?
Simon fann að eitthvað syndaflóð var að skella á. Hann leið í gegnum lúxusíbúð sína á Manhattan eins og Nói að smala dýrum í örkina. Skeggvöxtur hans var biblískur. Simon rakaði sig nokkrum sinnum á dag á þessum tíma. Og í eitt skiptið, eftir rosalegan áttu-rakstur, leit hann á sjálfan sig í speglinum og hgusaði: ég verð að fara til Afríku.
Og Simon fór til Afríku. Og eins og hans er von og vísa gerði hann hlutina eins og athugull rannsakandi. Hann drakk í sig afríska músík en gætti þess að stela henni ekki. Hann vann með rétta fólkinu, fékk réttu leyfin, og sinnti rannsóknarvinnu sinni eins og agaður fræðimaður; auðmjúkur þjónn tónlistargyðjunnar.
Niðurstaðan var Graceland – ein af hans allra stærstu plötum og líklega eitt stærsta comeback tónlistarsögunnar. Og stærsta lagið: You Can Call Me Al.
Undirbúningurinn var langur og strangur. Afraksturinn er gúmmelað. Hlustið og njótið.

You can call me Al – Týndur miðaldra maður finnur sig
Fílalag

 
 
00:00 / 01:21:29
 
1X
 

Child in time – Eilífðarbarnið

Fílalagi barst tilkynning frá fílahjörðinni. Hlynur nokkur Jónsson sendi skilaboð og heimtaði fílun á „Child in Time” með Deep Purple, Made in Japan, útgáfunni. Í skilaboðum sínum sagði Hlynur: „Þetta lag er sturlað. Þú þarft að smella á þig headphones, setja volume-ið upp, loka augunum og drekka þetta. Algjör geðveiki.” Þetta er hverju orði sannara hjá Hlyni.

Child in Time er heimsósóma sturlunin. Það er okkar Paradísarmissir. Það lýsir sannkallaðri vitstolun tímans upp úr 1970. Þegar búið var að senda mann til tunglsins og leppstríð í Asíu kistulögðu þúsundir daglega. Þegar menn í jakkafötum þrýstu á takka og fyrirskipuðu morð og valdatökur og ritstjórar keðjureyktu og ortu ljóð og hentu húsgögnum í aðstoðarmenn sína.

Þá var tími fyrir nokkra graða kelta að setjast niður og semja kukl-óð sinn til eilífðarbarnsins. Child in Time, er svakalegt lag. Það er múrhúðun á fjall sannleikans. Ofsafengið testamenti um mátt greddunnar yfir óttanum. Hækkið í græjunum og drekkið, svo vitnað sé óbeint í Hlyn Jónsson. Ian Gillan og félagar í Deep Purple gefa allt í flutninginn. Það minnsta sem þú getur gert, kæra eilífðarbarn, er að gefa allt í hlustunina. Strengdu gæsahúð yfir líkamann, sperrtu hverja taug og finndu djúpfjólubláa mænudeyfinguna líða inn í miðtaugakerfið.

Child in time – Eilífðarbarnið
Fílalag

 
 
00:00 / 00:57:23
 
1X
 

Airport – Þar sem andinn tekst á loft

Fílalag endurreisir sig með tvöfaldri afsagaðri haglabyssu. Lagið „Airport” er fílað í allri sinni dýrð. Fyrst með íslensku rokkhljómsveitinni HAM og síðar með upprunalegum flytjendum, breska pöbbrokk- og nýbylgjubandinu The Motors.
Airport er rosalegt lag. Það er það sem kemst næst því að vera óvart-epískt. Lag sem fjallar um strák sem er rosalega fúll yfir því að kærastan hans fer frá honum, og kennir flugvellinum um það, en ekki sjálfum sér. Flugvöllurinn tók kærustuna í burtu. Hann keyrði hana út á flugvöll og þaðan flaug hún burt. Þetta hlýtur að hafa verið flugvellinum að kenna.
Í þættinum er þessu öllu gerð skil. Breska pöbbarokkinu sem teygði sig inn í new-wave og svo stemningunni á Íslandi 1994 þegar HAM tók sína útgáfu af laginu. Gallajökkunum, geluðu hárinu, rokkþorstanum, bólum á kinn, fólum í stáltárskóm, sparkandi. HAM er mjög sérstök hljómsveit í íslenski tónlistarsögu – músíkin lifir en sveitin snérist þó um meira um músík. HAM er band sem er goth báðum megin.

Skömmu eftir að þátturinn var tekin upp barst sú sorgarfregn að Jóhann Jóhannsson, fyrrverandi gítar- og hljómborðsleikari HAM, væri látinn. Er þátturinn tileinkaður minningu Jóhanns, sem er eitt merkasta tónskáld sem Íslendingar hafa átt. Hvíl í friði Jóhann.

Airport – Þar sem andinn tekst á loft
Fílalag

 
 
00:00 / 01:00:29
 
1X
 

Himinn og jörð (Live á Húrra) – Himinn og jörð að veði

Fílahjörðin kom saman á Húrra fyrir tveimur dögum síðan og hlýddi á lifandi flutning Fílalags. Eins og alltaf þegar um lifandi viðburð er að ræða, er valinn risastór og kremfylltur fíll, til fílunar.

Fyrir valinu varð eitt allra stærsta lag Íslandssögunnar. Lag sem Íslendingar hafa maukfílað í þrjá og hálfan áratug, inn í bílum, upp á þökum, oná dívönum, bakvið skúra og víðar og víðar. Lag sem með sjálfu heiti sínu spannar meira svæði en flestir listamenn geta látið sig dreyma um að gera með öllu ævistarfi sínu: Himinn og jörð.

Til umfjöllunar eru tveir galdramenn íslenskrar poppsögu: Gunnar Þórðarson og Björgvin Halldórsson – auk gullinsniðs rokk-kúltúrsins, Þorsteinn Eggertsson. Gunna og Bó þarf náttúrulega ekkert að kynna, en Fílalagsmenn reyndu að nálgast þessa stóru hólka með því að kanna áferð þeirra og örk. Hvert stefndu þeir? Hvert stefnum við, þar sem við erum ævinlega föst milli þessarar jarðar og þessa himsins?

Himinn og jörð (Live á Húrra) – Himinn og jörð að veði
Fílalag

 
 
00:00 / 00:50:49
 
1X
 

Basket Case – Besti gírkassinn í bransanum

Bandaríkjamenn eru gíruð þjóð. Ameríka er heimsálfan sem sýgur til sín alla hugmyndastefnur veraldarinnar og bestar þær. Frakkar fundu upp bílinn en Ameríkanar fundu upp krómaða stuðara og sjálfsskiptingu.

Pönkið var líka seint að berast til Ameríku (ef frá er talið frumpönk og bílskúrsrokk). Það barst með new wave skipunum til Bandaríkjanna, rétt eins og Íslands, og menn voru mikið að pönkast í áttunni, sérstaklega í Kaliforníu. En þá var einmitt hljómsveitin Green Day stofnuð í Berkeley, úthverfi San Francisco, árið 1986.

Og Green Day var pönkhljómsveit. Þetta voru límsniffandi, kynferðislega margræðnir ræflarokkarar inn að beini. En 1994 dró til tíðinda, þegar þeirra þriðja plata, Dookie, kom út hjá risa plötufyrirtæki. Var þá eitthvað pönk eftir í þeim?

Svarið er: nei. Pönk-frumkrafturinn var kannski farinn, en gírkassinn var þarna ennþá. Green Day eru með einn rosalegasta gírkassa í sögu rokksins. Fáar hljómsveitir geta svissað kraftinn jafn hratt upp. Green Day eru algjört Ready, Steady, Lars, dæmi: gíraðir eins og danskur graðnagli á karókí-bar.

Green Day er mulningsvél. Þetta eru Duracell-kanínu-ríðandi, dóp-étandi, Kaliforníu-álfar – sem geta mulið bæði stórfyrirtækja-gigg jafnt sem sveitta klúbba. Þetta eru rokkskaddaðir Kerrang! alternative veðhlaupahundar. Og það borgar sig aldrei að setja peninga á mótherjann. Kaninn mylur allt. Green Day mylur allt.

Hér er það, í allri sinni dýrð: Basket Case – stofnanamaturinn. Þjóðsöngur ofsóknarbrjálaða níu-fokkersins. Hass, lím og samræmd próf.

Basket Case – Besti gírkassinn í bransanum
Fílalag

 
 
00:00 / 00:58:19
 
1X
 

End Of The World – Heimsendir í dós

Betty Draper ryksugar. Herforingjar leggja drög að slátrun á uppreisnarmönnum í Suðaustur Asíu. Þriggja tonna kadilakkar skríða eftir úthverfagötum. Unglingsstúlka í pilsi liggur uppi í rúmi og grætur. Kjarnaoddur er skrúfaður á „MGR-1 Honest John“ eldflaug. Það er allt í gangi.

Heimurinn er að farast.

Nei. Heimurinn er frábær. En þá er hann auðvitað að farast. Heimurinn ferst oft á dag. Dauðsföll, ástarsorgir og bara hið almenna óréttlæti tilverunnar sér til þess. Því meiri menning, því meiri heimsendir. Og hér er einn, frá cross-over kántrí-söngkonunni Skeeter Davis.

Fegurð, ó, fegurð. Nú vitnum við í Byron lávarð: „hryggð er þekking“.

End Of The World – Heimsendir í dós
Fílalag

 
 
00:00 / 00:43:13
 
1X
 

Fake Plastic Trees – Einkennislag níunnar

En auðvitað er þetta ekki svona einfalt. Í tónlist Radiohead er skíma – það er von í henni. Von fyrir intróvert lúðana, veggjalýsnar og alla sem eru krepptir. Það er von því Radiohead eru sigurvegarar sem lyfta hlustendum sínum upp úr hyldýpinu. En það má ekki fara of hratt upp úr. Þá fær maður kafaraveikina.

Fake Plastic Trees sameinar öll Radiohead elementin. Það er ballaða, sous-vide, en með miklu risi. Við fyrstu hlustun mætti halda að allt sé ömurlegt í heiminum – en það er lykill að glatkistunni. Og maður rís upp.

Fake Plastic Trees er nokkuð þungur biti. Eitt stærsta kjamms Fílalags. Og ekkert á vísann að róa með það. Lagið stendur öllum sem lifðu níuna nærri. Og það er vandasamt að fíla það án þess að það breytist í intróvert-lepju. En vonandi tókst að greina það. Það var allavega ætlunin. Fake Plastic Trees. Þjóðsöngur níunnar – og líka sígræn eilífðarnegla.

Fake Plastic Trees – Einkennislag níunnar
Fílalag

 
 
00:00 / 01:12:22
 
1X
 

Universal Soilder – Sending úr stúkunni

Lagið Universal Soldier eftir Buffy Sainte-Marie er eins og rakvélablað. Það er nákvæmt og skilar hámarks skurði fyrir lágmarks aflsmuni. Sainte-Marie er kanadísk söngkona af frumbyggjaættum með allt aðra sýn á heiminn en flestir aðrir innan popp-bransans.

Sjónarhorn Universal Soldier er risastórt. Horft er á heiminn í heild sinni í gegnum alla söguna – en samt er sjónarhornið ekki rembingslegt eða heimspekilegt í fræðilegum skilningi. Það er þægilegt. Universal Soldier er ekki sending af vinstri kantinum – það er sending utan af vellinum, frá einhverjum sem er ekki að spila leikinn. Það er sending úr stúkunni.

Frægast var það í útgáfu hins skoska Donovan, og því eru honum einnig gerð skil í þættinum. Hlustið og fílið. Það verður ekkert frekara clickbait. Tékkið bara á þessu ef þið hafið áhuga á góðri músík.

Universal Soilder – Sending úr stúkunni
Fílalag

 
 
00:00 / 01:05:04
 
1X
 

Handle With Care – Mesta stemmning sögunnar

Leggjum á borð. Hvað er í matinn? Soðinn Bítill, kryddaður með Roy Orbison, eldaður af Jeff Lynne úr ELO, borinn fram með Bob Dylan og til borðs situr Tom Petty.

Traveling Wilburys er mesta súpergrúbba allra tíma. Og það er hægt að fullyrða það hér að þær munu aldrei verða stærri. Reynslumeiri hópur er vandfundin. Samanlagt áttu þeir undir beltinu milljón jónusmóka, milljón munnhörpuslef á kinn, milljón blaðamannafundi. Þetta voru mennirnir með dekkstu sólgleraugun sem tekið höfðu á sig milljarð flassa. Stærstu poppstjörnur sögunnar. Allir í sama bandinu.

Og hvernig hljómar það? Þægilegt fílgúdd.

Handle With Care – Mesta stemmning sögunnar
Fílalag

 
 
00:00 / 00:49:24
 
1X
 

Crimson & Clover – Blóðrautt og smári

Það er 1968. Það er lavalampi í gluggakistunni. Napalminu rignir yfir Víetnam. En í Bandaríkjunum er nóttin teppalögð af engissprettuhljóðum. Það er stemning.

Fílalag snýst um stemningu – og líklega hefur hún aldrei verið jafn mikil og í þessu lagi. Þvílíkur fílingur. Það þekkja allir þetta lag. Þau ykkar sem hafið aldrei fílað það, þið eruð ekki mennsk. Lykla-Pétur! Ekki hleypa fólki inn sem hefur aldrei fílað þetta lag. Vísaðu þeim annað.

Crimson & Clover – Blóðrautt og smári
Fílalag

 
 
00:00 / 00:47:10
 
1X
 

There She Goes – Stanslaus húkkur

Einn stærsti one hit wonder sögunnar er fílaður í dag. Þvílíkur smellur. Rúmlega tveggja mínútna stanslaus húkkur. Hér eru allar stjörnur á réttum stað á festingunni. Lagið er gítar- og raddasull frá Liverpool, hæfilega artí og hæfilega bjórblandað. Frum-Brit-Pop – 90s lag sem er reyndar tekið upp í áttunni.

Áhugaverð saga – mikil stemning. Lag sem fílar sig sjálft. The La’s. Þarna fer hún. Þarna fokkar hún mér upp enn einu sinni. Þessi negla.

There She Goes – Stanslaus húkkur
Fílalag

 
 
00:00 / 01:06:07
 
1X
 

Papa Don’t Preach – Meyjan, krossinn, kynþokkinn

Þó fyrr hefði verið.

Madonna er undir nálinni hjá Fílalags bræðrum í dag. Já, þið heyrðuð rétt. Michican-meyjan sjálf. Stólpi poppsins – risinn sem tók heiminn slíku heljartaki í áttunni að enginn hefur þorað að anda síðan. Þvílíkt choke-hold.

Madonna er muscle-car frá Detroit sem sörfar á bylgju kaþólsku kirkjunnar (eða áþjánar hennar), byggð í Michican, brædd í 70s New York fokkjúi. Staðráðnari og öruggari poppstjarna á líklega aldrei eftir að skína.

Njótið og lútið.

Papa Don’t Preach – Meyjan, krossinn, kynþokkinn
Fílalag

 
 
00:00 / 01:01:32
 
1X
 

Bo Diddley (Einar Kárason gestafíll) – Það er ekki „go“ fyrr en Diddley segir „go“

Fílalag hringdi í einn af spámönnum sínum.

Fílalag: „Er það Einar Kárason?…hæ, við erum með hlaðvarpsþátt sem fjallar um að fíla lag og við erum stundum með gesti og við viljum endilega fíla lag með þér. Er eitthvað sérstakt sem þú myndir vilja fíla?

Einar Kárason: (án þess að þurfa neinar frekari útskýringar):
„Bo Diddley með Bo Diddley.“

Skal gert leðurjakka-soldánn.

Bo Diddley (Einar Kárason gestafíll) – Það er ekki „go“ fyrr en Diddley segir „go“
Fílalag

 
 
00:00 / 00:46:30
 
1X
 

Smukke Unge Mennesker – Með Kim út á kinn

Fáið ykkur hálft kíló af saltlakkrís, tvo lítra af froðubjór, töluvert af sinnepssíld. Klæðið ykkur í cowboy-buxur eða klæðið ykkur úr öllu. Nú verður Kim Larsen tekinn fyrir.

Allt verður tekið fyrir. Tennurnar, kjafturinn, sixpensarinn og óslökkvandi alþýðulostinn. Allt er undir. Þegar Kim Larsen er fílaður er varir nagaðar í sundur og rúður brotnar. Þetta er gíslataka. Þetta er kristnitaka. Þetta er Kim.

Nú er kominn tími til að taka fram dönsku rjómatertuna, synthalegna alþýðupopppakkasósuna úr áttunni, og fá sér stóran bita þannig að flöðeskúmmið flæðir. Nú er kominn tími til að fá Kim út á kinn.

Smukke Unge Mennesker – Með Kim út á kinn
Fílalag

 
 
00:00 / 01:17:04
 
1X
 

You Really Got Me – Þröngar buxur, rifið sánd, mannkyn ærist

Það er stóri hvellur. Kinks fílaðir í annað sinn. Og nú er það risinn. Sjálfur Homo Erectus. You Really Got Me. Sperrtasta lag allra tíma.

Þó að Chuck Berry hafi ræst frumhreyfilinn árið 1955 þá var ekki almennilega búið að stíga á bensíngjöfina fyrr en Kinks mæta með You Really Got Me.

You Really Got Me er klessukeyrsla sem drunar áfram í taugaveiklunar-tyggjó-takti. Lagið er blóðrautt frumöskur úr svarthvítum heimi.

Bara hlustið og fílið og deyið!

You Really Got Me – Þröngar buxur, rifið sánd, mannkyn ærist
Fílalag

 
 
00:00 / 01:10:46
 
1X
 

(Don’t Fear) The Reaper – Dasað, ráðvillt, daður við dauðann

Sjöan tók Guðmund og Geirfinn og Íslendingar eru enn ráðvilltir um hvað gerðist. Hvernig gátu tveir ungir karlmenn horfið inn í myrkrið? En í Bandaríkjunum var sjöan eins og ryksuga og ungmennin hurfu í stórum stíl eins og enginn væri morgundagurinn.

Amerísk sjöa: Krakkar að stíga yfir í móðuna, krakkar að láta sig gossa.

Blue Öyster Cult voru gítarklæddu hirðingjarnir. Einskonar ameríkaníseruð útgáfa af Black Sabbath eða Zeppelin, þó blíðari og oggulítið væmnari. En þeir döðruðu við myrkrið – kannski meira en böndin sem þau líktust. Og líklega hvergi meira en í sínum allra stærsta hittara: Don’t Fear the Reaper.

Ekki hræðast sláttumanninn. Ekki hræðast dauðann. Taktu í hönd mína. Deyjum saman. Sungu rokkdelarnir undir dáleiðandi kúabjöllu-greddu og unglingarnir fylgdu í humátt á eftir og fjölmargir gengu myrkrinu á hönd.

Í dag er þetta gullbylgjumoli eða síðasta lag fyrir fréttir á Rás 2. Ekkert stress. En að baki þessu liggur þungi sjöunnar, og það eru ekki lítil þyngsli. Þyngsli amerískrar sjöu eru mögulega mestu þyngsli sögunnar. Ekki hræðast sláttumanninn.

(Don’t Fear) The Reaper – Dasað, ráðvillt, daður við dauðann
Fílalag

 
 
00:00 / 01:19:56
 
1X
 

Jesse – Martröð Elvisar

Fílalag kafar djúpt í dag. Það er alvöru listahátíðar-kröns í boði. Lagið Jesse með Scott Walker er uppgjör við ellefta september.

En Jesse er líka uppgjör við hversu langt er hægt að teygja dægurtónlist í átt að kjaftæði. Og það má segja að niðurstaðan sé: svona langt. En líklega ekki lengra.

Áhugaverðar umræður í Fílalag í dag. Um Scott Walker, níu líf í tónlistarbransanum, fasteignaskatta á kastölum og margt fleira.

Djúpfílið.

Jesse – Martröð Elvisar
Fílalag

 
 
00:00 / 01:20:25
 
1X
 

The Winner Takes It All (Live frá Húrra) – Sértrúarsöfnuður hlustar á Abba

Það var þétt setið á skemmtistaðnum Húrra í gær þegar Fílahjörðin kom þar saman, en fílahjörðin eru dyggustu hlustendur hlaðvarpsins Fílalag. Þetta var sértrúarsafnaðardæmi og mættu sumir með klappstóla með sér. Hare Krishna.

Prinsip var brotið í gær því að Abba var fílað. Fílalagsmenn höfðu áður gefið frá sér yfirlýsingu um að þeirra eina prinsip í lífinu væri að fíla ekki Abba. En það er búið. Rétt eins og öll önnur prinsip. Allir gera bara það sem þeir vilja í dag. Fara í jogging-buxum í atvinnuviðtal. Fá sér créme brulé í morgunmat. Ekki málið. Hjá millenials eru alltaf jólin.

Abba. The Winner Takes it All. Njótið. Fílið.

The Winner Takes It All (Live frá Húrra) – Sértrúarsöfnuður hlustar á Abba
Fílalag

 
 
00:00 / 00:55:21
 
1X
 

Bullet With Butterfly Wings (Gestófíll: Octavio Juarez, arkítekt) – Mexíkóskur arkítekt. Guðshatari frá Chicago

Fílalag sendir frá sér sérstakan þátt í dag. Snorri var fastur utan símasambands í afskekktum firði fyrir Vestan og Bergur Ebbi fékk mexíkóskan arkítekt til að fylla í skarðið til að fíla lagið Bullet With Butterfly Wings.

The Smashing Pumpkins var mikilvæg hljómsveit. Hún var (og er) miklu meira en nokkrir slagarar úr níunni. Hún skóp heila kynslóð úthverfakrakka. Til dæmis í Mexíkóborg, þar sem ungur Octavio Juarez sat stjarfur og hlustaði. Og hann er enn stjarfur.

Hér er farið yfir þetta allt. Kinnbeinin á Billy Corgan. 90s vampírublætið og allt kertastjaka-ævintýrið. Mikið af tilvistarspurningum hér.

Bullet With Butterfly Wings (Gestófíll: Octavio Juarez, arkítekt) – Mexíkóskur arkítekt. Guðshatari frá Chicago
Fílalag

 
 
00:00 / 01:02:38
 
1X
 

Arthur’s Theme – Gasið sem sefar

Ameríkanar elska skammstafanir. Loftkæling er til dæmis aldrei kölluð annað en A/C (ei-sí), sem er skammstöfun fyrir air-conditioning. AC er svo líka notað sem skammstöfun fyrir annað, ekki síðra fyrirbæri, eða „adult contemporary“ sem er ekki beinlínis tónlistarstefna heldur frekar hluti af aðferð markaðsmanna til að sortera músík eftir markhópum.

„Adult Contemporary“ er þar af leiðandi ný músík fyrir fólk sem er ekki unglingar, sem er markaðsvænn flokkur, enda á fullorðna fólkið alltaf nóg af peningum. Þetta var mjög ráðandi hugsun, sérstaklega í sjöunni og fram í áttuna. Eagles, Chicago og síðar Kenny G., Whitney Houston og Mariah Carey gætu öll fallið í þennan flokk. En kannski er ekki til listamaður sem skilgreinir þetta betur en Christopher Cross.

Þegar hlýtt er á lag hans: Arthur’s Theme, kemur reyndar hin merking skammstöfunarinnar AC, einnig upp í hugann. Lagið virkar sem einskonar loftkæling. Ameríka er einfaldlega það heit heimsálfa og það mikill suðupottur hugmynda að það er ótrúlegt að það logi þar ekki allt í styrjöldum alla daga. Það sem hefur komið í veg fyrir það eru neglur eins og Arthur’s Theme. Rólegar AC-ballöður sem hugga mannskapinn.

Það reyndist Fílalagsmönnum nánast erfitt að koma orðum að því hversu djúpt þeir fíla Arthur’s Theme. Þetta er gríðarlega djúp fílun og mjög mikilvæg.

Hlustið og fílið.

Arthur’s Theme – Gasið sem sefar
Fílalag

 
 
00:00 / 00:49:37
 
1X
 

Steal My Sunshine – Kanadíski draumurinn

„Hey Matt“
„Já, Tim“
„Hefurðu talaði við Marc nýlega?“
„Ööö, nei, ég hef eiginlega ekki talað við hann, en hann virkar soldið ööö leiður“
„Hahaha. Hann virkar soldið ööö leiður“
„Jæja, kannski ættum við að gleðja hann.“
„Hvað stingur þú upp á að við gerum?“
„Ja, finnst honum smjörbökur góðar?“

Þannig hefst guðspjallið. Fyrsta bók Bróse. Hér fer í loftið kanadíski draumurinn. Sólskin, hassfliss, tímalaust kúabjölludill. Engin ábyrgð. Engin fortíð. Bara djúpt skúffuköku fílgúdd. Mjúkir sófar. Þægilegir kjallarar. Boy meets girl, partýhjal. Næsheit.

Garðslöngur, hot-pants, sextán klukkustunda garðpartí, grill, tjill, frisbí og allt gjörsamlega sizzling. Ef ameríski draumurinn er heit eplabaka og M16 hríðskotariffill þá er sá kanadíski hlynsíróps-smjörbaka og bergmál lagsins sem er fílað í dag. Steal My Sunshine. Eitt það allra stærsta á himnafestingunni.

Njótið og verið góð. Fílið.

Steal My Sunshine – Kanadíski draumurinn
Fílalag

 
 
00:00 / 00:56:37
 
1X
 

Átján og hundrað – Prins allrar alþýðu

Fílalag er á heimaslóðum í fílun dagsins. Ekki er seilst nema um átta ár aftur í tímann og Ísland ekki yfirgefið. Nú er hún loksins tekin fyrir: Seyðisfjarðar/MH/síðkrútts/hakks-og-spaghettí senan.

„18 & 100″ er fyrsta smáskífa Prins Póló, sem er eitt af mörgum tónlistarverkefnum Svavars Péturs Eysteinssonar – en hér er þetta allt tekið fyrir. Jólaskreytingarnar í Breiðholtinu, hakkið, spaghettíið, bulsurnar, stemningin.

Átján og hundrað – Prins allrar alþýðu
Fílalag

 
 
00:00 / 00:53:01
 
1X
 

Clubbed To Death – Orkudrykkir, bakpokar, misheppnuð ást á japönskum kúltúr

Líklegast átti það að vera orðaleikur þegar tónlistarmaðurinn Rob Dougan gaf lagi sínu nafnið „Clubbed To Death“. Orðasambandið þýðir í venjulegri merkinu: „að vera laminn til dauða með kylfum“ en einnig er hægt að lesa merkinguna: „að dansa sig til dauða“ út úr orðunum.

En vandamálið er bara að þrátt fyrir fönk-uppruna trommutaktsins þá er „Clubbed To Death“ ekkert sérstaklega dansvænt. Það er frekar lag sem gerir fólk stjarft og fyllir það angist. Lagið er frábært – en það er samt líka hræðilegt. Það er tákn um hræðileg örlög tugþúsunda Íslendinga.

Skaðinn var mikill í níunni. Það liggja tugþúsundir Íslendinga í valnum eftir allt skaðræðið. Að hlusta á Clubbed To Death og horfa á Matrix var alvarleg iðja sem dregið hefur dilk á eftir sér. Þessi orkudrykkja-súpandi bakpokakynslóð sem fékk Clubbed To Death inn í vitundina á viðkvæmum aldri, er meira og minna óstarfhæf í dag.

Hlustið og fílið.

Clubbed To Death – Orkudrykkir, bakpokar, misheppnuð ást á japönskum kúltúr
Fílalag

 
 
00:00 / 00:58:58
 
1X
 

All Along The Watchtower – Verið á varðbergi

Það er stór fíll í herberginu. All Along the Watchtower er undir nálinni í dag. Bæði Dylan og Hendrix útgáfan. Vúff. Líklega er best að gera öryggisráðstafanir áður en hlustað er á þennan þátt.

Farið í Ellingsen og kaupið björgunarvesti. Kippið líka með 3-400 grömmum af þurrkuðu kjöti og nokkrum brúsum af Gatorade. Þetta verður fílun sem gæti skilið ykkur eftir fljótandi á rúmsjó.

Fílalagsbræður byrja á Dylan. Svo er farið í Hendrix. Þetta er rosaleg dagskrá. Árið er 1968. Víetnam stríðið er í fullum gangi. Tæplega fimmtíu amerískir hermenn eru negldir niður í líkkistur upp á hvern einasta dag þetta ár. Martin Luther King er skotinn. Bobby Kennedy er skotinn. Bítlarnir gefa út Revolution, en fara svo full circle í flótta og gefa líka út Bungalow Bill. Allir eru hræddir. Líka Dylan. Hann fer í lest og blaðar í Jeseja á leiðinni og les sér til um Varðturninn, sjálfan sjónarhólinn!

Meira um það í þætti dagsins. Lexían er: verið hrædd, verið á varðbergi, við sjóndeildarhringinn glittir í tvo reiðmenn, einn á asna, annar á kameldýri. Villiköttur ýlfrar, vindurinn gnauðar.

All Along The Watchtower – Verið á varðbergi
Fílalag

 
 
00:00 / 01:11:51
 
1X
 

If You Leave Me Now – Djúp Sjöa

Í dag kafar Fílalag dýpra ofan í Sjöuna en nokkurn tíman áður. Farið er ofan í læstar hirslur úr dánarbúi Ingólfs í Heimsferðum og sebraskinns-teppið „If You Leave Me Now“ með hljómsveitinni Chicago, grafið upp.

Hér er um að ræða tólf strengja kassagítar, Fender Rhodes, mjúka strengi og silkihúðað brass-sánd að ógleymdum parasetamól-maríneruðum raddböndum Peter Cetera. Þetta er sjöa eins og hún gerist dýpst.

Setjið á ykkur óþægileg sólgleraugu, rótið í arninum. Njótið. Fílið. Djúpfílið.

If You Leave Me Now – Djúp Sjöa
Fílalag

 
 
00:00 / 00:52:52
 
1X
 

Ain’t No Sunshine – Klósettísetningarmaðurinn sem varð frægur

Fáir hafa slegið jafn skyndilega í gegn og Bill Withers. Hann var smábæjarstrákur frá West-Virginia af verkamannaættum og hafði unnið sig upp sem hörkuduglegur flugvirki sem sérhæfði sig í flugvélaklósettum þegar frægðin bankaði ár dyrnar.

En hvað getur maður sagt? Þegar sólin skín og maður er staddur í Kaliforníu og árið er 1970, þá er ýmislegt mögulegt. En þessi negla sem fíluð er í dag er reyndar af svo stórri sort að hún er nánast sólkerfi út af fyrir sig. Verði ykkur að góðu!

Ain’t No Sunshine – Klósettísetningarmaðurinn sem varð frægur
Fílalag

 
 
00:00 / 00:59:56
 
1X
 

Try Sleeping With A Broken Heart – Brotið hjarta úr eldhúsi helvítis

Fílalag er á nútímalegum slóðum í dag og fílar lag frá 2009. Um er að ræða stóran smell með Aliciu Keys, lag sem gerði ágætis hluti þegar það kom út fyrir átta árum síðan, en á líka helling inni.

Alicia Keys er multi-talent. Frábær söngkona, lagahöfundur og hljóðfæraleikari. Hún er einnig frumkvöðull í cross-over kúli, þ.e. að missa ekki kúlið þrátt fyrir að skella sér á bólakaf í meinstrím menningu, sem er löngu orðinn standard í dag.

Í stuttu máli hefur Alicia allt. Hún er semí gettó-barn, alin upp í Hell’s Kitchen í New York, sem þó er á Manhattan þannig að skuggar ríkidæmis féllu á íbúðarblokk hennar. Hún kann að hrista glingrið en líka að spila leik minimalismans, eins og hún gerir í lagi dagsins.

Try Sleeping With A Broken Heart – Brotið hjarta úr eldhúsi helvítis
Fílalag

 
 
00:00 / 00:53:55
 
1X
 

Friday On My Mind – Föstudagsmanía

Fílalag er komið aftur úr fimm vikna vorfríi og kemur aftur með krafti. Þar sem fílalag er alltaf sent út á föstudögum var löngu kominn tími á að fíla 100% upprunavottaðan föstudags-stomper.

Við förum suður til Ástralíu og kíkjum á hvað menn voru með í pottunum þar í sexunni. Þar stendur að sjálfsögðu mest upp úr Easybeats með negluna sína: Friday On My Mind.

Allt verður tekið fyrir: Sólin, Austin Powers fötin og stemningin. Nú er föstudagsmanía á leið inn í ykkar heilabú.

Friday On My Mind – Föstudagsmanía
Fílalag

 
 
00:00 / 00:57:27
 
1X
 

Where Do You Go To My Lovely? – Harmonikka, fókus, negla

Fílalag er í fríi fram í miðjan maí en er með fólk í vinnu sem gramsar í gullkistunni og dregur fram mikilvæga fílun frá 2014. Where Do You Go To My Lovely er rifjað upp nú, meðal annars til heiðurs minningu listamannains, Peter Sarstedt sem lést í janúar á þessu ári.

Where Do You Go To My Lovely var óvæntur hittari þegar það kom út í byrjun árs 1969. Listamaðurinn var óþekktur og samsetning lagsins er evrópsk fremur en englisaxnesk. Þetta er harmonikku-vals með sykursætum Eurovision-strengjum, en þó framreiddur á góðum og gildum þjóðlaga-grunni. Texti og umfjöllunarefni eru eins klassísk og hugsast gæti. Lagið er trúbador-verk í upprunalegum skilningi þess orðs, óður utangarðsmanns til aðalskonu.

Það er komið að þessu. Ryðjið borðið og byrjið upp á nýtt. Dragið fram alpahúfu, píputóbak, ljóðasafn Dylan Thomas og smeygið ykkur í Pink Panther blazer-jakka og dúndrið nálinni ofan á þessar rispur.

Where Do You Go To My Lovely? – Harmonikka, fókus, negla
Fílalag

 
 
00:00 / 00:35:43
 
1X
 

Peg – Sexuð tannlæknastemning

Takið fram léttskyggðu fjólubláu sólgleraugun, hneppið niður efstu 3-8 tölunum á skyrtunni/blússunni, ræsið blæjubílinn. Himininn er alblár en er hægt og rólega að leysast upp í mengunarmistrað sólsetur. Það er maulandi 70s og þið eruð stödd í Los Angeles.

Vúff. Hvað er hægt að segja? Fílalag er að taka fyrir Steely Dan í dag. Hvernig er hægt að lýsa tónlist Steely Dan með orðum? Músík verður ekki graðari, þetta er eins og James Brown og Sting að bera olíu á hvern annan en samt líka að lesa ljóð á meðan. Steely Dan er nefnilega líka með nörda-element. Þetta eru graðir bókmenntanáungar, kókaðir fish-taco slafrarar sem elska samt líka að kaupa nýja strengi á gítarana sína.

Og í dag verður tekin fyrir 1977-neglan Peg. Lög verða ekki meira 70s. Ímyndið ykkur bar-mitzvah garðpartí heima hjá ógeðslega ríkum tannlækni í Los Angeles. Hvítar tennur, öfund, gleði og einhver skrítin blanda af þyngslum og léttleika.

