Skriðþunginn í skálinni – Bítlarnir – Dizzy Miss Lizzy, lifandi í Hollywood Bowl 1965

Bítlarnir eru að mörgu leyti þægilegt viðfangsefni. Þeir voru fjórir og þeir voru þvengmjóir. Þrátt fyrir alla sköpunargáfuna og dýptina þá eru Bítlarnir konsept sem er nokkuð þægilegt að setja í einn harðan pakka. Framkvæmdatímabil Bítlana afmarkast af sléttum tölum. Þeir störfuðu á árunum 1960-1970. Þetta var orkupakki sex, og hann situr naglfastur undir jólatré 20. aldarinnar sem ein fegursta gjöf sem mannkynið hefur fengið.

Ýmsir fræðingar hafa svo verið duglegir við að búta sögu Bítlana niður í ýmis tímabil. Það var leðurtímabilið. Það var LSD-tímabilið. Það var Indlands-tímabilið og svo má endalaust deila um hvenær einu tímabili lauk og annað tók við. En það sem er óþarfi að deila um er að þessi tíu ára pakki var hálfnaður árið 1965. Þá áttu þeir jafn mikið að baki eins og þeir áttu framundan. Og nú skulum við fara að tala hreina eðlisfræði:

Skriðþungi er mælikvarði á tregðu hlutar á hreyfingu við breytingar á hraða. Árið 1965 eru Bítlarnir á það mikilli hreyfingu sem afl í heiminum að þeirra innri skriðþungi ýtir frá hvers konar tregðu. Ef maður hugsar til þess þá er 65-70 tímabil Bítlanna í raun uppfullt af áföllum og tregðu: dauði Epsteins, Jésú-hneykslið, handtökur, rifrildi, eiturlyfjanotkun og að lokum málaferli og gríðarlegt mótlæti. En skriðþunginn er einfaldlega það mikill að áföllin breytast í epíska list. En við hvert áfall dregur samt örlítið úr skriðþunganum sbr. þá augljósu staðreynd að Bítla-sleðinn nam loks staðar árið 1970.

Af þessari eðlisfræði má draga þá ályktun að burtséð hvað fólki kann að þykja um gæði, þá er skriðþungi Bítlanna mestur um mitt ár 1965. Og það var einmitt í ágúst mánuði það ár sem skálaklipptu lifrarpylsurnar frá Mersey-ánni stigu á svið í sjálfri Skálinni, Hollywood-Bowl, og fluttu prógram sitt fyrir sautján þúsund skálaklippt amerísk ungmenni. Og þar gerðist það undir Hollywood-himninum, í miðjum flutningi á laginu Dizzy Miss Lizzy, sem var einhverstaðar í miðju prógraminu, að Bítlarnir öðluðust sinn peak-skriðþunga. Það gerðist nánar tiltekið í miðju laginu þegar John Lennon öskrar línuna: “Come on, give me fever!” Og peak-skriðþungi Bítlanna felur í sér margt og meira en það. Peak-skriðþungi Bítlanna er líka peak-skriðþungi rokks og róls, peak-skriðþungi bjartsýni, ungæðis, fryggðar og dyggðar.

Skriðþungi er einnig þekktur undir öðru nafni á íslensku og það er hreyfimagn og það er mjög viðeigandi hugtak þegar hlustað er á Bítlana í lifandi flutningi frá þessum tíma. Í Bítlunum er orka sem hefur bæði möguleikann á að hreyfa og möguleikann á að hreyfa miklu magni. Að fíla ekki Dizzy Miss Lizzy í flutningi Bítlana árið 1965 er því nánast eðlisfræðilega óhugsandi. Þessi fílun sem fram fer í dag er því ekki bara skyldufílun heldur eðlisfræðileg niðurstaða.

Fílalag
Fílalag
Skriðþunginn í skálinni - Bítlarnir - Dizzy Miss Lizzy, lifandi í Hollywood Bowl 1965
/