Theme from New York, New York – Með 20. öldina út á kinn

Frank Sinatra – Theme from New York, New York

Bláskjár. Frank Sinatra. Níu hundruð þúsund sígarettur. Tvö hundruð og átta tíu þúsund martíní-glös. T-steikur, broads, kertaljós. Röddin í útvarpinu, axlirnar á sviðinu, augun á umslaginu.

Francis Albert. Jarðaður með foreldrum sínum. Kistan úttroðin af stemningsvarningi. Slökkt á Las Vegas. Empire State byggingin lýst bláu ljósi. Þar fór þrútnun aldarinnar ofan í box.

Hátindurinn? Böllin á Broadway (ekki í Ármúla), yfirlið unglingsstúlknanna sem höfðu beðið alla nóttina að komast inn. Óskarsverðlaunin fyrir bestan leik 1954. Forsetavígsluball Kennedy 1961. Sundlaugabakkasnilldin. Völdin, peningarnir, áhrifin, glamúrinn. Eða var hápunkturinn bara að drepast í stól með viskíglas á hverju kvöldi. Lognast útaf úr ofgnótt. Hverfa inn í augu engilsins.

Ronní, Bógí, Crosbý. Silki dregið eftir þófmjúku handarbaki. Mal kadilakks í þykkninu. Sálin tindrandi en holdið jafn dautt og kartöflusalat á afgangadiski á dæner um niðdimma nótt. Eða var það öfugt?

Gamli Bláskjár. Klikkaður maður með hatt í vitstola veröld, kamelsjúgandi, sálarkljúfandi manneskja í myrkrinu. Pírir augun og hverfur okkur sjónum, með 20. öldina löðrandi út á kinn.

Fílalag
Fílalag
Theme from New York, New York - Með 20. öldina út á kinn
/