House of The Rising Sun – Húsið vinnur

The Animals – House of the Rising Sun

Eins og við vitum öll þá hófst Bítlaæðið í Bandaríkjunum þegar ungmennni þess lands fengu að líta óklippt goðin augum í beinni sjónvarpsútsendingu frá CBS myndveri Ed Sullivans. Það var 9. febrúar 1964 og veröldin varð ekki söm aftur. Bítlarnir komu vel fyrir, dilluðu sér upp og niður, hristu hárið og brostu framan í veröldina. Síðar þetta ár átti þó ekki síðri sprengja eftir að dynja á ungmennum Ameríku þegar önnur óklippt rokkhljómsveit mætti í þetta sama myndver í beina útsendingu. Það voru sjálfar Skepnurnar, the Animals frá Newcastle, og það má segja að frá og með þeim degi, sem var 18. október 1964, hafi veröldin misst ákveðið sakleysi. Skepnurnar fluttu smellinn sinn, House of the Rising Sun, og það sem einkennir flutninginn meira en nokkuð annað er að forsöngvarinn, sem leit út eins og fimmtán ára óknyttadrengur, braut allar reglur skemmtanabransans fram að þessu. Hann brosti ekki einu sinni! En túlkunin var svo djúp og áköf að loksins hafði stóra íshellan verið brotin: blúsinn, þessi tregafulla tilfinning iðnvæðingarinnar, var kominn í sjónvarpið, raf- og unglingavædd. Skyndilega hafði allt dýpkað.

Þessi saga er sú mikilvægasta sem hægt er að segja. Saga bresku innrásarinnar, saga gatnamótanna, rokkhlekkjanna, fýsnarinnar og skaðræðisins. Og þessi saga er öll í þessu lagi sem var tekið í einni töku á vordegi í London 1964. Það er margt óöruggt í veröldinni, lofthjúpur jarðar þykknar, sjórinn súrnar, fé og frændur deyja en á hverjum morgni myndast roði í austri og á hverjum degi fellur einhver í pytt freistinga, um það eru öll þjóðlög veraldar, allur blúsinn og allt heila klabbið. Það skiptir engu máli hversu frjáls við teljum okkur vera Að endingu þurfum við öll að snúa aftur í Húsið og greiða skuldir okkar.

Fílalag
Fílalag
House of The Rising Sun - Húsið vinnur
/