Farið í flaksandi skyrtu. Hlustið og fílið.

Peg – Sexuð tannlæknastemning
Fílalag

 
 
00:00 / 01:09:25
 
1X
 

More Than A Feeling (Live á Húrra) – Lag sem fjallar um að fíla lag

Nú er það hámarks-fílun. Lag sem fjallar um „fíling“ og meira en það. More Than a Feeling með Boston er eitt af lögunum sem Fílalag var stofnað í kringum. Risastór 70s feðgarokks-negla sem lifir góðu lífi á gullbylgjum hvar sem stigið er niður í þessari veröld.

Saga þessa lags inniheldur svo margt. Hefnd nördsins, mildi amerískrar kjallaramenningar, sigur tækninnar (það eru að lágmarki 10 rafmagnsgítar-rásir í gangi í laginu allan tímann) og að lokum ferðalok einmana sálar. Hlustið og þið munuð skilja.

Þetta er sérdeilis mikilvæg lagafílun. Ein sú stærsta í sögu Fílalags, og það var sérlega vel við hæfi að þessi fílun fór fram við vatnsbólið, að viðstaddri Fílahjörðinni, á Húrra í Reykjavík í síðustu viku. Kærar þakkir til allra sem mættu. Hér er þetta upptekið og komið á band. Njótið, fílið!

More Than A Feeling (Live á Húrra) – Lag sem fjallar um að fíla lag
Fílalag

 
 
00:00 / 00:47:23
 
1X
 

Band On The Run – Flóttinn mikli

Fílalag heldur áfram að hringsnúast í kringum Bítlana eins og köttur í kringum heitan graut. Í dag er sjálfur sir Paul McCartney tekinn fyrir ásamt félögum sínum í Wings.

Band on the Run fjallar um flótta í margvíslegum skilningi. Flótta undan frægðinni, kvöðinni og skyldunni. Að lokum kemur fram einhvers konar lausn. Þetta er eitt af bestu lögum Macca-drullunnar. Tekið upp í Lagos í Nígeríu í hjartaánauð. Hér er allt í húfi.

Allt er þetta útskýrt í Fílalag þætti dagsins. Hlustið, fræðist, skiljið.

Band On The Run – Flóttinn mikli
Fílalag

 
 
00:00 / 01:32:39
 
1X
 

I Got You Babe – LA beibs og draumur innflytjandans

Skellum okkur til ársins 1965. Unglingarnir keyrðu um á stórum bensíndrekum. Kalifornía var troðin af bjartsýnu fólki. Allir með sólgleraugu og góðar tennur.

Þetta er tíminn þegar allir voru beibs, konur og karlar, og það eina sem maður þurfti var beib sér við hlið.

Sonny Bono er ameríski draumurinn. Sonur bláfátækra ítalskra innflytjenda sem fluttust til Kaliforníu. Þar kynntist hann Phil Spector, sólskininu og giftist að lokum Cher, sem var hið eina sanna LA beib. Þau áttu hvort annað. Veröldin var ljúf.

Seinna fór þetta allt í vaskinn. En í nokkrar frábærar vikur árið 1965 þá var þetta vinsælasta lag í heimi, sólin skein og allt var gott.

I Got You Babe – LA beibs og draumur innflytjandans
Fílalag

 
 
00:00 / 01:00:19
 
1X
 

Pale Blue Eyes – Fölbláu augun

Fílalag eyðir tíma í grunnbúðunum í þætti dagsins. Velvet Underground. Pale Blue Eyes. Hér er farið yfir hvað var í gangi í New York 1968. Samruni mynd- og tónlistar, há- og lágmenningar. Sólgleraugun, afstaðan, stemningin.

Textinn er krufinn. Þetta er einfaldur texti en inniheldur nokkrar óskiljanlegar línur.

En umfram allt er lagið fílað, enda er það eitt af þeim allra bestu.

Pale Blue Eyes – Fölbláu augun
Fílalag

 
 
00:00 / 00:59:08
 
1X
 

Wind Of Change – Líklega eitt það allra stærsta

Hvað gerir tónlist stóra? Vinsældir? Já. Það er einn mælikvarði. Stórt sánd? Það skiptir líka máli. Stór umfjöllunarefni? Langlífi og vigt sem nær út fyrir poppkúltúr? Það er kannski allt heila málið. Lagið sem fílað er í dag er ein söluhæsta smáskífa allra tíma. Talið er að hún hafi selst í um fjórtán milljónum eintaka. Það var vinsælt í flestum löndum heims og það er enn reglulega spilað í útvarpi. Vinsældir þess ná langt út fyrir tímann sem skóp það. En það er kannski ekki síst menningarleg vigt lagsins sem gerir það eitt af þeim allra stærstu í sögu popptónlistar.

Veröldin öll er í húfi í laginu „Wind of Change“. Hálfrar aldar þjáning og óréttlæti er gert upp á fimm mínútum. Wind of Change fangaði vonina og afísunina við lok kalda stríðsins. Það fangaði samt líka næmnina og beyskjuna, það horfði ekki framhjá sárunum sem kannski munu aldrei gróa. Að sjálfsögðu getur eitt popplag ekki breytt heiminum til frambúðar, en það getur vissulega linað þjáninguna á meðan það stendur yfir.

Scorpions áttu þetta inni. Þegar Wind of Change kom út hafði hljómsveitin verið starfandi í 26 ár. Þetta eru skorpnaðir djöflar, rokk-skaddaðir spinal-tap hryggleysingjar sem hafa allir sem einn brunnið kerti sín í báða enda áratugum saman.

Hlustið á samanlagða rokksköddun, þjáningu og víbrandi kraftballöðunæmni í rödd Klaus Meine þegar hann syngur upphafslínuna: „I follow the Moskva, down to Gorky Park“. Svona flutningur verður ekki keyptur út í sjoppu. Það þarf feykilega innistæðu til að byrja lag svona. Innistæðu sem mjög fáir hafa. Ekki einu sinni Robert Plant má byrja lag svona.

Wind of Change snýst um tímasetningu, innistæðu og bestun á því sem er mögulegt með músík. Lagið er tekið upp á hápunkti „the Bush-era“, þegar tónlist var dýr og stór og hljómsveitir eins og Guns N Roses, Poison og fleiri lágu í stúdíóinu mánuðum saman og hömruðu póetískar kraftbölluður inn á stóra steinway flygla og mokuðu dufti upp í öll op líkama síns áður en þeir over-layjuðu með sprautun eftir sprautun af hljóðfræðilega útpældum vælandi Les Paul línum.

Þess má reyndar geta að „Wind of Change“ er tekið upp í sólinni í Los Angeles, þótt sögusviðið sé Moskvu-áin og framtíð barna Austur-Evrópu. Það er við hæfi að það spanni veröldina alla á þann hátt. Wind of Change er einfaldlega eitt stærsta lag tónlistarsögunnar. Það fær veröldina sjálfa til að verða smáa.

The world is closing in
And did you ever think
That we could be so close
Like brothers?

Wind Of Change – Líklega eitt það allra stærsta
Fílalag

 
 
00:00 / 01:19:27
 
1X
 

Lover, You Should’ve Come Over (Gestófíll: Valdimar Guðmundsson) – Djass og fokk

Sérstakur gestófíll: Valdimar Guðmundsson

Jeff Buckley var með allt. Lúkkið, lögin, sándið og líka stöðugan og vaxandi meðbyr innan bransans. Svo þurfti hann að hoppa út í Mississippi-fljótið og drukkna af slysförum. Það er einn einkennilegasti rokk-dauði tónlistarsögunnar, því sjálfsmorð var það ekki og hvorki Jack Daniels né pillur voru heldur sjáanlegar.

Hann skildi okkur eftir með músíkina sína. Að vísu er það ekki mikið af músík í magni talið. En þetta er samt hellings-pottréttur til að smjatta á. Músíkin hans er bræðingur, djassaðar sætadrengs ballöður sem renna ljúft niður, stundum hjúpaðar gítarkrönsi.

Lover, You Should’ve Come Over hefur allt. Þetta er gufumettaður kertastjaka vangari, 90s rúmfataveisla eins og hún gerist best. Manhattan loft, ilmkerti og Rachel just left you.

 

Fílalag tekur enga ábyrgð á hvað þið gerið við ykkur sjálf að fílun lokunni.

Lover, You Should’ve Come Over (Gestófíll: Valdimar Guðmundsson) – Djass og fokk
Fílalag

 
 
00:00 / 01:12:02
 
1X
 

Losing My Relegion – Remkex

Hvað getur maður sagt um R.E.M? Eitt mesta cross-over band allra tíma. Fór frá því að vera þunglyndismúsík fyrir holuhassreykjandi lopapeysulið frá Portland, Oregon yfir í fullt stím með Bylgjulestinni. Ekki einu sinni U2 hefur sent jafn langa stoðsendingu.

Galdur R.E.M. er að þetta er djúpfílanleg músík. Þetta eru nöllar með sterka listræna sýn, helling af intróvert persónuleikavandamálum og þrótt hins ameríska suðurríkjamanns. Þetta eru menn sem gefast aldrei upp. Fyrr en núna reyndar. R.E.M. hætti störfum árið 2011.

Hvað verður tekið fyrir í dag? Lagið sem hóf ferðalagið yfir í lendur bylgjunnar og hlö-maskínunnar. Losing My Religion, frá 1991. Lag sem hóf 10. áratuginn og alternative þunglyndismenningu hans. Djúpfílanlegt. Remkex með mjólk. Hlaðið þessu í ykkur.

Losing My Relegion – Remkex
Fílalag

 
 
00:00 / 01:01:51
 
1X
 

Í sól og sumaryl – Íslenskt sumar, í brúsa

Hér er það komið. Íslensk sumarstemning, soðin niður í tveggja mínútna popplag. Í sól og sumaryl er lag sem leynir á sér. Það er einfalt og grípandi, en einnig haze-að og einstaklega grúvandi útsett og flutt.

Það var neglumeistarinn Gylfi Ægisson sem samdi lagið, og var hann þá staddur á Akureyri. Þetta er norðlenskt og gott. Sjalla-konfekt. Birkilykt í Vaglaskógi. Norðlenska pulsur á grillinu. Allir þrælsáttir.

Í sól og sumaryl – Íslenskt sumar, í brúsa
Fílalag

 
 
00:00 / 00:45:47
 
1X
 

Holding Back The Years – Gamli góði Rauður

Hafið þið einhverntíman átt bíl og skírt hann nafni? Ef hann er rauður er mjög líklegt að hann hafi einfaldlega fengið það nafn: Rauður.

Það sama á við um Mick Hucknall, söngvara Simply Red. Hann er einfaldlega Rauður.

Hér er hann mættur til okkar. Rauður og einfaldur. Með norður-enskan sálarsöng eins og hann gerist bestur. Það má steikja beikon á slopp við þetta lag. Í raun breytist maður í saltað beikon við að hlusta á það.

Holding Back The Years – Gamli góði Rauður
Fílalag

 
 
00:00 / 00:40:53
 
1X
 

I Love Rock N Roll – Hurð sparkað upp (í tuttugasta skipti)

Farið frá. Hún er komin. Það eru læti. Það er stemning. Við erum að tala um Joan Jett og svörtu hjörtun hennar.

Af hverju er alltaf verið að opna veitingastaði með rokk-þema? Glymskratti í horni, gullplötur á veggjum, cadillac-sjeikar og curly fries? Vegna þess að það er stemning. Rokk er stemning. Rokk er besta stemningin.

Joan Jett mætir hérna, árið 1982, og segir hið augljósa. „Ég elska rokk“. Hún sparkar upp hurð að hlustum okkar. Halló. Vakna. Það er stemning.

I Love Rock N Roll – Hurð sparkað upp (í tuttugasta skipti)
Fílalag

 
 
00:00 / 00:53:30
 
1X