No Woman, No Cry – Skráargat gullna hliðsins
Bob Marley – No Woman, No Cry
Samruni tónlistar og trúar, akursins og borgarinnar, gamla tímans og nýja. Skurðpunkturinn, meitluð sneiðmyndin, hin ljóslifandi rispa á landslagi hugans, auga ljónsins grafið djúpt í gamla Adidas merkið. Í mesta myrkinu, moðreyknum er að finna göngin að ljósinu. Þangað verður gullvagninn sendur og upp í hann stígur riddari í buxum útvíðum, sverði slíðraður og fíraður. Í gegnum hvítan reykinn og móðuna sem stígur upp af ylvolgum maís-soðning greinir hjartað muninn á röngu og réttu og hugurinn fylgir í humátt á eftir, með lokuð augu rennir þú á lyktina og svífur á mottunni inn í hægt sökkvandi tónfall hins stirnandi, klökka djúps og fílar upp í bambussófa í panelklæddum stéttarfélagsbústað eða í sjálfspyntandi hönnunarstól úr áli í hjartalausu glerhýsi. Þú fílar því þú treystir ljóninu sem öskrar og veitir þér líkn aftur og aftur og aftur. Gráttu ekki, man, því stakur drumbur mun seigbrenna í gegnum nóttina löngu og lýsa upp dimman dalinn þar til þú færð leiðingu að vötnum þar sem næðis mátt njóta.