Norwegian Wood & Fourth Time Around – Þegar Guð steig niður

Bítlarnir – Norwegian Wood (This Bird Has Flown)
Bob Dylan – Fourth Time Around

Turnarnir tveir í sexunni voru Bítlarnir og Bob Dylan. Og það er ekki lítið að hafa verið turn í sexunni því í sexunni þróaðist tónlist mikið. Hún dýpkaði og tók inn ýmsa eiginleika sem áður voru framandi í dægurtónlist. Hún hætti að vera aðeins samfelld frásögn og fór að taka inn áferðir bæði í hljóðum og texta. Tónlistarfólk nálgaðist listsköpun sína á nýjan hátt og valdeflingin var gríðarleg. Um miðja sexuna má segja að tónlistarfólk hafi verið orðið að andlegum leiðtogum ungs fólks um allan heim en þá var í gangi skemmtilegt endurvarp milli tveggja engilsaxneskra menningarheima: Bandaríkjanna og Bretlands.

Í stuttu máli má segja að Bretar hafi kennt Ameríkönum að skilja dýptina í sinni eigin tónlist. Breskar blúsrokksveitir eins og Rolling Stones dýrkuðu ameríska blús- og þjóðlagasöngvara og slógu í gegn með amerískri músík í Ameríku. Það þurfti mjóa Breta til að kenna Bandaríkjamönnum að fíla sitt eigið stöff. Það sama var uppi á teningnum með Bítlana. Þó að þeir hafi slegið í gegn í Bretlandi 1963, þá var það ekki fyrr en með för þeirra til Ameríku sem hið eiginlega alþjóðlega Bítllaæði hófst. Þetta er oft kallað “breska innrásin”, þegar bresk bönd kenndu amerískum ungmennum að fíla eigin tónlistararf. Þetta varð svo Bob Dylan innblástur til að semja plötuna “Bringing it All Back Home” sem markar upphaf rafmagnaða kaflans í ferli hans, en með titli plötunnar vísar Dylan til þess að nú sé hann að taka músíkina aftur heim, þaðan sem hún kom. Strax ári síðar gefa Bítlarnir svo út “Rubber Soul” sem er líka vísun í þetta amerísk-breska samband, því að titillinn vísar til þess að þeir séu “gúmmí-sálverjar”, þ.e. ekki ekta amerískir sálarsöngvarar af afrískum uppruna, heldur bláeyga breska gúmmí-útgáfan – sem verður að teljast smekkleg hógværð. En á Rubber Soul eru Bítlarnir ekki bara að spreyta sig á sálarmúsík, þeir eru líka að gera sínar fyrstu tilraunir með skrítin hljóðfæri og skrítna og síkadelíska texta en hið síðarnefnda var eitthvað sem Bob Dylan var kyndilberi í. Og auðvitað fór þetta fram í mesta vinskap, en þó er eins og eitt lag á Rubber Soul, hið brautryðjandi Bítlalag “Norwegian Wood”, hafi farið skringilega ofan í Dylan, því er hann lokaði þeysireiðar kaflanum í lífi sínu með plötunni Blonde on Blonde sumarið 1966 virðist hann ekki hafa staðist þá freistingu að senda smá sneið á Bítlana með laginu “Fourth Time Around” – sem í laglínu- og hljómauppbyggingu, textaþemu og áferð, kemur út eins og eklipsa utan um norska viðinn. Þessu er erfitt að lýsa með orðum – því Fourth Time Around er í raun ekki sama lag og Norwegian Wood, heldur er fremur eins og það umvefji síðarnefnda lagið og hálfpartinn sefi það með líkindum.

Þetta má vel ræða og fíla allan daginn – enda eru þetta afar sterk Bítla- og Dylan lög – frá hápunktum sköpunarkrafts beggja aðila – og bæði ákveðin púsl í þetta sérstaka Ameríku- og Bretlands endurvarp, sem og æðisleg dæmi um tímana þegar Guð hreinlega steig niður af himnum og leiddi tónlistarfólk inn í nýjar víddir í sköpun sinni. En umfram allt eru þessi lög fíluð því þau eru stórkostleg. Þau geyma allt: þau eru grípandi, dáleiðandi, áferðarfögur og hreinlega göldrótt. Og samspil þeirra tveggja er eitthvað sem er svo erfitt að henda reiður á – hvernig Dylan hylur norska viðinn eins og dalalæða þannig að enginn veit neitt nema að eitthvað mystískt og epískt er í gangi.

Tveir bestu listamennirnir fílaðir í dag, tvö bestu lögin, sem er í raun sama lagið. Hrollköld fílun, gæsahúð maximus, kalkúnaskinn í rassinn þinn.

Fílalag
Fílalag
Norwegian Wood & Fourth Time Around - Þegar Guð steig niður
/