November Rain – Hægur og fagur dauðakrampi

Fílalag hefur fjallað um allskonar öfga í gegnum tíðina. Í lýsingu á þættinum sem fjallaði um Elvis mátti til dæmis finna þessa setningu: „á matseðlinum er ameríski draumurinn þríréttaður borinn fram á húddinu á rjómahvítum Cadillac, Jobsbók klædd í hempu amerísks skemmtanaiðnaðar, þrælseigur toffímoli með beiskju, kergju en umfram allt þrá, lífsvilja og unaðslegu eftirbragði sigursælu“.

Og hér er staðið við hvert orð.

Elvis Presley á skilið ýktar lýsingar og yfirdrifin lýsingarorð því hann var kóngur amerísks skemmtanaiðnaðar og það er öfgafyllsti vettvangur menningar okkar.

En nú er svo komið að Fílalag þarf aftur að bregða á sig lýsingarorðasvuntuna því jafnoki Elvisar í öfgum er tekin fyrir í dag. Hér er að sjálfsögðu átt við viskísvolgrandi, kókaínþrútnu, pípuhatta, hlébarðaskinns epík-belgina í Guns N’ Roses. Og líklega reiddu þeir félagar sleggjuna aldrei jafn hátt til höggs og í November Rain af Use Your Illusion I.

Já. Það þýðir ekkert að snuðra í kringum þetta umfjöllunarefni. Það þarf að taka það föstum tökum. Guns N’ Roses árið 1992 er einfaldlega eitt mest dekadent fyrirbæri sem mannkynið hefur framreitt. Algjörlega over-the-top útsetningar, fimm hundruð hestafla kraftballöður og allt keyrt áfram á nítróglyserín eldfimum daddy-issue holum á sálinni.

Guns N’ Roses er flóttinn mikli, það sem Dylan kallar „No Direction Home“. Lífið er flótti og Ameríka er nógu stór til þess að maður getur eiginlega keyrt stáljálkinn endalaust með andardrátt sársaukans í hnakkanum án þess að þurfa að stoppa. Eða svona næstum því. Blúsinn náði í skottið á Gönsurunum skömmu eftir útgáfu November Rain og síðustu 24 ár má segja að nokkuð þungt hafi verið yfir lífi Axl og félaga.

Þess vegna er svo frábært að lag eins og November Rain skuli vera til, sem birtir okkur hinn fullkomna siðfalls-krampa, lestarslysið í slow-motion, hinn hæga og epíska dauða hugmyndarinnar um að hægt sé að lifa sem rokk guð meðal dauðlegra.

Fílalag
Fílalag
November Rain - Hægur og fagur dauðakrampi
/
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply