Da Da Da – Poppheimurinn sigraður

Í dag fara Fílalagsbræður í skemmtilegt ferðalag um heim popptónlistar þar sem við sögu koma Bítlarnir, Mannfred Mann og Michael Jackson. Staðnæmst er við árið 1982 þegar Jackson gaf út Thriller, sem er mest selda plata allra tíma, en það er ekki lag af þeirri plötu sem er til umfjöllunar í þættinum. Það merkilega við popptónlist er nefnilega að þrátt fyrir að Michael Jackson sé óumdeildur konungur poppsins og að árið 1982 hafi verið hans stóra platínu-ár þá átti hann alls ekki söluhæsta lag ársins. Langt í frá.

Árið 1982 gaf þýska nýbylgjusveitin Trio út lagið Da Da Da en það er lagið sem er maukfílað niður í heimspekilegar öreindir í Fílalagsþætti dagsins. Samanlögð sala þess lags er talin nema 13 milljónum eintaka sem gerir það að einu söluhæsta lagi allra tíma. Að viðbættum auglýsingatekjum og almennri viðveru lagsins í markaðshagkerfi nútímans má nokkuð óumdeilt tala um að Da Da Da sé eitt stærsta sköpunarverk tónlistarsögunnar sé mælikvarði poplúlismans hafður til hliðsjónar.

Ætlunarverk nýbylgjupönkarana í Trio var einmitt að skapa popp-skrímsli með eins litlum tilkostnaði og mögulegt væri. Lagið er fagurfræðileg stúdía í mínimalísma, framreitt með þróuðum þýskum lífsleiða og kapítalíserað alla leið í bankann. Samkvæmt lauslegri samantekt Fílalags væri hægt að byggja 24 þúsund sumarbústaði fyrir ágóðann sem Da Da Da hefur skapað fyrir aðstandendur sína.

Það sem er athyglisvert við þetta er hvernig sitthvorar öfgarnar í músík renna saman. Öfgakennt pönk sem gefur skít í alla hefðbundna fagurfræði hljómar eins og öfgakennt popp sem leggur allt í sölurnar til að hljóma vel. Niðurstaðan er sú sama: mínímalískt endurtekningarsamt stef með texta sem fjallar um ekki neitt. Í flestum tilfellum hljómar slík blanda illa en í tilfelli Trio varð til ómótstæðilegt popp-skrímsli.

Fílalag
Fílalag
Da Da Da - Poppheimurinn sigraður
/
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply