Jerusalema – Húlú og Zúlú


Master KG ásamt Nomcebo – Jerusalema

Vírusinn herjar. Ekki bara þessi kórónajakkafataklæddi heldur líka annar og skæðari. Dansfár sækir að heimsbyggðinni. Við erum ekki að tala um Macarena eða Gangnamanna-stílinn heldur dans og söng sem sóttur er dýpra, úr sjálfri frumorkunni, frá Afríku.

Það má segja margt leiðinlegt um covid og heimsfaraldur, zoom-fundi og fjarlægðartakmarkanir. En einhver menning spratt samt úr því. Frá þessum tíma eigum við lag, sem sameinaði heimsbyggðina, eins langt og það nær. Og sé rýnt í það þá inniheldur það sjálft frumöskrið, kröfuna um björgun, skilyrðislausa kröfu um að fá pláss í ríki hinna réttlátu, í musterinu.

Það getur enginn svarað hvað manninum var ætlað. Kannski áttum við að vera kyrr í aldingarðinum. Kannski áttu forfeður okkar ekki einu sinni að vafra upp á land. Kannski áttum við bara að vera skynlausar amöbur í hafinu. En við fórum í þessa ferð, örlög okkar er að vera ævinlega týnd, með frumöskrið í kviðnum, hrædd og einmana, en ávallt til í að dilla rassinum í átt að borginni helgu þegar heróp heyrist.

Fílalag
Fílalag
Jerusalema - Húlú og Zúlú
/