Racing In The Streets

Nú eru mikil tímamót framundan hjá Fílalag því á föstudag, 25. nóvember, mun 100. þáttur þeirra Snorra Helgasonar og Bergs Ebba fara í loftið.

Eitt hundrað þættir er töluvert afrek í íslenskum hlaðvarpsfræðum og hafa fáir íslenskir podcast þættir lifað jafn lengi. „Við værum örugglega löngu hættir þessu ef það væri ekki bara svo mikið af fólki að hlusta,“ segir Bergur Ebbi aðspurður um langlífið. „Og þó. Kannski væri okkur alveg sama þó að enginn hlustaði því okkur finnst þetta alltaf jafn gaman sjálfum,“ bætir hann við.

„Á föstudaginn ætlum við að senda afmælisþátt í loftið. Þar munum við stikla á stóru um þau viðfangsefni sem tekin hafa verið fyrir á þessum tveimur og hálfu ári síðan þættirnir fóru fyrst í loftið,“ segir Snorri. „Við munum líklega raðfíla mikið af þessum lögum aftur og setja þetta allt í samhengi. Halldór Marteinsson, sem er dyggur hlustandi þáttarins, hefur tekið saman allskonar tölfræði sem við munum einnig ræða.“

„Við höfum dyggan hlustendahóp sem gefur allskonar feedback og tillögur um umfjöllunarefni. Það er ótrúlegt hversu margir hafa áhuga á einmitt svona umfjöllun um tónlist. Þetta er ekki beinlínis fræðileg umfjöllun heldur snýst þetta frekar um að setja tónlist í samhengi við tíðaranda og ýmsa persónulega reynslu. Fólk fær aldrei nóg af því. Dægurtónlist er skarpasti spegill sögu undanfarinna áratuga,“ segir Bergur Ebbi.

Í tilefni af því að þáttur númer 100 fer í loftið síðar í vikunni er nú grafið í gullkistu alvarpsins og fyrsti Fílalagsþátturinn rifjaður upp. Þátturinn, sem var fyrst sendur út 1. mars 2014, hljómar líklega töluvert öðruvísi en nýjustu þættir þessa langlífa hlaðvarps. „Við vorum eðlilega soldinn tíma að finna rétta tóninn og greiningartólinn. Þessi fyrsti þáttur hljómar kannski soldið stirður, en við skömmumst okkar ekkert fyrir hann því grunnurinn í þessu öllu er að fíla lagið sem við fjöllum um. Og við fílum þetta lag alveg jafn mikið í þessari upptöku frá 2014 eins og við myndum fíla það í dag,“ segir Bergur.

Þetta fyrsta lag, sem er einskonar grundvöllur allrar lagafílunar, er svartnættisballaðan „Racing in the Streets“ með Bruce Springsteen af plötunni Darkness on the Edge of Town. Þáttur númer eitt, gjöriði svo vel.

Fílalag
Fílalag
Racing In The Streets
/
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply