Wild Is The Wind – Tímalaus vindurinn

Fyrir aðeins nokkrum dögum síðan grunaði fáa að David Bowie væri feigur.

Hann var ekki eins og hinir poppararnir, byrjaður að glamra sig niður í fortíðarþrá með þrútin augu. Þvert á móti. Bowie var agaður og sperrtur allt fram á síðustu stund.

Í apríl árið 2014 var Bowie tekinn fyrir í Fílalag. Þá voru menn grunlausir um að hann ætti stutt eftir. Að vísu var ferill hans ekki krufinn til hlítar heldur var fókuserað á eitt af hans bestu lögum, Wild is the Wind, af plötunni Station to Station frá 1976.

Wild is the Wind er ekki dæmigert Bowie lag. Það er reyndar ekki til neitt sem heitir dæmigert Bowie-lag en Wild is the Wind er óvenjulegt að því leyti að Bowie samdi það ekki sjálfur. Lagið er amerískur djassari, þungt og tregafullt, líklega frægast í flutningi Ninu Simone.

Lagafílun snýst að sjálfsögðu um smekk og þannig verður það að vera. En það er fullyrt hér að Wild is the Wind er ákveðinn hápunktur í ferli Bowies. Annar eins flutningur þekkist varla í gervallri poppsögunni. Bowie hljómar eins og maður sem stendur allsber á köldum októberdegi og tekur sál sína út úr líkamanum og vindur úr henni síðustu dropana í miðjum æðisgengnum stormi. Þannig er það bara.

Fílalagsbræður setja þessa lagafílun nú á netið aftur til heiðurs minningu djáknans föla. Tilfinningin að hafa misst Bowie er samt ekki hefðbundinn söknuður. Fáir listamenn munu lifa jafn skýrt eftir dauðann og Bowie, list hans var skörp og skýr og að miklu leyti tímalaus. Það mun fólk skynja þegar það hlýðir á þetta meistarastykki sem rekur hníf í gegnum hjarta fólk á alveg jafn nístandi hátt og það gerði árið 1976.

Fílalag
Fílalag
Wild Is The Wind - Tímalaus vindurinn
/
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply