One Headlight – Glætan og myrkrið
The Wallflowers – One Headlight
Ég veit hvað þú gerðir síðasta sumar. Þú keyrðir yfir brúna hjá sýslumörkunum á einni lukt og bjúikkinn hvarf inn í myrkrið. Það komast ekki allir á Kirkjugarðsballið í haust sem ætluðu þangað í vor.
Maísakurinn. Bregðuruslið. Sætir unglingar leiknir af þrítugum alkóhólistum. Hörð ljós níunnar. Ein lukt. Beint í andlitið, beint í grímuna, beint í meitlað spjaldið. Múltí-platína. Gubbað í fötu. Kjálkar, haka, nef, augu.
Rokkið er í andaslitrunum. Það var í andaslitrunum 1957, 1967, 1977, 1987 og 1997. Og alltaf var því bjargað af dreamy drulluhala með telecaster.
Addams-fjölskyldan. Yfirgefnar timburhallir. Lakkaðar líkkistur. Djúplakkaðar, póleraðar, valhnotuhirslur.
Upplausn hugmynda. Endurfæðing. Bestun. Þorgeir Ástvaldsson með hvíta hanska. Heisið, meisið, þykknið, myrkrið. Skaðræði, ofbeldi. Ameríka.
Ein lukt er allt sem þarf.