Can’t Get You Out Of My Head – Búmmerangið í sefinu

Kylie Minogue – Can’t Get You Out Of My Head

Orðið “popp” til að lýsa ákveðinni tegund tónlistar er einstaklega mikil svikamylla því það er viðeigandi fyrir það sem það lýsir á þrjá mismunandi vegu.

Í fyrsta lagi þá lýsir orðið ákveðnu hljóði sem einkennir einmitt góða popptónlist. Góð popptónlist smellur í hlustunum, hún lætur eitthvað poppa í heilanum og brýtur sér þannig leið inn að miðjum taugastöðvanna. Popp-hljóð er skilvirkt, það krefst ekki mikillar orku, en knýr samt fram viðbrögð. Vegna þess að það krefst ekki mikillar orku er hægt að endurtaka það, aftur og aftur, og bora sig þannig lengra og dýpra en hægt er með mörgum ákafari aðferðum.

Önnur merking orðsins popp vísar til lengri útgáfunnar: popular music. Poppmúsík er vinsæl músík. Hún höfðar ekki til þröngra hópa heldur til sjálfs massans. Popular vísar þarna til mannfjöldans og lýðhyllinnar. Á góðum degi er poppmúsík því lýðræðisleg enda er það falleg hugsjón að vilja ekki útiloka neinn, en á vondum degi er hún gerræðisleg því hún getur líka beygt fjöldann undir sama smekkinn. Já. Popptónlist er viðamikið umfjöllunarefni og það er vissulega hægt að fara á dýptina þegar um hana er rætt.

En svo er það þriðja merkingin, sem er kannski langsóttust þeirra, en samt svo augljós á sama tíma. Poppið vísar ekki bara til áheyrandans, að hún sé músík fyrir fjöldann, nei poppið getur alveg eins vísað til sjálfrar músíkurinnar eða til þeirra sem flytja hana. Poppið gengur nefnilega ekki síður út á að populísera eða fjölfalda. Að taka manneskju og poppa hana, láta hana vera alls staðar, setja hana á plaköt og plötuumslög og í sjónvarp og bíómyndir og í playlista og TikTok video, að spreyja manneskju út um allar trissur, að milljónfalda hana.

Og rétt eins og orðið popp er svo einstaklega lýsandi fyrir allt sem er hér er framangreint, þá er lagið sem fílað er í dag: Can’t Get You Out of My Head, svo einstaklega gott dæmi um popp. Það hefur allt. Það smellur í hlustunum, það er gert fyrir fjöldann og það er fjölfaldað í öllum skilningi þess orðs, sama lúppan aftur og aftur og aftur. Það fjallar um þráhyggjuna, sem er undirstaða poppsins, vald endurtekningarinnar og þess að ná fram viðbrögðum með minnstu mögulegu ákefð.

Nú heyrist “ding”. Rífið upp Redenbacherinn. Kylie bankar á hlustirnar. Fílið, sefjist.

Fílalag
Fílalag
Can't Get You Out Of My Head - Búmmerangið í sefinu
/