Velkomin í veisluna

Kettir allra landsmanna sameinist, bröndóttir, gráir, möndlueygðir. Það er komið að Fílalag tveir komma núll. Endurræsing. Ný heimasíða, nýir styrktaraðilar á leiðinni, ný iTunes rás. Allt galleríið.

Hér má nostra sig í döðlur þar til kýrnar koma heim. Gamlir þættir, nýir þættir, fréttapunktar, myndir, stemning. Þess má geta að myndir af fílalagsbræðrum eru teknar af Baldri Kristjánssyni, og var hann svo stemmdur á meðan myndatökurnar fóru fram að hann þurfti að kæla sig niður með því að liggja í ísbaði í nokkrar mínútur.

Dömur mínar og herrar. Fílalag, og ekki síst þessi nýja heimasíða, er kjúklinga-bucket með hrásalati sem búið er að sturta Skittles yfir. Viðurkennum það bara. Þetta er djúpsteikt nammihlaðborð og öllum er boðið. Þetta er ókeypis. Hvers vegna er lífið orðið svona létt? Öll músík í heimi og fílanir henni tengdar nánast ókeypis. Endalaust framboð af Netflix gutli fyrir nánast engan pening. Einu sinni þurfti maður að norpa til að hafa gaman. Nú er alltaf gaman. Hver er hin hliðin á peningnum? Kvíði og vanlíðan? Ekki á okkar vakt.

Kettir, hvar sem þið liggið á dívönum þessa lands. Sleikið út um og nuddið loðnu baki ykkar upp við húsbúnað. Útsendingar eru hafnar, húsið er opið og kræsingarnar eru komnar á borð. Velkomin í veisluna.