Common People – Nikkuspil neðan þilja (live á Kex Hostel)

Eftir næstum fimmtán ár af ströggli sló hljómsveitin Pulp í gegn. Þau komu frá Sheffield og höfðu norpað í artí nýbylgju rokk baslinu svo lengi að fitugir hártoppar þeirra voru komnir með sjálfstæðar kennitölur. En svo gerðist það. Pulp sló í gegn. Brit poppið kom til bjargar. Fyrst var það lagið Babies árið 1992. Enn fastar var bankað á dyrnar með laginu Do You Remember the First Time sem kom út 1994. En það var svo 22. maí árið 1995 – á hátindi brit-poppsins – sem Pulp kláraði dæmið og varð að tákni á himninum, en það var útgáfudagur lagsins Common People.

Common People er sexaður alþýðusöngur. Óður til plebbisma, smárrar hugsunar en umfram allt stemningar. Ekkert ærir fólk meira en lög sem fjalla um það sem ærir fólk, sem er nákvæmlega það sem Common People gerir. Venjulegt fólk dansar, drekkur, ríður, reykir, spilar púl, syngur, trallar. Og þetta öskrar Jarvis Cocker með sinn litla munn, fyrir hönd alls fólksins í Sheffield og alla sem vilja hlusta. Loksins. Eftir hálfan annan áratug af norpi fékk venjulega fólkið loksins rödd.

Fílunin á Common People var tekin upp „live” að viðstöddu margmenni á Nýló sal Kex-hostel við Skúlagötu. Miklar þakkir til allra sem mættu, í nikkuspilið neðan þilja, þar sem venjulega fólkið skemmtir sér.

Fílalag
Fílalag
Common People - Nikkuspil neðan þilja (live á Kex Hostel)
/
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply