Hotel California – Ernir. Síðari hluti. Vængir bráðna.

Eagles – Hotel California

Lagið sem er fílað í dag ætti með réttu að vera síðasta lag sem Fílalag tekur fyrir (engar áhyggjur, það er það ekki, við erum rétt að byrja nýja seríu). Ástæða þess að það ætti að vera síðasta lagið sem við fílum er vegna þess að það er ósköp erfitt að koma á eftir því.

Hotel California er þéttofnasta motta sögunnar. Engin menningarafurð sléttir út jafn miklar misfellur og þetta lag. Ekki bara misfellur höfunda og flytjenda lagsins, en þeir voru meira og minna kynóðir kókaínneytendur með vonda samvisku og að auki aðeins úr þröngum þjóðfélagshóp amerískra karlmanna með bringuhár og kjálkalínur. Nei. Hótelið sléttir ekki bara út þær misfellur heldur syndir okkar allra. Það er lag sem svo þétt ofið, svo drappmikil og þung motta, að jafnvel hörðustu herstöðvarandstæðingar tappa fingrum sínum á stýrið þegar þeir heyra það. All is forgiven. Það er ekki ein snuðra í laginu. Það er hin fullkomna motta til að breiða yfir flekamót kynslóðanna og gnístandi kaflaskil tilverunnar.

Hótelið breiðir yfir syndirnar. Það er hulan mikla. Og það breiddi yfir ákveðna glufu, stærstu flekaskil mannkynsins, þegar skipt var um ökumann í miðjum kappakstri og djöfullinn tók við.

Eagles opnuðu hlið vítis. Þeir vissu það strax árið 1975. Þeir hefðu samt getað gengið burt. En þeir gerðu það ekki. Þeir döðruðu við dyraopið þar til þeim var kippt inn, ásamt öllum sínum hlustendum, í dysina þar sem báðum er haldið. Að eilífu.

Fílalag
Fílalag
Hotel California - Ernir. Síðari hluti. Vængir bráðna.
Loading
/