Síðan hittumst við aftur – Helgi Björns og vatnstankurinn

Bergur Ebbi og Snorri Helgason taka fyrir lagið Síðan hittumst við aftur í nýjasta þætti Fílalags.

Sveitaballapopp var nafn á íslenskri tónlistarstefnu sem nú hefur að mestu liðið undir lok. Hún náði hámarki um síðustu aldamót þegar hljómsveitir eins og Á móti Sól, SSSól, Í svörtum fötum og Írafár sendu frá sér metnaðarfull lög og myndbönd.

Þessar sveitir þóttu aldrei kúl og voru skilmerkilega flokkaðar sem popp fyrir fólk með engan metnað eða áhuga á tónlist. Í hina röndina voru hljómsveitir eins og Botnleðja og Maus í alternative-flokknum og þótti tónlist þeirra innihaldsríkari.

„Þetta er byggt á svo mörgu öðru en músíkinni. Ef maður hlusta eingöngu á lögin þá hefðu Bandaríkjamenn örugglega skilgreint meirihluta sveitaballapoppsins sem alternative,“ segir Bergur Ebbi.

„Ef maður hlustar á dót eins og megnið af Green Day eða Semisonic þá er töluvert sveitaballasánd á þessu. Þessi lög fjalla basically öll um graða náunga sem vilja „„hitta þig í nótt“. Meira að segja dýpra alternative eins og Smashing Pumpkins með sínu strengjarunki og gothic yfirbragði er bara Todmobile með smá heróíndrifnu sjálfshatri. Í grunninn er þetta sama stöffið.“

„Og svo er það þessi negla frá SSSól. Þetta er ekki meira sveitó en svo að þetta lag myndi til dæmis sóma sér vel sem þemalagið í „Friday Night Lights“ eða sambærilegri unglingadramaseríu,“ segir Snorri Helgason.

„Þetta er mjög amerískt og töluvert alternative. Hérna erum við basically með Helga Björns standandi einn í rigningunni upp á hól í Texas, við vatnstankinn eins og í Dazed and Confused, með svartan SUV í hægagangi að bíða eftir píunni sinni. Þetta er dúndrandi amerískur og töff 90’s slagari með vælandi dómsdagsgítar og rándýrum ryþmaleik.“

Snorri segir að þetta sé „svona lag sem einhverjir A&R gaurar hjá Capitol Records myndu taka kókaín við og tala um sem nýjasta hittarann.“

„But it was not to be. Sólin var náttúrulega að spila þetta stöff á lokahátíð vinnuskólans í Kópavogi í staðinn,“ segir Bergur Ebbi.

Fílalag
Fílalag
Síðan hittumst við aftur - Helgi Björns og vatnstankurinn
/
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply