Music – Að leggjast á hraðbrautina

Madonna – Music

„Popp” er hart orð. Það eru þrjú pé í því og það brotnar á vörum manns. Popp er líka harður business. Líklega sá allra harðasti. Popp fær fólk til að lita á sér hárið, klæðast þröngum buxum, syngja í falsettum, dilla rassinum, öskra eins og apar, taka pillur, fara í málaferli við fjölskyldumeðlimi og bara almennt smána sig síendurtekið. Popp er svo harður húsbóndi að þegar þú ert búinn að poppast ertu sprungin blaðra, ömurlegt gúmmírusl útí horni eftir barnaafmæli.

Og enginn getur stjórnað poppi. Það er ómögulegt að vita hvað verður vinsælt. Það er ómögulegt að þóknast poppinu, fjöldanum, og miskunnarleysi hans. En það er hægt að eiga sín móment, og enginn í sögu poppsins, hefur átt jafn mörg slík móment og Meyjan.

Madonna var kölluð drottning poppsins. En í raun er hún meira en það. Því hún náði nokkrum sinnum að lyfta keyri sínu og svipuhöggva sjálft poppið til hlýðni. Og ekkert nær betur utan um þennan aga, þennan fókus, og þessa drottnun heldur en síðasta lag Madonnu sem náði toppi Billboard Hot 100 listans. En það er lagið Music. Þar fer Madonna alla leið og hreinlega leggst á sjálfa hraðbrautina og lætur tortímandi 18-hjóla trukkana, sem allir gætu hæglega grandað henni, keyra framhjá sér. Hún leggst á hraðbrautina og klárar dæmið.

Fílalag
Fílalag
Music - Að leggjast á hraðbrautina
/