In The Court Of The Crimson King – Stærsta lag allra tíma

Fílalag dregur nú fram eina af sínum mikilvægustu fílunum. Í dag heyrum við fílun á lagi sem breytti sögunni. Ekki bara tónlistarsögunni heldur veraldarsögunni.

King Crimson var ein af fyrstu „prog“ hljómsveitunum. Þetta voru böndin sem vildu meina að rokktónlist væri miklu meira en „yeah yeah yeah baby let’s rock yeah baby“. Þessir gæjar tóku sig svo alvarlega að þeir vildu meina að rokktónlist væri í snertiflöturinn við Guð og söguna – áhrifameira en pólitík, stærra en nokkur önnur listgrein.

Og í skamma stund náðu þeir að blöffa bæði sjálfa sig og alla aðra. Það er þessi fyrsta alda af proggi sem er lang-sterkust. Þegar tónlistarmenn héldu í fúlustu alvöru að þeir væru að stíga yfir á ný tilverustig með músíkinni – að þeir væru að smjúga í gegnum víddir. Auðvitað var þetta allt keyrt áfram með mikilli fíkniefnaneyslu og stemningu. En svo má ekki heldur gleyma að sama ár og þetta lag kom út þá steig maður fæti á tunglið. Fólk hélt að allskonar hlutir væru mögulegir.

In the Court of the Crimson King er vitnisburður um þessa tíma – líklega besti vitnisburðurinn. Þetta er á alla lundu algjörlega epískt og stórkostlegt lag. Raunar er það miklu meira en lag – það er skápurinn í Narníu – skynbreytingarkassi inn í annan heim. Maður þarf ekki einu sinni að fíla músík til að fá svoleiðis tilfinningu við hlustunina.

Það er algjörlega ómögulegt að ofselja þetta lag. Það er stærra en allar yfirlýsingar sem maður gæti haft um það. Stærra en allt. Esjan, Mount Everest og Kyrrahafið. Allt pakkað saman í níu mínútna pakka sem þið getið plöggað inn í eyrun hvar og hvenær sem er. Athugið samt að King Crimson er ekki á Spotify – þessir gæjar eru ekki sökkerar.

Fáið ykkur sæti. Þið eruð stödd við hirðina. Konungurinn er væntanlegur. Úr hásæti hans drýpur dökkrautt blóð, gljáandi eins og olía.

Fílalag
Fílalag
In The Court Of The Crimson King - Stærsta lag allra tíma
/
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply