The Power of Love – Tyggjó, kærleikur, agi, höggmynd, skriðþungi, stjörnuþoka, tryggð

Jennifer Rush – The Power of Love

Það er þýsk-amerísk negla í dag. Hin Ameríska Jennifer Rush fór til Þýskalands til að taka upp sitt frægasta lag, The Power of Love, sem er eitt vinsælasta og útbreiddasta lag allra tíma. Sem hefur rokið á topplista með henni sjálfri, Celine Dion og hinum áströlsku Air Supply.

Rush er sjálf með ótrúlegan bakgrunn. Hét upprunalega Heidi Stern en breytti nafninu sínu í hið ofsafengna Rush til að vera heiðarlegri með þá staðreynd að hún er æðisgengið hæfileikabúnt sem lætur mestu söngdívur heimsins hljóma eins og fiskeldisseiði.

The Power of Love er grafalvarlegt lag. Þar er ekki að finna ögðu af húmor eða eftirgjöf. Til að útskýra Power of Love er best að ímynda sér lest, en í stað þess að þessi lest sé á teinum sem fer frá A-B á tvívíðum fleti, þá tekst lestin á loft eins og geimskutla og ryður sífellt frá sér meiri geimþoku þar sem hún fer inn í ókannaðar víddir himinskautana. Power of Love er höggmynd, þrívíður hlutur sem hægt er að príla í, fram og til baka, upp og niður, þar til taugareseptorarnir þrjóta.

Njótið, blótið og sótfílið þetta lag. Þetta er þýsk-amerískur skriðþungi sem ekkert getur stoppað. Ekkert getur stöðvað Jennifer Rush því rúss hennar er helíumsól sem hrað- og seigbrennur hvort tveggja í senn til dýrðar kærleika, tryggðar og hvers lags dyggðar.

Fílalag
Fílalag
The Power of Love - Tyggjó, kærleikur, agi, höggmynd, skriðþungi, stjörnuþoka, tryggð
/