Wind Of Change – Líklega eitt það allra stærsta

Hvað gerir tónlist stóra? Vinsældir? Já. Það er einn mælikvarði. Stórt sánd? Það skiptir líka máli. Stór umfjöllunarefni? Langlífi og vigt sem nær út fyrir poppkúltúr? Það er kannski allt heila málið. Lagið sem fílað er í dag er ein söluhæsta smáskífa allra tíma. Talið er að hún hafi selst í um fjórtán milljónum eintaka. Það var vinsælt í flestum löndum heims og það er enn reglulega spilað í útvarpi. Vinsældir þess ná langt út fyrir tímann sem skóp það. En það er kannski ekki síst menningarleg vigt lagsins sem gerir það eitt af þeim allra stærstu í sögu popptónlistar.

Veröldin öll er í húfi í laginu „Wind of Change“. Hálfrar aldar þjáning og óréttlæti er gert upp á fimm mínútum. Wind of Change fangaði vonina og afísunina við lok kalda stríðsins. Það fangaði samt líka næmnina og beyskjuna, það horfði ekki framhjá sárunum sem kannski munu aldrei gróa. Að sjálfsögðu getur eitt popplag ekki breytt heiminum til frambúðar, en það getur vissulega linað þjáninguna á meðan það stendur yfir.

Scorpions áttu þetta inni. Þegar Wind of Change kom út hafði hljómsveitin verið starfandi í 26 ár. Þetta eru skorpnaðir djöflar, rokk-skaddaðir spinal-tap hryggleysingjar sem hafa allir sem einn brunnið kerti sín í báða enda áratugum saman.

Hlustið á samanlagða rokksköddun, þjáningu og víbrandi kraftballöðunæmni í rödd Klaus Meine þegar hann syngur upphafslínuna: „I follow the Moskva, down to Gorky Park“. Svona flutningur verður ekki keyptur út í sjoppu. Það þarf feykilega innistæðu til að byrja lag svona. Innistæðu sem mjög fáir hafa. Ekki einu sinni Robert Plant má byrja lag svona.

Wind of Change snýst um tímasetningu, innistæðu og bestun á því sem er mögulegt með músík. Lagið er tekið upp á hápunkti „the Bush-era“, þegar tónlist var dýr og stór og hljómsveitir eins og Guns N Roses, Poison og fleiri lágu í stúdíóinu mánuðum saman og hömruðu póetískar kraftbölluður inn á stóra steinway flygla og mokuðu dufti upp í öll op líkama síns áður en þeir over-layjuðu með sprautun eftir sprautun af hljóðfræðilega útpældum vælandi Les Paul línum.

Þess má reyndar geta að „Wind of Change“ er tekið upp í sólinni í Los Angeles, þótt sögusviðið sé Moskvu-áin og framtíð barna Austur-Evrópu. Það er við hæfi að það spanni veröldina alla á þann hátt. Wind of Change er einfaldlega eitt stærsta lag tónlistarsögunnar. Það fær veröldina sjálfa til að verða smáa.

The world is closing in
And did you ever think
That we could be so close
Like brothers?

Fílalag
Fílalag
Wind Of Change - Líklega eitt það allra stærsta
/
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply