Álfareiðin – Hátindurinn
Álfareiðin – Björgvin Halldórsson, Gunni Þórðar, Sjonne og Hænir
Sveif snúið. Stimplar hamrast niður í þéttum takti. Allir mælar rjúka upp, vísar þeirra titra við mörk hins hvíta og rauða. Þessi vél keyrir á fullri ákefð og hana fær ekkert stöðvað. Það er tjú-tjú-trylla að sporleggjast yfir holt og hæðir, gegnum skóga og dimma dali, hún fnæsir eins og hvalur út um loftop sitt. Þú horfir á. Taugakerfið lifnar við, það tindrar. Allar tilfinningar í einu. Allar tilfinningar skalans skella á þér í einu.
Þeir eru spenntir fyrir vagninum með bjarmalogandi hreindýrahorn, Björgvin Halldórsson, Gunni Þórðar, Tommi Tomm og aftast ríða þeir saman lungnabólgu-Jónas og blýeitrunar-Hænir. Fremst ríður drottningin. Die Kön’gin! Ekki er gott að verða á hennar leið kvað Thomsen. Mikið gúmmelaði er að sjá hana kveður Sjonne og brosir mildu brosi, leiðtoginn ljúfi.
Vertu unglingur, vertu eilífur unglingur og trúðu á álfa, ekki bara á áramótum og þrettánda, heldur alla daga. Við erum öll einmana, við erum meira einmana en á 19. öld, oft var þörf en nú er nauðsyn, að leiftra upp einmanaleikann. Kveiktu í dimma skóginum, með tungsljósi, með söng, með lúðrum, með bjöllum, með töfrum! Með töfrum mannsbarn!