Superman – Kaðlastigi úr kúlheimum
Trabant – Superman
Tuttugu hestar hníga niður í miðri Ártúnsbrekku og leysast upp í grárri malbiks-súldinni í krampakenndum íslenska-dansflokks-hnykkjum. Gallajakka er rennt gegnum pre-reykingabanns íslenskt djamm-sumar og grafinn undir krossi að hausti. Neó-rómantísk tár falla og springa á köldum marmara eins og kristalskúlur í sjónvarpsmynd eftir Egil Eðvarðsson. Gult suð í höfði, veggur sem krefst þess að láta kasta sér á. Klossar myndlistarkennarans. Losti lífsins. “Það er rapp og það er reif” og það er rosalega stór heimur þarna úti. Sápukúlur stíga til himna úr barnaafmæli í bakgarði í Þingholtunum og augun þín elta þá síðustu þar til hún endar sem fósturvísir í huga þínum og ef þú ættir bara í þér eitt öskur til að vekja allan heiminn myndirðu samt frekar vilja hafa kodda á milli því það er fallegra.
