Hausverkun – Drullumall sem varð að múr
Botnleðja – Hausverkun
Gestófíll: Ari Eldjárn
Það er komið að því. Hnausþykk fílun á bestu rokkhljómsveit síðari tíma á Íslandi. Ari Eldjárn var kallaður út því hér þurfti að draga búrhveli að landi. Botnleðja var rokktríó sem hafði allt. Ungæðiskraft, fyndna texta og svo voru þeir líka mjög kúl.
Heiðar, Raggi og Halli voru með þetta. Hafnarfjarðargæjar, fæddir í sjöunni sem drullumölluðu með skóflur í sandkassanum og fóru beint inn í æfingarhúsnæði og rokk-drullumölluðu. Hlóðu í raun upp heilan vegg að lokum – ósnertanlegan hljóðheim. Hér er um að ræða músíktilrauna jacksnúru systemið eins og það leggur sig. Hlustið og þið munuð fíla því hér er farið yfir þetta allt. Gítar-og bassasíddina, Keflavíkur-Hafnarfjarðar rokk-öxulinn, London-loftbrúna, píkutryllis-jazz-skeggið, Duracell áhrifin og að sjálfsögðu níu-kryppurnar.
Og að sjálfsögðu er lagið Hausverkun tekið fyrir. Þar eru Botnleðjuáhrifin öll til staðar. Ungæðislegur kraftur og texti sem búið er að vefja inn í útsetningarvöndul og lúðrablástur, þétt og vel sándandi múrverk, alveg jafn girnilegt til snæðings eins og þegar það kom úr ofninum haustið 1996. Takk fyrir allt Botnleðja.