I Wanna Be Your Dog – Sturlaði táningurinn Detroit

Ef Bandaríkin væru fjölskylda og borgir landsins fjölskyldumeðlimir þá væri Detroit sturlaði táningurinn. Það sem meira er: Detroit er eilífðartáningur. Vandræðagemsinn sem mætir heim til aldraðra foreldra sinna í leðurjakka og drepur í sígarettu á Drottinn blessi heimilið skiltinu og skipar föður sínum að fara út og kaupa bland og mömmu sinni að búa til omilettu. Detroit er svalasti en jafnframt hættulegasti staður Bandaríkjanna; ameríska martröðin með öllu sínu kynþáttahatri, kólestóróli og Batman-skýjakljúfum og þriggja tonna bílum keyrandi um auð strætin.

Detroit er líka, eins og allir tónlistarunnendur vita, hlutfallslega frjóasta varpstöð bæði rokksins og poppsins, sannkölluð Keflavík á sterum. Sé mið tekið af höfðatölu þá hefur Detroit alið upp hlutfallslega svo marga fræga rokkara og poppara að það stappar nærri sturlun. Leyfum staðreyndunum að tala. Frá Detroit koma: Smokey Robinson og restin af Miracles, Diana Ross og restin af Supremes, The Four Tops og náttúrulega bara allt frá útgáfunni sem heitir eftir borginni Motown Records, þ.á.m. Stevie Wonder sem selfluttur var þangað ungur að árum og Mikki litli Jackson sem sleit barnsskónum í Studio A á Grand West Boulevard. Hvað meira? Jú jú. Madonna. Alice Cooper. Sufjan Stevens. White Stripes. Eminem og svo þessar dúllulegu rokksveitir sem fundu upp pönkið næstum áratug á undan Bretunum og heita MC5 og The Stooges með Iggy Pop fremstan í flokki.

Lagið sem fílað verður í dag er rokk-jarðýta af síkkópata skólanum. Ímyndið ykkur ef Baddi í Djöflaeyjunni hefði toppað aðeins seinna, nært sig með hippisma og jaðarstefnu, tekið LSD ofan í brennivínið, skráð sig í sértrúarsöfnuð og keyrt svo kagganum sínum inn í braggann og yfir alla ábúendur. Lagið sem spilað væri undir væri líklega þessi rokk-þruma með Iggy Pop og félögum í The Stooges.Fílalag. Michigan special.

Fílalag
Fílalag
I Wanna Be Your Dog - Sturlaði táningurinn Detroit
/
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply